Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristilegt költ

Um daginn var sýnd í Sjónvarpinu heimildarmyndin Gud i Gørløse. Umfjöllunarefni myndarinnar var kristinn sértrúarsöfnuður í smábæ í Danmörku. Myndin var mjög gagnrýnin á söfnuðinn. En var myndin ekki bara að gagnrýna afar kristilega hluti?

Þegar ég segi að það gagnrýnda hafi verið kristilegt, þá á ég ekki við að þetta sé eitthvað sem einkenni stærstu kristnu trúfélögin í heiminum í dag, heldur er ég að vísa til þess að þetta virðist einkenna Jesú eins og hann birtist í guðspjöllunum og frumkristni eins og hún birtist í Nýja testamentinu.

Að sundra fjölskyldum

Fjölskylduaðstæður einnar móður í myndinni var eflaust það átakanlegasta í myndinni. Sonur hennar hafði gengið í söfnuðinn og vildi ekki lengur tala við móður sína vegna þess að hún var á móti söfnuðinum. Það er vel þekkt að sértrúarsöfnuðir reyna að takmarka samskipti meðlima sinna við utanaðkomandi aðila og þar með auðvitað fjölskyldu viðkomandi. Sértrúarsöfnuðurinn er orðin fjölskylda meðlimanna. Fjölmiðlafulltrúi sértrúarsafnaðarins sagði einfaldlega í þættinum: „Þetta er nýja fjölskyldan mín.“

Þetta viðhorf er afskaplega kristilegt. Þegar við skoðum guðspjöllin þá sér maður oft þá hugmynd að trúflokkurinn er hin nýja fjölskylda og hin raunverulega fjölskylda manns skipti engu máli.

Þekktasta dæmið um þetta viðhorf er líklega sagan af því þegar móðir Jesú og systkini hans vilja tala við hann, en Jesús segir að þeir sem fylgja honum séu í raun og veru „bróðir minn, systir og móðir.“ (Mk 3.31-35). Boðskapurinn er augljós, trúflokkurinn er fjölskylda manns.

Annað gott dæmi eru sögurnar af lærisveinum Jesú í guðspjöllunum. Þeir, fyrirvinnurnar, yfirgáfu fjölskyldur sínar til þess að fylgja Jesú. Jesús segir síðan að sá sem „hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn guðs ríkis vegna“ muni fá það launað margfalt til baka. (Lk 18.28-30)

Frumkristni, og Jesús ef þessar sögur eru sannar, hafði klárlega þetta sértrúarsafnaðarviðhorf til fjölskyldunnar.

Að reka út illa anda

Framleiðendur myndarinnar vildu augljóslega líka gagnrýna álit safnaðarins á geðsjúkdómaum. En þeir voru að mati safnaðarins orsakaðir af illum öndum og lyf virka augljóslega ekki á illa anda, heldur bæn og fleira í þeim dúr.

Í þremur guðspjallanna er andsetið fólk mjög fyrirferðarmikið og stór hluti starfs Jesú felst í því að reka út illa anda úr fólki. Jesús segir að drengur sem virðist vera haldinn flogaveiki sé í raun og veru andsetinn (Mk 9.17-29) og hann talar um að aðeins bæn dugi á svona anda. Jesús rekur líka anda úr manni sem virðist vera geðsjúkur (Mk 5.1-20). Í guðspjöllunum er Jesús líka með mjög nákvæmar hugmyndir um eðli illra anda:

Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. Þá segir hann: „Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.“ Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. (Mt 12.43-45)

Ef þessar sögur af Jesú eru réttar og ef hann sagði þessi orð sem eru eignuð honum, þá er trú á illa anda sem orsaka það sem við teljum vera geðsjúkdóma klárlega mjög kristileg.

Að plokka peninga

Loks var sértrúarsöfnuðurinn gagnrýndur fyrir að vera að plokka peninga af fólki. Strákurinn sem vildi ekki hitta móður sína vann til dæmis nánast í sjálfboðavinnu og bjó í einhvers konar kommúnu safnaðarins. Í samkomum var síðan auðvitað ætlast til þess að fólk gæfi rausnalega.

Í Nýja testamentinu sjáum við svipaðar hugmyndir. Augljósasta dæmið er sagan í Postulasögunni af hjónunum Ananíasi og Saffíru (ég mæli með því að skoða hana hjá Legóbiblíunni). Í stuttu máli þá selja hjónin land og gefa kirkjunni peninginn sem þau fá fyrir landið, eða segjast að minnsta kosti gefa kirkjunni allan peninginn. Það kemur nefnilega í ljós að þau héldu hluta peninganna handa sjálfum sér. Guð verður auðvitað reiður og drepur þau Ananías og Saffíru, „og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta.“ (P 5.1-11). Eins gott að vera ekki nískur þegar það kemur að því að gefa kirkjunni pening, því annars verður guð brjálaður!

Annað dæmi, sem er að vísu byggt á svolitlum getgátum, er að finna í bréfum Páls. Páll talar stundum um það að söfnuðirnir eigi að vera duglegir við að safna peningum handa „fátæklingunum meðal hinna heilögu í Jerúsalem“ (Rm 15. 25-27). Það er ekki ólíklegt að þessir „fátæklingar“ séu bara söfnuður kristinna manna í Jerúsalem, þar sem hluti gyðing-kristinna manna voru einmitt kallaðir Ebíonítar (kemur frá hebreska orðinu fyrir hinir fátæku).

Það er hægt að koma með fleiri dæmi, til dæmis má benda á að Jesús og lærisveinarnir lifðu af öðru fólki en það er ekki augljóst dæmi um peningaplokk. En það var klárlega ekki ókeypis að gerast kristinn á upphafstímum þess (og það kostar okkur öll auðvitað enn peninga að halda þessum ranghugmyndum við).

Költið kristni

Það sem fólki finnst almennt gagnrýnisvert við þessa sértrúarsöfnuði hefur án efa einnig einkennt frumkristni. Fólk verður að sætta sig við það að ef það færi í tímavél tvöþúsund ár aftur í tímann og skoðaði kristni, þá kæmi í ljós að kristni væri einfaldlega sértrúarsöfnuður í líkingu við (ef ekki verra) en söfnuðurinn sem fjallað var um í heimildarmyndinni. Ef fólki líkar illa við svona söfnuði, þá ætti því líka að vera illa við kristni.

Hjalti Rúnar Ómarsson 20.11.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/11/09 13:19 #

Lúkasarguðspjall 14:26

Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/11/09 16:19 #

Fólk verður að sætta sig við það að ef það færi í tímavél tvöþúsund ár aftur í tímann og skoðaði kristni, þá kæmi í ljós að kristni væri einfaldlega sértrúarsöfnuður í líkingu við (ef ekki verra) en söfnuðurinn sem fjallað var um í heimildarmyndinni.

Einmitt. Og í millitíðinni hefur fyrirbærið þróast yfir í síðkölt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.