Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Grænsápuguðfræði

Í gegnum aldirnar hefur kristin trú markað skýrar línur bundnar af bókstaf biblíunnar. Þannig var fólk ofsótt fyrir að halda öðru fram en því sem stóð í biblíunni. Slík trú á sér nú fáa formælendur og kallast í daglegu tali bókstafstrú. Með meiri þekkingu og upplýsingu hefur kristin guðfræði smá saman tekið á sér nýja mynd. Þessa nýja guðfræði mætti með sönnu kalla grænsápuguðfræði því að í þeim kviksandi er engu hönd á festandi.

Þegar þú heldur að hægt sé að ná utan um trú grænsápuguðfræðings til að gagnrýna hana, þá rennur hún umsvifalaust úr greipum manns. Hluti af þessari fræðigrein er að taka heimskan texta eftir skrælingja og reyna að útlista hann sem djúpvitran sannleik. Jafnvel eru skrifaðir heilu bókaflokkarnir um eina setningu til að sanna aftur og aftur fyrir öðrum fræðingum að trú þeirra sé í lagi. Þannig taka jafnvel einföldustu setningar nýja merkingu í hvert skipti þegar ný hætta steðjar að textanum.

Til að útiloka alla gagnrýni á kristni virðist nú vera skilyrði að menn hafi full grænsápuréttindi til að tjá sig. Vissulega mega leikmenn og lærðir skrifa jákvæða umfjöllun þar sem gamlir leyfðir frasar eru endurteknir sí og æ á barnalegan hátt. En sömu fræðimenn fá jafnvel kast þegar vegið er að ritningunni. Ásaka viðkomandi gagnrýnanda umsvifalaust um þekkingarleysi á "djúpvitrum" ritningartextanum. Þannig reynir kirkjan í nútímasamfélagi að breiða yfir heimskuna sem fylgir því að byggja alla sína trú á einni gamalli bók.

Það er ágætt að menn skrifi heilu bókaflokkanna um fornbókmenntir. En þegar tilgangurinn er sá að upphefja gamla blóðfórnartrú sem nútíma sannleik þá er því miður botninum náð í allri fræðimennsku.

Frelsarinn 23.05.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja , Klassík )

Viðbrögð


Snær - 23/05/04 14:21 #

Frábært. Þá er loksins hægt að kalla þessa dilemmu einhverju haldbæru nafni.


Siggi - 23/05/04 19:59 #

hehe mér finnst nokkuð skondið að þið skulið biðja fólk um að sleppa öllum ærumeiðingum í skoðunum sínum en samt eruði að láta skotin dynja á kristinni trú.. iss


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 23/05/04 20:44 #

Það eru ekki ærumeiðingar að gagnrýna kristna trú. Persónuárásir og svívirðingar við fólk eru ærumeiðingar. Siggi, þér er velkomið að „láta dynja á“ mönnum málefnalegar athugasemdir.


Árni Árnason - 24/05/04 16:40 #

Grænsápuguðfræði. Nokkuð smellið orð. Þeir sem reynt hafa að rökræða við trúað fólk hafa fengið að kynnast því hvað erfitt er að festa hönd á nokkru sem sagt er. Það má e.t.v. skifta trúuðum svona í tvennt, A. Bókstafstrúar og B. Grænsáputrúar þar sem A stendur einarður á bókstafnum og gefur ekkert eftir, en B er sífellt að "túlka" hlutina til að þeir henti betur tíðarandanum og nýjum viðmiðum.

Á þessu tvennu er þó stigsmunur en ekki eðlis, því að jafnvel hörðustu bókstafstrúarmenn grípa til þess þegar allt um þrýtur að "skilja" bókstafinn ekki bókstaflega, og segja þá að það sé nú alveg augljóst að um myndlíkingu eða tákn sé að ræða. Þeir hanga þó í því að teljast trúaðir. Nútímaprestar eru hinsvegar að stórum hluta bissnessmenn, í Jesú-bransanum eins og sagt er, og eins og góðum sölumönnum sæmir láta þeir ekki hanka sig á neinu sem gæti verið neikvætt eða óvinsælt.


Jedúddamía - 29/05/04 22:35 #

Grænsápuguðfræðingarnir eru skuggalega líkir flestum pólitíkusum, flinkir að komast hjá því að svara spurningum beint eða með rökum, þvæla málið frekar og breyta um umræðuefni.


Arndís Anna Gunnarsdóttir - 09/07/04 12:56 #

Þessi síða hefur valdið mér eilitlum vonbrigðum. Ég hélt ég væri hér búin að finna mjög málefnalegan og skemmtilegan umræðuvettvang um gildi kristinnar trúar í nútímasamfélagi en svo sýnist mér að hér séu tvö lið að berjast gegn hvort öðru eins og um keppni sé að ræða. Markmiðið virðist vera að "drulla yfir" andstæðinginn með biturð og af heift. Þess háttar umræður fara oft út í vitleysu.

Ég er það sem margir kalla "trúlaus", þó ég sé að sjálfsögðu alls ekki trúlaus, ég trúi á gott og slæmt og öfl náttúrunnar t.d. Ég er s.s. ekki kristin. Ég hef hins vegar gaman af að pæla í þeirri speki sem sett er fram í Biblíunni þar sem fá rit hafa haft jafn gríðarleg áhrif á okkar samfélag í gegnum söguna. Það getur ekki talið annað en athyglisvert og mikil mistök að afskrifa það allt saman á einu bretti.

Að verja eitthvað undir því skini einu að verja það er ekki góður málflutningur að mínu mati. Það tel ég hins vegar ekki alltaf vera tilfellið með þessa svokölluðu grænsápuguðfræðinga. Margir vilja trúa, og aðlaga skilning sinn á umheiminum því eftir texta bókarinnar og hafa sig alla í frammi við að túlka þann texta svo hann passi við allt í okkar heimi. Yfir þess konar menn þykir mér orðið grænsápuguðfræðingur einkar lýsandi.

Svo er aftur á móti til fólk sem hóf ÓHÁÐ að rýna í orð biblíunnar og fann út að margt í henni meikaði sens eftir nokkra umhugsun. Þess háttar pælingar eru öllum hollar og í sjálfu sér bara gott að það fólk skuli koma sínum skilningi á framfæri.

Það er alveg nákvæmlega jafn rangt að afskrifa þær hugmyndir og það er að afskrifa alla gagnrýni á þær hugmyndir.

Í stuttu máli: Umræðan hér mætti vera á jákvæðari nótum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/07/04 03:13 #

Hvað ertu að reyna að segja okkur, Arndís Anna? Að við séum hér á fullu að drulla yfir það sem augljóslega er gott í Biblíunni? Skoðum það betur:

Ef við leggjum Biblíuna til hliðar og tökum fram Doddabækurnar gömlu og góðu, þá er augljóslega margt gott þar að finna, siðfræði sem stenst rök og allt. En ef hópur fólks tæki sig saman um að halda því fram að heimsmyndin sem dregin væri upp í Doddabókunum væri sú rétta, að við værum öll leikföng og álfar (eða hvað það nú er sem þetta gengur út á) og byggjum í raun og veru í sveppum, þá fyndist þér ekkert athugavert við það að til væri Vandodd.net, þar sem þetta væri allt saman hrakið og jafnvel dregið sundur og saman í háði.

En ef til væru Doddfræðingar sem hefðu þann starfa einan að túlka þessar bækur og heimfæra upp á veröldina með þeim hætti að "réttur" skilningur á Doddabókunum væri besti lykillinn að þekkingunni og allt vafstur okkar hér á jörð yrðum við að meta "í ljósi Dodda"? Myndurðu ekki mótmæla?

Og ef svo væri komið að Doddistar væru búnir að koma því til leiðar að þessi heimsmynd þeirra væri kennd í skólum og leikskólum, myndir þú ekki sjálf fagna því að sjá grænsápudoddfræðinga og aðra doddnöttara fá sitt óþvegið?

Og værirðu ekki alveg til í að fá líka eina og eina grein þar sem rýnt væri í siðfræði Doddabókanna og bent á hvað væri athugavert þar, þótt boðskapurinn sé ekkert alvondur? Væri það ekki sérstaklega kærkomið ef Doddistar héldu því fram að eini siðaboðskapurinn með viti væri kominn úr Doddabókunum?

Þú skilur vonandi hvað ég er að fara.


Arndís Anna Gunnarsdóttir - 22/07/04 12:01 #

Nei, Birgir Baldurs, ég var ekki að reyna að segja að þið væruð að drulla yfir ýmislegt sem væri augljóslega gott í biblíunni.

Ég var hvorki að hygla Biblíunni né þeirri gagnrýni sem gerð hefur verið á hana. Ég vildi bara óska að umræðan hér væri málefnalegri, ég vona að þú vitir hvað það þýðir. Það þýðir ekki að hygla öllu, það þýðir að sleppa því að "drulla yfir" og gagnrýna frekar. Það er stór munur þar á.

Þessari athugasemd er ekkert frekar beint til gagnrýnenda kristni heldur en stuðningsmanna hennar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/07/04 12:58 #

Málefnaleiki felst í því að halda sig í hvívetna við það sem til umræðu er, en toga ekki umræðuna í aðrar áttir, eða ráðast að persónu þess sem rætt er við.

Kannski er hugtakið "drulla yfir" notað til hugarhægðar af þeim sem varnarlausir eru gagnvart beinskeittri gagnrýni. Sjálfum finnst mér bara fínt ef fólk er beinskeitt og árásargjarnt, svo lengi sem það heldur sig við málefnin.

Því þetta snýst um þau og ekkert annað, a.m.k. í mínum huga. Ég vísa því á bug öllum aðdróttunum um skort á málefnaleika og mana þig til að finna til eitthvert það tilvik hér þar sem ég er ekki með fókusinn á málefnunum, heldur atandi menn í ad hominem eða færandi fókusinn yfir á eitthvað annað.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 12/12/04 20:52 #

Jafnvel eru skrifaðir heilu bókaflokkarnir um eina setningu til að sanna aftur og aftur fyrir öðrum fræðingum að trú þeirra sé í lagi. Þannig taka jafnvel einföldustu setningar nýja merkingu í hvert skipti þegar ný hætta steðjar að textanum

Hér væri fróðlegt að fá upplýsingar um nákvæmlega hvaða setningu er átt við, sem og upplýsingar um bókaflokkinn svo þeir sem ekki sannfærast á staðnum geti tekið þetta til málefnalegrar athugunar og þar með rennt enn styrkari stoðum undir vantrú sína - eða trú eftir atvikum.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/12/04 21:27 #

Mér dytti í hug túlkanir manna á helvíti og hvernig eigi að lesa úr þessari setningu Matt 13:49. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum 50. og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Þetta ber að skilja sem einhvers konar andlegt ástand!?


Ragnar Geir Brynjólfsson - 16/01/05 14:56 #

„En þegar tilgangurinn er sá að upphefja gamla blóðfórnartrú sem nútíma sannleik þá er því miður botninum náð í allri fræðimennsku.“

Og hvað er þessi hugvekja „grænsápuguðfræði“? Ég spyr því svo virðist sem tilkall hennar til þeirrar fræðimennsku sem hún er að gagnrýna grundvallist á hugdettum einum saman:

„Mér dytti í hug túlkanir manna á helvíti og hvernig eigi að lesa úr þessari setningu Matt 13:49. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum 50. og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.“

Fróðlegt væri að sjá heiti bókaflokkanna talin upp sem allir fjalla um Matt 13:49. Þessa einu setningu. Nei lesendur góðir. Ég trúi ekki að við fáum að sjá heiti þeirra talin upp hér því ekkert í grænsápuhugvekjunni gefur henni fræðilegt tilkall. Heimildaskrána vantar. Sérstaklega sakna ég nafna þessara sem „fá kast“ þegar vegið er að ritningunni. Þú leiðréttir mig Hjalti ef trú mín hvað þetta varðar er röng.

Gildi þessa pistils er fyrst og fremst almenns eðlis eða skáldlegs - í víðum skilningi og þar á meðal jákvæðum. Frelsarinn hefur oftar einu sinni sýnt að hann er lipur penni og á gott með að koma fyrir sig orði. Hann hefur sýnt að hann getur skrifað skemmtilegar og athyglisverðar greinar. Til dæmis er frásögn hans um það hvernig hann sannfærðist um trúleysið persónuleg og einlæg og getur sýnt okkur hinum kristnu hvernig við getum tekið okkur á og gert betur. En á meðan vísanir í staðreyndir og heimildir vantar alveg hljóta greinar á borð við grænsápuhugvekjuna að vera fyrst og fremst það sem yfirskrift þeirra ber með sér. Skáldleg hugvekja fyrir vantrúaða sem miðar að því að efla félagslega vantrúarvitund þeirra og skemmta sér yfir á góðri stundu. Gagnrýnin er hugsunin ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/01/05 16:14 #

Til dæmis er frásögn hans um það hvernig hann sannfærðist um trúleysið persónuleg og einlæg og getur sýnt okkur hinum kristnu hvernig við getum tekið okkur á og gert betur.

Betur í hverju? Hvernig þá?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 16/01/05 17:23 #

Ég held að þetta tal um að heilu bókaflokkarnir hafi verið ritaðir um eina setningu séu ýkjur, einhvers konar stílbragð. Þú mátt ekki lesa þetta með bókstaflegum skilningi. Ekki ertu bókstafstrúmaður?


Ragnar Geir Brynjólfsson - 16/01/05 18:53 #

Betur í hverju? Hvernig þá?

Líklega með því að takast betur og af ákveðnari hætti á við tilvistarspurningar á borð við hver sé tilgangur sköpunarinnar, hver sé tilgangur mannlegrar tilveru og hvernig beri að skilja og takast á við þjáninguna í heiminum. Mér virtist við lestur greinar Frelsarans að það sé í viðureign við slíkar spurningar sem hann hafnar trúnni.

Ég held að þetta tal um að heilu bókaflokkarnir hafi verið ritaðir um eina setningu séu ýkjur, einhvers konar stílbragð. Þú mátt ekki lesa þetta með bókstaflegum skilningi. Ekki ertu bókstafstrúmaður?

Sammála. Þetta er skrifað í ýkjustíl og á því fullt tilkall til að kallast skáldskapur - og mér kæmi ekki á óvart þó einhverjir hafi haft gaman af greininni einmitt vegna þessara stílbragða og svo samlíkingunni við grænsápu sem er hnyttin. Ég vildi bara vera viss um þetta og því prófaði ég að bora dálítið í textann. Hvort það gerir mig af bókstafstrúarmanni verða aðrir að dæma um. Þegar ég var í skóla þá var mér kennt að það héti nýrýni og mun hafa átt upptök sín í einhvers konar marxisma ef ég man rétt - það er svo langt síðan - svo varla getur rýnin kallast ný lengur - en hún gerir sitt gagn þegar taka á texta til skoðunar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/01/05 23:05 #

Líklega með því að takast betur og af ákveðnari hætti á við tilvistarspurningar á borð við hver sé tilgangur sköpunarinnar, hver sé tilgangur mannlegrar tilveru

Væri ekki snjallara að byrja á hvort?


Bryndis Svavarsdóttir - 20/09/10 20:35 #

Já sæll... ég er á grænsápustiginu, ef við ræðum þetta ,,bókstaflega" þá mun ég freyða næstu tvö árin, eða þar til ég fæ grænsápu-skírteinið.

Jú, það er rétt menn skrifa heilu bækurnar út frá einni setningu, sem er oftast kölluð ,,rannsóknarspurning". Þetta gera menn í öllum fræðigreinum, menn skrifa BA / BS, MA / MS eða Doktors-ritgerðir út frá einni setningu.

Það er ekkert óeðlilegt að fólk verji sína trú/skoðun - það eru allir í grænsápuþvottinum ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.