Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leggjum við fólk í einelti?

Landslag

Að vera fórnarlamb eineltis er ein ömurlegasta lífsreynsla sem nokkur getur upplifað. Þá er ég að tala um ítrekað og langvarandi – jafnvel áralangt – einelti. Það hryggir mig óendanlega að í of mörgum tilfellum býður fólk þess ekki bætur. Ég veit þetta því ég var lagður í einelti frá því ég var sex ára til að verða tólf ára gamall. Það gerðist ekki í formi rökstuddra greina, það gerðist með nær daglegu áreiti og uppnefnum í skólanum mínum.

Einelti tekur ekki á sig ýmsar myndir, það er ekki túlkunaratriði. Einelti felst í að niðurlægja og gera lítið úr viðkomandi við hvert tækifæri, helst daglega. Ástæður fyrir einelti geta að vísu verið margvíslegar en eru án efa allar mjög grunnar, ómerkilegar og barnalegar; útlit, hegðun og uppruni eru helstu – og nær einu – ástæðurnar fyrir því að fólk er lagt í einelti. Ítrekaðar og niðrandi uppnefni og ummæli; andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi er höfuðeinkenni eineltis. En þöggun og hunsun er einnig eitt form eineltis.

Það sem hryggir mig enn meira er þessi gengisfelling á þessari ógeðslegu athöfn sem einelti er. Gengisfelling sem á sér jafnvel stað meðal málsmetandi manna. Þetta virðist orðið einhverskonar tískufyrirbrigði og er brúkað við minnsta tilefni til að reyna koma höggi á viðmælendur.

Sumir telja að það að gagnrýna skoðanir og viðhorf sumra einstaklinga sé einelti. Að vekja athygli á misgáfulegum ummælum er sagt vera einelti. Sumar mannvitsbrekkur telja jafnvel að hægt sé leggja heila stofnun í einelti. Gengisfellingin er slík að það eru bara allir alltaf alls staðar að leggja alla í einelti. Ég tel líklegt að fólk sem misnotar hugtakið á þennan hátt hafi aldrei verið lagt í einelti og hafi ekki minnstu hugmynd um hvernig sú niðurlægjandi lífsreynsla er. Að segja að það sé ömurleg upplifun er ekki nógu lýsandi. Ef þetta fólk hefur virkilega lent í einelti þá ætti það ekki að misnota hugtakið með svo skammarlegum hætti.

Hér á Vantrú gagnrýnum við hindurvitni. Við vekjum athygli á vafasömum ummælum allskonar aðila í hindurvitna-geiranum. Við greinum frá og reynum að kryfja skoðanir og viðhorf þessara einstaklinga og upplýsum lesendur um bullið sem þjóðinni er of oft boðið uppá. Stundum gerumst við djörf og notum sterk orð, tölum umbúðalaust. Ef þetta fólk upplifir gagnrýni okkar sem einelti þá hefur það lifað í einhverjum undarlegum draumaheimi alltof lengi því gagnrýni er ekki það sama og einelti. Það að gagnrýna er ekki heldur það sama og að gera lítið úr einstaklingum og gagnrýni er ekki endilega neikvæð.

Við erum meðvituð um að sumir geta tekið gagnrýni okkar mjög persónulega - en það er ekki markmiðið. Markmiðið er að fá fólk til að hugsa, velta vöngum, spá og spekúlera í því sem við erum að segja. Ekki bara um trúarbrögð, því við gagnrýnum auðvitað önnur hindurvitni og kukl; snákaolíu og svoleiðis húmbúkk, miðla, spáfólk og margt annað. Allt sem hefur tengingu við hina svotilkölluðu "yfirnáttúru". Fólki er svo að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort það tekur mark á því sem við höfum að segja. Við þröngvum okkar gagnrýni ekki uppá neinn.

Frumforsendan fyrir einelti er að bullan sem leggur í einelti þekkir viðkomandi, er honum kunnugur á einhvern hátt og hittir einstaklinginn reglulega, á skólalóð, vinnustað eða öðrum vettvangi. Nær allar skoðanir sem við gagnrýnum koma frá fólki sem við erum ekki í neinu beinu sambandi við nema þegar við vekjum athygli á misgáfulegum ummælum, skoðunum og aðdróttunum. Þannig að þessar tilhæfulausu ásakanir um að við í Vantrú leggjum t.d. presta í einelti, eru einfaldlega rangar.

Einelti er alvarleg og skaðleg hegðun sem á ekki að líðast. Gagnrýni er tjáningarform og á að vera uppbyggileg, ekki niðurlægjandi.

Ef fólk verður uppvíst að því að viðra skoðanir sem eru beinlínis rangar og því er bent á það, þá ætti það að fagna því að einhverjum er það annt um það að vilja leiðrétta þessar röngu skoðanir í stað þess að líta á það sem einhverja árás á sig og sína persónu. Því það er allt í lagi að viðurkenna það að hafa rangt fyrir sér stöku sinnum, enda er enginn fullkominn og það er ekki einelti að benda á það með rökstuddum greinum.

Það er engin skylda að virða skoðanir fólks. En við virðum fólk með því að gagnrýna skoðanir þess og viðurkennum tilveru þeirra sem við andmælum. Og það er ekki einelti.

Þórður Ingvarsson 01.02.2011
Flokkað undir: ( Hugvekja , Vantrú )

Viðbrögð


Ásta Elínardóttir - 01/02/11 10:37 #

Góð og nauðsynleg áminning Þórður. Þakkir fyrir það.


Ólöf Guðmunds - 01/02/11 15:08 #

Flott og vel uppbyggð rýni í þessari grein. Ég er sérstaklega hrifin af hendingunni þarna í lokin; "Það er engin skylda að virða skoðanir fólks"! Get ómögulega virt bull, kjaftæði og hindurvitni. T.d. þegar fólk lætur trúgjarna borga sér fyrir að þykjast vita meira um þeirra(borgunarmanns/konu) fortíð en það gerir sjálft! Ég þarf oft að bíta í tunguna á mér í kvennahópi, saumaklúbbum og slíkum félagsskap, þegar talið berst að svokölluðum "læknamiðlum", spákonum og égveitekkihvað. Það er segin saga að þegar ég læt í ljós (pent orðaðar!) skoðanir mínar á slíku bulli, þá fæ ég yfir mig holskeflu af dónalegum athugasemdum frá hinum trúgjörnu; "þú ert svo fordómafull fyrir því andlega", "ég vorkenni þeim sem sjá ekki að það er til MEIRA en bara hið áþreifanlega", það er svo fátæklegt líf að finna ekki fyrir návist blablabla....þið hefið sjálfsagt heyrt þetta allt saman! Man varla til þess að skoðunum mínum um "blablabla" hafi verið sýnd virðing.


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 01/02/11 17:02 #

Ég hvet þig eindregið Ólöf, til að bíta ekki í tunguna á þér þegar svona aðstæður koma upp. Það er miklu skemmtilegra að kynna sér málið vel og standa svo fyrir máli sínu þegar fólk byrjar að bulla. Bíður uppá svo miklu skemmtilegri samræður heldur en að þegja og brosa.


Hilmar - 01/02/11 19:58 #

Flottur pistill Þórður..


Kristján (meðlimur í Vantrú) - 02/02/11 00:14 #

Ólöf

Ég gat samt ekki annað en hlegið yfir "þú ert svo fordómafull fyrir því andlega". Jú, auðvitað má tala um fordóma þegar maður segir eitthvað slæmt um hluti sem maður hefur ekki kynnst fyllilega. Nema hvað að í þessu tilviki erum við að ræða um eitthvað sem er ekki til og því hæpið að maður getur verið fordómafullur fyrir því.

En þetta var góður pistill Þórður. Ég get svo sem skilið að fólk sé viðkvæmt fyrir því að einhver sé að brjóta niður þeirra þekkingarheim (þó það sé með faglegum hætti). Það þýðir þó einnig að sé það viðkvæmt fyrir gagnrýnum hugsunarhætti, sé trúin ekki byggð á öðru en lærðum hugsunarhætti sem er afskaplega brothættur gagnvart rökfærslum. Ef ég hefði á einhvern hátt skynjað (hvort sem með skilningarvitunum eða öðrum hætti) veru sem hefði skapað alheiminn með óyggjandi hætti, þá myndi það væntanlega ekki skipta mig neinu máli hvaða röksemdir einhver reyndi að færa um að þessi vera væri ekki til.


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 02/02/11 03:38 #

Myndin við greinina er líka frábær, þetta er fjallið Kerling í Eyjafjarðarsveit og tel ég mig eiga hluta af því!


Þór Melsteð - 02/02/11 04:44 #

Flott grein og þörf.

Ég hef svipaða sögu að segja. Einelti í grunnskóla árum saman þar til ég skipti um skóla. Áhrif þess finn ég enn í dag.

Hver sá sem sakar fólk um einelti sem vogar sér að gagnrýna skoðanir þeirra, hefur aldrei kynnst einelti. Að minnsta kosti ekki frá sjónarhóli þess sem fyrir henni verður - veit ekki um hina hliðina.


Agnostic - 09/05/11 14:26 #

[ Athugasemdir fluttar á spjall ]


Jón Efasemdarmaður - 11/05/11 10:30 #

Jæja Þórður, nú ætla ég að vera góður við þig og gagnrýna skoðun þína.

Ekki gagnvart einelti þó, þekki það vel af eigin raun, en mér finnst vanta í upptalninguna á helstu orsökum eineltis orðið skoðun.

Og ekki gagnvart félaginu ykkar, hef ekki myndað mér skoðun á því enþá.

Það sem ég vill tala um eru "rangar skoðanir", ég sé ekki hvernig það er hægt að vera með rangar skoðanir, það er hægt að fara með rangar staðreyndir, rangt mál og þessháttar en skoðun myndast hjá hverjum og einum, er persónubundin og er eins og nafnið gefur til kynna einungis skoðun. Dæmi, Liverpool er mitt upáhalds lið í enska, það er mín skoðun, er það rangt hjá mér að Liverpool sé mitt upáhalds lið ef það er ekki uppáhalds lið þess sem gagnrýnir skoðun mína?

Ég er líka smá efins um að ekki sé skylda að virða skoðanir fólks(og með því er ég ekki að virða þína skoðun, ég sé alveg kaldhæðnina:)). Er það til dæmis ekki það sem þið viljið, að ykkar skoðanir til trúfrelsis/trúleysis séu virtar?

Ólöf: Er eitthvað að því að fólk finni einhverja ánægju eða fyllingu í líf sitt þótt þú sér ekki sammála? Ef fólk er ánægt í sinni vitund, hversvegna eyðileggja hana? Hver hagnast á því?

En þetta er bara mín skoðun.

Takk fyrir mig. Þar til næst. Jón Efasemdarmaður.

Afsaka villur í ritmáli, væg lesblinda.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/11 11:21 #

Það er enginn að halda því fram að allar skoðanir skuli vanvirða. Skoðanir fólks eru annað hvort virðingarverðar eða ekki. Telji ég skoðun einhvers ekki virðingarverða gagnrýni ég hana, helst þó af virðingu fyrir þeim sem heldur henni fram.

Auðvitað er hægt að halda því fram að skoðanir séu rangar, jafnvel beinlínis hættulegar. Hvað t.d. með þá skoðun að innbrotsþjófar eigi að vera réttdræpir? Er hægt að bera virðingu fyrir slíkri skoðun?

Að blanda inn í þessa umræðu smekk manna fyrir fótboltaliðum er skot langt yfir markið.


Jón Efasemdarmaður - 11/05/11 12:21 #

Takk fyrir svörunina Birgir.

Furir mínar sakir er hverjum heimilt að hafa sínar skoðanir, hverjar sem þær eru, en það er hinsvegar allt annað þegar kemur að aðgerðum, eins og sá sem finnst að innbrotsþjófar skuli réttdræpir, það má hafa þá skoðun en strax og hún er framkvæmd þá er það allt annað mál og ekki málið hérna. Ég tel að öll höfum við einhverja skoðun á einhverjum málefnum sem þókknast ekki norminu, ég hef nokkrar og líður bara vel með það. Þetta með fótboltann, ja það er bara dæmi um skoðun sem er hvorki rétt né röng, fótboltinn bara þarna til að hafa eitthvað, gæti þess vegna verið pólitískar skoðanir, uppeldis skoðanir eða jafnvel trúarlegar skoðanir.
Það sem ég ætlaði að segja er að þótt skoðun mín sé ekki sú sama og t.d. þín þýðir ekki að mín sé röng, hún er önnur.

Takk takk.

Jón Efasemdarmaður.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/05/11 14:07 #

Það er eitt að hafa skoðun. Við getum ekki gagnrýnt nokkurn fyrir að hafa skoðun ef hann setur hana ekki fram.

Það er annað ef fólk boðar skoðun sína. Þá hefur það gefið öðrum leyfi til að andmæla þeim skoðunum Við í Vantrú bregðumst við þegar fólk boðar tilteknar skoðanir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/05/11 00:35 #

Það sem ég ætlaði að segja er að þótt skoðun mín sé ekki sú sama og t.d. þín þýðir ekki að mín sé röng, hún er önnur.

Ef skoðun þín væri sú að ala ætti upp börn með því að beita þau andlegu og líkamlegu harðræði myndi ég afgreiða hana sem ranga og hættulega. Hún er ekki þar með orðin slík í sjálfu sér, heldur aðeins frá mínum bæjardyrum.

Rökræða sker svo úr um það hvor okkar hefur "réttari" skoðun á málinu, nefnilega sá sem teflir fram betri og meira sannfærandi rökum. Og þar með ætti hinn að geta fallist á hina "réttari" skoðun og fallið frá sinni.


avs - 12/02/13 16:17 #

Já Vantrú hefur markvisst og skipulega lagt aðra þjóðfélagshópa í einelti á Íslandi , t.d. hafa verið uppi sögur um að margir þeirra sem vildu gera krökkum í skólum erfiðara fyrir að teikna engla eða halda litlu jól hafi verið meðlimir Vantrúar. Almennt leggja trúleysingjasamtök á netinu aðra í einelti séu þeir trúleysingjar sjálfir eða séu þeir annarar lífsskoðunar svo lengi sem viðkomandi er ekki í stjórn téðra samtaka. Vantrú eru engu betri eða verri en aðrir á þessu sviði. Þeir sem oftast hafa orðið fyrir barðinu á árásum trúleysingjasamtaka á netinu hafa sjálfir verið trúleysingjar , af ótta stofnenda samtakanna við reiði yfirnáttúrulegrar veru eða vera hætti þeir ekki eineltinu , en samt hafa þeir ítrekað haldið fram að þeir trúi ekki á tilvist slíkra vera. Eitt helsta markmið trúleysingjasamtaka á netinu er að láta heila trúaðra lýta út eins og þeir séu minni , og tala hrikalega niður til fólks einfaldlega vegna þess að það er trúað sjálft eða jafnvel vegna þess að það er sjálft trúlaust. Hvítakukl Vantrúar kemur fyrir mér jafn spánskt fyrir sjónir og hvítatukl snákaolíusölumanna. Allt sama samansúrraða snákaolíusölukjaftæðið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/02/13 16:31 #

Hérna... ertu að grínast?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/13 22:20 #

Þetta eru aldeilis fullyrðingar sem þú setur hér fram "avs". Ég verð að segja að ég hef, þrátt fyrir mikla þátttöku í ýmsum trúleysistengdum nethópum (á og af Facebook) aldrei orðið var við þessa hegðun sem þú vísar til. Því þætti mér fallega gert af þér ef þú gætir sett hérna inn eins og 2-3 hlekki á það sem þér þykir einelti af hálfu trúleysingja á netinu. Sérstaklega hef ég áhuga á því ef að félagar í Vantrú hafa viðhaft slíkt.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/13 23:30 #

Ég þori varla að segja neitt, einfaldlega vegna þess að ég er svo hræddur um að leggja einhvern vanvita í einelti bara með því einu að tjá mig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.