Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Þjóðkirkjan ógn við lýðræðið?

Athafnir eru forsenda náms því ekkert lærist án reynslu. Nokkurn veginn þannig mætti orða kenningar Johns Deweys í menntamálum en hann er án nokkurs vafa mesti hugsuður allra tíma á því sviði. Þessi bandaríski sálfræðingur og heimspekingur var einnig mikill unnandi lýðræðis sem hann taldi til æðstu hugsjóna mannsandans. Lýðræði er miklu meira en stjórnarfar sagði Dewey, það er vitundarástand sem allir þyrftu að tileinka sér. Orðið lýðræðisvitund á hér vel við.

Við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar lýðræðið stóð vissulega veikum fótum um víða veröld, ritaði Dewey að lýðræðisvitundinni mætti lýsa sem þeirri sannfæringu að í öllum mannlegum samskiptum væri það samskiptaferlið sjálft sem skipti mestu máli en ekki hinar tímabundnu niðurstöður ferlisins.

Andstæða lýðræðis er hins vegar, að sögn Deweys, þegar samskiptaferlið er neytt undir stjórn ytri afla, hvers konar yfirvalds sem stendur utan almennrar reynslu og er því ekki þátttakandi í ferlinu. Hér vísar hann vissulega til kommúnista og fasista sem voru helstu ógnir lýðræðisins á 20. öldinni, menn sem töldu sig, á grundvelli misskilinna hugmynda um mannlegt eðli, geta tekið fram fyrir hendurnar á hinu lýðræðislega samskiptaferli.

Skólinn og lýðræðið

Samkvæmt kenningum Deweys er besta leiðin til að efla lýðræðisvitundina sú að kenna börnum lýðræði. Það þarf að kenna börnunum samskiptaferla lýðræðisins, hefði hann sagt, og það þarf að kenna þeim með því að gera – nemendur eiga að vera þátttakendur í lýðræðislegum ferlum í skólastarfi.

Þetta er enda í fullu samræmi við námskrá og grunnskólalög. Lýðræðisvitund má sem best efla með því að kenna börnum grundvallargildi lýðræðissamfélags: að valdið sé eign allra en ekki í höndum ytri afla; að allir séu jafnir fyrir lögum; að einstaklingar hafi frelsi til ákvarðana um eigin hag; að gagnrýnið hugarfar sé æskilegt.

Í dag er það ekki kommúnismi eða fasismi sem ógnar lýðræðinu heldur trú sumra að það sé eitthver ytra afl, “yfirvald utan almennrar reynslu” eins og Dewey hefði sagt, sem sé hið æðsta yfirvald – og þó einkum sú árátta þessara sömu manna að neyða aðra einstaklinga og jafnvel samfélagið sjálft undir þennan misskilning þeirra um lífið og tilveruna.

Skólinn og kirkjan

Ríkisstofnun með trúarlegan tilgang er auðvitað mjög sérstakt fyrirbæri og getur seint talist vera í anda lýðræðis. En stafar sérstök ógn af tilveru hennar? Það er eðli lúterskra kirkjudeilda að stunda trúboð. Sem ríkisstofnun hefur Þjóðkirkjan miklu sterkari stöðu innan samfélagsins en aðrar kirkjudeildir og á undanförnum árum hefur hún nýtt sér þessa stöðu til að sækja inn í grunn- og leikskóla með trúboð sitt.

Með þessu atferli sínu ógnar kirkjan lýðræðinu með margvíslegum hætti. Prestar fara í leikskóla einu sinni eða oftar í mánuði en eldri nemendur eru gjarnan sendir í kirkju nokkrum sinnum á ári. Í báðum tilfellum eru börnin látin fara með bænir en bænin er í grunninn ákall til æðra valds ofar öllu. Bænahald í heimahúsi, með foreldrum, setur slíkt í samhengi einstaklingsbundinnar trúar. Bænahald í opinberum stofnunum á forsendum skipulagðra athafna embættismanna setur bænirnar í allt annað samhengi og getur innrætt nemendum þeirri hugsun að þeir séu þolendur ytra valds sem hafið er yfir gagnrýni, en ekki þátttakendur í samfélagslegu valdakerfi sem einmitt þarfnast gagnrýni.

Sjálf framkvæmd skólatrúboðsins er ýmist með þeim hætti að sumir nemendur eru hafðir útundan vegna trúarskoðana, eða nemendur eru einfaldlega skikkaðir til trúarstarfs án þess að hafa neitt um það að segja og oft án þess að foreldrar viti af því.

Fyrri leiðin er mikil ógn við grunngildi lýðræðisþjóðfélags, börnin eru þátttakendur í því að einstaklingar eru dregnir í dilka vegna skoðana sinna, þar sem sumir fá hina stofnanabundnu þjónustu en aðrir ekki.

Seinni leiðin er síst skárri, þau börn og foreldrar þeirra sem telja sig mega sjálf ráða eigin trúarsannfæringu, í anda lýðræðishefða, eru beitt stofnanavaldi og sjálfsákvörðunarrétturinn tekinn af þeim.

Loks má nefna að Þjóðkirkjan elur á fordómum og óþoli gagnvart þeim sem ekki falla að þeirra eigin normi. Nægir þar að minna á ræður biskups þar sem guðleysi er sagt ala á siðleysi og virðingarleysi við lifið sem og nýlegar árásir hans á Íslam. Skólabörn sem dregin eru í messur oft á ári gætu sem best verið að hlusta á svona áróður úr predikunarstólnum – hugmyndafræði sem ber litla virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum.

Ríkisstofnunin Þjóðkirkja með 5,5 milljarða á fjárlögum er ógn við lýðræði og eina leiðin til að stemma stigu við skólatrúboði hennar er að minnka hið allt of mikla vægi sem hún hefur innan þjóðfélagsins, langt umfram það sem trúarlíf almennings gefur tilefni til. Í lok síðasta árs voru átta af hverjum tíu Íslendingum skráðir í Þjóðkirkjuna, yfirgnæfandi flestir sjálfkrafa skráðir við fæðingu. Ég hvet þig, lesandi góður, ef þú ert skráður í þjóðkirkjuna að breyta þeirri skráningu ef ekki til annars en að vernda þá lýðræðislegu þjóðfélagsgerð sem við búum við.

Brynjólfur Þorvarðarson 10.10.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Teitur (Finnur) - 10/10/08 09:52 #

Stórgóð grein


Valtýr Kári Finnsson - 12/10/08 02:20 #

Sko, ég skil alveg af hverju greinin er sett svona upp, og hví þú svarar ekki þinni eigin spurningu, en heldur þú að það sé einhver tilviljun að allir páfar/kóngar/keisarar/faróar o.s.frv. voru fulltrúi guðs/guðanna á jörðinni eða bara guðinn sjálfur? Auðvitað er þetta bara spurning um innrætingu og hlýðni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.