Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einkavæðum Þjóðkirkjuna

Nú þegar búið er að nútímavæða Biblíuna er kannski tímabært að nútímavæða rekstrarform Þjóðkirkjunnar, enda hefur ekki verið róttæk uppstokkun á rekstrinum þar síðan um siðaskiptin. Einkavæðingarstefna Ríkisstjórnar hefur nú skoðað flesta möguleikana á einkavæðingu, allt frá RÚV til heilbrigðiskerfisins, en hingað til virðist sem auðmenn þjóðarinnar hafi ekki litið Þjóðkirkjuna hýru auga. Nú ætti að vera breyting á.

Það sem greiðir götuna er að Björn Bjarnason hefur lýst yfir áhuga á að leggja niður Kirkjumálaráðuneytið og færa Kirkjumál undir Forsætisráðuneytið. Það ætti þess í stað að breyta nafni málaflokksins í ,,Trúmál” og færa það undir Viðskiptaráðuneytið.

Næsta skrefið er að breyta innra skipulagi. Karl Sigurbjörnsson skyldi kallaður forstjóri frekar en biskup, og fá lamineruð nafnspjöld merkt CEO. Ekki þyrfti að hanna logo fyrir fyrirtækið enda er krossinn mjög verðmætt vörumerki nú þegar, en það mætti hanna heildstætt litaskema, bréfsefni og branding áætlun.

Því næst ættu menn að gera almennt hlutafjárútboð. Hægt væri að skrá Kirkjuna á OMX og gefa prestum og meðhjálpurum stock options. Það mætti auka verðmæti fyrirtækisins með beinu netvarpi úr öllum kirkjunum á sunnudögum, og bjóða upp á podcast á hátíðisdögum eins og Jólunum. Og jafnvel selja auglýsingar eins og í íþróttahúsunum, hengja upp þriggja fermetra auglýsingar frá Bónus eða Glitni utan á pontunni. Þessi sálmur er í boði Kaupþings.

Einnig mætti endurskoða Jólin, þau eru jú best auglýsta útsöluhelgin á vesturlöndum, trúarupplifanir á spottprís. Hægt væri að selja aðgöngumiða í Dómkirkjuna og bjóða tveir fyrir einn á oblátum, messuvíni og bjór á krana. Hægt væri að vera með selebrití predikara og leynigesti. Hægt væri að hafa bænarstundir fyrir alla leiki í úrvalsdeildinni og sýna svo leikinn á breiðtjaldi eftir á. Þessi messa er í boði Sýnar.

Helstu tekjulindirnar væru eflaust í sölu syndaaflausnabréfa. Það var fáranlegt að leggja af svo arðvænlega iðju til að byrja með. Kirkjan hf. gæti selt forstjórum stórra fyrirtækja tryggingu fyrir því að þeir komist óáreittir inn í himnaríki, alveg óháð stefnu þeirra í starfsmannamálum. Þetta myndi jafnvel seljast betur en mengunarkvóti. Þessi jarðarför er í boði Alcoa.

Sumir myndu eflaust spyrja sig, mun þetta seljast eitthvað? Svarið er auðvitað: Hver myndi ekki vilja vera hluthafi í Kirkjunni hf. þegar Messías er endurborinn?


Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. nóvember og á heimsíðu höfundar

Smári McCarthy 13.11.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Grín , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Haukur Ísleifsson - 13/11/07 14:31 #

Vel skrifuð grein um ágætis hugmynd.


Daníel Páll Jónasson - 14/11/07 00:36 #

Hehehehe... sniðug hugmynd.

"Karl Sigurbjörnsson - CEO" og "Þessi sálmur er í boði Kaupþings"

Af hverju ekki?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.