Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Rökfræðipróf 201

Prestar og skólar eiga enga samleið.

Það er gjörsamlega útilokað að prestar geti komið að námi barna í grunn- og leikskólum, ef virða á lög og reglur íslensks samfélags. Heimsóknir þeirra í leikskóla eru út í hött og heimsóknir nemenda í kirkjur eru út í hött ef prestur kemur þar nærri, meðhjálpari, djákni eða aðrir prelátar.

Ástæðan er einföld. Skólinn er fræðslustofnun, ekki trúboðsstofnun, eins og segir í námskrá, en innsta eðli kirkjunnar og öll störf kirkjunnar þjóna eru boðun, boðun trúar, trúboð.

Rökfræði 101

Forsenda 1: A er bannað í X.

Forsenda 2: Allt sem tengist B felur í sér A.

Niðurstaða: B er bannað í X.

Kirkjunnar menn vilja flækja málið og afneita hlutverki sínu og köllun þegar kemur að skólum. Þess vegna sömdu þeir siðareglur fyrir Vinaleið og sögðu þar: "Vinaleiðin er ekki trúarleg boðun."

Þjóðkirkjan er aðili að lútherska heimssambandaninu en í stefnumörkun hennar stendur:

„Boðun er kirkjunni eðlislæg Jesús gefur til kynna að ástæðan fyrir tilvist kirkjunnar sé að Guð kallar hana til boðunar: „Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður“ (Jh 20:21) Kirkjan er eignarlýður Guðs sem skapaður er til að víðfrægja dáðir hins Eina sem kallar fólk sitt frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss (1Pt 2:9). Þess vegna er boðun hið eiginlega eðli kirkjunnar. Boðun er ekki valkostur kirkjunnar. Boðun er grundvöllur veru hennar sem „ein, heilög, almenn og postulleg“ kirkja (Níkeujátningin).“

Karl Sigurbjörnsson biskup skrifaði formála að þessari stefnumörkun á vef kirkjunnar og sagði þar meðal annars:

„Orðið mission er margrætt og hlaðið. Í kirkjulegu samhengi er það gjarna þýtt kristniboð.“

„Kirkjan er send með boðskap. Það er hlutverk hennar og verkefni hennar öll eru með einum eða öðrum hætti liður í þeirri sendiför.“

Hvað segja kirkunnar menn um trúboð? Ragnar Gunnarsson ætti að þekkja það því hann er framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins og hefur starfað sem kristniboði, kennari og “skólaprestur”. Á vef kirkjunnar segir hann:

“Þjóðkirkjan skilgreinir sig sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Orð Guðs er boðað í guðsþjónustum, í barna og æskulýðsstarfi, helgistundum – og reyndar á boðunin að umvefja og merkja allt starf kirkjunnar. Hún hefur það hlutverk hér í heimi að boða Jesú Krist og að vitna um kærleika hans. Þannig stundar þjóðkirkjan boðunarstarf eða trúboð hér heima.”

“Kristniboð er oft notað um boðun kirkjunnar í öðru samfélagi... Trúboð er oft notað um það sama, en af mörgum einskorðað við þýðingu á orðinu “evangelism”, sem er boðandi starf í nánasta umhverfi. Íslensku orðin skýra sig sjálf. Að boða trú, að boða kristni.”

“Við þurfum kænsku, djörfung, visku og kærleika til að flytja boðin áfram...”

Ekki er úr vegi að skoða ályktun Kirkjunþings í októberlok 2006 því Kirkjuþing fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Vinaleiðin fellur t.d. undir svokallaða “kærleiksþjónustu” kirkjunnar. Um hana segir kirkjuþingið:

“Tilgangur kærleiksþjónustunnar er að miðla kristinni trú í verki með umhyggju og nærveru.”

“Kærleiksþjónusta kirkjunnar felst í því að mæta fólki í Krists stað, í nafni og umboði Jesú Krists.”

Kærleiksþjónustan “er guðsþjónusta hins daglega lífs.”

“Kærleikurinn er hinn rauði þráður í boðskap Krists. Kærleiksþjónustan skarast því við öll önnur hlutverk kirkjunnar. Um skyldur gagnvart náunganum sagði Jesús: “Það allt, sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér” (Matt. 25.40). Við erum erindrekar Krists, sbr. Kristniboðsskipunina (Matt. 28.18-20).” Í þessari kristniboðsskipun segir: “Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.”

Fylgi prestar og aðrir starfsmenn kirkjunnar eftir Kristniboðsskipuninni, líkt og þeim ber í öllum störfum sínum, vilja þeir gera öll börn að lærisveinum Krists. Haft er eftir þessum Kristi í Biblíunni:

„Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“ (Lk. 14:26)

„Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.“ (Jh. 12:25)

Í blaði ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, Hægri, var menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, spurð haustið 2006 hvort henni finndist trúfélög eigi að hafa aðstöðu innan grunnskóla og aðgang að börnum þar og hún svaraði:

“Ég tel ekki óeðlilegt að trúfélög geti innan einhverra marka fengið aðstöðu innan grunnskóla til að iðka þar tómstundastarf með börnum rétt eins og önnur félagasamtök og íþróttafélög fá að gera utan hins hefðbundna skólastarfs. Skólinn á hins vegar ekki að vera vettvangur trúboðs.”

Í skýrslu starfshóps Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla segir:

Hlutverk leik- og grunnskóla varðandi trúarbragðafræðslu

Innan leik- og grunnskóla bera kennarar ábyrgð á kennslu og fræðslu barna um trúarbrögð, lífsskoðanir og kristilegt siðgæði. Lögð er áhersla á að í skólum fer fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en þar er ekki stunduð boðun trúar. Í engum tilfellum er skólastarfi og starfi trúar- og lífsskoðunarhópa blandað saman.

Börnum og unglingum skal ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar

Í leik- og grunnskóla skal börnum ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.

Þegar bent var á hræsni kirkjunnar manna sem fólst í því að segja Vinaleiðina ekki trúarlega boðun áttuðu þeir sig og fjarlægðu það ákvæði með snatri. Samt vilja þeir halda starfinu áfram. Heimsóknir sínar í leikskóla verja þeir fram í rauðan dauðann og dásama að nemendur skuli leiddir í messur á vegum skólanna. Þeir segja að öll samskipti þeirra við skóla séu „á forsendum skólanna“. Hvernig getur messa verið á forsendum skóla? Þeir þykjast gleyma að boðun er ekki valkostur kirkjunnar heldur hið eiginlega eðli hennar og grundvöllur veru hennar, verkefni hennar öll liður í þeirri för.

Rökfræði 201

Forsenda 1: Kirkjunnar menn segja öll sín störf trúboð.

Forsenda 2: Kirkjunnar menn segja störf sín í skóla ekki trúboð.

Niðurstaða: Kirkjunnar menn ljúga.

Forsenda 1: Kirkjunnar menn segjast menn sannleikans.

Forsenda 2: Kirkjunnar menn ljúga.

Niðurstaða: Kirkjunnar menn eru hræsnarar.

Próf:

Forsenda 1: Kirkjunnar menn segja sitt siðferði öðru æðra.

Forsenda 2: Kirkjunnar menn ljúga og hræsna.

Niðurstaða:_________________________

Reynir Harðarson 18.04.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Skólinn , Vinaleið )

Viðbrögð


Valtýr Kári - 18/04/08 15:44 #

Forsenda 1: Ef að lygi er endurtekin nógu oft þá verður hún samþykkt sem staðreynd. Forsenda 2: Ef að eitthvað er samþykkt sem staðreynd þá verður því tekið sem sannleika. Niðurstaða: Lygi getur orðið sannleikur, heilagur sannleikur.

Ég hélt að þetta vissu allir?


Svali - 19/04/08 09:05 #

Er þetta ekki frekar þröngt?? Held að það séu örruglega fleirri forsendur í dæminu.

En ég held hvortið er að það myndi ekki skipta neinu máli því ef maður myndi skoða vinaleið þá kæmist maður að sömu niðurstöðu að hún væri trúboð.

Skil ekki hvernig þeir komast upp með þetta... fáranlegt!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.