Það er í senn fagnaðarefni og dapurlegt að lesa erindi Gísla Sveinssonar yfirdómslögmanns, sem hann flutti fyrir Stúdentafélagið í mars 1914. Fögnuður fylgir því að sjá að barátta okkar Vantrúarfólks er ekkert ný af nálinni, þessar hugsanir hafa allar verið viðraðar í nær hundrað ár.
Þetta tvennt er það sem helst grípur augað:
Á meðan einni ákveðinni kirkju (Ͻ: trúarfélagi) er haldið uppi af þjóðfélaginu, er ekki trúfrelsi í fullum mæli í landinu, og getur ekki verið.
Og:
Guðfræðisdeildin við háskóla vorn er ekkert annað en þjóðkirkju-prestaskóli.
Dapurlegt er þó að vita að lítt ef nokkuð hefur þokast í rétta átt frá því þetta erindi var ritað. En forvitnin hefur verið vakin. Hvernig var þessum málflutningi svarað árið 1914? Risu áhrifamenn innan kirkjunnar upp á afturlappirnar og úthrópuðu yfirdómslögmanninn ofstækis- og öfgamann? Var hann sakaður um ofbeldi? Ríkti þá, líkt og nú, þöggun um efnisatriði málflutnings hans, í stað heiðvirðrar rökræðu?
Þessi grein ætti að vera skyldulesning þeirra sem í framtíðinni munu semja nýja stjórnarskrá. Það gengur ekki lengur að ríkið haldi uppi einum hindurvitnaklúbbi og að sami klúbbur hafi guðfræði- og trúarbragðakennslu alla í hendi sér, jafnt í grunnskólum sem háskóla.
Trúfrelsi og kenningarfrelsi.
Erindi flutt í Stúdentafélaginu í Rvík 14. marz 1914.
Eftir GÍSLA SVEINSSON, yfirdómslögmann.Þetta tvent,- trúfrelsi og kenningarfrelsi, virðist mörgum vera eitt og hið sama. Þar sem trúfrelsi sé, þar sem menn megi, óáreittir, trúa því, er þá lystir, þar sé öllum einnig heimilt að kenna það, er þeir vilji (hér auðvitað átt eingöngu við átrúnað og kenning trúarbragða). Þessu er líka að nokkru leyti þannig farið, en þó ekki allskostar. Trúfrelsi er sama sem frelsi í trúmálefnum, og kenningarfrelsi er að miklu leyti að eins afleiðing af því. Þótt trúfrelsi væri fult í landi, eru þó hugsanleg höft á kenningarfrelsi einstakra manna, af sérstökum ástæðum.
Um þetta tvent, kenningarfrelsi og trúfrelsi, verður ekki talað í sömu andrá; mun ég því fyrst fara nokkrum orðum um hið fyrra, og því næst víkja að hinu síðarnefnda. —
»Hér á landi er trúfrelsi«, segja menn. Það hlotnaðist oss með stjórnarskránni, 5. jan. 1874.
Ákvæði stjskr., sem hér eiga við, eru 46. og 47. gr. — eða rökréttara væri að nefna 47. gr. á undan.
47. gr. hljóðar svo:
»Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri félagsskyldu.«
Þessi grein er í rauninni neikvæð, og fyrirgirðandi. Samkvæmt henni viðhefir ríkið (þjóðfélagið, þjóðfélagsstjórnin) ekki lengur neina trúarbragðaþvingun. Trúarnauðungin gamla er á brottu; allir eiga að hafa hin almennu þjóðfélagsréttindi óskert, hvort sem þeir játa nokkur ákveðin trúarbrögð eða ekki.
46. gr. hljóðar:
»Landsmenn eiga rétt á að stofna félög til að þjóna guði með þeim hœtti, sem bezt á við sannfæringu hvers eins; þó má ekki kenna eða fremja neitt, sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu.«
Þessi grein er jákvæð, ákveðin réttarveiting. Borgurunum veitist heimild til að hafa þau trúarbrögð, er þeir kjósa — þó með ákveðnu skilyrði, að því er framkomu þeirra snertir.
Ekki verður annað sagt, en að þessar tvær greinar sé mjög glæsilegar. Samkvæmt þeim virðist alt vera veitt, er æskja mátti í þessum efnum: fult frelsi, full trygging.
En hér fylgir nú heldur en ekki óþægilegur böggull skammrifi, svo mjög, að í raun réttri er tekið með annarri hendinni, það sem gefið var með hinni! Frá því segir 45. gr. stjskr. (sem eiginlega hefði átt að koma á eftir hinum tveimur, er taldar voru, 47. og 46. gr., því að hún takmarkar þær svo stórum, að nærri stappar, að þær skýri rangt frá, hvað veitt sé og heimilað). Hún er þannig:
»Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal hið opinbera að pví leyti styðja hana og vernda.«
Það er að segja: Þjóðfélagið er trúbundið (confessionelt), því ber sem slíku skylda til að játa ein ákveðin trúarbrögð, ala önn fyrir þeim og halda kirkju þeirra uppi. —
Eigi skal nú hér farið út í nákvæmar lögskýringar á greinum þessum, né heldur, hvernig svið það, er þær ná yfir, afmarkist í einstökum tilfellum; gerist þessa eigi þörf í því sambandi, sem hér um ræðir.
Það, sem er eftirtektarverðast og mest kemur máli við, er þetta:
Hinar umræddu greinar eru (eins og gefur að skilja, mætti segja) teknar svo sem orðréttar úr Grundvallarlögunum dönsku, frá 5. júní 1849 (28. júlí 1866), §§ 3, 76 og 79. Annað hefir ekki þótt hlýða, og stjórnarskrárgjafinn hefir og ekki vitað neina fyrirmynd betri. Þessi ákvæði, um frelsið, voru að vísu í fullu samræmi við það, sem stjórnlög og stjórnfræði annarsstaðar var farin að innihalda (réttarsetningar, til tryggingar, svo sem í afleiðing af almennum mannréttindum). En í Danmörku varð einmitt mikið þref um, hvað ætti að verða um kirkjuna, er »frelsið« væri innleitt — lútersku kirkjuna, er flestir játuðu þar, eins og hér. Ýmsir gengu þess ekki duldir, að hér hlaut að verða mótsögn í; aðrir hugðu frelsið vera samt og jafnt, þótt »aðaltrúarbrögð þjóðarinnar«, sem kalla mætti, yrði lögskipuð þjóðfélagstrúarbrögð. Og það varð ofan á. Evangelsk-lúterska kirkjan var gerð þar að ríkiskirkju, þjóðkirkju. Var því ekki við öðru að búast, er oss var stjórnarskráin gefin, en að ákvæðið yrði hið sama hér um þetta. Allur þorri þjóðarinnar hélt sig líka, opinberlega, til þessa átrúnaðar.
Annnars mun óhætt að ganga frá því sem vísu, að hér heima hafi það þótt sjálfsagt, að þessi atriði væri með sama umbúnaði í stjórnarskránni og Grundvallarlögin höfðu komið þeim í (í Danmörku).
Við frumsmíð þessara ákvæða vakti það óefað fyrir mönnum, að sem mest yrði réttlætið gagnvart þjóðinni í heild, í þessu skipulagi. Það þótti víst skylt, að vernda sérstaklega og hlynna að þeim trúarbrögðum, er menn vissu, að meiri hluti þjóðarinnar aðhyltist, — jafnframt því, óefað, að í huga ýmsra hefir enn þá sú hugmynd verið rík, er þeir hofðu sogið inn með móðurmjólkinni, að ev. lút. trúin væri hin eina rétta og sáluhjálplega trú, og væri »æðri skylda* að halda henni að fólkinu, þó ekki væri nema óbeinlínis. Því að beinlínis þótti það ekki kleift, enda ekki vilji manna, þar eð »trúarþvingunin« var einmitt, og átti að vera, afnumin með trúfrelsisákvæðum stjórnlaganna.
En — það er óhætt að segja það þegar, að þessum mönnum skjátlaðist, að þetta væri »réttlæti« í fylsta skilningi, á þessu sviði. Það er hér eins og í öllu öðru: Ef einum eru gefin forréttindi, er gengið á rétt allra hinna!
Með ákvæði 45. gr. stjskr. er það lögskipað og lögskylt, að þjóðfélagið (ríkið) haldi við þessari einu kirkju, hinni ev. lút. Það er því skyldugt að veita henni fé, til viðurhalds, og láta henni í té alt, er óhjákvæmilegt er til þess, að hún sé við lýði, svo sem kennimenn, er það launar o. s. frv. o. s. frv. Eins og allir vita, er hér ekki um neitt smáræði að tefla, er hver og einn geti látið sér á sama standa um, ef á kostnaðinn einn er litið. Þetta alt er sem sé of fjár. Og hvaðan er það tekið? Það hefir verið, og er að mestu, tekið af almannafé, þótt svo sé, að prestum eigi nú að launa úr sérstökum sjóði (að nafni til), prestlaunasjóði, er mestmegnis þjóðkirkjugjaldendur fylli. En þetta almannafé — landssjóðurinn — er eign allra landsmanna, hvort sem þeir hafa nokkur trúarbrögð eða engin, hvort sem þeir eru í þjóðkirkjunni eða utan hennar.
Hér er því gengið óhæfilega á beinan rétt einstakra þjóðfélagsborgara: alla þeirra, er ekki eru, eða hirða ekki um að vera, meðlimir hinnar ev. lút. þjóðkirkju. Þeir verða, nauðugir viljugir, að gjalda til þessarar kirkju, sem þeir ef til vill vilja ekkert hafa saman við að sælda; það er tekið af þeirra fé til þarfa hennar. Þetta er hinn svæsnasti ójöfnuður er ekki verður varinn með neinu — ekki heldur með þýðingu lút. kirkjunnar fyrir mennina, sem annars skal ekkert farið út í hér, né neinn samanburð við annan átrúnað. — Aðalreglan hlýtur í siðuðu þjóðfélagi að vera sú, að að enginn þurfi að gjalda til þess, sem hann að lögum má vera laus við. Það er ein af meginstoðum alls þjóðfrelsis inn á við. Og þar sem 46. og 47. gr. stjskr. gera ráð fyrir, að allir skuli hafa fult frelsi í trúarefnum, innan takmarka réttrar þjóðfélagsskipunar, þá er það ljóst, að haft það og allsherjarkvöð, sem leiðir af ákvæðum 45. gr., kemur beint í bága við tilgang nefndra greina og gerir það að verkum, að þær verða að mjög miklu leyti meira í orði en á borði.
Auk þessa, sem vitaniega er höfuðsökin, að allir landsmenn þurfa, nauðugir viljugir, að annast uppheldi þjóðkirkjunnar, — er margt annað, ýms tillit, beinlínis og óbeinlínis, er borgararnir verða að hafa, til þessara lögskipuðu þjóðfélagstrúarbragða, þótt þeir heyri alls ekki til þeirri kirkju, tillit, sem há þeim í fullri notkun þeirra réttinda, er þeim ber. Öll helgi er t. d. miðuð við þjóðkirkjuna, og lögskipað tillit verða borgararnir að taka til þess, þótt þeir ræki alt aðra trú. Öll frœðsla barna, um þessi efni, er og í sjálfu sér miðuð við þjóðkirkjuna, þótt undantekningar megi finna. Ýmsar stöður í þjóðfélaginu eru enn þannig vaxnar (þótt hlutaðeigandi geti ekki talist í þjónustu þjóðkirkjunnar), að líklega mundi krafist þjóðkirkjutrúar (Ͻ: ev. lút.), til þess að geta öðlast þær o. s. frv.
Og loks ber að geta þess, að gjaldskyldu er krafist enn framar en talið var, af borgurunum beinlínis, ekki að eins þeim, sem eru í þjóðkirkjunni, heldur og nærri öllum, körlum og konum, þótt alls ekki sé í þjóðkirkjunni eða játi trú hennar. Þetta er gert með hinum alkunnu sóknargjaldalögum (30. júlí 1909), þar sem nefskattur er lagður á svo sem hvert mannsbarn (eldra en 15 ára), til prests og kirkju, nema sé í einhverju viðurkendu trúarfélagi utan þjóðkirkjunnar og gjaldi þar svo og svo mikið; þá sleppur hann, annars ekki. Gjald þetta rennur í prestlaunasjóð, svo að menn sjá, að ekki eru það að eins þjóðkirkjugjaldendur, er í þann sjóð blæða. — —
Þannig er þá á ýmsa lund traðkað því frelsi í trúmálefnum, sem 46. og 47. gr. stjskr. virðast hafa ætlað að innleiða, og alt er þetta gert með 45. gr. stjskr. að undirstöðu: Hin ev. lút. kirkja er þjóðkirkja, trúarbrögð þjóðfélagsins, er það á að halda uppi! Af þessu helgast öll réttarskerðingin, allur ójöfnuðurinn. Má segja, að þar sé ranglætið drýgt »undir yfirskyni guðhræðslunnar«. Og ranglætið er opinbert, það verður ekki í vafa dregið, því að sérhver á að hafa heimild og fullan rétt til þess, að vera með eða ekki með í slíku trúfélagi, og á ekki að sæta neinum afarkostum eða »sektum« fyrir það, þótt hann kjósi að vera fyrir utan slíkan félagsskap. Til guðstrúarþarfa annarra manna á borgarinn ekki að vera gjaldskyldur. Á meðan þessu er ekki þann veg skipað, hefir einstaklingurinn, þrátt fyrir allar stjórnarskrártryggingar, ekki frelsi í þessum efnum. Með öðrum orðum: Á meðan einni ákveðinni kirkju (Ͻ: trúarfélagi) er haldið uppi af þjóðfélaginu, er ekki trúfrelsi í fullum mœli í landinu, og getur ekki verið. »Þjóðkirkja« útilykur trúfrelsi — og því verður ekki náð, fyr en ríki og kirkja eru aðskilin. Þá fyrst getur verið um þetta frelsi að ræða, á hinum sjálfsagða grundvelli, að trúarbrögð eiga og hljóta að verða einkamál manna, og snerta ekki heildina (hið opinbera), nema að því leyti sem 46. gr. stjskr. getur, að ekki komi þar neitt í bága við »gott siðferði og allsherjarreglu.« —
Hér skal ég nú geta þess, að stjórnarskrárbreyting sú, sem nú er á ferðinni, hefir inni að halda ákvæði, er hlýtur að gefa vind í seglin, til alvöru í því, að fá bót þessara mála. Ákvæðið er sem sé þannig, að aftan við 45. gr. stjskr. bætist: Breyta má þessu með lögum, þ. e. með einföldu lagaboði má afnema stjskr. ákvæðið, að hin ev. lút. kirkja skuli vera þjóðkirkja hér á landi. Það má afnema þjóðkirkjuna sem slíka, skilja ríki og kirkju (að lögum) með einfaldri lagasetning. Enda þótt að sjálfsögðu megi gera ráð fyrir, að aðdragandi og undirbúningur að þessu, yrði talsvert langur, er þó með þessu ákvæði hægra um vik. Gefur það mönnum meiri hvöt til að hefjast handa, en ella mundi, og sýnir, að fulltrúum þjóðarinnar er þetta hugleikið.
En breytingamenn stjskr. létu ekki við þetta skynsamlega ákvæði lenda; þeir smeltu öðru inn líka, sem er nærri hjákátlegt til frásagnar, og samþyktu, að aftan við 47. gr. stjskr. skuli koma þessi klausa:
»Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarrar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist.
Nú er maður utan þjóðkirkjunnar og geldur hann þá til Háskóla Íslands, eða einkvers styrktarsjððs við þann skóla, eftir því sem á verður kveðið, gjöld þau, er honum ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar, enda heyri hann ekki til öðrum trúarflokki, er viðurkendur sé í landinu. Breyta má þessu með lögum.«
Það má, satt að segja, furðu gegna, að þessu ákvæði skyldi á framfæri komið, því það er hvorttveggja: óþarft og óviðeigandi.
Það var óþarft að lögákveða það með þessum hætti, enda ekkert við það unnið; bætir satt að segja ekki allmikið úr sóknargjaldalögunum (er líka verða ósamrýmanleg þessu, er það er orðið stjskr.ákvæði).
Og óviðeigandi er að setja þetta inn í stj.skr., ekki sízt nú, þegar alþingi lætur það í ljósi, hvert stefnt sé, með viðbætinum við 45. gr. Á milli þessara tveggja ákvæða þingsins er því ekkert samrœmi. Og ekki þarf að taka það fram, að jafn-óverjandi er, að gera menn útlaga um fé til einhverrar annarrar, þeim óviðkomandi stofnunar, fyrir það, að þeir játa ekki ein ákveðin trúarbrögð, eins og hitt, að skylda þá til gjalds til þess trúarfélags.
Hví taka þá mennirnir upp á þessu, mætti spyrja. Ekki er þar um að villast: þeir þurftu að líkja eftir Dönum.
Rétt samhljóða ákvæði þessu er í Grvl. dönsku, § 77 (skólar í staðinn fyrir háskóla); en fyrir hafði farist að taka það áður fyr inn í stjskr. (þess líklega ekki álitist þörf). Því hefir landinn ekki getað unað til lengdar — og það var sannarlega ekki seinna vænna að keyra það inn í stjskr., því tillaga er nú komin fram með Dönum sjálfum, í Grvl. breytingum þeim, er þeir hafa með höndum þetta ár, um að fella þetta burtu úr Grundv.lögunum!!
Þetta dæmi hjá oss er alveg fágætt, til útlistunar á andlegu víðsýni og frumlegum hugsunarhætti! — —
— — Er nú skilnaður ríkis og kirkju í náinni framtíð kemur á dagskrá hér á landi, býst ég við, að menn muni ekki telja það ófyrirsynju, með þessi rök að baki, er ég hefi talið. Um þá aðra þýðingu, sem aðskilnaðurinn gæti haft, á trúarlífið í landinu (því til eflingar, að ætlan margra), skal ég ekki ræða hér; það liggur fyrir utan það sjónarmið, er ég lít frá. En við þetta, sem fram er tekið og út af fyrir sig er ærið nóg, bætist svo ástandið innan þjóðkirkjunnar að ýmsu leyti, sem gerir það enn meir óhjákvæmilegt og bráðnauðsynlegt, að þessi bönd losni. Kem ég þá að hinu meginatriði máls míns: Kenningarfrelsinu.
Ég gat þess í upphafi, að þótt svo væri, að fult trúfrelsi væri í landinu (sem ekki er), gætu þó hugsast höft á kenningarfrelsi — fyrir menn, er hefðu bundist til kenninga á vissan veg. 46. gr. stjskr. gengur reyndar áreiðanlega út frá því, að hvorttveggja sé jafnleyfilegt: að fremja og kenna þau trúarbrögð, er menn kjósa, og svo er það einnig áreiðanlega yfirleitt; hér má boða alla trú, og er engum það meinað, svo ég viti (haldi hann sig innan þeirra takmarka, er nefnd stjskr.grein setur). En — eins og 45. gr. stjskr. takmarkar trúfrelsið svo stórvægilega sem sýnt hefir verið, eins, og ekki síður, takmarkar hún kenningarfrelsið; það er ekki nema sjálfsögð afleiðing, og meira að segja: annað er blátt áfram óhugsandi, meðan skipulag það helzt, er 45. gr. hefir sett. Hvaða kirkja, hvaða trúfélag, sem væri þjóðkirkja hér, mundi verða að hafa þá kennendur, er kendi lærdóma hennar; og hvert trúfélag hefir sína lærdóma, sína trúarjátning. Jafnvel þótt ekki sé um þjóðkirkju að ræða, gefur að skilja, að þeir, sem ráðast kennimenn þess eða hins trúarfélag(þó með frjálsum samningi sé) verða að flytja kenningar þess. Þeir eru skuldbundnir til þess, takast það á hendur eo ipso með því að ganga í stöðuna. Þetta finst víst engum undarlegt; er ekki annað en það, sem á sér stað á öllum sviðum félagslífsins: Gangi menn að samningum, verða menn að halda þá!
Það kirkjufélag, sem hér á landi er lögskipuð þjóðkirkja samkv. 45. gr. stjskr., er hin evangelisk-lúterska kirkja. Þótt ekki væri manni það kunnugt, mætti þó örugt ganga út frá því, að sú kirkja hefði, eins og aðrar, einhverja tiltekna trúarlærdóma, er hún og hennar fólk héldi sig til. Og vel er það nú oss öllum vitanlegt, að trúarlærdómar ev.-lút. kirkjunnar eru næsta ákveðnir. Trúarrit — játningarrit — hennar teljast vafalaust að vera þau, sem getur í D.og N. L. Kristjáns V., 2. bók, I. kap.,[1] sem sé: Heilög ritning, postullega trúarjátningin, Niccu-játningin, Athanasíusar-játningin, Ágsborgarjátningin og Fræði Lúters hin minni.
Á þessum játningarritum byggir hið ev.-lút. kirkjufélag, þjóðkirkjan íslenzka, kenningar sínar, að lögum.
Allir þeir, sem gerast kennimenn í þjóðkirkjunni, takast því á hendur beina skyldu til að kenna og flytja lærdóma hennar samkvæmt pessum játningarritum. Þeir vígjast til stöðu sinnar með því ákveðna skilorði; gerist þeir brotlegir í þessu, geta þeir ekki (hvorki gagnvart lögunum, né sjálfum sér og kirkjunni) haldið áfram að vera kennimenn í þjóðkirkjunni. Á meðan þjóðkirkjan helzt, verður hér að vera aut est aut non; þar hefir alt þjóðfélagið bæði réttarlegra, siðferðislegra og trúarlegra hagsmuna að gæta.
Þessu býst ég nú ekki við, að nokkur beri við að andæfa. Geta menn og sannfærst um það með því einfalda atriði, að ef þjóðkirkjumaður yrði kærður fyrir villutrú (Ͻ: aðrar kenningar en réttar samkv. játningarritunum), og ef það sannaðist á hann, þá yrði sjálfsagt ekki hjá því komist eftir gildandi lögum að dæma hann til einhverrar refsingar (frá kjól og kalli, mætti búast við). Þetta gildir um kennimenn kirkjunnar (klerka) frá þeim æðsta til hins lægsta. Og ekki að eins það, — heldur verður þetta líka að eiga við um alla þá, sem kennendur eru í þjónustu þjóðkirkjunnar. Þeir eru allir skyldir (hafa undirgengist með því að taka embættin) að flytja ev.-lút. rétttrúnað samkv. játningarritunum. Kennendur guðfræðisdeildarinnar hér — guðfræðiskennarar háskólans — eru því þessari skyldu háðir. Þeir verða að vera þjóðkirkjutrúar og flytja ev.-lút. rétttrúnað. Skal ég geta þess, að þessu er sammála kennarinn í kirkjurétti við háskólann, próf. Einar Arnórsson (sjá t. d. Kirkjur. bls. 23).
Satt að segja er og sízt furða, þótt þetta sé svo, því að þessir menn eru í raun og sannleika ekkert annað en embættismenn þjóðkirkjunnar. Þeim er þetta embætti veitt og þeir hafa tekið það að sér, til þess að undirbúa prestaefni þjóðkirkjunnar. Guðfræðisdeildin við háskóla vorn er ekkert annað en þjóðkirkju-prestaskóli. Henni hefir aldrei verið ætlað, og hún getur ekki verið, eins og sakir standa, nein óháð fræðistofnun í »allskonar trúarbrögðum«. Þótt guðfræðiskennurunum sé vitanlega rétt, og sjálfsagt sé, að þeir fræði lærisveina sína um ýms trúarbrögð og trúflokka, þá mega þeir þó ekki kenna nema einn rétttrúnað, ómengaðan ev.-lút. samkv. játningarritum þjóökirkjunnar.
Þegar þannig er nú ljóst, hver skylda er hér þessara manna, kennimanna og guðfræðiskennara — og með því að gera það uppskátt, er auðvitað ekkert skert »kenningarfrelsi« háskólans, með því að svona hefir þetta verið og hlýtur að vera, að því er guðfræðisdeildina snertir —, þá rekur óhjákvæmilega að þeirri spurningu, sem mjög er uppi á teningnum nú: Gæta guðfræðiskennararnir hér hjá oss þessarar skyldu sinnar? Kenna þeir hreinan ev.-lút. þjóðkirkjurétttrúnað, eins og þeim ber skylda til, í þessum embættum? Skoðun mín, sem leikmanns, er sú, að þeir geri það ekki! Fyrir þessu hefi ég gert grein annarsstaðar [2] Sbr. m. a. Einar Arnórsson: Isl. Kirkjuréttur, §§ 6 og 7., og ég byggi þá skoðun mína á því, sem þessir menn sjálfir hafa látið frá sér fara og til sin heyra í þessum efnum. Ég skal því ekki í þetta sinn orðlengja um það atriði eða skýra það nánar. Ég býst og við, að flestir skynbærir menn, hvort sem eru leikmenn eða andlegrar stéttar, sé hér ekki heldur í vafa (nema ef vera kynni þeir, er sjálfir eiga í hlut).
Með þetta fyrir augum verða menn að játa, að í óefni allmikið er komið um ástandið innan þjóðkirkjunnar íslenzku. Getur það ekki neinum dulizt, að þegar þetta bætist ofan á annað, er ekki lengur undir slíku búandi, frá hvaða hlið sem skoðað er. Fylling tímans er í þessu að koma hér hjá oss, eins og annarsstaðar víða; ríki og kirkja verða að skilja — út úr ófærunni er ekki annnar vegur. Því að ekki yrði það nema hálfkarað verk, þótt farið yrði að breyta ýmsum meginatriðum trúarlærdóma þjóðkirkjunnar, færa þá t. d. í nýguðfræðilegt eða jafnvel andatrúarlegt horf, í þeirri veru, að »nútímamenn« gæti betur sætt sig við kirkjuna. Úr því yrði vafalaust ekki annað en kák, er fáum mundi fullnægja til hlítar; og fjöldi manna mundi rísa eindregið á móti því. Og eftir sem áður væri ófrelsið, ef þjóðkirkjunni yrði haldið, trúmálaófrelsið. »Þjóðkirkju«, er ein er styrkt og vernduð, samrýmist trúfrelsið ekki, svo sem greint hefir verið.
Alt ber að sama brunni og allir hljóta að láta sér hugað um rétta úrlausn þessara mála, ekki sízt þeir, sem þetta kemur mjög við, starfsmenn þeir, sem komnir eru eða komist geta í mótsögn við þær reglur, er þeim ber að fylgja. Kennendur sjálfrar kirkjunnar hljóta að óska þess af heilum hug, að öll fjötur verði leyst, svo að frjáls trú og heilsusamlegur andi geti ríkt á þessu sviði.
Þar sem fult trúfrelsi er og enginn trúflokkur verndaður öðrum framar, geta menn skipað sér með kenningar sínar þar, sem samvizkan og sannfœringin býður þeim, og unnið sér söfnuði, án þess gengið sé á hlut þeirra. Þegar »kirkjan« er laus úr viðjum »ríkisins« verður óskert kenningarfrelsi í landinu. Fyr ekki.
Sú er því leiðin. — —
Ég skal nú, áður en ég lýk máli mínu, að þessu sinni, geta þess, að framkvæmdir skilnaðar ríkis og kirkju þyrfti að minni hyggju ekki að vera bundnar sérlegum erfiðleikum hér á landi, allra sízt, ef samvinna gæti um það orðið, milli þeirra annarsvegar, er halda vilja uppi trú, og hinna, er vantrúarmenn kallast, hins vegar. En þeirri skoðun minni skal ég ekki leyna, að ég sé ekki, að landið (ríkið, þjóðfélagið) geti haldið uppi neinni ákveðinni guðfræðiskenslu, eftir að skilnaður er á kominn. Enda yrði það að teljast óþarft. Trúfélögin eiga sjálf að annast undirbúning kennimannaefna sinna, en þjóðfélagið getur þó, í þessu eins og hverju öðru borgaralegu málefni, sett skilyrði, til þess að það gefi kennimönnum þessum viðurkenningu, ef það þætti æskilegt (einskonar opinberan »stimpil«), t. d. það, að þeir nemi á háskóla Íslands þær tvær greinir, er telja verður að beri að kenna, þótt guðfræðiskensla sé þar af numin: Trúarbragðasögu og trúarheimspeki — er heyra mundi þá undir sögukennara og heimspekiskennara háskólans.
Að öðru leyti ættu trúarfélög þau, er í landinu væru, að sjálfsögðu að standa undir þeirri umsjón hins opinbera, sem þegar á sér stað, sem sé samkv. 46. gr. stjskr.., að þau kenni ekkert né fremji, er gagnstætt sé »góðu siðferði og allsherjarreglu«.
Út í athugun frá öðrum hliðum skilnaðarmálsins skal ekki farið hér; það yrði of langt mál og liggur fyrir utan umræðuefnið.
Mér hefir verið það ánægja, að vekja máls hér í Stúdentafélaginu á þessu mikilvæga efni, er ég hefi reynt að bera fram svo samandregið sem mest mátti verða. Ætti menn hér, jafnvel fremur en annarsstaðar, að hafa glögga sjón á því, að frjálsbornir menn í frjálsu landi geta ekki til lengdar unað öðru, en að óskorað frelsi komist á og ríki í þessum málum — fult trúfrelsi og kenningarfrelsi.
[1]Sbr. m. a. Einar Arnórsson: Isl. Kirkjuréttur, §§ 6 og 7.
[2] Sjá »Ingólf« 25. tbl. 1913.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.