Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Siðvit samfélags

Af hverju ætti nokkur lifandi maður að leggja eyrun við þegar leikmaður ætlar að úttala sig um siðferði? Eru ekki siðfræðingar og jafnvel guðfræðingar okkar helsta átorítet í þeim efnum? Er eitthvað að græða á trúlausum götustrák þegar kemur að þessum merka málaflokki?

Ef þið sæjuð auglýstan fyrirlestur um siðferði á nýrri öld, mynduð þið ekki strax athuga hver það væri sem þar myndi stíga í pontu? Væri það ekki traustvekjandi ef sá væri titlaður siðfræðingur við Háskóla Íslands, nú eða guðfræðingur við sama skóla? Mynduð þið nenna að mæta ef fyrirlesarinn væri Birgir Baldursson, tónlistarmaður og kjaftfor trúleysingi - götustrákur?

Af hverju leggið þið traust ykkar á titla og starfsgreinar? Samræmist það gagnrýninni hugsun að taka því sem gefnu að sið- eða guðfræðingur hafi meira vit á málefninu? Er það gefið að allt sem siðfræðingurinn segir sé sjálfkrafa það réttasta sem hægt er að segja? Er slíkt ofurtraust á kennivaldi ekki rökvilla? Ber ekki fremur að meta það sem sagt er á skala gagnrýninnar hugsunar burtséð frá því hver talar?

Er ekki einmitt líklegra að minna muni fást afgerandi upp úr fræðimanninum en leikmanni? Er doktorinn og prófessorinn ekki þjálfaður í að slá engu á föstu og tala varlega, eins og sönnum fræðimanni sæmir? Er ekki líklegra að leikmaðurinn negli hlutina óhræddur af því að hann á engan starfsheiður að verja, heldur bara götustrákaheimspeki sína?

Jæja, eftir heilar þrjár efnisgreinar af spurningum er kominn tími til að varpa fram svörum. Ég ætla í þessu greinarkorni að veita ykkur innsýn í afgerandi þankagang minn um siðferði og siðvit. Hugmyndir mínar eru skýrar og ég skef ekki utan af hlutunum, en um leið bið ég ykkur að skoða allt sem ég segi með allri þeirri gagnrýnu hugsun sem þið búið yfir. Það ætti að reynast ykkur auðveldara en ef heimspekingur/guðfræðingur hefði sett saman þenna texta, því ég er jú aðeins einhver reiður gaur út í bæ og alveg laus við akademíska ögun. Þar með er ég berskjaldaðri fyrir gagnrýni, sem er fínt. Gagnrýni er góð.

Lykilorðið hér er gagnrýnin hugsun. Ég hef ofurtrú á henni og þrái að sjá sem mest af henni í umhverfi mínu. Ég tel gagnrýna hugsun fela í sér betra og merkara siðvit en allar dogmur geta nokkurn tíma látið í té, hvort sem þær heita trúar- eða fræðikenningar.

Sá sem iðkar gagnrýna hugsun hefur í hendi sér að koma auga á besta hugsanlega siðferði sem menn geta mögulega komið sér upp. Og góðu fréttirnar í því samhengi eru þær að sú siðferðisþjálfun er ekki á nokkurn hátt flókin eða aðeins á færi einhverra egghausa að skilja. Hún er í raun dásamlega einföld:

Gerðu það sem þér sýnist svo lengi sem það skaðar ekki umhverfið og aðra!

Er þetta ekki fallega einfalt? Engar flækjur, engar vangaveltur um leikreglur og lífsgildi, engar fyrirskipanir upp úr ritum bronsaldarmanna, bara þessi brýning um að skaða ekki annað fólk og jörðina sem við stöndum á.

Í stað þess að hanga í doðrantafylli af fyrirmælum um aðskyldustu mál, hvort sem skruddan heitir Biblía, Jónsbók eða Lögbirtingur, þá beitum við áhaldi á hverja þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Við beitum gagnrýninni hugsun: Er það sem ég ætla að gera á einhvern hátt skaðlegt öðrum? Mun ég skilja eftir mig sár í sálarlífi eða umhverfi? Ekki það? Ókei, þá get ég farið mínu fram.

Einfalt. Við þurfum einfaldar lausnir í þessum flókna heimi. Sá sem þráir að auðgast getur ekki með góðri samvisku látið háttsemi sína bitna á saklausu fólki, stundi hann gagnrýna hugsun. Auðurinn verður að vera verðskuldaður og reiddur fram af gleði þeirra sem telja sig fá andvirði hans á einhvern hátt í staðinn. Þannig má listamaður verða forríkur mín vegna, ef neytendur listar hans greiða glaðir fyrir að fá skammt sinn af því sem í boði er. Á engum er svindlað og enginn rændur. Og góður listamaður selur einfaldlega meira en slæmur. Það ætti að verða mönnum hvatning til að standa sig vel í sínu.

Einfalt. En er mér þá sem aðdáanda listamannsins stætt á að hlaða niður verkum hans gegnum torrent af því að hann er svo ríkur hvort eð er? Nei, það skaðar hann og þess meir sem fleiri hugsa á þann óheiðarlega máta. Þarna gildir Immanuel Kant eða Bastían bæjarfógeti:

Engum sæmir annan svíkja, alla sóma stunda ber - Annars geta menn bara lifað og leikið sér.

Hvað með álitamál sem kirkjunni hafa alltaf verið hugleikin? Hvað með að girnast sama kyn og vilja stofna til hjónabands á þeim forsendum. Skaðar það einhvern (tja á verri hátt en að einhverjir afturhaldssamir trúmenn verði hneykslaðir í eina mínútu og jafna sig svo)? Nei, það skaðar ekki nokkurn mann og hver sá sem ætlar að halda því fram að slík ráðstöfun skaði sig andlega vegna trúarskoðana er sjálfur að skaða umheiminn með því að troða heimskulegum viðhorfum sínum upp á umhverfið og krefja það um að taka nótis. Kynlíf homma skaðar ekki, en fordæming þess skaðar homma, ættingja þeirra, ástvini og alla þá sem bera hag þeirra fyrir brjósti.

Skólakerfi okkar er á villigötum. Gríðarleg áhersla er lögð á að innræta börnum eitthvað sem heitir kristilegt siðgæði og innifelur til að mynda hommahatur, kvennakúgun, hræsni og dramb. Ekki reyna að þræta fyrir það þið frjálslyndu guðfræðingar með alla ykkar grænsápu og kjörbúðarkristni. Þið eruð á kafi í einhverju Stokkhólmssyndrómi, verjið kúgunarvaldið sem heldur ykkur í hugarfjötrum. Í stað kristilegrar innrætingar í skólakerfinu ætti að koma áhersla á að kenna nemendum gagnrýna hugsun.

Auðvitað er kirkjunni í nöp við gagnrýna hugsun innan veggja skólanna. Þjónar hennar vita sem er að vaxi heilu kynslóðirnar upp við slíkt veganesti mun efahyggjan ráða ríkjum og kirkjusjóðir svelta. Í krafti þeirrar ömurlegu hugsjónar einnar að viðhalda sjálfri sér skaðar kirkjan samfélagið með kristilegu inngripi í kennsluhætti almenna skólakerfisins. Hún passar upp á sitt.

Slíkt er auðvitað í hæsta máta siðlaust.

Og það er lygin líka, þetta fáránlega skrök um að trúin sé meðfædd og nauðsyn hverjum manni. Í hvert sinn sem kirkjunni tekst að fá einstakling til að leggja trúnað á þann áróður hefur hún skaðað hann. Þarna hefur hún plantað tiltrú á ófullkomleik og ófullnægju, sem hún síðan býður upp á falslausnir við, bæn og heilög sakramenti. Hún er eins og maður með sleggju sem fótbrýtur samborgara sína til að geta selt þeim gips og sjúkraþjálfun.

Allt þetta er boðendum kristninnar sennilega ósýnilegt. Þeir eru sjálfir á valdi skaðans, skemmdir af innrætingu sér eldri kynslóða og skila meininu áfram til þeirra sem á eftir koma. Og þannig myndi það halda áfram um aldur og ævi ef ekki kæmi til sögunnar gagnrýnin hugsun.

Ísköld, hárbeitt, efasöm og gagnrýnin hugsun er það sem samfélag okkar þarfnast. Slíkur hugsunarháttur sker burtu meinsemdir sem hindurvitni hafa plantað í frjóan jarðveg uppvaxandi kynslóða. Gagnrýnin hugsun kemur auga á hvað er skikkanleg hegðun og hvað er skaðlegt, í stað þess að hanga þurfi yfir kennivaldsritum í þeim efnum, ritum sem um langan aldur útvarpa engu nema fordómum genginna kynslóða sem ólust upp í sömu fáviskunni og kirkjan reynir enn að boða. Skerum burtu meinin, kennum börnum gagnrýna hugsun.

Siðviturt og heilbrigt samfélag verður uppskeran.

Birgir Baldursson 15.03.2010
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Carlos - 15/03/10 15:00 #

"Af hverju ætti nokkur lifandi maður að leggja eyrun við þegar leikmaður ætlar að úttala sig um siðferði? Eru ekki siðfræðingar og jafnvel guðfræðingar okkar helsta átorítet í þeim efnum? Er eitthvað að græða á trúlausum götustrák þegar kemur að þessum merka málaflokki?"

Stundum hafa götustrákar og farandprédikarar meira fram að færa en kennimenn með skipunarbréf.

"...ofurtraust á kennivaldi ... rökvilla ..."

Læmingjarökvillan eða hjarðmennskuvillan, allir að elta forystudýrin.

"Er doktorinn og prófessorinn ekki þjálfaður í að slá engu á föstu og tala varlega, eins og sönnum fræðimanni sæmir? Er ekki líklegra að leikmaðurinn negli hlutina óhræddur af því að hann á engan starfsheiður að verja, heldur bara götustrákaheimspeki sína?"

Ef niðurstaðan á að vera algild siðfræði (Kant), þá er e.t.v. ákjósanlegt að "negla hana" af djörfung og dug. Tökum dæmi af þeirri kennisetningu sem þú leggur til:

"Gerðu það sem þér sýnist svo lengi sem það skaðar ekki umhverfið og aðra!"

Hún er e.t.v. til sem kennisetning lækna:

"Fyrir það fyrsta, skaðaðu engann."

Á starfsvettvangi mínum sem er grunnskólinn sýnist mér þessi hugsun kristallast í ýmsum verkefnu, s.s. Olweusaráætlun gegn einelti, lífsleikni, ART eða hvað þessar leiðir heita nú allar.

Lítið fer í skólanum fyrir því kristna "siðgæði (sem)innifelur til að mynda hommahatur, kvennakúgun, hræsni og dramb", eins og þú kemst svo skemmtilega að orði. Svo lítið að ég hef ekki orðið þess var, frá því að ég tók að starfa sem leiðbeinandi og síðan kennari árið 2007.

Ég ætla ekki að þræta fyrir Stokkhólmssyndrómið, að frjálslyndir prestar og guðfræðingar eiga erfitt með að gagnrýna kirkju sína í verki (þótt þeir geri það stundum í orðum). Ég bendi á að freisting þess sem telur sig hafa höndlað sannleikann, er að eiga erfitt með að taka gagnrýni. Óháð trúfélagsaðild.

Ég get tekið undir niðurstöðu þína, að gagnrýni er nauðsynleg, sérstaklega þegar kemur að uppfræðslu ungviðisins, allt frá fyrstu gerð.

Enda er þannig um hnútana búið að gagnrýni og gagnrýnin hugsun er skrifuð inn í allar greinar skólans skv. aðalnámskrá. Líka kristinfræði og trúarbragðasögu.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 21:35 #

Sæll, Carlos

smá tips, ef þú gerir svona hornklofa > á undan málsgrein þá birtist hún svona

málsgrein

Til að feitletra setur maður tvo * á undan og eftir þeim orðum sem þú vilt feitletra. svona

tvær stjörnur á undan og eftir því sem ég vil feitletra.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 22:47 #

Ísköld, hárbeitt, efasöm og gagnrýnin hugsun er það sem samfélag okkar þarfnast. Slíkur hugsunarháttur sker burtu meinsemdir sem hindurvitni hafa plantað í frjóan jarðveg uppvaxandi kynslóða.

Góð og að mínu viti sönn grein, Birgir.

Eitt mættum við efasemdarmenn þó reyna að finna leið til að vefa betur inn í viðmót okkar við umheiminn og skoðanafjendur. Það er eiginleiki sem flestir hópar rækta hvað best innbyrðis og gengur út á að ætla alltaf öðru fólki að meina vel og ætla því að halda það sem það heldur af einlægni.

Mér dettur í hug að segja þetta sem mótvægi við hugmyndinni um að meta hlutina ískalt - sem þó er góð pæling.

Ég held að það sé alltaf pláss í gagnrýni á hugmyndir fyrir dálitið vingjarnlega og manneskjulega framsetningu á hlutunum, sem aftur er líklegri til að verða ef maður er duglegur að ætla viðmælendum sínum að halda í sína afstöðu til hlutanna af sömu einlægni og velvilja og maður telur sjálfur að maður geri.

Það má þó ekki verða til þess að gagnrýni og efasemdir verði álitin slæm hugtök, eins og maður fær stundum á tilfinninguna að trúfólk telji, svo það er þarna einhver millivegur sem þarf að læðast eftir.

  • Svo maður gerist nú dálítill prédikari ;)

Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 23:18 #

Enginn prédikar betur en Prédikarinn:

Að rífa niður hefir sinn tíma og að byggja upp hefir sinn tíma, að kasta steinum hefir sinn tíma og að tína saman steina hefir sinn tíma,að rífa sundur hefir sinn tíma og að sauma saman hefir sinn tíma, að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma, ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma.

En þá að reglunni:

Gerðu það sem þér sýnist svo lengi sem það skaðar ekki umhverfið og aðra!

Þetta er nálægt því að segja: Gerðu ekki öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér.

Þetta segir í raun bara hvað á ekki að gera en fjallar ekkert um það sem ber að gera. Ber manni bara að gera það sem manni sýnist eða er til eitthvað sem heitir siðferðileg skylda - þótt maður vilji helst ekki þurfa að beygja sig undir hana?

Ég held að fólk sé gott í grunninn og því óþarfi að vera með langan bannalista eða langan boðorðalista. Flest viljum við öðrum vel og að öll dýrin í skóginum séu vinir... en svo birtast vargarnir og þá vitnar maður bara í prédikarann.


Vigfús Pálsson - 16/03/10 00:27 #

Er verið að kvarta yfir því að það er hlustað á suma frekar en aðra ? Það finnst mér skína í gegnum þessi skrif þín Birgir. Ég vil minna á æfaforn sannindi, sem eru... „Virðing er áunnin, en ekki ákveðin“. Ef þú ert ósáttur við þessi sannindi þá er það þitt vandamál, en ekki þeirra sem þú vilt að hlusti á þig eða lesi skrif þín.


Þú ættir að íhuga það að vanda betur orðaval þitt, þannig að þeir sem lesa texta þinn, hristi ekki bara hausinn yfir honum. Mikill meirihluti íslendinga eru engir asnar og gera sér vel fyrir því hvenær orðfærið er illa notað. Tökum dæmi úr grein þinni.


Af hverju leggið þið traust ykkar á titla og starfsgreinar? Samræmist það gagnrýninni hugsun að taka því sem gefnu að sið- eða guðfræðingur hafi meira vit á málefninu?


Hverjir eru ÞIÐ ? Ég gef mér að þú ert að rita um almenning. Hér byrjar þú á því að halda því fram að almenningur sé með fyrirfram ákveðna skoðun á því hverjum skuli taka mark á en öðrum ekki, Bara út frá titlatogi. Ekki er byrjunin beysin þegar lítið er gert úr þeim sem ætlunin er að ná til.
Ræðum nú örlítið innihald greinar þinnar. Þú ritar um að siðferðisþjálfun er í raun dásamlega einföld.

Gerðu það sem þér sýnist svo lengi sem það skaðar ekki umhverfið og aðra!


Jæja. Þessi rituðu orð eru svo sannarlega sönn, að vísu er afar óheppileg rökvilla í þeim, sem er örugglega óvart hjá þér, talsmaðnni gagnrýnnar hugsunar. Næstsíðasta orðið í setningunni “og” er meinleg rökvilla og stenst aldrei gagnrýna hugsun. Hér verður að standa orðið “eða” til að boðskapurinn verði ekki afskræmi.
Ég má til með að benda þér á að ein setning í Biblíunni er með því sem næst sama boðskap. “Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera”. Ég held að ég geti fullyrt að þennan sama boðskap sé að finna í öllum trúarbrögðum hér í heimi. Ég er einnig viss um að þennan boðskap er að finna í löggjöf allra ríkja hér í heimi Vertu velkominn þennan risastóra hóp.
Ég verð að vitna í eina málsgrein enn í rituðum texta þínum.


Skólakerfi okkar er á villigötum. Gríðarleg áhersla er lögð á að innræta börnum eitthvað sem heitir kristilegt siðgæði og innifelur til að mynda hommahatur, kvennakúgun, hræsni og dramb. Ekki reyna að þræta fyrir það þið frjálslyndu guðfræðingar með alla ykkar grænsápu og kjörbúðarkristni. Þið eruð á kafi í einhverju Stokkhólmssyndrómi, verjið kúgunarvaldið sem heldur ykkur í hugarfjötrum.


Örstutt þýðingu yfir á Íslensku er… “Fullyrðing mín er rétt. Þegið þið svo.
Jæja. Byrjaði greinin ekki á því að gefa í skin að það ætti að taka meira mark á leikmanninum ( þér?) frekar en einhverjum fræðimanni með titil. Hversu mikinn fjölda ætli þú hafir sannfært með þessari rituðu setningu ? Telur þú Birgir að þeir sem lesi þessa málsgrein sjái fyrir sér að ritari þessara orða sé málsvari fyrir

“Siðviturt og heilbrigt samfélag”.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 02:22 #

Takk fyrir þetta, Vigfús.

Svo ég svari þessu síðasta fyrst:

Byrjaði greinin ekki á því að gefa í skin að það ætti að taka meira mark á leikmanninum ( þér?) frekar en einhverjum fræðimanni með titil.

Af hverju heldurðu að ég hafi sagt þetta? Vil ég að fólk taki meira mark á mér en fræðimönnum? Hvílík endemis firra. Það sem ég sagði var þetta:

Ber ekki fremur að meta það sem sagt er á skala gagnrýninnar hugsunar burtséð frá því hver talar?

Minn boðskapur er alltaf og ætíð sá að einblínt sé á málefnin og persónur látnar liggja á milli hluta.

Síðan ræðirðu þessi orð mín:

Af hverju leggið þið traust ykkar á titla og starfsgreinar? Samræmist það gagnrýninni hugsun að taka því sem gefnu að sið- eða guðfræðingur hafi meira vit á málefninu?

Hér er bara sama hugsun í gangi, einblína á málefni en ekki menn. Morðinginn getur haft eitthvað til málanna að leggja í siðferðisefnum, frjóa hugsun og nýja vinkla. Ekki vísa því sem hann segir á bug af því að hann er morðingi, heldur aðeins ef orð hans halda ekki rökum.

Að lokum: Myndi og/eða henta betur en þetta og þarna í lífsreglunni?


gös - 16/03/10 10:07 #

Af hverju leggið þið traust ykkar á titla og starfsgreinar?

Þetta er falleg hugsjón, Birgir, en erfið í framkvæmd.

Ekki er mögulegt fyrir okkur að lesa allt ritað efni sem í boði er, jafnvel þótt við erum að takmarka okkur við sæmilega stórt svið eins og siðferði. Við verðum að hafna miklum meirihluta efnisins ólesið.

Spurningin er því: Á hvaða forsendum veljum við og höfnum?

Þvert gegn því sem þú skrifar að ofan held ég að það sé góð þumalputtaregla að skoða frekar texta eftir menn sem eru menntaðir í þeim efnum sem þeir tjá sig um. Ekki eingöngu, og ekki gagnrýnislaust, en sem útgangspunktur held ég að hún sé góð.

Næst ættu menn að gera sér undantekningalista á reglunni, byggt á eigin reynslu og rökum. Á mínum eru t.d.: - Sérstaklega er mark takandi á mönnum með prófgráður þegar kemur að raunvísindum. Þeir sem koma upp um fávísi sína í viðkomandi grein eru alveg ómarktækir. - Lítið er mark takandi á guðfræðingum þegar kemur að siðfræði. ...og svo framvegis.

Þegar þú svo ákveður að lesa texta, þá ætti boðskapur þinn um málefni og menn að gilda að mestu, en þó með undantekningum. Þú ættir að vera tilbúinn til að taka mark á próftitluðum mönnum þegar þeir staðhæfa eitthvað á borð við: "Þróunarkenningin er viðtekin staðreynd meðal meginþorra líffræðinga," sérstaklega ef þú hefur lesið viðlíka hjá öðrum. Einnig ættir þú að einblína á persónuna á þann hátt að þú munir hverjir skrifa texta sem þér þykir góður (eða fræðandi, áhugaverður, skemmtilegur) og hverjir gerir það ekki til að bæta val þitt á lestrarefni í framtíðinni.

Ég las þessa grein þína ekki af tilviljun, heldur af 2 ástæðum sem ganga gegn einni meginhugmynd greinarinnar: 1) Hún er birt á vef Vantrú. Mín reynsla er sú að þar eru oft góðar greinar og ég tek meiri mark á þeim sem fá þann stimpil að vera birtar þar. 2) Hún er skrifuð af Birgi Baldurssyni. Mín reynsla er sú að hann skrifi góðar greinar og ég tek meiri mark á það sem hann skrifar heldur en margir aðrir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 11:15 #

Gott innlegg, gös, en ein ábending: Ég var ekkert að tala um raunvísindi. Fyrsta málsgreinin í pistlinum er:

Af hverju ætti nokkur lifandi maður að leggja eyrun við þegar leikmaður ætlar að úttala sig um siðferði?

Ég er hjartanlega sammála þér um raunvísindin. Þar eiga frumlegar hugmyndir fúskara sjaldan kollgátuna. En ég tel öðru máli gegna um siðfræðina:

Af hverju leggið þið traust ykkar á titla og starfsgreinar?

Hér er ég ekki að tala um hvaða titla og starfsgreinar sem er, heldur einmitt siðfræðinga og guðfræðinga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 11:32 #

Carlos:

Lítið fer í skólanum fyrir því kristna "siðgæði (sem)innifelur til að mynda hommahatur, kvennakúgun, hræsni og dramb", eins og þú kemst svo skemmtilega að orði. Svo lítið að ég hef ekki orðið þess var, frá því að ég tók að starfa sem leiðbeinandi og síðan kennari árið 2007.

Þetta má vel vera rétt. Aftur á móti er kirkjan með kverkatak á skólakerfinu og börnum er þar innrætt að hún sé traust átorítet í siðferðilegum efnum. Þegar þau svo koma út í lífið með þá hugmynd í kollinum sjá þau kirkju sem stendur í vegi fyrir hjónabandi samkynhneigðra og heldur dauðahaldið í "siðinn", hvort sem afleiðingarnar eru góðar eða slæmar.

Ef þessi uppvöxnu börn hafa ekki tamið sér gagnrýna hugsun fylgja þau þessu kennivaldi og viðhalda þeim fordómum sem kirkjan heldur á lofti með orðum sínum og athöfnum.


gös - 16/03/10 13:21 #

Ég var ekkert að tala um raunvísindi.

Ekki ég heldur. Ég tók það sem eitt dæmi, sem og siðfræði.

Ég held að þumalputtareglan mín eigi mismikið við, en alltaf eitthvað, þar með talið í siðferði. Ég er líklegri til að lesa grein um siðferði eftir heimspeking eða meðlim Vantrúar (sem ég veit af reynslu hafa öllu jafnan hugsað mikið um þau mál) heldur en Jón Jónsson út í bæ. Ég er aftur sem áður að skoða rök sumra og hafna annarra ólesin byggt á titlum og átoritet.


Carlos - 16/03/10 13:32 #

(kirkjan hefur)kverkatak á skólakerfinu og börnum er þar innrætt að hún sé traust átorítet í siðferðilegum efnum. Þegar þau svo koma út í lífið með þá hugmynd í kollinum sjá þau kirkju sem stendur í vegi fyrir hjónabandi samkynhneigðra og heldur dauðahaldið í "siðinn", hvort sem afleiðingarnar eru góðar eða slæmar.

Ég held að þetta sé ofsagt. Hinsvegar hefur kirkjunni mistekist að koma gagnrýnum biblíuvísindum til skila og ýmsar prédikanir presta eru eins og þau séu nánast ekki til.

Ég ætla rétt að vona, að andóf þeirra presta og leikmanna kirkjunnar, sem andmæla hommahatri etc. sýni það með andófi sínu að ekki er ein rétt skoðun, stimpluð og blessuð að eilífu, amen (svo ég prófi nú alla fídusa þessa Movable Type, takk Trausti). Að maður megi vera ósammála æðsta yfirmanni og halda embætti ...

Annars held ég að þú ofmetir kennivald kirkjunnar. Ég held ekki að kirkjan móti viðhorf Íslendinga til hjónavígslu samkynhneigðra núna, heldur gagnrýnni umræða og ferskir vindar úr öðrum samfélögum.

Ég veit ekki hvort eitt og í gullnu reglu Birgis sé rökvilla, en hún leyfir siðferðilega óvissu. T.d. þessa:

Ef velja á milli þess að skaða náttúru/umhverfi eða skaða persónu, hvort skal velja?

Þar kemur að því að einföld siðfræði götunnar þarf að fá annað hvort boð/bönn eða siðvitund sem túlkar og leiðir gerandann í gegnum óvissuna.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 16:44 #

Hinsvegar hefur kirkjunni mistekist að koma gagnrýnum biblíuvísindum til skila og ýmsar prédikanir presta eru eins og þau séu nánast ekki til.

Þetta er eitthvað sem ég myndi gjarnan vilja sjá frjálslynda presta/guðfræðinga/trúmenn eins og þig tala meira um. Biskupar og prestar segja að fæðingarsögur Jesú séu heilagur sannleikur og að biblían sé óskeikul og það heyrist ekki neitt í fólki innan kirkjunnar sem ætti að vita betur. Er ekki málið einfaldlega það að þetta er vitneskja sem flestir þarna halda að geti bara skaðað kirkjuna?


Carlos - 16/03/10 19:02 #

Biskupar og prestar segja að fæðingarsögur Jesú séu heilagur sannleikur og að biblían sé óskeikul og það heyrist ekki neitt í fólki innan kirkjunnar sem ætti að vita betur.

Sammála, meir en pirrandi. Við notum biblíuna í stól til að túlka lífið. Spurninguna um hvað og hvernig þetta er ó/satt fær ekki mikið rými, því miður. Nema þegar kemur að því að nota biblíuna til réttlætingar á eigin gæluverkefnum og fordómum. Þá er auðvelt að taka upp orðin "... eins og segir í helgri bók ..." og gera eins og þú segir.

Lúther sagði sjálfur að Biblían væri notuð eins og vatnsnef sem er snúið og lagð að sérhverju andliti. Þessvegna er pointið hans Birgis svo mikilvægt, þetta með gagnrýnina. Ég á ennþá gamla bók í hillu eftir Barret sem tekur á þessum vandamálum. Hún heitir "The Use and Abuse of the Bible" og er frá því seint á 8. áratugnum.

Ég held að kirkja, sér í lagi þjóðkirkja þurfi að leyfa gagnrýni og fjölda skoðana og viðhorfa. Annars verður hún dálítið eins og þú og félagar í Vantrú lýsið henni. Sem betur fer er íslenska Þjóðkirkjan ekki lokað og skoðanakúgandi stofnun. Frekar en íslenskt samfélag er lokað einhyggjusamfélag. Til þess er hún of mannmörg og fólkið of ólíkt sem þjónar henni.

Er ekki málið einfaldlega það að þetta er vitneskja sem flestir þarna halda að geti bara skaðað kirkjuna?

Takk fyrir að spyrja, Hjalti. Það sem okkur var sagt í prédikunarfræðum var að skilja hráa ritskýringu eftir heima, þegar við færum í stólinn. Til að svæfa ekki kirkjugesti með einhverju sem er fráhrindandi. Það er bara hægt að koma svo og svo miklu fyrir í 12 mínútna prédikun.

Svo verður að játast, að biblíufræðin eru erfið. Nútímaprédikari þarf að vera víðlesinn og tilbúinn til að takast á við notkun og misnotkun biblíutexta í sögu og samtíð. Ekki ráða allir við það, þrátt fyrir fimm ára nám. Hefur svolítið með sjálfstæði og sjálfsöryggi prédikarans að gera ... auk menntunar hans.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.