Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Dómkirkjan

Ein helsta aðferð fyrri alda til að stjórna hugsunum og hegðun fólks var að kalla fram sögur um æðri verur sem gátu refsað og verðlaunað, skapað og tortímt, og gerðu misskýrar kröfur um að fólk lifði lífinu sínu á tiltekinn hátt. Í nútímanum þekkjum við flest hver muninn á staðreyndum og skáldskap, en þrátt fyrir það eru enn leifar í stjórnkerfum margra landa af gamalli stofnun sem hefur glatað sínum tilgangi.

Ótaldi tilgangurinn

En hvaða tilgangi hefur hann glatað? Það væri hreinlega rangt að alhæfa sem svo að það væru ekki til neinir guðir, nákvæmlega jafn rangt og það væri að fullyrða að þeir séu til – það er bara hreinlega ekki sannanlegt á hvorn veginn sem er. Málið snýst ekki um það.

Sá tilgangur sem kirkjustofnunin hefur glatað, með tilkomu lýðræðis, er sá tilgangur að stjórna hugsunum og hegðun fólks. Þar sem við höfum á Íslandi hvorki kónga né einræðisherra, þá þurfum við ekki þetta fjórða vald – andlega valdið – hangandi yfir okkur, segjandi okkur hvernig rétt og kristið siðferði skuli útleggjast. Siðalögreglan í prestakuflunum er úreld; nú höfum við mannréttindi og lög sem refsa fyrir brot gegn þeim.

Á Íslandi er trúfrelsi. Ennfremur, og að mínu mati nægjanlega, þá er skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og félagafrelsi. Þeim sem vilja kenna sig við guði eða önnur andleg fyrirbæri er fullkomnlega frjálst að gera það.

Félagafrelsið

Félagafrelsið er mikilvægt í þessu samhengi, og hugsanlega öllu mikilvægast.

Burtséð frá því kennivaldi sem kirkjan tekur sér til að segja fyrir um siði, þá er það þannig að kirkja ríkisins fær úr ríkissjóði úthlutaðar margar milljarðar árlega. Rétt tæplega 40% þeirrar upphæðar kemur af sóknargjöldum og rest er samkvæmt fjárlögum og samningi kirkjunnar við íslenska ríkið.

Þessi samningur er margumtalaður, enda veifar prestastéttin honum í sérhvert sinn sem vegið er að tekjum Þjóðkirkjunnar. Hann var endurnýjaður nýlega, en snýst í grundvallaratriðum um að ríkið fái til eignar öll þau landsvæði sem kirkjan hreppti undir sig á fyrri öldum í skiptum fyrir mánaðarlegar greiðslur til að viðhalda kirkjunni. Þannig má í raun segja að hér sé um að ræða ýmist leigusamning að ræða, eða lausnargjald sem greitt er stórfelldum landræningja. Ég mun skrifa meira um landeignarrétt og landnýtingu síðar.

Þennan samning er hægt að fella úr gildi löglega á ýmsa vegu. Verði stórvægar breytingar á forsendunum, til dæmis. Ég myndi telja aðskilnað ríkis og kirkju nægjanlega forsendubreytingu, þó svo að ég sé handviss um að þjóðkirkjan sé hjartanlega ósammála.

Mergurinn málsins er sá að með þessum samningi er einu trúfélagi mismunað mjög verulega umfram önnur trúfélög. Trúfrelsi almennings er fyrir vikið stórlega skert.

Skattheimta fyrir hönd þriðja aðila

Sóknargjöld vil ég taka sérstaklega fyrir. Hvers vegna þurfa skátafélög, dansklúbbar, Kíwanisklúbbar og nemandafélög að standa í því að rukka sín meðlimagjöld meðan ríkið sér um innheimtu félagsgjalda fyrir trúfélög? Þetta þykir mér brjóta gegn félagafrelsi á þann hátt að hér eru trúfélög sett á sérstakan stall, álitin mikilvægari fyrir lögum en önnur félög, án þess að nein raunveruleg rök séu færð fyrir því hvers vegna svo ætti að vera.

Ég tel bæði eðlilegt og mikilvægt að félagafrelsið sé virt að því marki að öll félög séu jöfn fyrir lögum. Ríkinu á að vera óheimilt að innheimta skatta fyrir hönd þriðja aðila.

Þetta atriði mun ég tala og skrifa meira um síðar, en mér finnst þetta alveg gríðarlega mikilvægt. Bæði skattlagning fyrir og yfirfærsla ríkisvalds til þriðja aðila er alveg ótrúlega hættulegt, því það skapar aðstæður þar sem að tilteknir hópar standa mun betur að vígi en aðrir. Nú hafa tvisvar á undanförnum árum fallið dómar gegn ríkinu vegna iðnaðarmálagjalds (og var það afnumið 9. september sl.); hvers vegna ættu sóknargjöld að vera eitthvað öðruvísi? Eða jú STEF-gjöld?

Að fórna hugsjónum fyrir hugsjónir

Loks er sennilega rétt (en ekki endilega vinsælt) að benda enn og aftur á að hér ríkir trúfrelsi. Mikið hefur rætt um það undanfarið hvort eigi að leyfa byggingu á Íslamskri mosku á Íslandi. Ég tel að þessi umræða væri ekki í gangi ef umræðan snérist um íþróttahús, leikhús, eða kirkju – eða nokkurn annan samkomustað þar sem fólk leyfir ímyndunaraflinu að leika lausum hala. Árið 1917 var öllum kirkjum í Rússlandi breytt í félagsmiðstöðvar (sem mér finnst frábær nýting á þessum flottu byggingum!) – sá gjörningur sýnir að það er ekkert óvenjulegt við trúarlegar byggingar, þetta er búið til úr nákvæmlega samskonar steypu. Ekki hefur verið sýnt fram á það vísindalega að vígsla eða blessun breyti eðli atóma.

Við sem hér búum erum ótrúlega stolt af siðmenningu okkar, lýðræðinu, málfrelsinu og þeim mannréttindum sem við höfum áunnið okkur. Það að velta því fyrir sér hvort að tiltekin trúarbrögð eigi að hafa iðkunarstað hér umfram önnur er því argasta smán. Fyrir hundruðum ára tíðkaðist það undir ægivaldi kirkjunnar að villitrúarmenn skyldu brenndir á báli fyrir að hafa öðruvísi skoðanir en þessi nú úrelda stofnun taldi viðunandi. Við höfum sem betur fer þróast frá þessu. Það að lítill minnihluti iðkenda ýmissa trúarbragða hafi ekki enn gert það á ekki undir neinum kringumstæðum að vera notað sem réttlæting fyrir því að við göngum gegn því frelsi sem við þykjumst svo stolt af.


Höfundur býður sig fram á stjórnlagaþing, en nánar má lesa um framboðið á heimasíðunni hans smarimccarthy.com

Smári McCarthy 14.10.2010
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Stjórnmál og trú , Vísun )

Viðbrögð


Jón K - 14/10/10 17:10 #

Nei, hættu nú. Vonandi er ég að misskilja. Síðustu greinina má skilja sem svo að kirkjunnar fólk eða einhver minnihluti þess vilja brenna trúleysingja á báli.


Smári McCarthy - 14/10/10 17:25 #

Þú ert held ég að misskilja. Það sem ég á við er að þrátt fyrir mikla þróun frá svona hugmyndum eru enn til öfgamenn í ýmsum trúarhópum í dag - mjög oft er talað um múslima í þessu samhengi, en það þarf ekki að skoða ástandið í austurhluta Indlands lengi til að sjá að kristnir eru ekkert skárri...

Við eigum ekki að skerða rétt fólks til tjáningar bara vegna þess að það eru til öfgamenn. Ef múslimar vilja reisa mosku, þá skulu þeir hafa sinn rétt til þess. Oft er vitnað (ranglega) í Benjamin Franklin með "Those who would give up Essential Liberty to purchase a little Temporary Safety deserve neither Liberty nor Safety" -- það mætti heimfæra þessa hugsun hér.


Jón - 25/10/10 00:51 #

Röng vitnun? Sagði/skrifaði BF þetta aldrei?


Smári McCarthy - 25/10/10 10:25 #

Með "ranglega" meinti ég að þessi tilvitnun er oft snúin upp í að vera eitthvað annað en hún er... afsakaðu tvískilninginn - hefði mátt sleppa þessum sviga, en ég var sumpart að reyna að réttlæta það að ég hafi ekki þýtt þetta...

Þetta er upprunalega úr bréfi Franklins til þingsins, og á fullkomnlega við hér sem og víðar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.