Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sölufundur Davids Lynch

David Lynch.jpgÞað eru ekki allir sem geta haft gaman af meistara Lynch. Draumkenndir söguþræðir og absúrar myndir af raunveruleikanum hafa ekki beint gert það sem kaninn kallar „box office“ smellara, en þær hafa þó náð athygli hóps kvikmyndaunnenda. Undirritaður er í þeim hóp. Ég var því að sjálfsögðu ánægður að heyra að hann ætlaði að halda fyrirlestur hér á landi. Ég var hinsvegar ekki eins ánægður þegar ég heyrði að ídolið mitt ætlaði ekki að tala um list sína heldur eitthvað allt annað.

Ég vissi ekki mikið um þessa innhverfu íhugun (TM eða „Transcendental meditation“ á ensku) sem Lynch ætlaði að predika í Háskólabíói en ákvað að ég hefði örugglega lítinn áhuga á að hlusta á það. Ég frétti þó seinna að hann ætlaði að hafa annan fyrirlestur seinna um daginn í samráði við Hugmyndaráðuneytið á Granda og ákvað ég að fara á hann frekar í þeirri von um að þar myndi hann ræða kvikmyndir og listir sínar frekar. Ég mætti snemma ásamt vini mínum sem einnig er mikill Lynch aðdáandi. Við settumst niður meðal fólks sem ég giskaði nokkuð fordómafullt á að væri flest allt íbúar úr hundrað og einum.

Það leið ekki langur tími þar til meistarinn sjálfur kom á svæðið og gekk nokkra hringi ásamt öðru virðulegu fólki. Mér var bent á að einn þeirra væri kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson. Einnig var annar stór maður með honum, klæddur í ljósbrún jakkaföt og með sítt hvítt hár í tagl. Sá var síbrosandi. Ég sagði í djóki við vin minn að hann liti út eins og prestur í einhverjum sértrúarsöfnuði. Ég komst seinna að því að það var alls ekki langt frá sannleikanum.

Eftir um kortersbið var loksins búið að setja upp hljóðkerfið. Lynch settist niður á sviðinu ásamt Sigurjóni, einhverjum öðrum manni (sem ég kannaðist ekki við) og manninum í ljósbrúnu jakkafötunum (ég komst síðan seinna að því að hann væri formaður einhverrar alþjóðardeildar TM).

Það sem ég upplifði næst var einsog í atriði í mynd eftir Lynch, draumkennt og absúrt. Ég fór að efast að þetta var virkilega sjálfur David Lynch. Mér leið eins og í draumi, fannst að einhverskonar myrkraverur hefðu andsetið hann. Mér leið eins og Agent Cooper í rauða herberginu, hlustandi á dverginn tala afturábak. Ég átti virkilega erfitt með að skilja af hverju ídolið mitt talaði um innhverfa íhugun eins og Tom Cruise talar um Vísindakirkjuna.

Lynch og maðurinn í ljósbrúna jakkasettinu héldu áfram að tala um hvernig innhverf íhugun væri svarið við öllum vandamálum Íslendinga, allt frá því hvað við ættum að gera við um 20.000 atvinnulausa nema í sumar að því hvernig það gæti leysa efnahagsvandann. Tilvitnunum í Maharishi (gúrúin sem stofnaði TM hreyfinguna) var fleygt fram, sem innihéldu einhverskonar bastarðatúlkun á skammtafræði, hvernig heilinn starfar öðruvísi þegar hann stundar innhverfa íhugun og fleiri hluti sem voru með öll einkenni gervivísinda.

Þegar ræðurnar voru búnar, var áhorfendum gefið tækifæri til þess að spyrja spurninga. Ég get ekki sagt að það hafi verið léttir þegar ég heyrði að ég var ekki sá eini sem var agndofa yfir því að heyra Lynch tala svona, það staðfesti það aðeins að eitthvað virkilega rangt var hér á ferð. Ég vonaði að ég hefði bara misskilið þessa ræðu einhvern veginn og að maðurinn hljómaði aðeins eins og költisti í mínum eyrum. Það var því miður ekki svo. Spurningar eins og „er þetta költ?“, „er þetta salespitch?“ og „afhverju þarf ég að borga pening fyrir þetta?“ komu upp. Mér skilst að fólk hafi einnig verið furðu lostið þegar það komst að því að þessi þekking sem Lynch og gaurinn í ljósbrúnu jakkafötunum voru að bjóða kostuðu veraldlega peninga. Hún kostaði 100.000 veraldlegar íslenskar krónur, nákvæmlega. Verðið hafði greinilega breyst aðeins á milli funda og lýsti Lynch því yfir að nýja tilboðsverðið væri aðeins 10.000 kr.

Fyrir þennan 10 eða 100 þúsund kall fær maður að fara á námskeið til þess að læra sjálfhverfa íhugun, sem tekur víst nokkra daga. Þegar það námskeið er búið þarftu hinsvegar að koma reglulega aftur til þess að fá staðfestingu á því að íhugun þín er rétt. Það var ekki tekið fram hvort það kostaði eitthvað að koma í þessi tjékk, en ég býst við því. Ekkert er ókeypis, ekki einu sinni uppljómun. En ef þú sendir Lynch sjóðinum fallegt bréf, þá geturðu víst fengið styrk fyrir byrjendanámskeiði. TM hreyfingunni er svo sem sama um það, þeir fá pening á endanum, sama hvernig fer.

Á meðan söluteymið uppi á sviðinu var að reyna að selja áhorfendum sínum vöru sína, reyndi ég að átta mig á því hvað væri að gerast. Ég gat ekki verið reiður Lynch á þessum tíma, þótt hann hefði lokkað mig, kvikmyndanörd, á einhverskonar tupperware-sölufund fyrir sálina. Ég horfði á manninn síbrosandi í ljósbrúna jakkanum, sem var greinilega feginn að hafa geta fengið svona stórt nafn til þess að breiða út boðskap sinn. Hann þurfti varla að gera neitt, Lynch sá um söluna.

Það voru ekki allir í salnum sem voru krítiskir á þetta, og mér heyrðist eins og Guðjón Már Guðjónsson (sem stjórnaði umræðunni fyrir hönd Hugmyndaráðuneytisins) væri orðinn það ráðþrota á lausn við vanda landsins að hann væri tilbúinn til að trúa hverju sem er. Áheyrendur voru heldur ekki feimnir við að klappa hvert einasta sinn sem Lynch lauk máli sínu, sama hversu illa það hljómaði.

Ég var ekki alveg viss hvað ég ætti að halda um manninn þegar ég gekk út. Ekkert sem hann sagði þarna í pontunni breytti viðhorfi mínu til verka hans. Það skiptir mig ekki alltaf máli hvað ídól mín gera í frítíma sínum. Mér gæti ekki verið meira sama um það ef Lynch trúir enn á jólasveininn, afköst hans sem listamanns eru það sem skiptir máli fyrir mér. Það er mögulegt að íhugun hafi haft áhrif á hann, það er ekkert ólíklegt að góð afslöppun tvisvar á dag rói mann og hjálpi gegn streitu og kvíða sem fylgir oft kvikmyndagerð. Mér er þó ekki sama þegar hann og TM-hreyfingin nota nafnið David Lynch til þess að reyna að selja ráðþrota þjóð loforð sem hafa engan grunn í raunveruleikanum.

En fyrst ég gat notið tilþrifa Toms Cruise í Tropic Thunder, þá býst ég við því að ég geti haldið áfram að njóta listar Lynch. Ég hef bara ekki lengur mikinn áhuga á manneskjunni bakvið verkin.

Ljósmynd fengin á flickr hjá _titi og notuð skv cc leyfi

Kristján Lindberg 06.05.2009
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Nýöld )

Viðbrögð


Egill - 06/05/09 09:21 #

Óttalegt ofstæki er þetta.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/05/09 09:25 #

Ha, ofstæki?

Er þetta ekki bara ansi einlæg og heiðarleg frásögn aðdáanda leikstjórans af fyrirlestri Lynch.


Hetjan - 06/05/09 09:45 #

Takk fyrir að deila með okkur barnalegum ranghugmyndum þínum og vanþekkingu á því fyrir augu bar.

Ef þig langar virkilega til að læra hugleiðslu þá eru margir staðir (í höfuðborginni, amk) þar sem þú getur fengið að læra hana án þess að þurfa að borga nokkuð fyrir eða beygja þig undir nokkurn meistara eða taka þátt í nokkurs konar "költi".


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/05/09 09:48 #

Takk fyrir að deila með okkur barnalegum ranghugmyndum þínum og vanþekkingu á því fyrir augu bar.

Ertu til í að útskýra þær ranghugmyndir sem fram koma í greininni fyrir lesendum og benda á í hverju vanþekking höfundar felst.


Salvör - 06/05/09 10:09 #

Æ, hvað er gott að fólk sé með jarðtengingu. Ég unni hugmyndaráðuneytinu alls hins besta, fínt að hugmyndir spretti fram en ég var nýlega að hlusta á eitthvað vídeóefni með Guðjóni Má og mér leið líka eins og ég væri að hlusta á einhvern variant af trúboði í anda vísindakirkjunnar. Hann meira segja notaði myndir í glærusjói sem eru eins og svona trúarbrögð.

Svo var ég á troðfullum fundi í háskólanum þegar einhver útlenskur kall sem lék í Framtíðarlandinu kom og hélt einhverja hallelújasamkomu sem var líka eins og trúarathöfn. Kallinn talaði í innantómum frösum og sagði ekkert nema sjálfsagða hluti en fólkið klappaði eins og þarna kæmi einhver með fagnaðarerindið.

það er vissulega kall á að frelsarinn komi til Íslands í dag og fólk flykkist á svona samkomur til að leita að hinum nýja Guði. Partur af trúarathöfnunum er að segja,sjálfbær þróun, allt grænt, hallelúja.

En takk fyrir jarðtengingu í þessu bloggi, ég kannski herði upp hugann og blogga um hvað boðskapur Guðjóns Más virkar innantómur, já eins og nýju fötin keisarans. Ég hef verið að hugsa um þetta, ég vil svo sannarlega ekki rífa niður þar sem fólk er að koma saman og hugmyndir gerjast en það er bara þannig að við þurfum ekki á meiri froðu og loddaragangi að halda.


Jón Grétar - 06/05/09 11:10 #

Hetjan og Egill: Þetta snýst ekki um meditation. Íhugun er bara góð og blessuð og margir hefðu gott af því að kynna sér hana. Jafnvel þó að það eina sem þeir græði á því er að þeir taki sér smá pásu á deginum og slaki á.

Það sem Lynch var að kynna er Transcendental Meditation. Sem er allt annar pakki. TM er nefnilega registered trademark Maharishi Foundation Ltd. og þeir eiga allan einkarétt á kennslu og notkun á þessari aðferð. Þetta batterí velti milljörðum dollara árlega enda getur það kostað þig sem fylgjanda vel yfir milljón á ári ef þú dúltlar þér aðeins í þessu. Þú þarft nefnilega að kaupa þér nýjar og nýjar möntrur sem eiga að hjálpa við hina og þessa hluti. Svo náttúrulega verðuru að kaupa reykelsin frá þeim og allt það.

Og svo eru loforð um það að ef þú vandar þig vel (og borgar nóg) að þú fáir allskonar galdrakrafta á borð við að geta flogið og fleira í þeim dúr.

Salvör: Mér finst þú ekki sanngjörn hér með Guðjón og fleira. Þetta er allt spurning um hugsjónir. Enginn frá hugmyndaráðuneytinu segist vera með eitthvað aðgerðaplan eða að lausnin sé fleiri álver eða meiri fiskur eða neitt svona sjitt. Hugmyndaráðuneytið snýst um breytingu á hugsjón landsins um sjálft sig. Og auðvitað er ekkert áþreifanlegt við það frekar en það er eitthvað áþreifanlegt við sósíalisma eða jafnvel vantrú þegar við tölum um það. Það að fólk fagni þegar það heyri eitthvað sem það er sammála er ekkert undarlegt. Ekki sátu allir þöglir og snobbaðir þegar Richard Dawkins kom hingað til landins. Allavega vona ég ekki.


Hetjan - 06/05/09 11:15 #

Ranghugmyndir: "Ég fór að efast að þetta var virkilega sjálfur David Lynch. Mér leið eins og í draumi, fannst að einhverskonar myrkraverur hefðu andsetið hann."

Hér er ekki hægt að greina á milli þess hvort fyrirlesarinn hafi verið andsetinn eða hvort greinarhöfundur sé (svo dæmi sé tekið) með schizoid personality disorder eða hafi verið undir áhrifum ofskynjunarefna.

-- Barnaskapur: "Fyrir þennan 10 eða 100 þúsund kall fær maður að fara á námskeið til þess að læra sjálfhverfa íhugun"

Þetta dót sem Lynch var að reyna að pranga inn á fólk heitir "innhverf íhugun" eins og greinarhöfundur getur að ofan. Að kalla þetta "sjálfhverfa íhugun" ber fordómum og yfirlæti greinarhöfundar glöggt vitni; yfirlæti sem allir geta verið sammála mér um að ætti að vera óþarfi þegar kjaftæði og þvættingur er annars vegar.

--

Þessir stákar (Lynch og co.) kunna einhverja svaka fína hugleiðsluaðferð sem þeir eru að kynna. Mér er það mjög til efs að Lynch sé að gera þetta af því að hann sé heilaþveginn eða vanti pening. Þetta er eflaust eitthvað rosa fínerí sem hefur skilað honum einhverju sem er svo gott að hann vill setja nafn sitt við það. Greinarhöfundur hleður alls kyns pillum í textann eins og tal um jólasveininn og "tupperware-sölufund fyrir sálina" til að fela að: 1) Hann hefur ekki prófað þetta 2) Hann vill fjalla efnislega um eitthvað sem hann hefur ekki prófað

Væri umfjöllun hans heiðarleg hefði hún litið einhvernveginn svona út:

Ég er mikill aðdáandi David Lynch. Ég fór með vini mínum að horfa á David Lynch fjalla um TM hugleiðslu. Ég átti í erfiðleikum með að skilja það sem var sett fram, sem getur stafað af því að ég er frekar mikill efasemdarmaður um svona mál eða af því að Lynch og co. tókst illa að skýra út á það hvað TM hugleiðsla snýst.


Jón Grétar - 06/05/09 11:30 #

@Hetjan.. Talandi um yfirlæti og barnaskap... :D

En ég get ekki annað en dást að því að þú eyddir öllum þínum tíma í það að rakka niður greinarhöfund. Allt snýst um að við bara "skildum ekki" hvað Lynch var að tala um. Og að við gætum ekki talað um þetta vegna þess að við höfum ekki prufað þetta (gilda þessi rök um allt líka annað eins og eiturlyf og líkamsárásir verð ég að spurja). En ekki eitt orð fór í það að leiðrétta þann misskilning eða vanþekkingu sem þú heldur að fólk hafi um þetta málefni.

Því miður fyrir þig þá höfum við (allavega ég) bara einfaldlega kynnt okkur þetta mál. Það er til nóg skrifað um þetta og nógar frásagnir af kostnaði og loforðum sem tengjast þessu.

Eins og ég sagði. Íhugun er bara góð og blessuð. TM tengist hinsvegar íhugun ekki á neinn hátt enda á ekki að "íhuga" heldur er mantran það sem skiptir máli. Enda er hægt að rukka fyrir þær.

Þetta er enn ein galdralausnin. Enn ein trúarbrögðin. TM hefur ekki einu sinni history til að bakka sig upp heldur er þetta nýtilkomið batterí og kemur þá í flokk með vísindakirkjunni.


Kristján Hrannar - 06/05/09 11:40 #

Það hefði einhver átt að blasta Sexy Sadie yfir salinn...


G2 - 06/05/09 11:58 #

KL, var þetta ekki bara 'performans' hjá karlálftinni? Eins og þú bendir réttilega á þá er Lynch frumlegur í betra lagi og mér sýnist af lýsingunni að dæma að hann sæki í smiðju Andy Kaufman til að gera biksvart grín að fólki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/05/09 12:23 #

Það hefði einhver átt að blasta Sexy Sadie yfir salinn...

Ég blasta honum bara yfir þessa umræðu í staðinn. :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/05/09 12:25 #

Eða öllu heldur núna.


Oddný Halldórsdóttir - 06/05/09 12:42 #

Nákvæmlega Kristján. Ég þurfti nú ekki annað en hlusta á malandann í honum hjá Agli til að sannfærast um að innhverf íhugun hefur mun betri boðberum á að skipa en David Lynch. Það var engin einlægni í hans orðum, engin vottur af persónulegri reynslu, ekkert 'íhugandi'. Verst þætti mér ef honum hefði tekist að skemma fyrir íhugun/hugleiðslu því þar er ég sannfærð um að margur fjársjóður hins innra lífs geti verið falinn. Eitt sagði hann þó rétt: þessum lífsskilningi hefur verið haldið frá hinum vestræna heimi, eða hann snúið baki við honum, illu heilli. Kær kveðja.


stefán benediktsson - 06/05/09 13:25 #

Þú/ég/maður má aldrei rugla saman manninum og listamanninum. Maðurinn er breyskur og gráðugur en listin er eins og réttlætið hafin yfir hlutdrægni og blind á allt nema innihald verksins. Listamaðurinn er embættismaður listarinnar en líf hans utan embættisstarfa nákvæmlega jafn ófullkomið og okkar hinna. Það er ekkert samasem merki milli (TM)Lynch gráðuga og David Lynch leikstjóra. Perrar búa til jafn góða list og englar.


Hetjan - 06/05/09 13:35 #

@Jón Grétar

Þú dregur hér fram peningaplokkið sem TM er. Ég ætla ekkert að þræta um það, enda algörlega sammála því. Greinarhöfundur fordæmdi alla íhugun/hugleiðslu á þeirri forsendu að þetta væri allt mjög ósannfærandi án þess að setja hlutina í nokkurt samhengi (eins og þú ert búinn að gera) og kryddaði það líka með áðurgreindu kjaftæði sem ég tel vera upprunna í hans eigin fordómum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/05/09 13:42 #

Greinarhöfundur fordæmdi alla íhugun/hugleiðslu

Hvar gerði greinarhöfundur það? Hann var að fjalla sérstaklega um þennan fyrirlestur David Lynch um TM. Greinarhöfundur segir meira að segja: "það er ekkert ólíklegt að góð afslöppun tvisvar á dag rói mann og hjálpi gegn streitu og kvíða sem fylgir oft kvikmyndagerð." Er þetta fordæming á allri íhugun/hugleiðslu?


Jón Grétar - 06/05/09 13:59 #

@Hetjan: Umm... Kristján sagði aftur og aftur "innhverf íhugun" sem mér vitanlega er bara íslensk þýðing á "Transcendental meditation". Og til að undirstrika það þá er það meira að segja í byrjun greinarinnar skilgreint að með "innhverf íhugun" er meint TM með því að skilgreina það sem þýðingu. Hann skrifaði hvergi orðið "íhugun" stakt nema þegar hann sagði að "íhugun" gæti vel virkað.

Það er 100% ljóst þegar þú lest yfir greinina að það er einungis verið að gagnrýna TM og söluaðferðir Lynch og föruneytis.

Allt annað hefur bara verið að gerast í kollinum á þér.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/05/09 14:20 #

Eflaust er öll íhugun "innhverf" en "innhverf íhugun" beinir huganum líklega inn á við.

Transcendental er svo eitthvað enn þrengra, en hvað veit ég ekki. Orðið getur þýtt yfirskilvitlegt, frumspekilegt, eitthvað sem snýr að forsendum skynjunar eða skilnings o.fl.

Transcendentalism er forskilvitleg hughyggja eða hugsæishyggja, byggir á innsæi.

Ég hef alltaf skilið TM sem eitthvað sem "transcends".... þ.e.a.s. eitthvað sem nær út fyrir... hugann (líklega).


Kristinn Theódórsson - 06/05/09 14:44 #

Það er dálítið merkilegt hvað maður er fljótur að skammast út í að hlutir af þessu tagi kosti peninga. Er 100.000 mikið fyrir kennslu í einhverju sem á að vera þungt og mikið að ná tökum á og á auk þess að veita manni mikið?

Eftirlit með því að kennslan sé góð, námið vandað, og bakland slíkra samtaka kosta allt peninga.

Sjálfur held ég að þetta sé ágætt dæmi, en uppblásið og of mikið úr því gert. Gott dæmi um líkleg falskheit TM er hið fræga jógaflug sem samtökin gerðu mikið út á áður fyrr, en gera ekki lengur, sennilega af því að það er bull sem ekki gengur vel ofan í lífæð safnaðarins: borgandi almúgann.

Ef við gefum okkur að þessi tegund íhugunar sé mjög merkileg og gagnleg, er kannski ekkert að þessu á neinn hátt.

Ef við hinsvegar gefum okkur að þetta sé í raun nákvæmlega sama hugleðslan og allir aðrir eru að gefa/selja, þá er þetta óþarflega mikil söluvara sem dregur úr trúverðugleika þeirra sem selja svona dýrt og með svona miklu orðagjálfri.

Þó að vond sölumennska segi í raun ekkert um varninginn þykir mér þetta ekki benda til þess að um gegnheila skynsemi sé að ræða: http://vimeo.com/4201441


Jón Grétar - 06/05/09 15:56 #

Kristinn: Það er í raun enginn "hugleiðsla" í þessu. Það felst í þessu engin íhugun eða neitt. Þú átt bara að söngla einhverja möntru tvisvar á dag og hún á að redda málinu. Þú sjálfur átt ekki að gera neitt. Ef að mantran virkar ekki þá bara verðuru að kaupa aðra möntru. 100.000 er þá mikill peningur þar sem þér er ekki kennt neitt.

Þetta er ef eitthvað er töluvert verra heldur en almenn hugleiðsla og í raun gefur eflaust ekkert meira umfram það að taka sér 20 mín powernap tvisvar á dag.


jakob - 06/05/09 16:09 #

Why did the buddhist refuse novocain at the dentist? He wanted to transcend dental medication.

haha sorrí varð bara að henda þessu frá mér. Hef annars enga skoðun á TM stunda bara venjulega sem er fín.


Kristinn - 06/05/09 18:52 #

@ Jón Grétar

Jú, þetta er eflaust fremur ómerkilegt. En ég þykist vita að það hafi verið meira varið í pælingar Maharishi Mahesh Yogi. Mér þykir allavega margt af þessu Buddíska/Hindúíska heimspekidóti alveg þess virði að staldra við og skoða.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 06/05/09 21:24 #

Er "Transcendental Mediation" ekki best þýtt sem "Yfirgengileg Íhugun", samanber "yfirgengileg sölumennska" eða "yfirgengileg tímasóun"?


Gunnar R - 18/11/09 12:47 #

Er nú ekki ráð að fólk viti aðeins um hvað það er að tala áður en það gagnrýnir! Annars verður þetta náttúrlega hálf barnalegt hjá þér Hr Vantrú. Eg er einn þeirra sem tók TM námskeið fyrir ca 12 árum hér a Islandi og ég efast um að ég hafi nokkurn tíma gert jafn mikilvæga fjárfestingu. Ég nota þetta sem tól þegar illa gengur hjá mér, eitthvað stress er í gangi eða annað svipað. Þetta er mjög einföld tækni sem hjálpar við að að koma hvíld á heilann, sem er annars stöðugt að eins og gengur og gerist. Prufið að hætta að hugsa - akkúrat núna? Ekki hægt - ekki satt? Þú ferð þá að hugsa um að hugsa ekki! Kostnaðurinn við TM námskeið, sem er mjög lágur, bara til að grey kennarinn geti nú haft salt í grautinn sinn er náttúrlega bara djók að tala um yfirhöfuð, miðað við hvað þessi fjárfesting er mikilvæg. Auðvitað er hægt að tengja svona við ofsatrúakjaftæði í USA, þar sem þeir eru greinilega að búa til eitthvað sölukjaftæði í kringum þetta (t.d. láta fólk koma aftur og fá möndru - eg hef aldrei gert það her a Islandi enda ekki þörf á því) - en málið er ofureinfald, þetta er eitthvað sem svínvirkar og allir þeir sem gagnrýna þetta, ættu að prufa þetta allavega í 1-2 mánuði aður en þeir fara að gagnryna eitthvað sem þeir hafa ekki hundsvit á. Farið þá frekar og spangólið í sölum alþingis þar sem það er normið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/09 14:01 #

Auðvitað er hægt að tengja svona við ofsatrúakjaftæði í USA,

Greinin fjallar um David Lynch sem kemur til okkar frá "USA"! Fluttur til landsins af manni sem býr í "USA".

þetta er eitthvað sem svínvirkar og allir þeir sem gagnrýna þetta, ættu að prufa þetta allavega í 1-2 mánuði aður en þeir fara að gagnryna eitthvað sem þeir hafa ekki hundsvit á.

Svínvirkar fyrir þig? Það má vel vera. Svínvirkar til að lækka glæpatíðni svo dæmi sé tekið af fullyrðingum talsmanna TM? Nei, það er kjaftæði.


G2 - 18/11/09 14:11 #

@ Gunnar R

Prufið að hætta að hugsa - akkúrat núna? Ekki hægt - ekki satt?

Það eru þá ca. 12 ár síðan þú hættir að hugsa með aðferðum TM?


Sigurður B. - 18/03/12 00:41 #

Þú þarft aðeins að kynna þér hugleiðslu betur og ert því skiljanlega með fordóma fyrir einhverju sem er ofar þínum skilning. Fannst þessi grein mjög fordómafull og jafnvel meira en ég. En ég er líka frekar mikið sona en hef bætt mig nokk seinasta árið og þessi grein minnti mig dáldið á það hvað ég var fordómafullur. Takk fyrir það. Vil ekki vera að predika en þið gætuð alveg reynt að treista heiminum betur.


Kristján Lindberg (meðlimur í Vantrú) - 20/03/12 07:41 #

Sæll Sigurður og takk fyrir að lesa grein mína. Ég hef sjáflur notað öndunaræfingar og hugleiðslu til þess að takast á við kvíða og ég tel að það hafi hjálpað mér. Ég hef þó ekki þurft að borga neitt fyrir að stunda það né þurft að trúa þessum gervivísindum sem fylgja TM.

Heimurinn er fullur af fólki sem er að reyna að selja þér einfaldar lausnir á flóknum vanda. Stundum virka þær og stundum ekki. Ég tel að það sé gott að vera með heilbrigðan efa til að reyna að greina þar á milli.

Þú telur þig minna fordómafullan en ég (sem er gott ef það er satt), ég vona þó að þú haldir í smá efa og gleypir ekki hvað sem er.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.