Heill og sæll, skólastjóri.
Ég hélt ég hefði bent þér á dóm Evrópudómstólsins eða úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í máli norskra foreldra gegn norska ríkinu vegna kennslu í trúarbragðafræðum þar í landi. Í honum kemur fram að norskir foreldrar geta beðist undan því sem flokka má sem trúarinnrætingu/trúariðkun í skólanum og þar á meðal er nefnt að gera trúarlegar myndir. Í úrskurðinum kemur fram að undanþáguákvæði þar í landi er ekki virkt í framkvæmd og því brýtur kennsla þar í bága við þau mannréttindi sem felast í frelsi foreldra til að tryggja börnum sínum það trúarlega uppeldi sem þeir kjósa og á rétti barna til frjálsrar skoðunar og trúar.
Nú fyrir páskana kom barnið mitt heim með bækling sem það hefur litað myndir í.
Í bæklingnum stendur: „Á pálmasunnudag kom Jesú til Jerúsalem ríðandi á asna.“ Þar er líklega átt við Jesús. Beygingarvillan er endurtekin í bæklingnum og því langar mig að vita hver er höfundur hans. Ég þekki goðsögur af þessum manni/guði en hefur skólinn fundið öruggar heimildir fyrir þessum atburði? Viltu vera svo vænn að segja mér hvar þær er að finna svo ég geti staðfest að barninu mínu sé ekki kennd einhver vitleysa?
Um föstudaginn langa segir: „Á föstudaginn langa létu nokkrir voldugir óvinir Jesú krossfesta hann. Þeim líkaði ekki það sem hann kenndi og voru öfundsjúkir.“ Viltu vera svo vænn að fræða mig um í hverju öfund þessara voldugu óvina var fólgin og geta heimilda um hana? Voru Rómverjar þessir voldugu óvinir eða lýðurinn, sem heimtaði krossfestinguna? Ég geri ráð fyrir að starfsfólk skólans þekki mannkynssöguna og þær hörmungar sem andúð á gyðingum, ekki síst vegna þessarar söguskoðunar, hefur leitt yfir milljónir saklausra fórnarlamba. Vill skólinn stuðla að aðgreiningu í „okkur“ og „þá“ á grundvelli trúarbragða?
Um páskadag segir: „Á páskadag komu nokkrir vinir Jesú að gröf hans, en sáu þá að hún var tóm.“ Ég veit að þetta atriði skiptir miklu í goðsögunni en mér finnst afar merkilegt að nú skuli hægt að bera þessa vitneskju á borð fyrir 7 ára barn án nokkurs efa. Því vil ég enn óska eftir heimildum um þessi fræði. Hverjir voru þessir vinir?
Í lokin segir svo: „Við höldum páskana í minningu um upprisu Jesú.“ Hver eru þessi „við“ sem frá er greint? Er ég og barnið mitt hluti af því mengi? Geta menn risið upp frá dauðum?
Í Biblíunni, sem virðist vera aðalheimild skólans, kemur fram að páskarnir séu haldnir hátíðlegir til minningar um brottförina frá Egyptalandi, þegar guð Ísraelsmanna leiddi þá í gegnum Sínaí-eyðimörkina. Þá slátruðu menn lambi og báru blóð á útidyr sínar, afar smekklegt skraut og í anda guðs þeirra sem virðist einlægur aðdáandi fórna, slátraði víst einkasyni sínum áður en yfir lauk og nokkrir fylgjendur drekka blóð hans enn þann dag í dag. Erum „við“ þau sem drekka blóð slátraða sonarins eða þau sem rjóða blóði slátraðra lamba á útidyr? Að vísu tók ferðin um eyðimörkina víst ein 40 ár svo eitthvað er guðinn þeirra tregur leiðsögumaður. Enn í dag halda gyðingar páska hátíðlega af þessu tilefni, ekki vegna asnareiðar Jesú, svo líklega eru gyðingar, guðs útvalda þjóð, ekki þeir sem ávarpaðir eru í bæklingnum. Gyðingar eru þá væntanlega „þeir“ og ekki hluti af „okkur“.
Aðrir fagna páskum því þá eru vorjafndægur nýafstaðin, þegar dagur og nótt eru jafnlöng á jarðarkringlunni allri. Slíkt fólk er þá væntanlega „þeir“ líka og ekki hluti af „okkur“.
Svo skilst mér að stór hópur manna fagni páskum fyrst og fremst vegna þess að þá fæst frí í skóla og vinnu. Slíkt fólk er þá væntanlega líka hluti af „þeim“ en ekki „okkur“.
Mér þætti vænt um að fá nákvæmar upplýsingar um hvað ég og barnið mitt þurfum að gera til að verða hluti af „ykkur“. Ef það eru trúarbrögð sem aðgreina „okkur“ og „ykkur“ held ég að skólinn sé á allhálum ís, raunar svo hálum að þar sé engum stætt.
Í grunnskólalögum (nr. 66/1995) segir í 29. gr.:
Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar eða stöðu að öðru leyti.
Miðast bæklingurinn, kennslan, fræðslan og verkefnið ekki aðeins við ein trúarbrögð, einn hóp landsmanna, sem fer stöðugt minnkandi?
Í aðalnámskrá grunnskóla segir:
Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. (Bls. 51) Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun...
Felst nærgætni eða skilningur í því að gera greinilega ráð fyrir að allir séu kristinnar trúar? Eða að kristin trú sé sú rétta, jafnvel sú eina rétta?
Í siðareglum kennara segir:
Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða.
Er réttur barnsins míns til skoðana sinna, hugsana, trúar og sannfæringar virtur með þessu verkefni? Er verkefnið kannski líklegt til að stuðla að fordómum gegn þeim sem ekki kyngja þessum goðsögum?
Samkvæmt Barnalögum (nr. 76/2003) er inntak forsjár réttur og skylda til að ráða persónulegum högum barns og að fara með lögformlegt fyrirsvar barns (28. gr.).
Barnið mitt lýtur minni forsjá. Var réttur minn sem forsjáraðila virtur með þessu verkefni? Réttur til að ala barnið mitt upp samkvæmt minni sannfæringu í trúmálum?
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (nr. 18/1992) segir að aðildarríki skuli virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra eða forsjáraðila barns til að veita því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess er það beitir réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningnum (5. gr.).
Og að aðildarríki skuli virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar (14. gr.).
Samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (nr. 10/1979) skal enginn þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu eða heimili (17. gr.). Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar (18. gr.). Í þessum rétti felst frelsi til að þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að þeirra vali, og frelsi til að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með tilbeiðslu, helgihaldi, guðsþjónustu og kennslu.
Enginn skal þurfa að sæta þvingun sem mundi hefta frelsi hans til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að hans vali.
Frelsi til þess að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er í lögum og eru nauðsynlegar til þess að vernda öryggi almennings, reglu, heilbrigði eða siðgæði, eða grundvallarréttindi og frelsi annarra.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.
Og hliðstæð ákvæði eru í lögum um Mannréttindasáttmála Evrópu (nr 62/1994) og viðaukum hans.
Telur þú skólann virða þessi ákvæði, sér í lagi það síðasta (4. mgr. 18. greinar)
Viltu vera svo vænn að segja mér hvort þú getir fallist á túlkun norskra stjórnavalda á trúarinnrætingu/trúariðkun (m.a. gerð trúarlegra mynda) og þann úrskurð Mannréttindanefndarinnar að slíkt brjóti á mannréttindum foreldra og barna sem eru trúlaus? (Sjá eftirskrift.)
Ég legg til að þú kynnir þér úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá nóv. 2004 (CCPR/C/82/D/1155/2003) og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 29. júní 2007 (beiðni nr. 15472/02) áður en þú svarar.
Sé niðurstaða þín og mat samhljóma úrskurði og dómi þeirra virtustu lögspekinga í mannréttindamálum sem ég veit um langar mig að vita hvort og þá til hvaða viðbragða þú hyggst grípa í kjölfarið. Má vænta breytinga á kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði í skólanum? Má vænta þess að kirkjuferðir og undirbúningur messu í skóla og á skólatíma heyri sögunni til þrátt fyrir neitun þína þar að lútandi í desember?
Ég geri mér fulla grein fyrir þeim vinsældum sem bréf þetta er líklegt til að skapa mér í skólanum. Eflaust verður litið á þetta sem smámunasemi og leiðindi, fremur en sjálfsagt réttlætismál. Um jólin voru flennistórar myndir úr jólaguðspjallinu eftir nemendur hengdar upp í skólanum, nemendur höfðu undirbúið messu í kirkju í skólanum, nemendur höfðu tekið þátt í messunni, sem nemendur, prestur þjóðkirkjunnar í fullum skrúða prýddi heimasíðu skólans. Þegar ég sendi þér ábendingu síðast og vísaði í sömu lög, reglur, úrskurði og dóma sagðir þú: „Erindi þitt og tilvitnanir gefa ekkert tilefni til breytinga á starfsháttum skólans í þessum efnum.“
Ég verð að viðurkenna að sú afstaða olli mér verulegum vonbrigðum. Þess vegna á ég kannski ekki von á miklu frá skólanum í þessu tilviki en mér finnst skylda mín að reyna að höfða til sanngirni og löghlýðni skólastjóra. Ég vona að sú viðleitni mín verði virt mér til einhverrar vorkunnar.
Með bestu kveðju
-Foreldri
Um undanþágur í Noregi í máli MSÞ:
„Firstly, exemption shall be granted when requested for activities that clearly may be perceived to be of a religious nature. For such activities, parents are under no obligation to give reasons for their requests. In 2001, the Ministry simplified the exemption procedure by developing a notification form that may be used to claim exemption from eight different, specific activities, e.g. learning by heart of prayers, declarations of faith and religious texts, singing of religious hymns, attendance of religious service, excursions to churches (þú manst vonandi), production of religious illustrations, active of passive roles in religious dramatizations, and receiving holy scripts as gifts and taking part in events in this context.“
Niðurstaða nefndarinnar var að þrátt fyrir undanþáguúrræði, sem virka ekki, brytu kennsluhættir í trúarbragðafræði í Noregi í bága við 4. mgr. 18. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hér kallast alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (nr. 10/1979).
Lesefni til fróðleiks:
Tímarit The International Journal of Children's Rights
Útgefandi--Brill Academic Publishers
ISSN-- 0927-5568 (á prenti) 1571-8182 (á vefnum)
Tölublað-- Tölublað 13, Númer 4 / desember, 2005, bls. 403-412
Þakka þér fyrir séra Baldur.
Þið kirkjunnar menn eruð lagnir að greina kjarna máls frá hisminu.
Flott og skýrt bréf. Það verður spennandi að sjá viðbrögðin við því.
Þú átt hrós skilið að standa í þessu stóra mannréttindamáli. Yfirgangur ríkiskirjunnar er hvort í senn lúmskur og lævís.
Ríkiskirkjuliðið ættu að skammast sín fyrir þetta fölskvalausa brot á grunnskólalögum. Hví reynir það ekki að "ná til" fullorðinna? Hví er þessi mikla ásókn í að komast með trúarþvættingin til smábarna?
Vá, hvað þetta er biturt! Fyrstu "viðbrögð" mín við þessu bréfi er að áætla að meðlimir Hells Angels á Íslandi hafi lært stafsetningu, vandaðan rithátt og gott málfar, grúskað síðan aðeins í lögum og reglugerðum og smellt saman bréfi. Málfarið, stafsetningin og framsetningin er óaðfinnanleg. Það eina sem vantar er "vitið" í þetta bréf.
Mér finnst þetta bréf bera meiri vott um öfgahyggju en nokkuð sem kristnir eða múslimskir öfgahyggjumenn gætu mögulega skrifað. Slakið nú aðeins á!
Er þetta ekki óþarfa viðkvæmni? Skólinn er þarna að fara eftir lögum og relgum: Í lögum um grunnskóla og í Aðalnámskrá er kveðið á um að nemendur eigi að þekkja mikilvæg atriði i trúarbrögðum; bæði kristni og öðrum trúarbrögðum. Verkefnið með að lita myndir hefur greinilega þann tilgang að festa í minni söguna um páskana. Það er alveg óþarfi að líta á þetta sem trúboð eða áróður. Þetta er saga sem talið er æskilegt að upplýstir þjóðfélagsþegnar kunni skil á. Ertu á móti því að segja þessa sögu? Heldurðu að barnið þitt verði upplýstara, víðsýnna og umburðarlyndara ef það þekkir hana ekki? Þú þarft ekki að hafa nokkrar áhyggjur af þessari litlu kristnifræðikennslu í skólunum. Trúaruppeldið fer fram heima, það er á þína ábyrgð. Ég held að skólinn hafi engan áhuga á að skipta sér af því.
Snorre,
"... bera meiri vott um öfgahyggju en nokkuð sem kristnir eða múslimskir öfgahyggjumenn gætu mögulega skrifað."
Slaka ÞÚ nú aðeins á. Lestu þessa setningu þína og hugleiddu það sem kristnir og múslimskir öfgahyggjumenn hafa verið að segja í gegnum tíðina. Ég er sannfærður um að þú munir, eftir stutta umhugsun, átta þig á kjánaskapinn sem í þessum orðum felst.
Ég skal koma með vísbendingu:
Foreldri sem kærir sig ekki um að barnið sitt sitji undir trúboði í opinberum skóla
versus
Grýtingar, hengingar og afhausanir fyrir hluti eins og kynlíf fyrir hjónaband, samkynhneigð og trúvillu.
Berðu þetta saman, lestu svo þessa setningu þína aftur.
Haha, þetta er eitt það sorglegasta sem ég hef séð í langan tíma, ég hef nú lesið margar fáranlegar greinar á þessari síðu en þessi toppar nú allt með eintómri steypu.
Með von um að rithöfundur eigninst líf Stefán Karl
Stefán Karl.
Viltu ekki bara fara aftur á leikskólann? Að það sé sorglegt að ætlast til þess að stofnun, sem við ÖLL, trúuð eða trúlaus, þurfum að borga fyrir virði ekki rétt barns og foreldris þegar kemur að einu því mikilvægasta í lífinu, stöðu á trú og trúmálum, er bara með því vitlausara sem ég hef heyrt.
Þessi afstaða þín gerir mig pirraðann, og gerir ætíð erfiðara fyrir mér með svona vitleysingja eins og þig að virða skoðanir trúfólks!
Það er rétt hjá þér, Baldur, að það eru tveir leiðir til að beygja nafnið Jesús, en það er aldrei Jesú í nefnifalli, alltaf Jesús.
Snorre og Stefán.
Ekki það að ég búist við því að þið svarið þessu en hvað var það sem ykkur fannst svona sorglegt/öfgafullt.
Það var æðislegt að lesa þetta. Ég man ennþá eftir því þegar að ég var í grunnskóla fyrir nokkrum árum og nemendurnir voru skildaðir til þess að halda svokölluð ''litlu jól'' í skólanum og labba svo eftir það saman og helst að við héldumst í hendur upp í hverfiskirkjuna þar sem einhver prestur talaði eintóma þvælu í alltof langan tíma.
Þá trúði ég ekki á Jesú né neinn guð en einhvernveginn fór ég að því að láta ferma mig, sennilega vegna þrýstings frá foreldrum. Ég er búinn að hugsa mikið um trúmál seinustu vikur og ætla loksins að láta ''leiðrétta'' ferminguna og afskrá mig úr þessu bulli(kirkjunni) í næstu viku.
Takk fyrir mig Vantrúar menn, þið eruð að gera góða hluti :)
Þakka þér, Haraldur Gísli, bæði hólið og frásögnina.
Gott að þú ert ánægður.
Athugasemd Skúla hér fyrir ofan [ 21/03/08 13:28 ]lenti því miður í ruslvörninni þar sem ip-talan er á svörtum lista. Ég biðst velvirðingar á því að hún fór ekki í loftið fyrr en nú.
Hvað sakar einn dropi?
Jæja, þá er ásökunin um smámunasemi/viðkvæmni komin fram. Surprise, surprise.
Áhrifarík pyntingaraðferð er að láta dropa falla á enni manns, einn af öðrum, klukkutímum og dögum saman. Á endanum verður hver dropi sem sleggjuhögg.
Í Biblíunni segir að konuþras sé eins og sífelldur þakleki.
Og hvað sakar einn dropi, eitt staup, byttuna?
Þótt í bréfinu sé bent á nokkra dropa er hver þeirra um sig ekki svo óskaplegur, en þessi stöðugi þakleki í skólum og þjóðfélaginu er óþolandi.
Kannski breytist eitthvað ef kvörtunum rignir inn.
Skúli Pálsson skrifaði:
Er þetta ekki óþarfa viðkvæmni? Skólinn er þarna að fara eftir lögum og relgum: Í lögum um grunnskóla og í Aðalnámskrá er kveðið á um að nemendur eigi að þekkja mikilvæg atriði i trúarbrögðum; bæði kristni og öðrum trúarbrögðum...Það er alveg óþarfi að líta á þetta sem trúboð eða áróður. Þetta er saga sem talið er æskilegt að upplýstir þjóðfélagsþegnar kunni skil á.
Málið er, að það skiptir öllu máli hvernig trúarbragðafræðsla er sett fram. Það hefur oft komið fram á þessum vef að við erum fylgjandi trúarbragðafræðslu í skólum, og við erum fylgjandi því að hún fjalli meira um kristni en önnur trúarbrögð.
En þegar námsefnið er sett fram með orðalagi sem gerir ráð fyrir því að kennarinn og skólabörnin séu meðlimir í kristnum söfnuði, þá erum við ekki að tala um einfalda fræðslu um trúarbrögð lengur. ,,Við höldum jól af því að..." er staðhæfing sem brýtur kannski í bága við það sem foreldrar segja barninu heima. Á barnið að túlka það svo að foreldrarnir hafi verið að ljúga? Viti kannski ekki betur?
Svo ekki sé talað um umfjöllun á upprisu Jesú eins og raunverulegum atburði án vangavelta um hvernig það gæti mögulega gerst. Það stangast á við kennslu í raunvísindum og rökfræði.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Baldur Kristjánsson - 21/03/08 09:07 #
Um beyginguna á Jesú eru tveir skólar og umrædd beyging því eins rétt og hin. Kvb. B