Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

ABC Barnahjálp Æ - Ö

Í greininni Skólar í trúboði gagnrýndi ég að grunnskólabörn væru látin afla fjár til trúboðs kristilegra samtaka erlendis - á vegum skólans! Einhverra hluta vegna eru kristin samtök og jafnvel ríkiskirkjan farin að sverja af sér allt trúboð, stundum með furðulegum „rökum“.

Ég efast ekki um að ABC-barnahjálp vinnur margt gott starfið en ég verð að viðurkenna að ég kann engan veginn að meta trúboðsvinkilinn í starfinu og þrátt fyrir afneitun er augljóst af „vitnisburði“ að utan að hann er ekki lítill.

Vitnisburðurinn sem felst í bláa letrinu hér að ofan er frá Kenýa og nú vill svo til að ég þekki ágætlega til í því landi. Eitt það sorglegasta við menningu þjóðarinnar, sem stendur mörgum Afríkuríkjum miklu framar, er að yngri kynslóðir þekkja ekki lengur siði forfeðra sinna. Kristnin er allsráðandi (mótmælendur 45%, kaþólskir 33%) en múslimar (10%) sjást þó líka. Þá er ekki mikið eftir og þann hóp er helst að finna á afviknum stöðum þar sem menntun er lítil. Nýlenduherrarnir (Bretar) sáu til þess að öll kennsla fór fram á ensku með kristinni slagsíðu, og svo er enn.

Auðvitað er æskilegt að sem flestir njóti góðrar menntunar og stórum hluta almennings finnst ekkert athugavert við að börnunum séu jafnhliða kenndur „guðsótti og góðir siðir“, sumum finnst hreinlega bráðnauðsynlegt að kristna börnin sem fyrst og sem rækilegast. Mig grunar að sú sé afstaða (flestra) starfsmanna ABC-barnahjálpar. Stafirnir ABC vísa eflaust í fyrstu skrefin í menntun og þroska barnanna. En getur verið að böggull fylgi skammrifi? Hvað gerist aftar í stafrófinu? Ef við lítum bara til kristninnar þá vitum við að sumir ná alla leið að Æ og Ö, þótt það sé e.t.v. eftir að samtökin ABC sleppa af þeim hendinni.

Við getum lesið að vegna handleiðslu ABC-barnahjálpar stefnir Elvis Mogunde á að prédika fagnaðarerindið út um allan heim en mig langar að segja ykkur sögu af þekktari persónu í Kenya, Esther Arunga, vegna þess að hún er eitt helsta slúðurefni manna þar í landi þessa dagana. Esther var þekkt og dáð sem fréttamaður á sjónvarpsstöðinni KTN þar í landi, eflaust klár, vel menntuð... og vel kristin.

„Fingur Guðs“ er kristið trúfélag, sem var stofnað í S-Afríku fyrir 11 árum. Fyrir þremur árum hóf þessi söfnuður starfsemi í Kenýa undir stjórn tónlistarmanns að nafni Hellon. Einn af undirmönnum hans var unnusti Esther og þau ætluðu að gifta sig í apríl. En fyrir stuttu varð uppi fótur og fit í Kenýa þegar Esther sagði upp störfum í sjónvarpinu, sleit trúlofun sinni og lét sig hverfa úr sviðsljósinu á vit Hellons. Kærasta Estherar var jafnframt vísað úr trúfélaginu og hann sagður vafasamur pappír en hann sakaði Hellon á móti um að vera eiturlyfjasala og hórumangara.

Ekki var það þó svo að Hellon ætlaði Esther fyrir sjálfan sig heldur hafði hann séð í sýn að rétti maðurinn fyrir hana væri Quincy Timberlake Wambito Zuma, æskuvinur hans (og tónlistarmaður líka) búsettur á Englandi. Fólk átti erfitt með að trúa þessu en fjölskylda hennar staðfesti að Esther hefði slitið öllu sambandi við hana.

Þann 4. mars hélt Esther blaðamannafund og tilkynnti að fjölskylda hennar hefði svipt hana sjálfræði í samvinnu við þekktan geðlækni og að hún þyrfti því miður að stefna þeim og krefjast um 500 milljóna í skaðabætur fyrir ólögmæta frelsissviptingu. Jafnframt tilkynnti hún að hún væri orðin eiginkona Quincy Timberlake og fór fögrum orðum um leiðtoga „Fingurs Guðs“ sem hún kallaði „verðandi forseta“ sinn – þar sem hann hefur tilkynnt að hann ætli að bjóða sig fram til forseta Kenýa 2012. Jafnframt íhugar Esther að stefna ótal fréttamönnum og fjölmiðlum sem hafa gefið í skyn að hún hafi orðið fórnarlamb sértrúarsafnaðar.

Þessi saga er hvorki sögð til að lesendur geti smjattað á slúðri né til þess að gefa í skyn að allir þeir sem innrætt er kristin trú séu auðveld fórnarlömb sértrúarsafnaða heldur til þess að benda á að ABC getur stundum leitt til Æ og Ö. Við hugsum hins vegar sjaldan svo langt. Ef Esther hefði ekki verið alin upp í þjóðfélagi þar sem það er ekki aðeins talið sjálfsagt heldur dyggð að tilbiðja guð Biblíunnar og elska Jesú eru mun minni líkur á að hún hefði látið glepjast eins og raun ber vitni. Guð Biblíunnar krefst hlýðni og tilbeiðslu og Jesús segir að hver sem hatar ekki fjölskyldu sína geti ekki verið lærisveinn hans. (Lk: 14:26)

Nú fyrir páskana er von á sænskum sálfræðingi, Håkan Järvå, hingað til lands, en hann hefur unnið töluvert með fólki sem hefur lent illilega í klónum á sértrúarsöfnuðum. Vantrú vinnur nú að því í samvinnu við Siðmennt og sálfræðiskor Háskóla Íslands að skipuleggja opinn og ókeypis fyrirlestur hans um hætturnar af þeim heilaþvotti sem á sér stað í slíkum tilvikum, jafnvel þótt byrjunin sé kannski saklaus. Fyrirlesturinn verður að öllum líkindum haldinn þriðjudaginn 30. mars í Háskóla Íslands (stofu 102 í Lögbergi, kl. 13-14) en það verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Håkan Järvå hefur líka unnið að rannsóknum fyrir ICSA (International Cultic Studies Association ) sem lesendur hefðu e.t.v. gaman af að kynna sér.

Reynir Harðarson 09.03.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Tilkynning )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/03/10 09:55 #

Håkan fjallar í fyrirlestri sínum líklega um hvernig má hafa áhrif á fólk og ráðskast með það, bæði almennt og sérstaklega í sambandi við trúarsöfnuði, og vitnar þá í rannsóknir þar að lútandi. Þ.e.a.s. hversu einfalt það getur verið að fá manneskju til að beygja sig undir alræðisvald og bókstafstrú til að halda henni í söfnuðinum. Hann mun hugsanlega líka ræða hvernig skýra má trú út frá þróunarkenningu Darwins.


Sigurlaug - 12/03/10 14:22 #

Heimildarmynd eftir Þorstein J og Veru Sölvadóttur, komin á vef Þorsteins. Burkina Faso 8600 km. http://thorsteinnj.is/

Fjallar um Hinrik og Gullý sem stunda hjálparstarf (trúboð?)á vegum ABC.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 17:03 #

Mig langar að benda húmoristum og öðrum á athugasemdahala um þessa grein sem er kominn við greinina Hugur og hönd.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/03/10 09:48 #

Og fyrst bent er á myndbönd er ekki úr vegi að skoða kvöldfréttir ABC.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 17/03/10 11:48 #

og fyrst bent er á myndbönd er ekki úr vegi að skoða kvöldfréttir ABC.

Guði sé lof að við erum að kristna þennan skríl... ó þú meinar...


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 18/03/10 16:24 #

Sirkusinn heldur áfram í Kenýa. Esther og Hellon (sem nú kallar sig Supernova eða Crab Nebula, og flokk sinn Placenta) héldu blaðamannafund. Þar koma Larry King við sögu og Sara Palin og fleiri.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.