Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mismunun vegna trúarbragða

Áreitni telst til óbeinnar mismununar. Hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og tengist þeim eiginleikum sem taldir eru upp í banni við mismunun (t.d. trúar- eða lífsskoðun), er skilgreind sem áreitni. Til að teljast áreitni verður tilgangur eða afleiðingar hegðunarinnar að brjóta gegn mannlegri reisn þess sem fyrir henni verður og hegðunin þarf að skapa ógnandi, óvinveitt, niðurlægjandi eða særandi andrúmsloft. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða meðvitaða áreitni eða óviljaverk.

Ætli einhver hafi orðið fyrir áreitni vegna trúarskoðana á Íslandi? Ef þú lýsir yfir trúleysi eða vogar þér að fetta fingur út í eitthvað af forréttindum kristinna eða lög- og mannréttindabrot þeirra, svo sem trúboð í leik- og grunnskólum, geturðu sannarlega haft verra af.

Dæmi:

Skólastjórinn sakar þig opinberlega um frekju og ofstæki og segir þér persónulega að þig skorti umburðarlyndi og víðsýni. Sjálfur neitar hann að svara erindum eða gefa nokkrar upplýsingar um starfsemi prests í skólanum.

Kennararnir líta þig hornauga sem vandræðagemling og láta hafa eftir sér í opinberri skýrslu, sem birt er á heimasíðu bæjarfélagsins, að atlaga þín og umfjöllun hafi verið óheppilegt niðurbrot á þjónustu sem reyndist afar vel í skólanum.

Biskupinn sakar þig um uppivöðslusemi og hamagang, svo mikinn að mönnum blöskri og þyki nóg komið, hann segir þig taka forráðamenn skólanna á taugum með hatrömmum málflutningi, hann segir að afstaða þín leiði til þess að við þjóðfélaginu blasi helsi hatur og dauði. Afleiðingin verði tilgangsleysi, tómhyggja og fólk verði ófært um að treysta nokkrum eða neinu og að öll viðmið til að byggja líf sitt á tapist. Hann segir að guðlaus maður í afhelguðum heimi sé skeytingarlaus um allt, beri ekki lotningu fyrir neinu og dæmin séu allt um kring í rányrkju, mengun og ofbeldi öllu sem ógnar lífi og framtíð móður jarðar. Hann sakar þig um harða og kalda andstöðu gegn kristni og hatramman andtrúaráróður, andlegur hafís guðleysis lóni fyrir landi og ískalda og vonarsnauða þoki stafi af honum, dragsúgur vantrúar og vonleysis. Þú takir þér það vald að tala fyrir munn hinna mörgu.

Fyrrum biskup og biskupsfaðir bendir á að kröfur þínar séu fjarstæða og skammsýni, en það verði víst aldrei friður fyrir ólátamönnum og óvildarfólki þjóðkirkjunnar en kirkjan eigi ekki að einblína á fyrirbæri sem eru meira og minna óeðlileg. Það sé bara evrópsk móðursýki að elta Mannréttindasáttmála Evrópu, það hafi aldrei verið keppikefli Íslendinga né æskilegt hlutverk okkar að skríða eftir allri evrópskri sérvisku.

Prestar segja þig grafa undan góðum gildum og menningararfi landsins, börn verði ólæs á arfleifðina, þú ráðist að persónu þeirra, sért með atvinnuróg og að þú viljir meina börnunum okkar að eiga samtal við kirkjunnar þjóna um lífsgildi og holl viðmið. Þeir saka þig um ofstækisfullt guðleysi sem litlu eirir og fátt virðir, falska byltingu sem sé búin að troða hin kristnu boðorð í svaðið. Þeir skáldlegri segja þig reyna að grýta fulltrúa sannleikans og gæskunnar í þessum heimi, ilskan sé svo hávær, hún rugli okkur í ríminu og spyrji erfiðra spurninga. Aðrir lýsa yfir áhyggjum sínum að sambandið rofni við sögu og menningu þjóðarinnar, gildismat og grundvöll, afleiðingin verði að mannréttindi séu fótum troðin og náttúran lögð í rúst.

Upp rísa líka minni spámenn sem benda á að eftir að bænir voru bannaðar í bandarískum skólum og tekið var tillit til samkynhneigðra var ráðist á Tvíburaturnana. Þeir eru óþreytandi við að minna á að trúleysi sé annað hvort uppskrift að kúgun í anda Sovétríkjanna eða fjöldamorðum nasista, þú sért niðurrifsmaður. Aðrir segja að verði þér að ósk þinni að allri trú og trúarbrögðum verði kippt úr þjóðfélaginu verði einstaklingarnir skildir naktir eftir með innihaldsleysið og tilgangsleysið í lífi sínu, þá haldi rótleysið innreið sína – s.s. vímuefnavandi, ofbeldi og annar mannlegur harmleikur.

Svo geysist ritstjóri DV fram á sjónarsviðið og segir þig í hópi siðblindingja og öfgahópi rugludalla sem hafa fengið hljómgrunn í hættulegum órum sínum um að dauðhreinsa samfélagið. Virðing fyrir trú sé það sem skilur Íslendinga frá því að vera villimenn. Hann segir að siðblindir megi aldrei leiða okkur á þá leið glötunar að útrýma því göfugasta sem fylgt hefur þjóðinni síðastliðin þúsund ár. Taumlaust og óagað frjálslyndi geti aldrei orðið til annars en bölvunar fyrir alla, góðu gildin séu grundvöllurinn að góðu og öfgalausu samfélagi.

Þú getur reynt að benda skólastjórnendum á að virða lög og reglur. Það gæti gengið en líklegra er að þeir svari þér að svona hafi hlutirnir alltaf verið og allir séu sáttir en líklegra er að þeir svari engu eða vísi á menntamálaráðuneytið. Menntamálaráðuneytið vísar svo ábyrgðinni eftir dúk og disk á sveitarstjórnirnar. Þú getur reynt að höfða til sveitarstjórnarmanna en ef þeir svara vísa þeir á hefðir og yppa öxlum, þó svara þeir helst ekki. Þú getur bent á rangfærslur, tvísögli og ósannindi kirkjunnar manna, en það er eins og að stökkva vatni á gæs. Þú getur sent biskupi kvörtun, en hann svarar ekki. Þú getur kvartað til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar en hún telur ágreining um samstarf kirkju og skóla ekki ágreining á kirkjulegum vettvangi og starf kirkjunnar í skólum geti hvorki talist varða kirkjulegt starf né starfsemi á vegum þjóðkirkjunnar. Þú getur þá skotið málinu til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar en getur þá átt von á að borga laun fimm hálaunamanna við að skoða erindi þitt. Hver þeirra rukkar sex tíma vinnu fyrir klukkustundarlangan fund.

Og hvernig er brölt þitt svo matreitt af biskupi ofan í sauði hans? Jú, hann segir: „Andbyr, andstaða, árásir á kirkju og kristni má líka sjá sem vísbending um að kirkjan sé að gera rétt, að sækja fram, opna nýja farvegi, smíða nýjar brýr fyrir fagnaðarerindið. Mikilvægasta erindi, merkasta boðskap í heimi, og sem er kraftur Guðs til hjálpræðis.“

Áreitni er að skapa ógnandi, óvinveitt, niðurlægjandi eða særandi andrúmsloft. Ætli biskup kalli það ekki hlýjan vorþey trúarinnar og kristilegs siðgæðis?

Reynir Harðarson 02.05.2008
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú , Skólinn )

Viðbrögð


Teitur Atlasoon (meðlimur í Vantrú) - 02/05/08 08:54 #

Flott hjá þér Reynir. Andstaðan sem þú verður fyrir er afar sértök í því ljósi að það eina sem þú ferð fram á er að farið sé að lögum og reglum sem í landinu gilda. Þú átt heiður skilin og barátta þín veitir okkur hinum innblástur fyrir að skapa réttlátara samfélag.

Nú er nóg komið að tali og tími kominn á aðgerðir. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um einhver mótmæli heldur að notaðar séu hinar hefðbundu leiðir til þess að mótmæla órétti s.s hinar lögformlegu leiðir á sveitarstjórnarsviðinu og kærur á þá sem brjóta á mannréttindum.

Ég lýsi yfir ánægju með baráttu þína og ég veit að margir fylgjast vel með.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.