Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað er að Gídeon?

Stúlka með fræðslurit

Menntasvið Reykjavíkur hefur lagt áherslu á að ?í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman.?

Gídeonfélagið er trúarhópur og á síðu félagsins segir :

Markmið starfsins er að ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist. Dreifing Heilagrar ritningar og einstakra hluta hennar er aðferð til að ná því marki.

Verður trúboð öllu skýrara? Svo er bekkurinn jafnvel leiddur í bæn, allir látnir þylja faðirvorið, eins og lesa má um hér. En geta þeir sem kæra sig ekki um svona trúboð bara verið frammi á meðan, farið á bókasafnið eða í kústaskápinn? Um það segir í lögum og stefnu Menntasviðs Reykjavíkur:

Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.

Hver var Gídeon?

Í Dómarabókinni má lesa að eftir að Drottinn hafði leitt Ísraelsmenn til fyrirheitna landsins voru þeir eitthvað óþægir svo Drottinn gaf þá í hendur Midians í sjö ár (erlendur kúgari). En svo birtist hann Gídeon og sagði: „Far af stað í þessum styrkleika þínum, og þú munt frelsa Ísrael úr höndum Midíans. Það er ég, sem sendi þig.“

En Gídeon var efasemdarmaður og vildi fá staðfestingu á að það væri í raun Drottinn sem væri að tala við hann og sagði því Drottni að doka við á meðan hann sækti fórnargjöf og setti fram fyrir hann. Drottinn félst á að bíða. Gídeon kom svo með kiðling og kökur en engill Guðs sagði við hann að láta hvort tveggja á klett og hella súpunni yfir. Gídeon hlýddi og þá kom eldur upp úr klettinum og eyddi kjötinu og kökunum. Við það sannfærðist Gídeon eðlilega að þarna hefði Drottinn verið á ferð.

Drottinn hóf þá að skipa Gídeon fyrir verkum og hans fyrsta verk skyldi vera að brjóta það og eyðileggja sem föður hans var heilagt, altari hans til guðs (bara ekki rétta guðsins, þið skiljið, til Baals) og tré sem stóð þar hjá. Gídeon fékk tíu menn í lið með sér og framdi þessi helgispjöll í skjóli nætur, af ótta við ættmenn sína. Síðan stakk hann af og fór að safna mönnum í hernað.

Vísindin efla alla dáð

En Gídeon var ekki bara efasemdarmaður heldur líka vísindamaður. Hann efaðist enn um að Drottinn ætlaði honum að yfirbuga andstæðinga Ísraelsmanna svo hann ákvað að gera tilraun:

Þá sagði Gídeon við Guð: „Ef þú ætlar að frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt, sjá, þá legg ég ullarreyfi út á láfann. Ef dögg er þá á reyfinu einu, en jörð öll er þurr, þá veit ég að þú munt frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt.“ Og það varð svo. Morguninn eftir reis hann árla og kreisti reyfið, og vatt hann þá dögg úr reyfinu, fulla skál af vatni. En Gídeon sagði við Guð: „Lát eigi reiði þína upptendrast gegn mér, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Ég ætla aðeins einu sinni enn að gjöra tilraun með reyfið. Skal nú reyfið eitt þurrt vera, en jörð öll vot af dögg.“ Og Guð gjörði svo á þeirri nóttu. Var reyfið eitt þurrt, en jörð var öll vot af dögg.

Mannval

Þá var Gídeon loks sannfærður um að Guð (með stóru G) væri með honum og óhætt að fara í stríð. Það var bara einn galli á gjöf Njarðar (afsakið tilvísun í norræna goðafræði), Gídeon var með allt of marga í sínu liði, 32 þúsund manns. Guð sagði að það gengi ekki að hafa svo marga í liðinu því þá gætu menn „hrokast upp“ gegn honum og haldið að þeir sjálfir hefðu frelsað Ísrael. Guð sagði Gídeon því að hvetja alla sem voru hræddir eða hugdeigir að fara. „Þá sneru aftur tuttugu og tvær þúsundir af liðinu, en tíu þúsundir urðu eftir.“ Það var enn of mikið fyrir Drottinn svo hann sagði Gídeon að leiða menn sína niður til vatnsins og bætti við:

„Öllum þeim, sem lepja vatnið með tungu sinni, eins og hundar gjöra, skalt þú skipa sér, og sömuleiðis öllum þeim, sem krjúpa á kné til þess að drekka úr lófa sínum, er þeir færa upp að munni sér.“

Meinið var hins vegar að þrjú hundruð löptu eins og hundar en allir hinir krupu á kné til að drekka. Drottinn ákvað þá að Gídeon skyldi bara taka þá í liðið sem löptu eins og hundar. Og með þeim var lagt af stað í orrustur. Á leiðinni kom Gídeon með lið sitt í tvær borgir og heimtaði þar brauð fyrir lið sitt. Borgarbúar gerðu gys að honum og spurðu hvort hann hefði sigrað konunga Midians, þá Seba og Salmúna. Gídeón reiddist og sagðist koma aftur þegar hann væri búinn að fanga þá og þá skyldu bæjarbúar húðstrýktir með þyrnum eyðimerkurinnar og þistlum og kastali þeirra lagður við jörðu. Eftir að hafa drepið 120 þúsund manns í bardögum voru þeir Seba og Salmúa komnir í hendur Gídeon. Þá stóð hann við stóru orðin, lagði kastala þorpsbúa í eyði og drap borgarbúa.

Drepum, myrðum og stelum

Svo skipaði Gídeon syni sínum að drepa konungana Seba og Salmúa en „sveinninn brá ekki sverði sínu, því hann bar ekki hug til, enda var hann ungur að aldri“. Þeir Seba og Salmúa sögðu þá við Gídeon: „Far þú sjálfur til og vinn á okkur, því að afl fylgir aldri manns“. Þá drap Gídeon þá báða og tók skart af hálsum úlfalda þeirra. Við svo búið vildu Ísraels ólmir og uppvægir að Gídeon „drottnaði yfir þeim?, sonur hans og sonarsonur. Gídeon sagði að Drottinn skyldi drottna en bað þó um að fá í sinn hlut alla eyrnahringa sem teknir hefðu verið herfangi. „En þyngd þessara eyrnahringa af gulli, er hann beiðst hafði, var eitt þúsund og sjö hundruð siklar gulls, fyrir utan tinglin, eyrnaperlurnar og purpuraklæðin, sem Midíanskonungarnir báru, og fyrir utan festar þær, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.“

Guð sér um sína

Í upphafi sögunnar af Gídeon var hann að þreskja hveiti á akrinum en eftir að hann hefur svívirt helgidóm föður sins, myrt ótalin þúsund hermanna, lagt kastala í rust, drepið saklausa borgarbúa og tekið sér drjúgt herfang segir sagan:

Gídeon átti sjötíu sonu, sem út gengnir voru af lendum hans, því að hann átti margar konur. Og hjákona hans, sú er hann átti í Síkem, fæddi honum og son, og hann nefndi hann Abímelek.

Siðlausir siðapostular

Það hlýtur að mega setja spurningamerki við félagsskap sem kennir sig við skíthæl eins og Gídeon. Þegar þessir menn halda svo áfram trúboði sínu í skólum í andstöðu við lög, ákvæði mannréttindasáttmála, stefnu yfirvalda og vilja margra foreldra er ekki hægt að kalla það annað en virðingarleysi og siðleysi.


Sjá einnig:
Burt með Gideon frá 2003
Takk fyrir Gideon frá 2005

Reynir Harðarson 24.10.2010
Flokkað undir: ( Gídeon , Kristindómurinn , Siðferði og trú , Skólinn )

Viðbrögð


Þorsteinn Kolbeinsson - 24/10/10 22:53 #

Já, merkileg lesning. Takk fyrir þetta Reynir. Sannarlega mikið dusilmenni þessi Gídeon (þó... hann var jú bara að gera það sem Drottinn fékk hann til að gera, hehe).


Halldór Logi Sigurðarson - 24/10/10 23:05 #

Þú veist að "þú ert ekki að lesa þetta í réttu samhengi". Annars er bróðir minn kominn á þann aldur að Gídeon ætti að fara að gefa honum bók, ég ætla að biðja hann um að spyrja þá út í þetta þegar þeir koma.


caramba - 25/10/10 23:35 #

Þetta eru stórfenglegar og dýrlegar bókmenntir eins og reyndar flestar aðrar hirðingjasögur Gamla testamentisins - þýddar á mergjaða, seiðandi gullaldaríslensku. Það er magnað að vantrúarmenn skuli velja texta af þessu tagi til að hnýta í kristindóminn eða deila á guðdóminn -- þetta eru jú ævaforn trúarrit eyðimerkurgyðinga - og jafn magnað er það að kristnir menn skuli flagga þessu í skólum landsins eins og sáluhjálparritum í uppeldi barna og unglinga. Það er einhver grundvallarheimska hvað varðar biblíuna í gangi meðal kristinna trúboða, presta og vantrúarmanna: þetta er hin æðsta, launhelga og einasta mælistika á alla trú - líkt og ekkert hafi gerst í heiminum síðan Móse talaði við þyrnirunnann og spókaði sig í hlíðum Sinaí-fjalls. Gídeon hvað? Afhverju reynið þið ekki að andskotast inn í nútímann?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/10/10 14:50 #

Caramba, andaðu með nefinu. Vissirðu ekki að Biblían er grunnur allrar menningar og siðferðis í landinu, gott ef ekki heiminum?

Þessi texti er birtur til að sýna við hvað Gídeon-menn kenna sig. Má það?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 27/10/10 06:19 #

Hef stundum velt því fyrir mér afhverju Gídeon karlar senda ekki bara NT í pósti til 10 ára barna? Þannig yrði þeirra markmiði náð og skólarnir væru þannig látnir í friði.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?