Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Öskubuskuævintýri sr. Þórhalls Heimissonar

Landvættir Íslands Það hefur verið svolítið skrýtið að skiptast á skoðunum við Þórhall Heimisson. Aðal vandamálið er að hann virðist aðeins of tilbúinn í að skrumskæla skoðanir mínar og talar almennt um allt aðra hluti en ég hef verið að gagnrýna hjá honum. Ég veit raunar ekki hvort þetta er viljandi eða hvort hann á erfitt með að skilja hvað ég á við. Ég skal því reyna að einfalda mál mitt eins og mögulegt er.

Eftir að ég rakst á tilgátuna frá Þórhalli um uppruna verndara Íslands sem koma fram í skjaldarmerkinu gerði ég ráð fyrir að hún væri hans. Hann segir að ég hafi ekki skoðað heimildir mínar almennilega áður en ég skrifaði. Í þessu tilfelli voru heimildir mínar einfaldlega skrif Þórhalls sjálfs. Ég játa að ég hefði átt að taka þeim með meiri fyrirvara enda kemur í ljós að Þórhallur vanrækti algjörlega að vísa í þær heimildir sem hann byggði á. Ég gerði ráð fyrir að Þórhallur stundaði fræðileg vinnubrögð en það var greinilega rangt hjá mér.

Þórhallur virðist halda að rökstuðningur tilgátu sé fólgin í því að margir hafi aðhyllst hana. Hann dregur því fram nokkurn fjölda einstaklinga sem hafa nefnt þessa tilgátu. Fyrsta vandamálið er að fæstir þeirra rökstyðja hana að nokkru viti en eru þess í stað bara að vísa í eldri ummæli. Annað vandamál er að þeir sem Þórhallur vísar í eru innbyrðis ósammála hver öðrum og Þórhalli um fínni punkta tilgátunnar sem eru í raun mjög mikilvægir fyrir trúverðugleika hennar.

Þórhallur bendir réttilega á að Matthías Þórðarson kom fyrstur fram með hugmyndina um tengsl verndara Íslands við biblíufígúrurnar. Því miður skýrir Matthías þetta ekkert frekar, bendir aðeins á þessi líkindi. Þórhallur nefnir líka Birgi Thorlacius en í hans grein er fyrst og fremst verið að vísa á eldri skrif um efnið.

Ég varð satt best að segja hissa þegar ég sá að Þórhallur vísaði í grein eftir Jónas Guðmundsson í tímaritinu Dagrenningu. Lestur greinarinnar varð þó til þess að ég skildi betur hvaðan vafasamar hugmyndir Þórhalls um táknfræði Gamla testamentisins eru komnar.

Fyrir þá sem ekki þekkja Jónas þá var hann þekktur fyrir bráðskemmtilegar en jafnframt ákaflega fjarstæðukenndar tilgátur um hitt og þetta. Það segir sitt að Jónas telur að uppruna verndara Íslands séu hingað komnir í gegnum einn af týndu ættbálkum Ísraels.

Á yfirborðinu virkar það ákaflega sannfærandi þegar Þórhallur og Jónas eru að tala um hvernig tákn ættbálka hafi verið og þróast en ef kafað er dýpra kemur annað í ljóst. Ef frumheimildirnar eru skoðaðar kemur í ljós að túlkanir og spuni skipa hærri sess en textinn. Hér eru þessar systur Öskubusku búnar að höggva af sér hælinn og tærnar í von um að skórinn passi.

Þórhallur er líka frekar vafasamur þegar kemur að hugtökum og hefur meðal annars sagt um verndarasöguna að hér sé "greinilega um flökkusögu að ræða eins og margir fræðimenn hafa bent á". Ég ætla að vona að það sé rangt hjá honum að fræðimenn hafi kallað þetta flökkusögu því jafnvel þó tilgáta Þórhalls væri rétt þá væri þetta rangnefni. Réttara væri að tala um notkun á biblíulegum minnum, ef tilgátan væri rétt.

Það sem virðist á yfirborðinu auka trúverðugleika tilgátu Þórhalls er líklega stuðningur Ólafs Briem, sem var "einn af okkar mestu fræðimönnum á þessu sviði". En þegar við skoðum bók hans Heiðinn siður á Íslandi kemur í ljós að "stuðningur" Ólafs kemur fram í neðanmálsgrein og hann tekur fram að hann hafi bara nýlega heyrt af tilgátunni.

Árið 1965 kom sænsk-írski þjóðfræðingur Bo Almquist fram með töluvert betri tilgátu í Norrön niddiktning. Hann bendir á að allir verndararnir séu verur sem þekkjast úr hugarheimi þessa svæðis á þessum tíma. Almquist bendir líka á að í kjölfar sögunnar er talað um fjóra héraðshöfðingja sem búa á sömu stöðum og verndararnir. Hann telur að í raun séu þessar verur tákn fyrir héraðshöfðingjana sem væntanlega hafi verið í aðalhlutverki í baráttunni gegn Haraldi Gormssyni.

Í raun hefur tilgátan sem Þórhallur styður alls ekki verið vinsæl í um 40 ár enda er komin fram betri skýring. Einn af þeim sem kom auga á það er merkasti fræðimaðurinn sem Þórhallur nefndi sem stuðningsmann biblíutengslanna. Þegar Ólafur Briem endurskoðaði bókina Heiðinn siður á Íslandi taldi hann skýringu Bo Almquist betri og sagði tilgátu Matthíasar Þórðarsonar, sem Þórhallur Heimisson hefur stutt svo dyggilega, "óþarfa".

Ég hlýt að beina því til Þórhalls að hann lesi heimildir sínar betur en þó kannski fyrst og fremst með gagnrýnu hugarfari.


Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, en hét þá Enn af meintum biblíulegum fyrirmyndum í skjaldarmerki Íslands.

Fyrri greinar

Óli Gneisti Sóleyjarson 25.03.2009
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/03/09 12:38 #

Meira um Jónas Guðmundsson hér.


Þórhallur Heimisson - 25/03/09 16:40 #

Jæja, enn ein moðgreinin eftir formann Vantrúar um skjaladarmerki Íslands. Loksins viðurkennir hann þó að hann vissi ekkert hvað hann var að tala um þegar hann hóf skrif sín í haust. Hann virðist enn ekkert vita. Hann kvartar yfir að ég hafi ekki nefnt heimildir. Þar afhjúpar hann enn frekar barnaskap sinn. Viðtalið sem æsti manninn svona í haust var stutt klausa í 24 stundum um námskeið sem ég var þá að fara að halda um táknmál trúarinnar, ekki grein eftir mig eða neitt slíkt með heimildaskrá. Ekki minnist ég þess að Óli hafi mætt á námskeiðið til að forvitnast um heimildirnar. Hann hefði haft gott af því, vissi þá etv eitthvað meira um þau mál sem hann er alltaf að fabúlera um og er velkominn á námskeið næst þegar hann þarf á fróðleik að halda um tákn kristinnar trúar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 25/03/09 17:07 #

Ég hóf gagnrýni mína einfaldlega að benda á að tilgátan (sem þú ættfærðir ekkert) væri órökrétt og það var rétt hjá mér. En þú svarar ekki neinu efnislega frekar en fyrri daginn.

Ég þarf ekki þig til að endurorða Wikipediugreinar fyrir mig og sé því ekki þörf á að mæta á námskeið þín. Þó þau séu ókeypis (eða öllu heldur, ég borga fyrir þau með skattpeningum mínum).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/03/09 17:20 #

Jæja, enn ein moðgreinin eftir formann Vantrúar um skjaladarmerki Íslands

Bíddu við, sýnir Óli Gneisti ekki að heimildir þínar eru lélegar? Hvað stendur eftir af kenningum þínum um skjaldamerki Íslands Þórhallur?

Ég sé ekki betur en að sýnt hafi verið fram á að þú ert óttalegur moðhaus.


Vésteinn Valgarðsson - 25/03/09 18:30 #

Þórhallur, ef þú lest þetta: Þú værir maður að meiri ef þú viðurkenndir bara að Óli hefur hrakið svo að segja allt sem þú hélst fram. Þetta er algjört rúst.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 25/03/09 21:41 #

Sammála Matta. Hvar eru hin efnislegu rök Þórhalls. Hví er ekki reynt að styðja þau og hrekja rök Óla í stað þess að kasta rýð á persónu hans... (Moðgrein, vissi ekki hvað hann var að fara, barnaskapur osfr.)

Eitt sem ég hnaut við þegar ég las innlegg Þórhalls. hann s.s býður Óla á einhverskonar fyrirlestur um tákn kristinnar trúar. Hví ætti Óli að fara á slíkan fyrirlestur? Óli veit augljóslega töluvert meira um tákn kristindómsins en Þórhallur.

Hvernig er hægt að taka mann alvarlega sem vitnar í Pýramíta-Jónas máli sínu til stuðnings? Hver verður það næst? -Jón Pressari?


Jói - 25/03/09 22:06 #

Það er skemmtilegt þegar maður les þetta í gegn þá sér maður að Þórhallur tönnlast endalaust á því að Óli Gneisti hafi haft rangt fyrir sér í fyrstu greininni með það að Þórhallur hafi sjálfum dottið í hug þessi kenning. Óli Gneisti hefur síðan fyrir löngu bent á að þetta er vegna þess að Þórhallur sjálfur vísaði ekki í heimildir.

Ég spyr Þórhall: Hvað er rangt hjá Óla Gneista?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 25/03/09 23:39 #

Já, það er rétt, Þórhallur endurtekur bara endalaust þetta sama. Þetta er hans eina haldreipi. Annað hefur hann ekki á mig. Og það er rétt að það var Þórhallur sem vísaði ekki í heimildir og hér er ég að tala um það sem hann skrifaði um skjaldarmerkið en ekki þetta viðtal í 24 stundum.

Ég spyr bara eins og Jói: Hvar hef ég rangt fyrir mér?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.