Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sóknargjald trúlausra til ríkisreksturs

Alþingishúsið og Dómkirkjan

Með breytingum nr.70 frá 2009 á lögum nr.91 frá 1987 hefur ríkið staðfest að trúlausir séu lægra settur þjóðfélagshópur en trúaðir. Það fyrirkomulag sem ríkið hefur staðfest með þessum breytingum er að trúaðir einstaklingar eigi hlutdeild í innheimtum tekjuskatti og ríkið skili honum síðan til þess trúfélags eftir því hvar viðkomandi er skráður.

Trúlausir eru hinsvegar skv. ríkinu skilgreindir sem einhverskonar bastarðar á andlega sviðinu, skilgreindir sem jaðarhópur sem eigi að njóta minni réttinda heldur en trúaði nágranninn þeirra. Þeir eru látnir borga í almennan rekstur ríkisins eins og það sé nákvæmlega það sem þeir vildu gera til að byrja með. Það er greinilega talið sjálfsagt að taka fullan tekjuskatt af trúlausum meðan trúaðir fá að njóta hans með endurgreiðslu frá ríkinu.

Trúaðir einstaklingar geta verið skráðir í trúfélag að eigin vali, því hægt er að stofna kristna söfnuði eftir hentugleika og margir þeirra telja ekki nema örfáar manneskjur og jafnvel engar. Þessir söfnuðir fá síðan að njóta þessara tekna sem sóknargjöldin fela í sér, bjóðandi upp á þjónustu og aðstöðu fyrir meðlimi sína, eitthvað sem trúlausir fá ekki að gera nema fyrir sína eigin peninga.

Margir trúlausir gátu sætt sig við, eins og fyrirkomulagið var, að borga sóknargjöldin sín til Háskóla Íslands og þar með til menntunar Íslendinga en núna hefur þessu fyrirkomulagi verið breytt þannig að sóknargjaldið rennur beint í rekstur ríksins. Trúlausir geta því ekki fengið að njóta sóknargjaldanna sinna eins og trúaðir. Ríkið hefur ítrekað neitað að gefa trúlausum kost á að láta sóknargjöldin sín renna til lífsskoðunarfélaga þar sem boðið er upp á sambærilega þjónustu og aðstöðu eins og skráð trúfélög bjóða upp á.

Það hlýtur að vera krafa trúlausra að réttur þeirra til að stofna lífsskoðunarfélög sé virtur og að þeir geti fengið að njóta sóknargjaldana eins og trúaðir einstaklingar í íslensku samfélagi. Að gera ráð fyrir að trúlausir geti ekki átt sér lífskoðunarfélög er í besta falli skilningsleysi á aðstæðum trúlausra en í versta falli óheiðarleiki þeirra sem hafa með þessi mál að gera.

Krafa trúlausra er því að ríkið hætti augljósum mannréttindabrotum í garð þeirra og komi réttindum trúlausra til jafns við trúaða og hætti að umgangast þá eins og annars flokks þegna. Trúlausir borga skatta eins og aðrir og eiga því heimtingu á því að njóta sömu réttinda.

Jón Magnús 01.02.2010
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Friðrik Tryggvason - 01/02/10 21:40 #

Er ekki hægt að stofna trúfélag sem skilar sóknargjöldunum til sóknarmeðlima?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 02/02/10 00:35 #

Það hefur ekki verið reynt og því get ég ekki svarað því en það hlyti að teljast misnotkun á þessu kerfi og spurning hvernig það yrði meðhöndlað ef það kæmist upp.


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 02/02/10 08:16 #

Það hlýtur að vera krafa trúlausra að réttur þeirra til að stofna lífsskoðunarfélög sé virtur og að þeir geti fengið að njóta sóknargjaldana eins og trúaðir einstaklingar í íslensku samfélagi.

Af skrifum margra presta að dæma ættu þeir að vera okkar helstu stuðningsmenn í þessu máli. Við erum jú "í raun trúuð". Annars held ég að það sé kominn tími til að ríkið hætti að innheimta þessi sóknargjöld.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 02/02/10 09:04 #

Það er rétt að best væri að leggja þetta kerfi niður en mitt mat á því er að það sé ekki að gerast á næstunni nema eitthvað mikið breytist. Hagsmunirnir fyrir trúfélögin er einfaldlega of miklir.


Gestur Hansson - 03/02/10 04:31 #

Ég hef áður viðrað þá hugmynd í spjallþræði hér að mig langar að stofna trúfélag um rómverska goðatrú.

Slík trúarstofnun myndi uppfylla öll skilyrði laganna, og aðeins þarf lítinn hóp til að hefja safnaðarstarfið með sannarlegum hætti.

Í anda rómversku goðatrúarinnar yrðu sóknargjöldin notuð í þríréttaða svallveislu til heiðurs goðunum einu sinni á ári.

Þeir fyrstu sem ganga í söfnuðinn minn fá flotta titla -enn eru lausar stöður fyrir marga "æðstupresta" og "vestumeyjar".


Friðrik Tryggvason - 03/02/10 16:32 #

Gestur ég hef verið með sömu pælingu, ég er ekki frá því að þetta sé nokkuð sniðugt.


FellowRanger - 03/02/10 16:49 #

Ef það trúfélag yrði stofnað myndi ég ekki hika við að skrá mig.


Jón Yngvi - 03/02/10 16:50 #

Réttast væri náttúrulega að skipta liði og stofna sem flest trúfélög sem byggja á sögulegum grunni. Auk rómversku guðanna mætti stofna félag um gríska goðafræði, forn egypsk trúarbrögð (sóknargjöldin renna til Kattholts), söfnuð drúída, Zaraþústra, Satanista... möguleikarnir eru endalausir. Líklega myndi ekki líða á löngu þar til lögunum yrði breytt.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 03/02/10 17:00 #

Miðað við hvað það var erfitt fyrir Ásartrúarsöfnuðinn að fá skráningu held ég að þetta verð ansi erfitt nema menn séu tilbúnir að taka þetta lengra.

Það má hins vegar alltaf reyna og ég sannarlega styð þá tilraun því ef skráning fengist þá væri það frábært :)


Hanna Lára - 09/02/10 10:18 #

Góð heimspekileg pæling: Ættu trúlausir að stofna sértrúarsöfnuð í stíl við það sem á undan er sagt? Fyrst hlær maður við og segir: "Já - því ekki? Sýnum þessu liði..." Svo kemur "NEI, því þá er maður orðinn eins slæmur og þeir sem maður er að gagnrýna." Þvínæast annað "JÁ, því að tilgangurinn helgar meðalið og erfiðleikar eru til að sigrast á." En á endanum verð ég að segja "Nei, ég vil ekki (l)enda á þessu plani, bara fyrir peninga." En þetta er ótrúlega freistandi og besta fyrirmyndin væri The Church of the Flying Spaghetti Monster. Ramen.


Björn Friðgeir - 09/02/10 11:10 #

Ég er til í að ganga í söfnuð Bastet dýrkenda...

http://en.wikipedia.org/wiki/Bastet_(mythology)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.