Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gídeonforseti á fölskum forsendum

Fjalar Freyr Einarsson skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Í blaðinu titlaði hann sig grunnskólakennara en gefur ekki frekari deili á sér í greininni sjálfri, sem er um margt sérstök og sýnir m.a. stórfurðulegan skilning á hugmyndafræði Skóla án aðgreiningar. Það vakti líka athygli mína að Fjalar talar um 'öfgatrúleysingja' og reynir þannig að mála þá sem eru ósammála honum sem hættulegt fólk (því við vitum jú öll að öfgar eru hættulegar).

Fjalar Freyr hefur komið við sögu í umræðu um trúboð í skólum áður, þar sem hann hefur m.a. haldið á lofti þeim ósannindum að hér á landi berjist einhverjir fyrir því að banna kennslu um trúarbrögð og tiltók hann þar sérstaklega Siðmennt. Sigurður Hólm svaraði grein Fjalars sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar á þessu ári.

En hver er þessi Fjalar Freyr Einarsson? Ef marka má greinina í Fréttablaðinu er hann bara grunnskólakennari sem hefur áhyggjur af yfirgangi trúleysingja. En þegar þetta hérna er skoðað kemur í ljós að Fjalar er hvorki meira né minna en forseti Gídeonfélagsins á Íslandi. Sem setur áhyggjur hans auðvitað í ákveðið samhengi.

En Fjalar hefur leikið þennan leik víða upp á síðkastið. Þegar fjölmiðlar tóku tillögur Mannréttindaráðs RVK til umfjöllunar hringdi Fjalar Freyr inn í símatíma í síðdegisútvarpi Rásar 2 þar sem hann kynnti sjálfan sig sem grunnskólakennara og fann tillögunum allt til foráttunnar. Í kjölfar þess viðtals birtist annað viðtal við hann í Morgunblaðinu þar sem hann segist vera kennari í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði (vitnað í viðtalið neðarlega í þessari grein).

Og hann hefur líka látið gamminn geysa í umræðum á netinu. Hérna sést hvar Fjalar kemur inn í umræðuna eftir að Tinna Gígja bendir á að það sé klárlega trúboð þegar Gídeonmenn mæti inn í skólastofur og biðji með börnum:

@ Tinna Hvaðan hefur þú þá vitneskju að utanaðkomandi s.s. Gídeonmenn séu að koma í skólana og kenna börnum að biðja? Ég hef sjálfur tekið all nokkrum sinnum á móti Gídeonmönnum og aldrei hefur það komið til að biðja. Þeir hafa í engu farið gegn nokkru sem ég get ekki samþykkt í skólastofunni. Farðu með rétt mál Tinna.

Og sjáið þetta hér:

Ég hafði samband við Gídeonfélagið og sagði þeim frá þessu. Þeir urðu mjög undrandi og sögðu þetta ekki samkvæmt þeim reglum sem félagið setti og könnuðu málið.

Þetta hefur verið áhugavert samtal sem Fjalar átti við sjálfan sig. Ég er viss um að hann varð mjög undrandi.

En allt skilur þetta eftir sig stóra spurningu: af hverju kemur formaður Gídeonfélagsins á Íslandi, félags sem á mikilla hagsmuna að gæta í þessari umræðu, ekki hreint fram? Af hverju þessi feluleikur? Er Fjalar ef til vill hræddur um að orð hans hafi minna vægi þegar fólk veit hvaða hagsmuna hann hefur að gæta?

Egill Óskarsson 17.12.2010
Flokkað undir: ( Gídeon , Siðferði og trú , Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/12/10 12:20 #

Sigurður Hólm gerir þennan mann líka að umræðuefni á bloggi sínu.

Svo má minna á hvað er að Gídeon.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/12/10 12:48 #

Fjalar skrifaði athugasemd við bloggfærslu mína um Gídeon heimsókn í skóla dóttur minnar:

Ég hafði samband við Gídeonfélagið og sagði þeim frá þessu. Þeir urðu mjög undrandi og sögðu þetta ekki samkvæmt þeim reglum sem félagið setti og könnuðu málið. Þeir höfðu svo samband við mig og sögðu mér að í þessu tilviki hefði verið flett upp á Faðir vorinu í Nýja testamentinu og það LESIÐ saman. Hvort sem okkur finnst það eðlilegt eða ekki er það hluti af aðalnámskránni að þekkja Faðir vorið og því vandséð að Gídeonmenn hafi brotið af sér á nokkurn hátt enda voru kennarar bekkjarins hafðir með í ráðum. Gaman væri að menn vönduðu málflutning sinn og gættu þess að fara með rétt mál áður en svona staðhæfingar eru settar fram.


Arnar - 17/12/10 13:53 #

Bara svona að spekúlera.. ef menn tala við sjálfan sig án þess að vita hvað hvor 'hliðin' er að hugsa.. er það ekki geðklofi eða eitthvað?

Annars þekkti ég Fjalar fyrir 20 árum eða svo, ágætis gaur en var á kafi í svona kristilegu ungmennastarfi.


óli - 17/12/10 22:03 #

Man eftir Fjalari. Vann með honum um tíma. Mikil jésú maður sem lagði sig allan í það að frelsa mig og annan vinnufélaga. Við ákölluðum Satan á móti. Hann gafst upp eftir það;o)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 18/12/10 14:08 #

Mér finnst alveg stórmerkilegt að maðurinn skuli fara svona í felur með stöðu sína hjá Gídeon. Hann hlýtur að skammast sín en kann um leið ekki að skammast sín fyrir óheiðarleikann. Svo er ekki úr vegi að minna á nokkuð sem stendur í Nýja Testamentinu sem Gídeon vill troða á hvert barn (MT:10:32):

Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.

Og næstu setningar eru líka upplýsandi:

Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð. Ég er kominn að gjöra ,son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans.` Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.

Er þetta ekk eitthvað sem allir foreldrar vilja að börn þeirra tileinki sér, fyrir tilstilli manna eins og Fjalars.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/12/10 23:40 #

Nafni: Var hinn vinnufélaginn Tóti?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?