Fyrr í þessari viku komu Reynir Harðarson (viðtalið byrjar 1:49:00) og þjóðkirkjupresturinn Jóna Hrönn Bolladóttir í sitt hvort viðtalið í Ísland í bítið til þess að ræða um hina svokölluðu Vinaleið. Því miður notaði Jóna Hrönn tímann aðallega í það að láta móðinn mása, en minna var um málefnaleg svör.
Reynir var í fyrra viðtalinu og í upphafi þess kom hann með þann grundvallarpunkt að skólinn ætti að vera hlutlaus í trúmálum og það sé ekki hlutleysi að fulltrúa eins trúfélags starfi innan veggja skólans. Vegna þess að nánast allir átta sig á því að skólinn ætti að vera hlutlaus í stjórnmálum, er þægilegt að bera trúmál saman við stjórnmál og segja að fulltrúi eins stjórnmálaflokks starfi innan veggja skólans.
Jóna Hrönn virtist ekki hafa skilið þessi rök, hvers vegna Reynir kom með þessa líkingu og í staðinn fyrir að koma með rök gegn þessum hlutleysissjónarmiðum fór hún að tala um það að Framsóknarflokkurinn væri ekki “sálgæslustofnun”, en að Þjóðkirkjan væri ákaflega góð slík stofnun.
Reynir benti á að fólk með sérþekkingu í að ræða við börn ætti að sjá um það, en prestar og djáknar hafa ekki þá sérþekkingu. Jóna Hrönn svaraði þessu ekki, heldur réðst á ímyndaðan andstæðing: “Það hefur soldið líka verið í þessari umræðu talað eins og prestar fletti upp ritningarversum í fimm ár, í biblíunni!”. Það hefur enginn haldið því að þeir séu bara að fletta upp ritningarversum, en menntun presta snýst aðallega um að læra um kristna trú. Jóna Hrönn taldi síðan upp þau námskeið eða fræðasvið sem prestar læra eitthvað í guðfræðideildinni eða hjá Þjóðkirkjunni. Það fyrsta sem hún nefndi voru: “trúarlífsfélagsfræði, trúarlífssálarfræði,...”. Þarna kristallast út á hvað prestanámið gengur, trú. Ekki að tala við börn. Það er líka afskaplega undarlegt að Jóna Hrönn skuli nefna trúarlífsfélagsfræði þar sem hún er rannsókn á trú og trúarbrögðum frá sjónarhorni félagsfræðinnar og tengist væntanlegu starfi “skólaprests” og “skóladjákna” ekki neitt. Eftir stendur að Jóna Hrönn hefur ekki hrakið punkta Reynis, prestar og djáknar hafa ekki sérfræðiþekkingu í því að tala við börn og að fá fulltrúa eins trúfélags í skólana brýtur gegn hlutleysismarkmiðum skólanna.
Þegar þetta er haft í huga er skiljanlegt hvers vegna Jóna Hrönn kom með frekar innihaldslaust svar þegar hún var spurð að því hvers vegna það ætti þá að fá presta og djákna en ekki sérfræðinga: “Af því að það vantar fleira fólk til þess að hlusta á börn.” En þetta svarar í engu því hvers vegna þetta fólk sem vantar ætti að vera prestar með “kristilegar forvarnir” en ekki sérfræðingar.
Jóna hélt áfram og hélt þrumuræðu þar sem hún opinberaði enn einu sinni skilningsleysi sitt á umræðunni. Það vantaði að hennar mati presta í skóla vegna þess að hún hafði séð svo margt slæmt í sjö ára starfi sínu sem “miðborgarprestur”: “Þá voru þessir menn ekki að rífa sig þegar maður þurfti að vera niðrí bæ um helgar um næturnar, þá voru þessir menn ekki að koma og finna að vegna þessa að þar vildi enginn vera.” Fólk var ekki að rífa sig vegna þess að “þar vild enginn vera”, heldur vegna þess að það er eðlismunur á miðbænum og opinberum skólum. En auk þess er það líka rangt af sveitarfélögum að borga fyrir störf presta.
Loks var Jóna Hrönn spurð út í hvort Vinaleið stangist ekki á við grunnskólalög, þar sem fram kemur að það megi ekki mismuna börnum vegna trúarskoðana. Svarið hennar var ansi ruglingslegt, enda virtist hún vera svolítið æst: “Sko það er algjörlega á hreinu að þetta fólk sem hlustar á börnin, sko, það verður, sko, að ganga út frá þeim forsendum hver...það á ekki að mismuna þessum börnum ef þau vilja nýta sér Vinaleið út frá kynferði eða trúarbrögðum eða mennningu eða hvers það er....”
Jóna Hrönn virðist halda að fólk hafi áhyggjur af því að prestur myndi banna börnum sem hann telur ekki réttrar trúar að koma í “kristna sálgæslu”. En auðvitað dettur engum það í hug. Málið er að foreldrar sem eru ekki kristnir geta ekki sent börnin sín þarna því þarna fer fram kristniboð.
Jóna Hrönn hálf-staðfestir þetta því hún heldur áfram að svara spurningunni með því að vísa til þess að 90% þjóðarinnar er skráð í kristin trúfélög. Hvers vegna ætti það að skipta máli ef þetta snýst ekki um trú, en ekki bara að "skapa skjól með persónu sinni".
Prestar eru ekki sérfræðingar, að fá prest í skólann brýtur gegn hlutleysissjónarmiðum skólakerfisins, og brýtur jafnvel gegn grunnskólalögum. Ekkert í málflutningi hennar hrakti þetta. Það hefði gagnlegra ef hún hefði andað djúpt að sér í byrjun viðtalsins og komið með málefnaleg rök í staðinn fyrir að reyna að flytja sem lengstar innihaldslausar ræður.
Fín grein og nauðsynleg Hjalti. Mér þótti einmitt mjög stingandi að sjá í þessu viðtali hversu ófær Jóna Hrönn var um að takast á við grundvallarforsendu gagnrýninnar frá Reyni.
Þetta er "Vitsmunalegur óheiðarleiki" :)
Það er ljóst af þessu að Jóna Hrönn Bolladóttir er í bullandi réttlætingarleit fyrir trúarstarfsemi sem stenst ekki landslög, alþjóða mannréttindasáttmála, jafnrétti og kröfuna um hlutleysi í opinberum skólum. Takk fyrir þetta yfirlit.
Það er líka komin ný merking í kristiðsiðgæði. Það þýðir ekki siðgæði heldur er leyfisbréf til Þjóðkirkjunnar til að gera það sem henni langar í grunnskólum landsins. Það eru allavega rök Jónu H. B.
Samt er það svo undarlegt að til er fólk sem fannst Jóna Hrönn standa sig rosalega vel í þessum þætti. Það virðist vera nóg að hafa hátt og gera sér upp sárindi :-|
Yrðuð þið ekki líka fúlir ef einhver vildi að ríkið hætti að halda uppi fjölskyldufyrirtækinu? Algjörlega skiljanleg viðbrögð.
Magnús er líklega að vísa til þess að í fjölskyldu Jónu Hrannar er mikið af starfsmönnum kirkjunnar.
Sælir félagar
Ég horfði á þennan þátt. Fannst þetta merkilegt svo ekki sé meira sagt. En hafið þið einhvern tímann fengið skýringu eða rök fyrir því hvers vegna þjóðkirkjan eigi að vera betri en aðrir að veita sáluhjálp og fleira? Eru þeir betri en múslímar? Heiðnir? Satanistar? Nú, eða trúlausir?
Jóna Hrönn Bolladóttir! Fattarinn ekki alveg í lagi.
En ætli það sé ekki útaf kristnu siðgæði sem er miklu betra en allt annað siðgæði í heiminum!
Siðgæði Jónu Hrannar er ekki betra en svo að hún sagði ósatt um Vinaleiðina þegar hún fullyrti að presturinn færi ekki inni í tíma til barnanna. (sjá http://www.orvitinn.com/2007/01/10/14.10/ )
Í dreifibréfi til Garðbæinga fullyrti hún líka að einstaklingar og félög hafi nú risið upp "sem vilja koma í veg fyrir að börnin okkar eigi samtal við þjóna kirkjunnar um lífsgildi og holl viðmið". En gagnrýnendur hafa bara bent á að skólinn er ekki vettvangur trúarlegs áróðurs eða innrætingar.
"Kristið siðgæði" - Það sem er sláandi við þetta er að verið er að gefa sér þá ósögðu forsendu að siðgæði okkar komi einhvern veginn frá trúarbrögðum, í þessu tilfelli úr kristinni trú, sem er auðvitað fásinna (Sjá "The God Delusion" eftir Richard Dawkins og "The End of Faith" eftir Sam Harris).
Ef við fengjum siðferði okkar úr kristni, lifðum við í landi sem væri ekki ósvipað Afganistan undir Talíbönum. En þá fer fólk eins og Jóna Hrönn að velja fallegustu bútana úr Nýja Testamentinu og hafna þeim viðurstyggilegu, sem nefnist "cherry-picking" á ensku.
En á hvaða forsendum velja menn "góðu" versin og hafna þeim "vondu"? Þær forsendur höfum við öll, óháð einvhverju kroti frá bronsöld.
Er ekki hægt að hafa samlíkingu með kristnifræðslu í grunnskólanum og því að það er kennd íslenska í grunnskólanum. Íslenskan er kennd af því að samfélagið sem við búum í er íslenskt og tungan er íslensk. Það útilokar ekki að börn sem eiga foreldri sem tala annað tungumál frá því að kunna og tala það tungumál. Það sem ég vildi sagt hafa, það er kristinn siður í landinu og hefur verið frá árinu 1000, og hann er kenndur í skóla eins og tungumál okkar. Það kemur samt ekki í veg fyrir að við höfum umburðarlindi fyrir skoðunum annara.
Ég mæli með því að lesir nokkrar greinar í skólaflokknum gætir byrjað á Kennsla og trúboð er ekki sami hlutur.
Kristinfræði er ekki umræðuefni greinarinnar. Held að ég hafi ekki einu sinni minnst á hana.
...það er kristinn siður í landinu...
Gætirðu útskýrt betur hvað þú átt við með þessu?
Hjalti, það sem ég á við með kristinn siður, er að árið 1000 komu goðar saman á alþingi og samþykktu að hér skildi ríkja kristinn siður, en fyrir þann tíma ríkti heiðinn siður.
Einmitt, það er frábær grundvöllur fyrir stefnumótun í kennslu í grunnskólum á 21. öld.
Þorbjörn! Mig langar til að spyrja þig hvort þér finnist það í lagi að 6 ára gamall krakki komi grátandi heim úr skólanum því hinir krakkarnir stíði henni á að hún sé vitlaus eða illa upplýst þegar hún trúir ekki sögum kennarans um guð? Að líkja saman kennslu í tungumáli sem talað er í landinu og er hverjum manni nauðsynlegt ef hann ekki ætlar að vera ósjálfbjarga í landinu, saman við kristniboð eða boðun einhverja trúarbragða, finnst me´r ekki viðeigandi. Finnst þér jafn mikilvægt að kunna að lesa og að þekkja biblíusögurnar?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 12/01/07 09:18 #
Ég skil vel ef miðbæjarprestur yrði sár yfir gagnrýni ef hann ynni í sjálfboðavinnu. En fyrir næstum hálfa milljón á mánuði er lítið mál að fólk til að vinna í miðbænum. Nefni ég hér til sögunnar lögreglu og fleiri fagaðila sem þurfa starfs síns vegna að eiga við mjög erfið mál í miðbænum. Þó er munurinn sá að viðkomandi aðilar fá lægri laun en sérþjónustupresturinn. Hins vegar eru örugglega til skemmtilegri preststörf en að vera miðbæjarprestur. En það er sama sagan, þar er sorglegt að fylgjast með hvernig kirkjan tekur gagnrýni.