Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðkirkjan ógnar lýðræðinu

Það er athyglisvert að fylgjast framferði spendýra sem lifa í hóp. Undantekningalaust ræður eitt karldýr hjörðinni með vöðvaafli eftir átök við kynbræður sína um völdin. Forn samfélög manna hafa að mestu verið byggð upp á þessari testosterón hugmyndafræði. Á sama hátt og önnur hjarðspendýr er okkur innbyggt að virða vald þess sem leiðir hópinn. Afleiðingarnar voru þær að fyrstu samfélög manna byggðu á þessum frumstæðu hvötum. Það er skiljanlegt að fáfróðir skrælingjar sem rituðu biblíuna skópu samfélagið við gvuð á sama frumstæða máta. Síðar hélt kristindómurinn og einræðisherrar í Evrópu hönd í hönd, enda valdakerfi þeirra byggt á sama frumstæða prinsippinu. Samkvæmt NT er Kristur höfuð mannsins og maðurinn höfuð konunnar. Einnig að yfirvöld eru frá gvuði kominn með drápsleyfi á alla nöldurseggi. Þannig trónir gvuð á toppnum og stjórnar niður á við í gegnum einvaldinn sem aftur stjórnar niður til lýðsins.

Með upplýsingunni, síðar frönsku byltingunni og stofnun Bandaríkja Norður Ameríku hrundi gamla fjandsamlega trúarlega einræðið. Algjörlega ný hugsun mótaði vesturlönd sem kallast lýðræði. Valdið kom nú neðan frá en ekki að ofan. Þetta var stórkostleg framför í samfélagi manna og mikil framför frá hjarðarlífinu. Gamla trúarlega feðraveldið fékk á baukinn, því að lýðræðið gaf konum jafnt sem öllum stéttum samfélagsins jöfn völd. Á sama tíma setti lýðurinn sér stjórnarskrá til að vernda þegnanna með því að setja ríkisvaldinu skorður. Lagasetning var nú sett af fulltrúum fólksins í andstöðu við óumbreytanleg lög biblíunnar. Gvuð sem hafði verið ákærandinn, dómarinn og böðulinn missti öll völd með þrískiptingu valds.

Heimsmynd fólks voru ekki lengur undir ægivaldi klerka mótaða af ritningu kristninnar. Nú mátti rannsaka og skoða heiminn án þess að móðga heimsmynd einvaldsins. Þá hrundi sköpunartrúin og gangur náttúrunnar varð öllum ljós. Með félagafrelsi og nýjum mannréttindum lýðsins á 20 öld varð Þjóðkirkjan á Íslandi að draga úr eldum vítis og slá dómsdegi á frest. Það er sama hvar litið er, hugmyndaheimur kristindómsins er hruninn. Í örvæntingu reyna prestar í dag með froðusnakki að orma sig frá fornaldarkirkjunni með því klæða kristindóminn í felubúning nýrra tíma. Þeir elska hommanna en hata syndina. Grænsápufroðan lekur út um öll vit í illskiljanlegu rugli um kærleiksríka en valdalausan einvald.

Mig langar að benda á gott dæmi um hversu andlýðræðisleg Þjóðkirkjufyrirkomulagið er á Íslandi. Hvernig guðhræðsla og yfirgangur presta skemmdi andlegt þrek þeirra sem sömdu stjórnarskrá lýðveldisins. Í stað þess að vernda trúfrelsi almennings fyrir yfirgangi ríkiskirkjunnar er hún sérstaklega vernduð gegn almenningi. Í 62. grein skal ríkiskirkjan vera þjóðkirkja Íslands, ber ríkisvaldinu að vernda hana og styðja. Ætíð síðan hafa kristin íhaldsöfl og prestar misnotað vald sitt til að troðast á réttindum almennings í skjóli stjórnarskrárinnar. Þau sem sömdu stjórnarskránna vissu upp á sig skömmina og bættu þessu við 62 greinina sem viðurkenningu á mistökum sínum: “Breyta má þessu með lögum”.

Brynjólfur Þorvaldsson skrifaði mæta grein hér á Vantrú og spyr: “Er Þjóðkirkjan ógn við lýðræði?” Þar bendir hann á þær hættur sem felast í því að kenna börnum um einvaldinn Krist konung umorðalaust sem nútímasannleik. Ef þau sem skrifuðu stjórnarskrá lýðveldisins hefðu fengið að vera í friði fyrir gráðugum klerkum og fengið lýðræðislega kennslu hefði aldrei víðlíka stórslys átt sér stað við ritun stjórnarskrárinnar. Já, Þjóðkirkjan er hættuleg lýðræðinu. Gegn þessari hættu ber öllum lýðræðislegum stofnunum landsins að vinna. Þar ber Alþingi Íslands mesta ábyrgð.

Frelsarinn 14.10.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/10/08 09:38 #

Ef marka má fornsögurnar veltu menn því fyrir sér hvort Hvíti-Kristur væri máttugri gömlu goðunum. Það verður að viðurkennast að fátt toppar almáttugan alvald.

Þegar öllu er á botninn hvolft er veldi páfa og biskupa byggt á sandkassaprinsippinu: "Pabbi minn er sko í löggunni."

Það er engin tilviljun að kirkjan lofar þrælslund og undirlægjuhátt og skírskotar meira að segja blygðunarlaust til hjarðeðlisins með tali um góða hirðinn og okkur sauðina.

A...meeeheeheeeheeeheeeen

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.