Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stór dagur

Það er alltaf ánægjulegt þegar menn stíga fram og viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér. Oft er það orðað svo að þeir verði menn að meiri fyrir vikið.

Ég óska Karli Sigurbjörnssyni hjartanlega til hamingju með það stóra og djarfa skref sitt að falla frá þeim mannfjandsamlega áróðri sem hann hefur haldið á lofti í krafti kirkjukenninga sinna og stíga út í birtuna til okkar hinna. Hann er sannarlega maður að meiri fyrir vikið.

Athygli vekur að hann hafi talið það vera skyldu sína að berjast á móti fullum réttindum samkynhneigðra allan þennan tíma. Vel má ímynda sér að manneskjan Karl og biskupinn Karl hafi háð harða styrjöld, hugarstríð sem valdið hefur vanlíðan og togstreitu. Það útskýrir líka fálmkennd og gremjuleg viðbrögð Karls við þeim þrýstingi sem baráttfólk um fegurra mannlíf hefur lagt á hann og stofnunina sem hann stendur fyrir.

Karl Sigurbjörnsson er hetja dagsins og áreiðanlega er þungu fargi af honum létt. Hann er kominn til okkar hinna og nú getum við loks litið hann réttum augum. Þetta mál hefur lengi verið helsti ásteytingarsteinn kirkju og manngildisstefnu þeirrar sem hafnar gömlum kreddum, enda hefur það káfað upp á andlega og félagslega velferð stórs þjóðfélagshóps. Okkur skiptir öll minna máli hvort kirkjan boðar að bænir virki eða að líf haldi áfram eftir dauðann í faðmi guðlegra vera ef rétt sé á málum haldið. Slíkar kenningar eru að sönnu fullkomlega villuráfandi, en þær meiða ekki lengur, að minnsta kosti ekki í meðförum Þjóðkirkjunnar sem fyrir löngu hefur aflagt Djöfulinn og helvíti hans.

Í dag er ærin ástæða til að fagna því að andlegt helvíti trúaðra samkynhneigðra einstaklinga hefur verið aflagt á Íslandi. Svo er bara að vona að aðrar stórar kirkjudeildir í ríkjunum í kringum okkur taki Karl og Þjóðkirkjuna sér til fyrirmyndar.

Fagurt og fjölbreytilegt mannlíf er í sjónmáli, þar sem sátt ríkir og friður. Til hamingju með það öllsömul.

Birgir Baldursson 26.06.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/06/10 12:27 #

Aumingja Karl. Biskupinn, pabbi hans, hafði þetta að segja um hjónaband samkynhneigðra:

"Út af fyrir sig skaðar það ekki hjónabandið sem stofnun að þeir giftist. Það er bara algjör fjarstæða." "Óskynsamlegt sé að vatna út hjónabandið með slíkri skammsýni.

Sjá hér.


Ásta Elínardóttir - 26/06/10 15:27 #

En ég skil þessa -afsökunarbeiðni- ekki alveg nógu vel.

Afsakið að ég var á móti samkynhneigðu hjónabandi en þar sem það er nú löglegt þá er þetta hvort sem er ekki hjónaband alveg eins og ég sagði upphaflega en samt fyrirgefið að ég sagði sannleikan og held því áfram með því að búa til nýtt orð undir þann gjörning sem einu sinni kallaðist hjónaband <<

þetta er það eina sem ég fæ út úr þessum orðum hans.


Ingi Rúnar 'Arnason - 26/06/10 16:08 #

Er þetta ekki dæmi um hvernig kirkjan eltir samfélagið? Ríkið og Karl fara á móti biblíunni,og samkynhneygðir vilja sumir hverjir tilheyra stofnun sem fyrirlítur þá. Það er margt skrítið í kýrhausnum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/06/10 22:10 #

Er Karl að biðjast afsökunar á því sem hann sagðist? Dró hann orð sín til baka? Mér sýnist hann biðjast afsökunar á því að fólk hafi tekið orðum sínum illa - og svo lýgur hann því að þetta hafi verið sagt í fljótfærni.

Ég kaupi þetta ekki. Þetta er hluti af almannatengslaherferð ríkiskirkjunnar.


Þröstur - 26/06/10 23:57 #

Það er jú skemmtileg tilviljun að þessi afsökunarbeiðni komi akkúrat þegar ný lög verða að veruleika.

Finnst þetta vera augljóst PR stunt fyrir þjóðkirkjuna.


Halldór C - 27/06/10 01:21 #

dæmigerður diplómatískur sleikjuskapur til að halda stöðu sinni og launum, spila með sigurvegurunum.

álíka traustvekjandi þessi maður og Ólafur forseti


Kári Emil Helgason - 27/06/10 22:05 #

Þetta er augljóslega pólítískt. Það ríkir nokkuð almenn samkennd meðal Íslendinga um þetta mál og hann vill ekki fá alla upp á móti sér. Annars þekki ég nú ekki marga samkynhneigða sem eru enn í Þjóðkirkjunni; ég held flestir þeirra trúuðu samkynheigðu á Íslandi hafi flust til Fríkirkjunnar eða annarra trúfélaga þegar hann sagði þetta um öskuhauginn, amk allir sem ég þekki og ég er sjálfur hommi.


Einar Steinn - 30/06/10 00:04 #

Mer thykir nu thessi meinta afsokunarbeidni i meira lagi linsodin og gef litid fyrir hana. Hann 'bidst afsokunar' en heldur thvi fram ad hann hafi nu i raun ekki meint thetta svona og gert hafi verid of mikid ur ordum hans. Thad er biskup Islands sem let thetta ut ur ser og sidast thegar eg vissi bjo ordid ´sorphaugar´ ekki upp a serlega vida tulkun. Hann fer auk thess undan i flaemingi thegar hann er spurdur hvort afstada hans hafi breyst og segir ´skiptar skodanir innnan kirkjunnar´ um thetta. Thad getur varla talist svar vid spurningunni.


Árni Árnason - 06/07/10 00:12 #

Þetta nýjasta útspil biskupsins sýnir bara að hann er alger aumingi. Hann hefur ekki kjark til þess að standa á skoðunum sínum og forneskjulegum kenningum kirkjunnar. Það kemur alltaf að því þegar til kastanna kemur þá þykir biskupum og prestum alltaf vænst um vel launuðu innivinnuna sína og eru flestir tilbúnir að kasta sannfæringu og trúarkenningu á sorphaugana ef svo ber undir.

Þó að ég vilji samkynhneigðum allt hið besta get ég enganvegin séð að það séu einhver réttindi að "fá" að giftast í kirkju, sem þegar hefur lýst sinni óbeit á samkynhneigðum, en lyppast til þess í einhverjum popularisma að halda friðinn svo að ekki sjóði uppúr sambandinu við peningamylluna.

Ég sé ekki að biskupinn hafi séð að sér, hann átti val um að standa á kenningunni, einangrast og að lokum fá yfir sig aðskilnað ríkis og kirkju fyrr en ella, eða gefa eftir og halda status quo.

Ég er alltaf að vona að kirkjan hætti þessum popularisma svo að við losnum einhverntíma við hana. Það verður seint með þessu áframhaldi því miður.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.