Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvítasunnutónleikar í bítið

Heimir og Kolla - Í bítiðÁ Hvítasunnudag sýndi Ríkissjónvarpið frá tónleikum Hvítasunnusafnaðirns Fíladelfíu á besta tíma eins og undanfarin ár. Ég var staddur í bústað og horfði á útsendinguna með öðru auga. Ekki get ég sagt að þessi tegund tónlistar veki áhuga minn og hann eykst ekki þegar hlustað er á textana. Ég mæli með því að gospelfólkið prófi að semja örlítið fjölbreyttari texta. Já, við vitum að Jesús er frelsarinn og ykkur finnst máttur hans mikill, við náðum því. Það komst til skila í fyrstu fjóru lögunum.

Ég tuðaði dálítið við konuna útaf þessari trúardagskrá í Ríkissjónvarpinu en verð að játa með nokkurri skömm að ég nennti ekki að gera veður útaf þessu.

Ljósvakapistill

Sem betur fer eru allir ekki jafn latir og ég. Ásgeir Ingvarsson blaðamaður Morgunblaðsins skrifaði ljósvakapistil í Morgunblaðinu í gær þar sem hann velti því fyrir sér hvort réttlætanlegt sé að Ríkisfjölmiðill sem við greiðum öll gjöld til standi fyrir útsendingum af þessu tagi.

Dagskrá Ríkisútvarpsins hefst alla daga á kristinni bæn og lýkur með kristilegri prédikun. Alla sunnudaga er svo sent beint út frá messu í einhverri af kristnum kirkjum landsins. Er nema von að maður spyrji: er RÚV veraldleg stofnun eða trúarleg? Er stofnun í eigu ríkisins stætt á að stunda svona trúboð? Er hinu opinbera stætt á því að skylda landsmenn með lögum til að borga gjöld til útvarpsstöðvar sem stundar kristið trúboð? Svarið er augljóst: Nei, miðlar Ríkisútvarpsins eiga ekki að vera vettvangur messuhalds og bænagjörða. Það er líka móðgun við trúlausa og fólk annarrar trúar en kristinnar, og líklega brot á trúfrelsisákvæðum stjórnarskrár, að skylda landsmenn til að borga fyrir þetta trúboðsstarf.

Í bítið

Kolla, Heimir og Þráinn, stjórnendur þáttarins Í bítið á Bylgjunni ræddu pistil Ásgeirs í gærmorgun.

Það er vert að koma því að í þessum pistli að Vantrú hefur haft ágæt kynni af Í bítið og við höfum fengið að kynna málstað okkar þar í nokkur skipti.

Í gærmorgun vildi aftur á móti svo til að þrímenningarnir fóru á kostum við að snúa út úr málstað trúleysingja. Rangfærslur þeirra ollu mér miklum vonbrigðum.

Hér getið þið hlustað á umræður þeirra þáttastjórnenda og innhringingar hlustenda. Eitthvað hafði verið rætt um málið í þættinum fyrr um morguninn en við erum ekki með upptöku af því.

Ég sló inn megnið af samræðunum en sleppti þó punktum sem ekki tengjast þessari umfjöllun beint.

Heimir: Já það er þetta með trúarbrögðin, kristnina t.d. og fjölmiðla og þá ríkisreknu fjölmiðla. Ég veit það ekki, við vorum að spjalla um það áðan. Mér finnst umræðan í garð kristinnar trúar hafa orðið svolítið mikið neikvæð. Meira neikvæða á síðustu árum heldur en, bara allt í einu á síðustu árum. Upplifið þið þetta þannig, þið Þráinn.
Kolla:
Þráinn: Já, það hefur verið svolítið núna. Samtök sem eru á móti þessu í skólum og eitthvað svona.
Heimir: Jújú, en hér er verið að skrifa í Morgunblaðið í Ljósvakann á bls. 50, Ásgeir Ingvarsson. Hann er að tala um Hvítasunnutónleikana hjá Hvítasunnusöfnuðinum ... hér segir hann: Það er tilgangur þessara tónleika að heiðra og lyfta nafni Jesús sagði prédikarinn áður en hann reyndi að fá sjónvarpsáhorfendur með sér í bæn og auglýsti um leið samkomustað og messutíma safnaðarins. Og svo spyr hann hér, hann Ásgeir Ingvarsson sem skrifaði þessa grein í Morgunblaðið. Svarið er augljóst þegar hann spyr hvort að opinber stofnun sé stætt á því að skylda landsmenn með lögum til að borga gjöld til útvarpsstöðvar sem stundar kristið trúboð. Svarið er augljóslega: Nei, miðlar Ríkisútvarpsins eiga ekki að vera vettvangur messuhalds og bænagjörða. Það er líka móðgun við trúlausa og fólk annarrar trúar en kristinnar, og líklega brot á trúfrelsisákvæðum stjórnarskrár, að skylda landsmenn til að borga fyrir þetta trúboðsstarf.
Þráinn: Það er einmitt þetta, einmitt þetta. Ég skil þetta ekki, af hverju slekkur hann ekki bara?
Kolla: Það er ekki eins og það sé verið að sýna þetta á venjulega sunnudagskvöldi, þetta er Hvítasunnudagur.
Þráinn: Af hverju er það móðgun við önnur trúarbrögð, yrðir þú móðgaður ef það yrði sýnt frá einhverju öðru trúarsamfélagi en þú ert í?
Heimir: Nei, alls ekki. Það sem ég myndi átta mig á er það að það er staðreynd að fólk hefur mismunandi trúarbrögð og mér finnst bara allt í lagi að um það sé fjallað og þau fái að njóta sín einstaka sinnum.
Þráinn: Nákvæmlega, mér finnst þetta bara þröngsýni.
Heimir: Jæja, það er gaman að heyra hvað útvarpshlustendur okkar hafa að segja um þetta. Er þetta ekki of langt gengið, ég meina það er eins og það megi ekkert trúarlegt birtast – sérstaklega kristin trú, þá hlaupa sumir upp til handa og fóta.
Þráinn: Já, það er eins og fólk verði núorðið – ef það ætlar að trúa einhverju, þá skal það að sækja sér sína trú sjálft. Það má hvergi kenna kristileg gildi og annað. Viltu ekki að börnin þín læri þetta, þetta eru bara mannleg samskipti sem þú ert að læra.
Kolla: Boðorðin tíu, ég held að þau sé bara góð og gild fyrir alla.
Þráinn: Já og bara, þetta er ákveðin mannkynsaga líka.
Heimir: Það er mikið til í því, það er mikil saga í þessu líka. Það er alveg rétt.

Eftir þennan hlutlausa inngang var opnað fyrir símann:

Hlustandi 1: Mér finnst þetta óttalegur væll í fólki. Þetta [að útvarpa og sjónvarpa messum] hefur verið gert hjá ríkinu í áratugi og ég sé enga ástæðu til að breyta því.
Heimir: Já manni finnst eins og þetta sé einskonar tískufyrirbrigði að þykja þetta ekki flott lengur.
Heimir: En þér finnst svosem í lagi, er það ekki, að einstaka sinnum útvarpa eða sjónvarpa frá svona?
Hlustandi 1: Jú, mér finnst það bara alveg sjálfsagt og eins og Þráinn sagði áðan, af hverju slekkur hann ekki bara á sjónvarpinu?
Heimir: Já, einmitt.
Hlustandi 1: Og á þá að banna messur sem hafa verið um áratugaskeið í útvarpinu kringum jólin? Mér finnst þetta bara smámunasemi.
Heimir: Já, mér finnst þetta óþarfi, ég er sammála því.
Hlustandi 1: Já, þetta fólk er að búa til leiðindi bara. Ekkert flóknara
Þráinn: Þó að það sé skylduáskrift að þessu, þá er ekki skylduáhorf.

Næsti innhringjandi vildi tengja félagið Siðmennt við umræðuna.

Hlustandi 2: Ég er bara sammála ykkur öllum, þarna er eitthvað á ferðinni sem heitir bara nöldur. Er þetta einhver frá Siðmennt sem er að kvarta?
Heimir: Nei, þetta er Ásgeir Ingvarsson sem skrifar hérna, ég held hann sé blaðamaður
Þráinn: Já, blaðamaður á mogganum bara.
Hlustandi 2: Já, en ég væri ekkert hissa ef hann væri félagi í Siðmennt. Mikið rosalega pirrar sá félagsskapur mig.
Heimir og Kolla: Já.
Kolla: Hann hefur verið að setja svolítið út á það sem fer fram í skólum landsins og jafnvel leikskólum. Kalla þetta allt saman trúboð.
Hlustandi 2: Þá er hann væntanlega að tala fyrir hönd Siðmenntar, giska ég á.
Kolla: Ég veit ekki hvort þessi maður er, ég er að tala um Siðmennt sko.
Hlustandi2: Ja, Siðmennt já.
Kolla: En ég veit ekkert um þennan mann sem skrifar þennan pistil.
Hlustandi 2: Hann allavega virðist vera í svipuðum dúr.

Áfram var hringt inn og nú er það kristinfræðin sem bullað var um.

Hlustandi 3: Ég bara skil ekki alveg hvernig þetta er orðið. Við megum ekki hafa þetta svona opinbert og við megum ekki, að krakkarnir okkar læri kristinfræði í skólunum. Sko, við höfum t.d. val með sjónvarpið, slökkva og kveikja og við hljótum að gera það eftir því hvaða efni er. Svo eru krakkarnir, eins og krakkinn minn, að læra þá um Búdda og allt þetta í skólanum. Á ég að vera alveg brjáluð yfir því? Ég bara get það ekki alveg, ég þarf bara að vera foreldri heima sem útskýri fyrir barninu hvað þetta þýðir ef það er ekki gert í skólanum og við bara megum ekki láta svona. Mikill, stór hluti í heiminum er kristinn. Við erum kristið þjóðfélag með minnihlutahópum sem eru sértrúarsöfnuðir og hérna, ég bara held að við verðum bara að sætta okkur við það.
Heimir: Það er nú heldur ekki eins og Ríkissjónvarpið og Ríkisútvarpið sé nú hreinlega að troða þessu framan í okkur dag eftir dag.
Kolla: Þetta er bara yndisleg tónlist.
Heimir: Frábær tónlist.
Hlustandi 3: Ég skal bara segja ykkur það að ég bý úti á landi. Þar var stofnað í fyrra gospelgrúbba ... og það er mikið frekar að þetta sé komið í tísku frekar en hitt að fólk vill þetta ekki.
Kolla: Hann er kannski bara svona hávær þessi fámenni hópur, þessi svona. Þetta er svona minnihlutahópur, hann er kannski bara svona hávær. Sem talar á móti kristninni.

Ein kona að auki hringdi í þáttinn en þarna var ég búinn að gefast upp á að pikka inn. Hún vildi gæta þessi að við fórnum ekki kristnifræðikennslu útaf öllum þessum hræðilegum múslimum sem hingað koma.

Hvað er hægt að segja?

Þessi umræða Í bítið var snælduvitlaus á villigötum frá upphafi til enda.

Umfjöllunin um ljósvakapistilinn í Morgunblaðinu var undarleg, ekkert minnst á morgun- og kvöldbænir og reynt að gera lítið úr umfangi trúboðsins sem er miklu meira en þessir einu tónleikar. Ábendingar til pistlahöfundar um að hann geti slökkt á sjónvarpinu sýna að útvarpsfólkið hefur algjörlega misst af meginatriði málsins. Spurningin er hvort hægt er að réttlæta að trúleysingi eins og ég sé látinn borga fyrir trúboð kristinna manna. Er virkilega trúfrelsi í landinu ef ég er neyddur til að greiða fyrir trúariðkun annarra?

Mér finnst ótrúlegt að heyra enn og aftur ósannindi um að einhverjir trúleysingjar vilji bola kristinfræðikennslu úr skólum landsins. Þessi vitleysa hefur verið leiðrétt svo oft í fjölmiðlum að fólk þarf virkilega að leggja sig fram til að mistúlka þetta ennþá. Hvorki Vantrú né Siðmennt hafa viljað leggja kennslu í kristinfræði niður. Bæði félög hafa gagnrýnt kennsluefnið þegar það á við en gagnrýnin okkar hefur fyrst og fremst snúist um trúboð í skólum. Síðast í desember var heilmikil umræða í þjóðfélaginu um þessi mál og þá kom sannleikurinn ítrekað fram.

Við viljum hafa góða kennslu í trúarbragðafræði og teljum eðlilegt að kristin trú fái þar meiri sess en önnur trúarbrögð í ljósi sögunnar. Aftur á móti er ótækt að trúboð eigi sér stað á þeim vettvangi. Trúboð á að fara fram á heimilum og í kirkjum, ekki skólum sem eru fyrir alla óháð trú. Við getum bent á ótal dæmi um trúboð í kristnifræðikennslu hér á landi.

Það er staðreynd að undanfarin ár hefur ríkiskirkjan sótt af auknum krafti í leik- og grunnskóla. Af einhverjum ástæðum telur ríkiskirkjuliðið að það hafi rétt til þess að stunda trúboð á þeim vettvangi. Það er beinlínis markmið kirkjunnar að komast í sem flesta leikskóla. Þessu höfum við mótmælt harðlega með skrifum um skólamál og Vinaleið.

Umræðan um trúboð í skólum snýst ekki bara um útlendinga - fjölmenning er ekki ástæðan fyrir trúfrelsi. Að minnsta kosti 20% Íslendinga eru trúlaus og ekki nema rétt rúmur helmingur segist kristinnar trúar, það er goðsögn að meirihluti Íslendinga sé kristinn.

Nei Þráinn: Vantrú og Siðmennt eru ekki á "móti þessu í skólum og eitthvað svona", nema þú sért að tala um trúboð. Þú hittir reyndar naglann á höfuðið þegar þú segir að"[fólk skuli] sækja sér sína trú sjálft", það er einmitt málið. Hér á að heita trúfrelsi og fólk má trúa því sem það vill trúa, en það þarf að bera sig eftir björginni. Tal um að ekki megi kenna "kristileg gildi" er marklaust, hvað á Þráinn eiginlega við? Kristinfræðikennsla snýst ekki um "mannleg samskipti" enda eru mannleg samskipti ekki kristileg uppgötvun. Að sjálfssögðu eigum við að kenna börnum góða siði en við eigum ekki að gera það á trúarlegum forsendum heldur veraldlegum.

Nei Kolla: boðorðin tíu eru ekki "góð og gild fyrir alla". Kynntu þér boðorðin betur, hluti þeirra á ekkert erindi til þeirra sem ekki aðhyllast kristni. Gerðu mér svo greiða, ekki afgreiða málflutning fjölda manns út frá því að hér sé bara um að ræða "háværa fámenna hópa". Reyndu frekar að hlusta eftir því sem þessir hópar eru að segja og reyndu að koma með rök gegn málstað þeirra ef þú ert ekki sammála þeim. Það eru fleiri en forhertir trúleysingjar sem mótmæla trúboði í skólum.

Nei Heimir: þetta er ekki "tískufyrirbrigði", lestu Þórberg, lestu Hume! Kristindómi hefur verið andmælt frá því hann varð til. Lengi vel var gagnrýni á kristni ekki vel tekið og þeir sem mótmæltu áttu ekki von á góðu. Það er ekki kristni að þakka að svo er ekki lengur. Vissulega hefur opinber gagnrýni á trúarbrögð aukist síðustu ár - en að sama skapi hefur áróður trúarbragða borist víðar, t.d. inn í skólana í meira mæli. Staðreyndin er að með tilkomu internetsins hefur umræðan í heiminum breyst, það er ekkert athugavert við að gagnrýna hindurvitni.

Ég vona svo sannarlega að Í bítið vandi sig betur næst, við hljótum að geta gert þá kröfu til fjölmiðlafólks. Þessi umfjöllun var til skammar ekki til fyrirmyndar.

Matthías Ásgeirsson 16.05.2008
Flokkað undir: ( Útvarp )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/05/08 08:45 #

Vissulega var tónninn í garð blaðamannsins afar neikvæður en mér finnst ágætt að þáttastjórnendur veltu þessu fyrir sér. Þátturinn sýndi því fram á fordóma og fáfræði fólks um málefnið. Víst getur blaðamaður slökkt á sjónvarpstækinu en börn í leikskólum slökkva ekki jafnglatt á boðandi presti.

En til að koma þessu í eitthvað samhengi held ég að það heyrðist nú hljóð úr horni ef reglulega væri útvarpað af samkomum sjálfstæðismanna í Valhöll. Er ekki sjálfsagt að sjálfstæðisflokkurinn komi sinni stefnu að í Ríkisútvarpinu? Erum við ekki sjálfstæð þjóð og flestir í sjálfstæðisflokknum? Líki einhverjum það ekki getur hann bara slökkt á tækinu. Hvað skaðar það nokkurn mann að hlusta á menn boða stefnu flokksins, þetta eru allt góð og göfug markmið.

Furðuleg smámunasemi í þessum kommum alltaf, þeir geta bara flutt til N-Kóreu líki þeim ekki hvernig við höfum hlutina, höfum lengi haft hlutina og ætlum alltaf að hafa hlutina. Það er bara skortur á umburðarlyndi að hnýta í sjálfstæðisflokkinn og maður veltír fyrir sér hvað slíkum niðurrifsmönnum gengur eiginlega til.


Örninn - 16/05/08 13:24 #

Þetta er líklega einhver versta þáttastjórnun sem ég hef heyrt árum saman, og af nægu er að taka fyrir!

Hvað er fólk að spá þarna? Hví getur fólk ekki rætt hlutina eins og þeir eru í stað þess að búa til einhver sárindi? Og, leggja fólki sem vill breytingar, orð í munn?

Orðið frekar þreytt og pirrandi.


Guðjón - 16/05/08 14:04 #

Það er ekki sérlega klókt af ykkur á vantrú að ráðast á fjölmiðlamenn þó láti í ljós skoðanir sem samræmast ekki róttækum sjónarmiðum ykkar en eru algeng í þjóðfélaginu.

Ég er nokkuð viss um að mjög margir eru mér sammála um að vantrú stendur fyrir öfgasjónarmið í trúmálum - ástæðan er sú að menn gæta ekki skynsamlegs hófs í málfluttningi og eru sífellt að vísa í öfga og æsingarmenn eins og Dawkins og Christopher Hitchens.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/05/08 14:06 #

Það er ekki sérlega klókt af ykkur á vantrú að ráðast á fjölmiðlamenn

Hvernig "ræðst ég á" fjölmiðlamenn?
Er gagnrýni mín á fjölmiðlafólkið óréttmæt í þessu tilviki?

Guðjón, hvaða öfgasjónarmið koma fram í þessum pistli? Er vísað í Dawkins eða Hitchens?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/05/08 14:10 #

Það er ekki sérlega klókt af ykkur á vantrú að ráðast á fjölmiðlamenn þó láti í ljós skoðanir sem samræmast ekki róttækum sjónarmiðum ykkar en eru algeng í þjóðfélaginu.

Fjölmiðlamenn gerðu þarna meira en að láta í ljós skoðanir, þeir fóru ítrekað með rangt mál. Finnst í ekki í lagi að leiðrétta slíkt af því að um fjölmiðlafólk er að ræða?


Guðjón - 16/05/08 14:33 #

Þessi umræða Í bítið var snælduvitlaus á villigötum frá upphafi til enda.

Matti: Þetta kalla ég að ráðast á.

Er vísað í Dawkins eða Hitchens?

Ég er að ræða um hvers vegna margir telja ykkur vera öfgamenn og þið vísið oft í þá félaga þó þið gerið það ekki í þessari færstu. Mér finnst að þið megið skammast ykkar fyrir það og það.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/05/08 14:36 #

Þessi umræða Í bítið var snælduvitlaus á villigötum frá upphafi til enda.

Matti: Þetta kalla ég að ráðast á.

Ég lagfærði athugasemd þína, eins og þú sérð var ég búinn að strika yfir orðið "snælduvitlaus". Ef þetta eina orð er til merkis um að ég "ráðist á" fjölmiðlamenn þykir mér lítið þurfa til.

Réðst fjölmiðlafólkið á trúleysingja með þessari umfjöllun sinni?

Ég er að ræða um hvers vegna margir telja ykkur vera öfgamenn og þið vísið oft í þá félaga þó þið gerið það ekki í þessari færstu. Mér finnst að þið megið skammast ykkar fyrir það og það.

Skammast okkar fyrir að vísa á ummæli Dawkins og Hitchens? Vertu ekki með þessa vitleysu.


Siggi - 16/05/08 14:57 #

Afhverju í andskotanum ættum við að skammast okkur fyrir það?


Guðjón - 16/05/08 16:06 #

Matti telur greinilega að það þurfi ekki að ræða þetta frekar- ásakanir mínar á hendur Dawkins og Hitchens séu ekki þess verðar að ræða þær. Eigum við ekki bara að láta þar við sitja?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 16/05/08 16:19 #

Elsku besti Guðjón,

Ertu ekki skráður á spjallið? Ef þig langar að ræða við "okkur" um öfgar okkar og "öfga og æsingarmenn eins og Dawkins og Christopher Hitchens. " þá er það meira en velkomið. Ég er þér ósammála og vil endilega svara þér þó ég geri það ekki á athugasemdaþræði þessarar greinar.


Guðjón - 16/05/08 17:06 #

Ég hef ekki neina sérstaka löngun til að ræða við ykkur um meinta öfga ykkar. Og ég kem ekki nálægt þessu athugsemdaþræði ykkar- þar sem ég tel að þið notið hann á ósanngjarna hátt til að klekkja á viðmælendum ykkar.


gimbi - 16/05/08 17:23 #

Viðhorf þáttastjórnendanna mótast annars vegar af conformisma, hins vegar af leti. Það verður aldrei áhugaverð blanda, nema fyrir þá sem eru of latir til að hugsa sjálfir.

Auðvitað er nálgun þeirra sérkennileg og fordómafull.


Sigurjón - 16/05/08 18:04 #

Þessi Guðjón er frekar kostulegur. Kvartar eina stundina yfir því að einhver virðist (að hans mati) ekki vilja ræða málin, segir svo í næstu athugasemd sinni að hann hafi enga sérstaka löngun til að ræða málin.

...þar sem ég tel að þið notið hann á ósanngjarna hátt til að klekkja á viðmælendum ykkar.

Hver er þessi ósanngjarni háttur? Hann hefur alveg farið fram hjá mér. Gera þeir eitthvað meira en að taka þátt í umræðunum og svara athugasemdum eins og allir aðrir? Það er að mínu viti fullkomlega viðeigandi notkun á athugasemdakerfi.


Sigurður - 16/05/08 18:05 #

Hvernig geta trúlausir verið öfgamenn? Þeir sem trúa á einhvern ímyndaðan vin (gvuð) hjóta að teljast öfgamenn....að trúa á eitthvað sem ekki er nokkur leið að færa rök fyrir eða finna skynsemi í. Trúlausir reyna bara að leiða fólk á brautir heilbrigðar skynsemis og rökhugsunar.


Guðjón - 16/05/08 18:17 #

Auðvita er ég mjög kostulegur. Það er að mínu mat mjög vanmet eiginleiki um þessar mundir.

En ég er ekkert að kvarta yfir þvi að Matti vilji ekki ræða málin- þvert á móti felst ég á að taka fullt mark á mati hans og ræða ekki frekar það sem hann telur ekki vert að ræða.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 16/05/08 18:54 #

Mér finnst samfélagið vera komið í mjög hættulega stöðu þegar fólk er sagt gera árás á aðra þegar það er einungis að gagnrýna umræðu um trúarbrögð.

Eru trúarbrögð svo heilög að það má hvorki gagnrýna þau sjálf, né heldur umræðu um þau?


Viddi - 16/05/08 20:17 #

Þetta er Bylgjan, ekki þykjast vera svona hissa. Frekar skal ég hlusta á Lindina en Bylgjuna.

Að öllu gamni slepptu þá er það skammarlegt að menntað fjölmiðlafólk láti svona. Fjölmiðlafólk hefur gríðarlegt vald, bæði yfir yfirvöldum og almúganum. Ábyrgur fjólmiðill lætur ekki svona út úr sér. En það eru fáir "ábyrgir" fjölmiðlar á landinu í dag. Ríkissjónvarpið "á" eða "átti" að vera þannig, "public service" heitir þetta víst, en ég get ekki séð hvaða "public service" það er að útvarpa guðsorði við hvert tækifæri.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/05/08 21:01 #

ég er ekkert að kvarta yfir þvi að Matti vilji ekki ræða málin

Vertu ekki með þessa útúrsnúninga. Ég er tilbúin til að ræða efni greinarinnar hér. Ef þú villt ræða um Dawkins eða Hitchens er ég tilbúinn til að ræða það á spjallinu. Þú veist alveg hvernig þetta virkar.

Viddi, mér finnst Í bítið oft ágætur þáttur.


Flugnahöfðinginn (meðlimur í Vantrú) - 17/05/08 10:42 #

Ég vakana við Ísland í bítið á hverjum degi . Mér líkar vel við þáttarstjórnendur og þeirra efnistök. Heimir er t.d. duglegur að fjalla um vísindi og það er sjaldgæft í fjölmiðlum hér á landi. Hann á heiður skilinn fyrir það. En þarna voru þau uppvís af mjög óvönduðum vinnubrögðum. Ég leyfi mér að trúa að þetta hafi verið augnabliks einbeitingarleysi sem kom þessari umræðu af stað. En Það er mjög þreytandi að heyra fjölmiðlafólk staglast á því að trúleysingjar vilji kristinfræði úr skólunum. Þetta er búið að leiðrétta svo oft að þetta ætti ekki að gerast lengur að þessu sé haldið fram.

Það er líka þreytandi að heyra því haldið fram þegar einhver gagnrýnir trúarbrölt sé hann örugglega félagi í Siðmennt eða Vantrú. Staðreyndin er að aðeins örlítið brot íslenskara trúleysingja er í þessum félögum. Þessi fámenni hópur sem vinsælt er að tala um skiptir tugum þúsunda íslendinga( 50-60 þúsund íslendinga samkvæmt könnunum). Það þykir gríðarlega góð mæting þegar 50 þúsund mæta niður í miðbæ á 17. júní. En ég veit líka að það þykir góð mæting þegar 20-30 manns mæta í messu í fjölmennri sókn á íslandi. Trúleysi á íslandi er algengt, miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir, enda er ekkert fjallað um það í fjölmiðlum. Stöðugt er hins vegar fjallað um hvað margir eru kristnir og að 85% þjóðarinnar sé í ríkiskirkjunni( þar af nokkur þúsund trúleysingjar) og það er svo notað til réttlætingar fyrir athöfnum þessarar stofnunnar. Það fylgir hins vegar næstum aldrei sögunni að aðeins rétt rúm 50% þjóðarinnar segist kristinnar trúar. Reyndar eru kristnir hér á landi ekki nema um 42% ef notast er við skilgreiningar sumra kirkjumanna.

Ég ætla að halda áfram að vakna við Ísland í bítið.


Nanna - 18/05/08 10:46 #

Það er leitun að manneskju sem er jafn gersneydd öllum íþróttaáhuga og ég er. Ég dæsi og styn þegar ég sé EM eða HM eða einhverja aðra skammstöfun sem þýðir að nú séu menn aftur að fara að eltast við bolta. Það þýðir nefnilega að næstu dagana, eða jafnvel vikurnar, fari sjónvarpsdagskráin öll úr skorðum vegna þess að þjóðin vill eyða mörgum klukkutímum í að horfa á hóp sveittra karlmanna sparka/henda bolta í mark. En ég reyni að kippa mér ekki upp við það að fréttatíminn sé færður, krakkarnir fái ekkert barnaefni, og happa glappa sé hvort t.d. Desperate Housewives sé sýndur yfirleitt, hvað þá á réttum tíma. Ég veit nefnilega að margir vilja horfa á sinn handbolta og fótbolta, og að RÚV er einfaldlega að mæta þessu fólki.

Er þetta ekki svipað? (þetta er m.a.s. ýktara dæmi en Hvítasunnutónleikarnir - það er enginn að fara að sýna frá maraþon gospelmóti þar sem saman koma tugir gospelkóra frá mismunandi löndum, og sjónvarpsdagskránni verður að hliðra í heila viku til að koma sem flestum gospeltónleikum að!) Ég vil ekki horfa á íþróttir í sjónvarpinu. Mér finnst það skelfilega leiðinlegt og tilgangslaust. En ég veit að það eru margir sem hafa gaman af því, og það er enginn sem neyðir mig til að horfa; mér er bara ráðlagt að slökkva. Stundum er bara eitthvað í sjónvarpinu sem mér finnst tilgangslaust að sýna, en einhverjum öðrum finnst skemmtilegt. Ef við sýndum bara hluti sem enginn væri óánægður með, þá væri sjónvarpsdagskráin ansi fátækleg.

-Nanna.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 18/05/08 11:38 #

Skiljanleg afstaða hjá Nönnu. Engin leið að ætlast til að allt sjónvarpsefni þóknist öllum alltaf. En þetta er ekki sambærilegt. Íþróttir eru áhugamál en trúmál og stjórnmál snúast um hugmyndafræði. Ríkissjónvarpið á að fjalla um hugmyndafræði, bæði í stjórnmálum og trúmálum, en ekki vera áróðursmiðill ákveðinnar hugmyndafræði, eins og Omega.

Ásgeir Ingvarsson spurði í grein sinni:

Dagskrá Ríkisútvarpsins hefst alla daga á kristinni bæn og lýkur með kristilegri prédikun. Alla sunnudaga er svo sent beint út frá messu í einhverri af kristnum kirkjum landsins. Er nema von að maður spyrji: er RÚV veraldleg stofnun eða trúarleg? Er stofnun í eigu ríkisins stætt á að stunda svona trúboð?

Ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi sömu aðstöðu til að útvarpa sinni stefnu og áherslum væri öllum ljóst (jafnvel Sjálfstæðismönnum) að það væri óeðlilegt.


Trausti - 18/05/08 13:23 #

Ég er ekki kristinn og pirra mig á ýmsu, eins og kristniboði í skólum (ath ég er hlyntur trúarbragðafræðslu með áherslu á kristni).

Hins vegar get ég ekki fyrir mitt litla líf set mig upp á móti stöku sjónvarps eða útvarpssendingum um kristileg málefni.

Ef 45% þjóðarinnar er kristinn þá erum við að tala um svakalega stóran hóp fólks sem hefur mögulega áhuga. Ég held að það séu töluvert fleiri þættir sendir út sem höfða til minni hluta þjóðarinnar, t.d. formúlan:)

Hvað með það þótt smá trúboð læðist þarna inn? Hverju skiptir það að þetta sé ríkisrekið fyrirtæki og ég borgi undir það? Það borga allir undir það, líka þessi 45%. Afhverju mega þau þá ekki horfa að öðru hverju á messur?

Þetta er hættulegur vegur sem þið eruð að predika fyrir! Má sem sagt ekki útvarpa neinu sem einhver er ekki sammála? Er það það sem þið viljið?

Ég fyrir mitt leiti ræð alveg við það að hlusta á kristið fólk boða trú. Það eina sem ég vil sjá er að trúleysi sé gert svipað hátt undir höfði enda er mjög stór hluti þjóðarinnar trúlaus.

Svarið þessu:
Viljið þið í Vantrú banna það að sýndur verði þáttur um trúleysi á RUV?

Umræðan um trúleysi er oft á villigötum í fjölmiðlum eins og þessi þáttur bar með sér. En þáttastjórnendur eru hér sekir um að detta í að nota gamlar klisjur sem andartaks gagnrýni myndi sjá í gegnum. Eins og það að boðorðin 10 séu góð og gild fyrir alla. Þetta er bara andartaks hugsunarleysi og þrátt fyrir að pirra mig skelfilega þá er það auðfyrirgefið.

Takk annars fyrir frábæran vef.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/05/08 13:28 #

Viljið þið í Vantrú banna það að sýndur verði þáttur um trúleysi á RUV?

Nei, við viljum ekki heldur banna að sýndur sé þáttur um kristni á Rúv.


Guðjón - 18/05/08 15:22 #

Það eru reyndar margir þeirrar skoðunar að flokkurinn hafi óðeðlileg ítök í ríkisfjömiðlum og að þeim ítökum sé beitt flokknum í hag. Hefur þú aldrei heyrt talað um bláskjá.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.