Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er kristni einhver vörn gegn "íslamistunum"

Hver er framtíð kristni? Hvað um niðja okkar, börn okkar og afkomendur? Hver verður þeirra trú? Mun Islam leggja álfuna undir sig? Kristni hopar í Evrópu. Fyrir Islam og fyrir guðleysi og tómhyggju. Hvað þarf til að snúa þeirri þróun við? Eða er okkur alveg sama? Ég vona ekki. #
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup

Nú á dögum er mikið fjallað um þá meintu ógn sem stafar af fjölgun múslima, sérstaklega í Evrópu. Fólk óttast að „íslamistarnir“ eigi eftir að taka yfir lönd þeirra, breyta öllum í múslima, setja konurnar í búrkur og sneiða burtu forhúðir karlanna. Það fólk sem stundar trúvörnina af mestu kappi talar oft um mikilvægi kristninnar sem einhvers konar mótvægi við íslam. En er sú fullyrðing rétt?

Manni virðist sem að þetta byggist á þeirri villu að fólk þurfi að hafa einhverja trú. Ef menn eru ekki kristnir þá þurfi þeir að aðhyllast eitthvað annað og vondu múslimarnir geti nýtt sér það tómarúm og fyllt í það með kórönum og súrum. Þessi hugsun sprettur úr þeim þankagangi trúaðra að fyrst þeirra eigin trú er þeim svo mikilvæg, þá hljóti það að gilda um alla. Biskup Íslands talar um „ólæknandi trúhneigð“ manneskjunnar þar sem trúleysi er ekki valmöguleiki. Því sér maður oft innihaldslausar setningar fljúga frá trúmönnum á borð við „trúleysi er trú“, byggða á þessum misskilningi. Í raun minnir þetta dálítið á fyllibyttuna sem getur ekki hugsað sér lífið án bokkunnar.

En hvernig er best að bregðast við þeirri hættu sem stafar af forneskjulegum hugsunarhætti trúarbragðanna? Hvað getur komið í veg fyrir skoðanakúgun og þá frelsisskerðingu sem einatt fylgir í kjölfar ástríðufullrar guðadýrkunar?

Að mínu mati þá er besta vörnin gegn yfirgangi trúarbragða er ekki alræði einna trúarbragða heldur samfélag sem byggt er á sterkum veraldlegum grunni. Þar sem trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá og þar sem skólarnir eru sekúlar og allri trúarinnrætingu og trúboði hefur þar verið úthýst. Algjör aðskilnaður þess trúarlega frá ríkisvaldinu á öllum stigum tryggir það að öfgasinnaðir trúarhópar eiga hvergi eftir að ná fótfestu. Það er raunhæf vörn gegn „íslamistunum“, ekki aukin áhersla á hin hefðbundnu hindurvitni.

Lárus Viðar 06.02.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja , Kristindómurinn , Íslam )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 09:11 #

Karl óttast guðleysi og tómhyggju. Tómhyggjan býður væntanlega heim skeytingarleysi, sem kann ekki góðri lukku að stýra í mannlegu samfélagi. Hið ágætasta þjóðfélag getur þó þrifist í guðleysi en algóður guð dæmir þegna þess þó til helvítisvistar - af augljósum ástæðum. En hvað er svona hættulegt við að afkomendur okkar lofsyngi, ákalli og treysti Allah? Ég vildi að biskup svaraði því.

Ástæðan er væntanlega sú að enginn kemst til Guðs nema í gegnum Jesú. Í huga biskups er Íslam villutrú. Og samkvæmt Kóraninum er kristni villutrú. Auðvitað eru mormónar svo á villigötum, kaþólskir, gyðingar o.s.frv. Hvort er þetta kostulegt eða grátlegt? Á maður að hlæja eða gráta?

Ef ég væri í liði með almáttugum guði, þessu eina rétta og sanna, hefði ég litlar áhyggjur af þessu. Hvernig stendur á áhyggjum rétttrúaðra?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 10:00 #

Mér finnst þessi greining biskups ríkiskirjunnar vera grunnhyggin. Í henni felst barnaleg tvíhyggja sem í grunninn er þessi.

Ef samfélagið er ekki kristið þá verðum við öll múslimar.

Þetta er hreinn og klár óttaboðskapur settur fram af pólitískum ástæðum. Samfélagið er margslungið og sannarlega ekki svart og hvítt. Þótt það komi ýmsum spánskt fyrir sjónir þá er mögulegt að halda hvorki með Val eða KR. það er vel mögulegt að vera hvorki hægri eða til vinstrí í pólitík.

Þótt að Islam sé í "sókn" í Evrópu er sennilega skaðlegasta viðbragðið við téðri sókn að styrkja kristni. Að mínu mati er besta ráðið að ríkisvaldið styrki sín sekúlar gildi. Franska leiðin finnst mér til fyrirmyndar en þar eru öll trúarleg tákn bönnuð á opinberum vetvangi. Hvort sem um er að ræða slæður á múslimum, krossa eða höfðuðföt gyðinga. Grunnhugsunin er að trú er einkamál þegnanna og þegar starfsmaður ríkisins er í vinnunni, þá er hann í bland fulltrú ríkisins en ekki einhvers trúfélags.

-Hlutlaus þjónn samfélagsins.


Anna Benkovic Mikaelsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 10:41 #

Tek undir frönsku leiðina og vona að hún verði farin hér á Íslandi sem fyrst! Trú er einkamál og óþolandi að við styrkjum eitt trúfélag umfram annað með sköttum. Sá háttur er einnig viðhafður í Íran til dæmis og Sigurbjörn á þar skoðanabræður í ríkisstyrktri trú!


óðinsmær - 06/02/08 12:00 #

margt sem ég get tekið undir í þessu


Guðjón - 06/02/08 12:56 #

Það er ákveðin tilheiging hér á vantrú að neita að horfast í augu við þá staðreynd að trú er hluti af mannlífinu og sumt fólk telur sjálft að það fái mest út úr lífinu með hjálp trúar. Í frjálsu samfélagi er trú hluti af mannlífinu. Biskup er að velta fyrir sér stöðu kristninar í Evrópu sem er frekar veik.

Aðstæður eru breyttar og sennilega kemur trúarlíf til með að verða fjölbreyttar í framtíðinni en nú er.

Það er að mínu mati grundvallar miskilningur að telja að skynsemi og efnishyggja geti nokkurtíma komið í stað trúarbragða.

Við aðstæður þar sem fólk með trúarskoðanir sem stangast á þarf að lifa saman er umburðalyndi afar mikilvægt- að umburðalyndar trúarskoðanir séu ríkjandi- það er vel hægt að taka trúa alvarlega og vera jafnframt umburðarlyndur gagnvart þeim sem hafa skoðanir sem maður er ósammála í grundvallar atriðum- ef menn fallast á að hver og einn hafa heilagan rétt til að mynda sér skoðanir á eigin forsendum.

[klausa tekin út og færð hingað þar sem hún kemur efni greinarinnar lítið við -Ritstjóri]


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 13:14 #

Guðjón, þetta er eflaust í tuttugasta skipti sem þú skrifar nánast sömu athugasemd. Hún batnar ekkert þó hún sé endurtekin.


Kristján Hrannar Pálsson - 06/02/08 13:20 #

Ég bíð líka eftir því að Guðjón komi með sannfærandi rök hvers vegna skynsemi (þarf efnishyggja alltaf að fylgja í kjölfarið?) geti ekki komið í kjölfar trúarbragða. Varla er hann á móti skynsemi.

Þvert á móti höfum við séð ágætis dæmi um það hvernig skynsemi (og efnishyggja þá líka, fjandinn hafi það) kemur í stað trúarbragða. Það kallast upplýsingin.


g2 - 06/02/08 13:37 #

Guðjón skrifar:

Við aðstæður þar sem fólk með trúarskoðanir sem stangast á þarf að lifa saman er umburðalyndi afar mikilvægt- að umburðalyndar trúarskoðanir séu ríkjandi- það er vel hægt að taka trúa alvarlega og vera jafnframt umburðarlyndur gagnvart þeim sem hafa skoðanir sem maður er ósammála í grundvallar atriðum- ef menn fallast á að hver og einn hafa heilagan rétt til að mynda sér skoðanir á eigin forsendum.

Ef hann hefði farið á hreint frábæran fyrirlestur heimspekingsins Slavoj Žižek fyrir um tveimur vikum síðan hefði hann m.a.heyrt þetta:

Hugtakið umburðarlyndi vísar til raunverulegs vanda – hvernig er hægt að vera á móti umburðarlyndi í garð útlendinga, eða á móti femínisma, eða hlynntur hómófóbíu? Það sem menn ættu að snúast gegn er sá skilningur á t.d. rasisma (sem í dag er orðinn sjálfvirkur) að hann sé skortur á umburðarlyndi: hvers vegna er talið að fjölmörg álitamál nú um stundir snúist um umburðarleysi, frekar en ójöfnuð, arðrán eða óréttlæti? Hvers vegna er umburðarlyndi lagt fram sem lausn á vandanum, frekar en frelsisbarátta, pólitísk barátta, eða jafnvel vopnuð barátta? Að sveipa málin dulúð með þessum hætti er ekki til marks um fágaðan málflutning og rökræðu: það er hluti af ósjálfráðum hversdagsskilningi okkar á hugmyndafræði.


Geir - 06/02/08 13:53 #

ef að franska leiðin í sambandi við að banna slæður, krossa, kappa verður farin er það augljóslega brot á mannréttindum ...þá væri trúleysi allsráðandi í staðin fyrir trúfrelsi...það finnst mér þvingað og sorglegt samfélag...trúfrelsi er lausnin en ekki ofgastjórn eins félags hvort sem það er kristni, trúleysi eða hvað...hvað er að því að kona með slæðu taki blóðþrýstinginn...maður með kappa afgreiði þig...kona með kross beri út póstinn þinn...? eiga ekki allir að vera jafnir hverju sem þeir trúi?


Siggi - 06/02/08 14:34 #

Geir! Þú ert að misskilja frönsku leiðina, oftúlka hana eða hreinlega að snúa út úr. Franska leiðin felur það einfaldlega í sér að innan stofnana ríkiskerfisins er boðun trúar og trúartákn bönnuð vegna þess að ríkið er álitið veraldleg stofnun sem fjallar ekki um trúmál eða tekur neitt sérstakt tillit til trúarhugmynda. Þegar kemur út fyrir arm ríkiskerfisins, til dæmis í frítíma, falla þessi sjónarmið niður og þú mátt færa þér í nyt trúfrelsi það sem er tryggt í frönsku stjórnarskránni.


Geir - 06/02/08 15:21 #

nei siggi ... margar múslima konur telja slæðuna vera skildu en ekki eitthvað áhugamál eftir vinnu...þetta er þeirra trú...þar með er þetta kerfi vísvitandi að úthýsa þeim eða setja þær í þvingaða og ofsótta stöðu...hvers konar trúfrelsi er það...svo lengi sem þær ráða sig ekki í vinnu eða stundi nám í skóla þá mega þær ganga með sína slæðu?


Anna Benkovic Mikaelsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 15:34 #

ER trú sama og skylda?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 15:50 #

Í trúfrelsi felst frelsi að ástunda hvaða trú sem manni hugnast. -Það er allt gott og gilt. En trúfrelsi innifelur líka í sér frelsi UNDAN trú.

Frelsi undan trúariðkun annara. Franska leiðin er árétting á því sem og að undirstrika hið veraldlega vald frá hinu (meinta)guðlega valdi.

Hugmyndin er sú (eins og hefur komið fram) að opinberir starfsmenn ríkisins séu ekki með trúartákn á sér á vinnutíma. Það gæti verkað tvímælis í starfi opinberra starfsmanna þar sem þeir verða að gæta algers hlutleysis í þjónustu samfélagsins.

Ég er viss um að múslimakelling í Búrka eða með slæðu dauðans myndi taka það óstinnt upp ef hún fengi afgreiðslu í opinberri þjónustu af Hasedim-gyðingakalli með krullur og furðu-hatt.

-það ríkir vantraust þarna á milli. Eg veit að það væri frábært að það væri ekki en þannig er nú bara heimurinn. Opinberi starfsmaðurinn á að vera hlutlaus. Þetta liggur í augum uppi og kemur hugtakinu trúfrelsi ekkert við.


Guðjón - 06/02/08 18:01 #

Hvers vegna er umburðarlyndi lagt fram sem lausn á vandanum, frekar en frelsisbarátta, pólitísk barátta, eða jafnvel vopnuð barátta?

Vegna þess þannig geta hópar sem hafa ólíkar skoðanir lifa saman án vandræða

[klausa tekinn út og sett hér því hún kemur efni greinarinnar ekkert við - ritstjóri]


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 18:15 #

Guðjón, hvað er eiginlega að þér? Höfum við ekki farið yfir þetta með þér áður?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 06/02/08 19:23 #

Umburðarlyndi er ágætt, t.d. er veraldlegt skólakerfi þar sem trúarbrögðum er úthýst mjög umburðarlynt. Engum er hyglað á kostnað annarra.


Stefán - 22/03/08 20:29 #

Guðjón er bara að lýsa sínum skoðunum og það eru þónokkur góð rök hjá honum, en þið hin sjáið bara ykkar hlið og reynið varla (er mér sýnist) að hafa einhvern skilning á því sem hann er að segja. Þið eruð alls ekki að tala hlutleysislega séð eins og þið viljið halda heldur fylgið eindregið skoðunum ykkar og að því er virðist getið ekki gefið öðrum skoðunum gaum, t.a.m. skoðunum Guðjóns. Ég veit að það eiga nú eftir að koma tugi kommenta og allir segjast vera hlutleysir og lalala en spáið án gríns alvarlega í þetta; eruð þið eitthvað öðruvísi en fólk með trúarlegarskoðanir á málefnum? Eða dragiði eindregið ályktanir út frá ykkar skoðunum eða getiði beitt hlutleysis. Gætuði t.d. gert lista yfir kosti trúarlegs uppeldis? eða finnst ykkur engin kostur við það? Getiði fundið rök gegn ykkar rökum? Ég er bara að varpa þessum spurningum fram þar sem þessi síða á að vera málefnaleg, finnst mér að lang flestar greinar og komment séu einhliða og ekkert er reynt til að kynna sér málstað aðra aðila með aðrar skoðanir en ykkar eigin á hlutleysislegan hátt

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.