Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dætur fáfræðinnar

Trúarbrögðin eru dætur fáfræðinnar og munu ekki lengi lifa móður sína.

Schopenhauer

Ritstjórn 26.06.2006
Flokkað undir: ( Fleyg orð )

Viðbrögð


Lína - 27/06/06 00:22 #

Trúarbrögðin eru jafngömul mannkyni. Þau deyja út um leið og mannkynið. Það er í mannlegu eðli að trúa, hvort sem um er að ræða skipuleg trúarbrögð eða ekki.


Lína - 27/06/06 00:25 #

smá prentvilla: Það fór óvart út orðið skipuleg - sem á að sjálfsögðu að vera skipulögð.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/06 00:30 #

Þú verður að rökstyðja þessa fullyrðingu þína. Ef það er í mannlegu eðli að trúa, hvað gengur þá að okkur trúleysingjunum? Erum við afbrigðileg á einhvern hátt? Sjúk kannski?


Lína - 27/06/06 01:13 #

Ekkert gengur að "ykkur trúleysingjunum" - a.m.k. ekkert sem undirrituð veit um. það er alltaf til undantekningin sem sannar regluna. Þess ákafar sem á ykkur er blásið með trúarumræðunni því fastar vefjið þið að ykkur trúleysisfrakkanum. Mér skilst að ekki sé til það samfélag í víðri veröld, jafnvel inní dýpstu frumskógum Afríku þar sem ekki eru einhvers konar trúarbrögð við lýði. Menn virðast hafa þessa meðfæddu þörf fyrir "e-hvað annað/e-hvað æðra" og þetta annað kemur fram í formi trúarbragða. Nú hefur myndast lítið brot t.d. í okkar þjóðfélagi sem segist trúlaus. Það væri gaman að skoða þennan sama hóp eftir ca 20 - 30 ár og sjá hvert úthaldið verður að halda að sér frakkanum. Einhverjir munu eflaust þrauka, en ég yrði ekki hissa þó að sumir hefðu losað um takið. Á sama máta missa sumir trúna sem þeir höfðu, þar sem þeir trúa ekki á réttum forsendum. Nú verður það sem ég segi hér eflaust teygt og togað, hnoðað, þvegið og þvælt - svona miðað við það sem ég hef lesið, en skemmtilegt væri að mælt væri af heiðarleika og einlægni. Meðfædd TRÚARÞÖRF virðist bara liggja í eðli okkar - hún er missterk og sums staðar næstum engin. Nú er Lína farin að sofa - dreymi ykkur fallega. Eru draumar til ?


Dagur - 27/06/06 01:33 #

Nei, vantrúarmenn trúa ekki á drauma! Neinei, bara djók, enda hafa þeir líklega allir upplifað drauma. Þeir vita þess vegna að draumar eru til vegna þess að þeir hafa reynslu af þeim. Sönnunargögn. Nema draumar séu bara tilbúin minning sem var sprautuð í þá af geimverum. Eða af Guði.

Alltaf jafngaman þegar fólk fer að minnast á undantekninguna sem sannar regluna. Oft er þetta á léttum nótum og fólk meinar ekki í raun það sem það segir, ég veit ekki með þig. En undantekningar sem sanna reglur er með þeim svæsnari rökvillum sem til eru, og langútbreiddasta held ég. Ég sé fyrir mér vísindamenn sem eru að reyna að sanna nýja vísindakenningu: "Ég fann undatekningu! Ég fann undantekningu! Loksins er þetta sannað!" Jeiiiii, allir á rannsóknarstofunni hoppa af kæti og faðmast. Eða hvað þá stærðfræðinga sem sanna rúmfræðireglu með undantekningu.


jonfr - 27/06/06 07:51 #

Maðurinn hefur ekki innbyggða þörf til þess að trúa á verur uppí skýjunum. Þetta trúarkerfi sem er notað í dag er mjög gamalt og kemur til vegna þess að fáfræði fólks var mikil (og er frekar mikil í dag, ennþá) og þá er einfaldara að troða trú inná það. Trúin á nefnilega mjög erfitt uppdráttar í þjóðfélögum þar sem menntun er mjög góð og almenn menntun er mjög góð.

Eftir 20 eða 30 ár mun ég ennþá vera trúlaus og ég á ekki von á því að það muni breytast eftir það.


Lína - 27/06/06 10:19 #

Takk fyrir svar á léttum nótum Dagur.

"Þeir vita þess vegna að draumar eru til vegna þess að þeir hafa reynslu af þeim. Sönnunargögn."

Jamm tjamm, - miðað við þetta er allt sem við höfum reynslu af til og sönnunargögn, ég kaupi það nú ekki alveg sem röksemdafærslu vantrúarmanns. Margir telja sig hafa reynslu af guðsupplifun, reynslu af trú - og samkvæmt því er hún til.

Varðandi reglur og kenningar þá álít ég það nú ekki sama hlutinn. Alltaf má snúa út úr orðatiltækjum, en dæmi um undantekningu sem sannar reglu (n og g reglu) er að kóngur er skrifað með ó-i! ..

Kenning er ákveðin skoðun, fullyrðing yfirleitt studd rökum þar sem áður er búið að rannsaka hlutinn. Auðvitað til fleiri skýringar á kenningum.

Regla er frekar venja, það er t.d. mun algengara að fólk sé trúað en ekki. Menntað eða ómenntað. Mitt álit er ekki að fólk verði trúlausara eftir hærra menntunarstigi heldur verði stigsmunur á trúnni. Trú er margbreytileg. Vantrú er það líka - og ég held að menn geti verið misjafnlega trúaðir sem vantrúaðir. Fáfræði er hættuleg hjá bæði trúuðum sem vantrúuðum. Trúin/vantrúin er ekki hættuleg hjá þeim sem hafa visku til að bera - en getur verið hættuleg hjá þeim fáfróðu. Slæ um mig öðru orðatiltæki í lokin: "Sá veldur er á heldur."


jogus (meðlimur í Vantrú) - 27/06/06 12:57 #

Margir telja sig hafa reynslu af guðsupplifun, reynslu af trú - og samkvæmt því er hún til.

Jamm, enginn hefur held ég neitað því að trú sé til. Né heldur að "guðsupplifun" sé til. Hvorugur þessara hluta sannar þó (né bendir til) að "guð" sé til. Ekki frekar en að draumar sanni að.. ehh.. "draumaguðinn" sé til.


Gunnar - 27/06/06 23:12 #

dæmi um undantekningu sem sannar reglu (n og g reglu) er að kóngur er skrifað með ó-i!

Ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á þessu með kónginn. Er reglan sú að ó kemur ekki fyrir á undan ng? Ég þarf sennilega að rifja upp menntaskólalærdóminn. Hér fann ég eitthvað sem kalla má "n og g reglu". En ég get ómögulega séð að það að kóngur sé skrifað með ó-i sé undantekning frá þeirri reglu.

Þar að auki, sé um að ræða undantekningu frá "n og g reglu", þá sannar hún regluna einungis í þeim skilningi að tilvist undantekningar felur í sér tilvist reglu. Það verða fáir til að andmæla því að flestir aðhyllast einhverskonar trúarbrögð. Það að kalla trúleysi undantekningu á þeirri forsendu að mun færri telja sig trúlausa heldur en trúaða segir ekkert um réttmæti trúar eða trúleysis. Að nota orðið "reglu" um trúarbrögð getur því verið villandi.

Það má vissulega geta sér til um eðlislæga trúarþörf sé litið yfir mannkynssöguna, þótt ég sé á annarri skoðun. Til dæmis má einnig segja að mannkynið hafi eðlislæga tilhneigingu til þrælahalds. Þrælahald hefur verið stundað mestalla mannkynssöguna í flestum samfélögum í meiri eða minni mæli. Með upplýsingunni og iðnvæðingunni óx andúð á þrælahaldi um leið og þörfin á henni minnkaði. Ég veit ekki hvort til eru rannsóknir um trúleysi fyrr á tímum, en ég hallast að því að trúleysi sé algengara nú en fyrr á öldum. Hver veit nema á næstu öld eða þarnæstu muni sagnfræðingar skrifa um hnignun trúarbragða af svipuðum orsökum og þrælahald hefur víðast verið afnumið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/06 23:33 #

Nei Lína, þetta er ekki þörfin fyrir að trúa, heldur þörfin fyrir að vita. Og í fáfræðinni brýst þörfin fyrir að vita út í trú, en með aukinni þekkingu á veröldinni eftir miklar rannsóknir kemur að því að vitneskjan svalar þörfinni.


Lína - 28/06/06 01:05 #

varðandi stafsetningareglur þá skrifaði ég óvart n og g reglan í staðinn fyrir ng og nk reglan, en eins og kannski Gunnar og fleiri vita er reglan að ekki megi koma breiður sérhljóði fyrir framan ng eða nk. Fræg dæmi úr stafsetningaprófum eru setningar eins og gangurinn var langur og þröngur (rangt væri þá lángur og þraungur).. undantekningin kóngur. Ég vona að þetta sé orðið skýrt. ..

Ég álít það vera reglu að fólk trúi og trúleysi undantekningu en nota ekki orðið reglu um trúarbrögð. Það er misskilið hjá þeim sem það lesa úr orðum mínum.

Birgir skrifar "Og í fáfræðinni brýst þörfin fyrir að vita út í trú"

Ég les ákveðinn hroka út úr þessum orðum með því að segja að þeir sem hafi trúarþörf séu fáfróðir. Með því er verið að lýsa mikinn meirihluta mannkyns fáfróðan og verið að setja trúlausa á stall ofar trúuðum.

Álítið þið í raun og veru að heimurinn sé að breytast í þá átt að fólk hætti að trúa? Ef það er ykkar "mission" að útrýma trúarbrögðum held ég að það verði "mission impossible"..Trúin er svo margþætt. Sumir trúa á guð/guði, aðrir trúa á einhvers konar andlegheit ótengd guðum o.s.frv. Svartsýnismaðurinn Schopenhauer spáir trúarbrögðum ekki löngum lífdaga og telur þau sprottin úr fáfræði, en þau lifa þó enn góðu lífi eftir hans tíð og munu varla deyja út fyrr en mannlíf deyr út á jörðinni.


Gunnar - 28/06/06 02:39 #

Ég les ákveðinn hroka út úr þessum orðum með því að segja að þeir sem hafi trúarþörf séu fáfróðir. Með því er verið að lýsa mikinn meirihluta mannkyns fáfróðan og verið að setja trúlausa á stall ofar trúuðum.

Ég skildi Birgi þannig að það sem þú kallar trúarþörf sé í raun þörfin fyrir að skilja (sem er vafalítið grundvölluð á þörfinni fyrir að komast af). Þegar vísindin voru mun skemmra á veg komin var heimurinn flestum að mestu hulin ráðgáta. Hvað var eiginlega regnboginn? Hvað var þetta bjarta sem lyftist yfir fjöllin á morgnana og hvarf bakvið þau aftur að kvöldi? Menn langaði til að skilja og komu með ýmsar kenningar, þ.e. nálganir við veruleikann. Í fyrstu voru þetta lélegar nálganir — fáfræðin var mikil. En eftir að vísindaiðkun tók kipp á 17. eða 18. öld hefur skilningur á veröldinni vaxið hröðum skrefum. Trú á yfirnáttúru má líta á sem lélega nálgun við veruleikann, sem var alveg skiljanleg fyrr á öldum, þegar fáfræðin ríkti. En það er erfiðara að réttlæta slíkt í dag, sérstaklega að svo miklu leyti sem trúarbrögð ganga í berhögg við vísindin. Þeir sem fella sig fremur við svör trúarbragðanna á þeim sviðum sem vísindin hafa betri svör, þeir sækja í fáfræði.

Það er fleira en þörfin fyrir að skilja sem leiðir fólk út í trúarbrögð. Annað atriði er hjarðhneigðin. Það getur verið þægilegra að kokgleypa skoðanir samborgara sinna heldur en að hugsa sjálfstætt. Í sumum tilvikum er það jafnvel lífsnauðsynlegt. Hjarðhneigðin leiðir því til fáfræði.

Enn einn eiginleiki trúarbragða sem ýtir undir fáfræði er tilhneiging til íhaldsemi. Þetta er skylt hjarðhneigðinni. Ef maður álítur einhverjar kennisetningar heilagar er hann ekki líklegur til að hagga við þeim jafnvel þótt margt bendi til þess að þær séu úreltar eða einfaldlega rangar.

Að þessu sögðu er rétt að taka fram að þótt trúarbrögð hafi á ýmsan hátt tilhneigingu til að ýta undir fáfræði þá þýðir það að sjálfsögðu ekki að allir trúaðir séu vitlausari en allir trúlausir. Slík alhæfing væri kjánaleg og ekki trúlausum mönnum samboðin! :-)


Dagur - 28/06/06 04:05 #

Lína mín góða, mig langar að kommenta aðeins á nokkra hluti sem þú segir:

"Margir telja sig hafa reynslu af guðsupplifun, reynslu af trú - og samkvæmt því er hún til."

Guðsupplifun má mögulega útskýra á sálfræðilegan hátt sem eitthvað annað en Guð að láta menn upplifa sig. En ætlaru að segja að upplifanir um drauma megi útskýra á sálfræðilegan hátt sem eitthvað annað heldur en raunverulega drauma? Til viðbótar við þetta vil ég segja að ALLIR upplifa drauma, en það á ekki við um guðsupplifunina.

"Varðandi reglur og kenningar þá álít ég það nú ekki sama hlutinn. Alltaf má snúa út úr orðatiltækjum, en dæmi um undantekningu sem sannar reglu (n og g reglu) er að kóngur er skrifað með ó-i! .."

Þó að undantekning sé á málfræðireglu, eða stafsetningarreglu, þá "sannar" sú undantekning ekki regluna. Hvað með þær málfræði/stafsetningar-reglur sem ekki hafa undantekningar? Eru þær ósannaðar? Deila málfræðingar um þær reglur? Anyway, þá eru málfræðireglur þess eðlis að þær þurfa ekki sannanir því það er verið að fást við málvenju og hún er bara eins og hún er. Og oft er málvenja órökrétt, eins og t.d. að segja að 200 sé helmingi meira en 100 (helmingur af hundrað er 50 svo helmingi meira en 100 myndi vera 100+50 eða 150, og líka er órökrétt að segja að 200 sé tvöfalt meira en 100 því tvöfalt hundrað er 200 en 100+200 er 300) svo málvenjur eru bara venjur og það þarf ekkert að sanna það. Eina sem maður þarf að gera til að fá sönnun á málvenju er að hlusta á fólk tala. Það er bara órökrétt að biðja um sönnun á venjum, þær eru bara til staðar og við vitum það öll. Þær manngerðar reglur sem eru allt allt allt allt annars eðlis heldur en t.d. lögmál eðlisfræðinnar eða lögmál rökfræðinnar.

Ok, það er smá vankantur hér á íslenskunni. "Regla" vísar í eitthvað sem gerist eða kemur fyrir reglulega. Það eru kannski mistök að tala um reglur í t.d. stærðfræði. Þess konar reglur eru í raun lögmál og menn ættu frekar að nota það orð til að koma í veg fyrir rugl og misskilning.


Dagur - 28/06/06 04:19 #

... Því það má segja að það sé regla að karlmenn séu sterkari en kvenmenn, því að ef þú tekur úrtakshóp af körlum og konum og mælir styrk þeirra þá er útkoman regluleg þannig að þú segir að það sé regla að [útkoma rannsóknarinnar]. Þannig að orðið regla má nota yfir eitthvað sem gerist yfirleitt. Þess konar regla er allt annars eðlis heldur en stærðfræði-, eðlisfræði- eða rökfræðiregla, sem kannski frekar ætti að kallast stærðfræði-, eðlisfræði og rökfræðilögmál.


Dagur - 28/06/06 04:58 #

Lína segir:

"Birgir skrifar "Og í fáfræðinni brýst þörfin fyrir að vita út í trú"

Ég les ákveðinn hroka út úr þessum orðum með því að segja að þeir sem hafi trúarþörf séu fáfróðir. Með því er verið að lýsa mikinn meirihluta mannkyns fáfróðan og verið að setja trúlausa á stall ofar trúuðum."

Þeir sem trúa á guð í dag trúa ekki á hann af sömu ástæðu eða af sömu forsendu og fólk gerði fyrir mörgþúsund árum. Í dag trúir fólk á guð aðallega út af því að það elst upp við hugmyndina um guð vegna þess að það er norm að trúa á guð af sögulegum ástæðum. Ég held að Birgir hafi ekki verið að tala um fólk í dag (ég vísi í grein hans "Tengt framhjá") heldur fólk í fortíðinni þegar það hafði engin tök á því að skilja eða útskýra heiminn.


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 29/06/06 08:43 #

Lína er upptekin af því að það sé manninum "eðlilegt" að trúa. Eins og þeir sem hafa alið upp eða umgengist börn vita, trúa börn öllu sem fullorðnir segja þeim jafnvel þótt það sé argasta rugl. Dæmi: Jólasveinninn og álfar í hólum. Þegar ég var barn í sveitinni trúði ég því t.d. statt og stöðugt að það væru álfar í "álfahólnum".

Þegar einstaklingur öðlast þroska og færni til þess að meta hvað er satt og hvað er ósatt er það hans eigið val hvort hann velur að láta ljúga að sér eða ljúga að sér sjálfur - þ.e.a.s. trúa því að til séu guðir, jólasveinar, álfar, huldufólk og aðrar yfirnáttúrulegar verur. Eða þá að hægt sé að hafa samband við látna einstaklinga, lækna fólk með handayfirlagningu og svo má lengi telja.

Fullorðinn, skynsamur einstaklingur aflar sér þekkingar, hann telur sig ekki vita svör við öllu og skiptir um skoðun ef hann finnur það sem sannara reynist. Hann hangir ekki á ósannaðri trú á yfirnáttúruleg fyrirbæri eins og hundur á roði.


Ormurinn - 29/06/06 11:35 #

Það er talað um að enginn er trúlaus í skotgröfunum.

Ég er nokkuð sammála Línu. Fólk trúir út frá mismunandi forsendum. Ég held heldur ekki að Lína hafi verið að segja að "við höfum þörf á að trúa á ósýnilega veru uppi í skýjunum" til þess eru guðshugmyndir mannkyns of mismunandi.

Trúarbrögð virðist vera hægt að rekja til upphaf mannkyns og einhver þörf virðist hafa verið til staðar annars hefðu þau varla náð slíkri fótfestu.

Trúarbrögð virðast veita þeim sem trúir ákveðna fótfestu og gefa skýringar á tilverunni (hvort sem þær eru rökréttar eða ekki). Fólk virðist þurfa að hafa öryggisnet undir sér. Það vill vita hvað gerist eftir dauðann, og fá útskýringar á því afhverju við erum hérna etc etc. Þessi "þörf" virðist óneitanlega vera til staðar.

Lína bendir á að það gæti verið gaman að sjá hverjir halda fast í trú/trúleysi sitt eftir 20 - 30 ár. Ég tek undir það.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/06/06 11:43 #

Það er talað um að enginn er trúlaus í skotgröfunum.

Það er afskaplega rætin lygi. Eitt af því allra ómerkilegasta sem trúmenn láta frá sér. En eiga þetta að vera rök fyrir trú - að í ofsahræðslu grípi jafnvel trúlaust fólks til þess að ákalla eitthvað almætti? Eru þetta ekki frekar rök gegn skotgröfum ?

Trúarbrögð virðist vera hægt að rekja til upphaf mannkyns og einhver þörf virðist hafa verið til staðar annars hefðu þau varla náð slíkri fótfestu.

Það sama gildir um ofskynjunarlyf og ofbeldi, hægt að rekja til upphaf mannkyns og einhver þörf virðist því vera til staðar!

Trúarbrögð virðast veita þeim sem trúir ákveðna fótfestu og gefa skýringar á tilverunni (hvort sem þær eru rökréttar eða ekki). Fólk virðist þurfa að hafa öryggisnet undir sér. Það vill vita hvað gerist eftir dauðann, og fá útskýringar á því afhverju við erum hérna etc etc. Þessi "þörf" virðist óneitanlega vera til staðar.

Því hefur ekki verið neitað, en spurningin er hvort þetta sé þörfin fyrir að trúa eða þörfin fyrir að vita?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/06/06 12:54 #

Birgir skrifar "Og í fáfræðinni brýst þörfin fyrir að vita út í trú"

Ég les ákveðinn hroka út úr þessum orðum með því að segja að þeir sem hafi trúarþörf séu fáfróðir. Með því er verið að lýsa mikinn meirihluta mannkyns fáfróðan og verið að setja trúlausa á stall ofar trúuðum.

Ég held þú sért að misskilja orð mín fullkomlega. Þar sem fáfræði ríkir, þar nota menn trúarskýringar til að útskýra heiminn. Fáfræði elur af sér trú. Þarna er ekkert sem túlka má á þá vegu að trúarþörf leiði af sér fáfræði.


Lína - 30/06/06 09:08 #

Eftir umhugsun og endurskoðun: Fáfræði viðheldur fordómum, mörg trúarbrögð viðhalda fordómum og eru sprottin upp úr fáfræði. Trú á hið góða - á kærleikann - á Jesú Krist viðheldur ekki fordómum. Þetta er þörf umræða og á rétt á sér. Íhaldssemi í trúmálum hefur verið allt of mikil. Íhaldssemi á játningar sem standast ekki.

Ég held enn í það að trúin sé nauðsynleg flestu fólki og sé komin til að vera. Sé ekki fyrir mér vantrúaðan heim. Þess vegna þarf að finna rétta leið í trúarbrögðunum. Trúarbrögð þar sem ríkir jafnrétti kvenna og karla. (Jesús var t.d. feministi svo það er auðvelt að inviklera hann í þvílík trúarbrögð). Trúarbrögð sem vinna gegn ofbeldi og fordómum. (Jesús vann gegn ofbeldi og fordómum). Það þarf að taka það góða úr trúarbrögðunum - það má kalla það grautartrú fyrir mér. Líta þarf til leiðtoga sem Gandhi sem mótmælti án ofbeldis og virkja hugmyndafræði sem slíka. Ég tek ekki undir að fáfræði ali af sér trú - trúin ER hvort sem menn eru fáfróðir eða fjölfróðir, meira að segja svakalega klárir!

Vantrúarfólk verður að passa sig á að vera ekki of fordómafullt og dómhart þá dettur það í gryfju fáfræðinnar og mætir þar fólki sem það er að reyna að forðast. Fólki sem tilheyrir þeim trúarbrögðum sem fordæma og útiloka. Ofbeldi er fáfræði. Ofbeldi orða, ofbeldi þagnar, ofbeldi verka.

Niðurstaða:

Trúarbrögð eru og verða alltaf til. Dætur fáfræðinnar eru fyrst og fremst ofbeldi og fordómar. Ef að dæturnar búa í Biblíunni og fólk hefur ekki nógu sterk bein né vit né kærleika til að vinsa út ofbeldið og fordómana þá á það ekki að lesa Biblíuna.

Trúin þarf að vera uppbyggileg þannig að hún vinni gegn fordómum og ofbeldi. Kannski þarf kraftaverk. Trúleysi er fyrir mér tómið eitt. Guð er kærleikur og kærleikur er Guð. Trú á kærleikann er því niðurstaðan. Kærleikur er ekki sprottinn af fáfræði og fáfræði ekki af kærleika.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 30/06/06 13:10 #

Dætur fáfræðinnar eru fyrst og fremst ofbeldi og fordómar. Ef að dæturnar búa í Biblíunni og fólk hefur ekki nógu sterk bein né vit né kærleika til að vinsa út ofbeldið og fordómana þá á það ekki að lesa Biblíuna.

Veltu einu fyrir þér Lína um stutta stund.

Ef þú veist nú þegar hvað þú ætlar að velja úr hinni heilögu ritningu og hvað þú ætlar að sleppa, afhverju þarftu þá á þessari bók að halda? Getur sá mælikvarði sem þú notar í grisjuninni ekki dugað þér í lífinu líka? Er ekki þitt eigin siðferði og hugmyndafræði á miklu hærra stigi en er í þessu helgiriti fornaldarþjóða?

Þú segir að fyrir þér er trúleysi "tómið eitt". Heldur þú að ég og aðrir trúleysingjar lifi í einhvers konar andlegu tómarúmi? Að líf okkar sé snautt af andlegum gæðum bara vegna þess að við tökum ekki goðsagnir trúanlegar?

Trú á kærleikann þarf ekki að vera eitthvað sérstakt kristið fyrirbæri. Ef þú ert ein af þeim sem segjast vera kristin en trúa ekki á hluti eins og meyfæðinguna, upprisuna og vatnsgöngur þá ertu líklega nær því að vera húmanisti heldur en kristin.


Kalli - 30/06/06 15:10 #

„Jesús var t.d. feministi svo það er auðvelt að inviklera hann í þvílík trúarbrögð...“

Hvernig lýsir það sér að Jesús hafi verið femínisti?

Ef fólk trúir á það sem Jesús á að hafa sagt, samkvæmt Biblíunni, get ég ekki annað séð en að það ýti undir fordóma.

Annars fyllist ég vonleysi ef eina leiðin til að bera út mannréttindi er að búa til þess trúarbrögð. Í fyrsta lagi trúi ég ekki á að auðvelt verði að ryðja mannréttindum braut með þeirri aðferð: þeir sem lifa eftir trúarbrögðum hafa þegar sínar aldagömlu kreddur og eru varla gjarnir á að taka upp nýjan skáldskap í staðinn fyrir þann gamla. Þeir sem eru lausir við trúarbrögð þurfa þau augljóslega ekki til að mynda sér siðferðisskoðanir.

Í öðru lagi hefði ég áhyggjur af því að fólk hafi ekki áhuga á mannréttindum vegna ágæti þeirra heldur þurfi fólk reglur til að fylgja í blindni. Eftir einhvern tíma yrðum við svo komin á sama stað og í dag: með trúarbrögð sem halda aftur af mannréttindum.


Árni Árnason - 30/06/06 16:00 #

Á meðan börnum er haldið í þeirri trú að jólasveinninn gefi þeim gott í skóinn, trúa þau á tilvist hans.

Þegar börnum lærist að það eru mamma og pabbi sem gefa í skóinn, hverfur trú þeirra á jólasveininn.

Sum börn eru svo klók að þykjast trúa á jólasveininn, löngu eftir að þau vita að hann er ekki til, til þess að halda áfram að fá í skóinn.

Af hverju er kirkjunni svo mikið í mun að viðhalda trúnni á jólasveininn Guð löngu eftir að allir vita að hann er ekki til ?

Ef kirkjan hættir að viðhalda trúnni, hætta prestarnir að "fá í skóinn". Svo einfalt er það nú.


Árni Árnason - 30/06/06 16:26 #

Barnið segir í boði Glitnis: Guuuð sko, hann sko breytir skýjunum í vind"

og " Stundum geta veðurfræðingarnir talað við guð"

Er ekki svolítill tvískinnungur í því að hlæja að þessu, og móðgast svo þegar trú er sögð afkvæmi fáfræðinnar?

Spyr sá sem ekki veit.


Carlos - 30/06/06 18:11 #

Trú á kærleikann þarf ekki að vera eitthvað sérstakt kristið fyrirbæri. Ef þú ert ein af þeim sem segjast vera kristin en trúa ekki á hluti eins og meyfæðinguna, upprisuna og vatnsgöngur þá ertu líklega nær því að vera húmanisti heldur en kristin.

Það er merkilegt að sjá húmanismann teflt fram sem eitthvað sem ekki getur verið kristið, þegar hið sanna er að kristin trú á sér tvíþættan grunn til að standa á: Annars vegar náungakærleikann, sem birtist í gullnu reglunni og tvíþætta kærleiksboðinu, hinsvegar það að Guð mætir okkur í Jesú Kristi. Þegar trúarinnihaldið er skoðað nánar, er auðvelt að hengja sig í einstaka kennisetningum og gera þær að skilgreiningaratriði.

Þegar grannt er skoðað, eru fyrirbærin ekki kjarni trúarinnar heldur eingöngu þetta: að Guð mætir manni í Jesú Kristi, sama hvað tautar eða raular. Fyrst Guð mætir okkur eins og við erum, þá eigum við líka að mæta hvert öðru af sama þeli, hver sem náungi okkar er. Allt annað er útfærslu- og túlkunaratriði og opið til umræðu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/06/06 18:30 #

Það er merkilegt að sjá húmanismann teflt fram sem eitthvað sem ekki getur verið kristið

Húmanisminn er ekki kristinn, jafnvel þó margir kristnir menn séu húmanistar.

Hvað er umdeilt við það að sá sem ekki trúir á meyfæðinguna og upprisuna sé tæpast kristinn? Andmælir þú því Carlos?


Carlos - 30/06/06 18:31 #

Að spyrða saman trú á Guð og jólasveininn er þvílíkt yfirborðsklór og afhjúpar vanþekkingu á sálfræði manna, að mig langar að hvetja Árna til að lesa sig til áður en hann afgreiðir trúarreynslu fólks með þeim hætti sem hann gerir. Slík afgreiðsla ber vott um andans leti en ekki upplýsingu og skilar engu til samtalsins.

Að væna presta um að halda "jólasveininum guð" lifandi til þess að þeir "fái í skóinn" ber vott um örvæntingu þess sem heldur þessu fram, því samsæriskenning af því umfangi sem hér um ræðir gerir ráð fyrir blinda trú á illsku og vilja til að afvegaleiða vitandi vits.

Ég efast um að aðrir en siðleysingjar (sociopatar) eru færir um að viðhalda slíku samsæri. Eina umhverfið sem er fært um að fóstra slíkt er umhverfi þar sem tjáningafrelsi er ekkert, sjálfstæð hugsun ekki leyfð og tiltekin viðhorf bönnuð með lögum. Jafnvel í slíkum samfélögum hefur fólk tilhneigingu til að sjá í gegnum samsæri, ef einhver eru. Árni hefur ekki eingöngu sálfræðina heldur líka söguna á móti sér og ætti að fara varlega í að halda fram heimskulegum og óstuddum staðhæfingum.


Carlos - 30/06/06 18:38 #

Hvað er umdeilt við það að sá sem ekki trúir á meyfæðinguna og upprisuna sé tæpast kristinn?

Meyfæðingin gerir ráð fyrir að eingöngu einstaklingur, ómengaður af vandamáli þess að vera maður verið Guð. Gagnrýni á meyfæðinguna á fyrstu árum kristninnar fólst m.a. í að tala um Jesú sem óskilgetinn son Maríu og rómversks hermanns, Pantera.

Önnur leið hefur verið notuð í kristinni trú til að tala um Jesú sem Guðs son, og hún er sú að Guð hafi "ættleitt" manninn Jesú Jósefsson (eða Panteruson), óháð fyrri störfum. Það módel á ættir að rekja til spámanna biblíunnar.

Málið er að þau 200 ár sem söguleg biblíurýni hefur verið stunduð hafa ekki skilað af sér nema 50 árum af jafngagnrýninni trúfræði. Við erum rétt að byrja að máta trúararfinn við póstdarwinska heimsmynd.


Carlos - 30/06/06 18:53 #

Þetta með samspil trúar og mannréttinda er ekki svo svarsýnislegt og þú setur fram, Kalli. Því lengur sem einstaklingur upplifir sig sáttan við Guð og menn, því meir langar hann eða hana til að lifa eftir því sem eru góðir siðir og sýna af sér góðan þokka.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/06/06 18:58 #

Uh, varst að svara mér?

Ég skal endurorða spurninguna.

Hvað er umdeilt við halda því fram að einstaklingur geti varla talist kristinnar trúar ef hann ekki trúir á meyfæðinguna og upprisuna (ásamt öllum öðrum kraftaverkum Biblíunnar)?

Þetta með samspil trúar og mannréttinda er ekki svo svarsýnislegt og þú setur fram, Kalli. Því lengur sem einstaklingur upplifir sig sáttan við Guð og menn, því meir langar hann eða hana til að lifa eftir því sem eru góðir siðir og sýna af sér góðan þokka.

Getur þú fært fyrir því rök? Vísað á einhverjar rannsóknir sem sýna t.d. að því meira sem fólk er trúað, því "betra" sé það?


Kalli - 30/06/06 19:04 #

Ég get ekki sagt að mér sýnist dæmin styðja þessa fullyrðingu þína, Carlos. Hún er náttúrulega þess eðlis að ef ég tek til dæmi um mann sem segist ganga á vegum Guðs, en passar ekki við fullyrðinguna, segir þú væntanlega að hann sé lélegt dæmi og hann gangi ekki í raun á vegum Guðs.

Sannir Skotar, hmmm?

Það er í það minnsta bókað mál að ég upplifi ekki neitt með Guði en tel mig þó siðferðislega betri en ófáa sem hampa Drottni sínum. Án þess að ég vilji hampa sjálfum mér sem yfirburðamanni... Kannski er ég bara að upplifa Guð óafvitandi?


Sveinbjörn Halldórsson - 01/07/06 02:26 #

Við látum stundum eins og trúarbrögð séu bara vestrænt fyrirbæri, sögulegur arfur sem hægt sé að fella dóma um með líkum hætti og Schopenhauer gerir. Flestir vita þó að Schopenhauer fann heimspeki sinni stoð í austrænum endurlausnarkenningum.


Carlos - 01/07/06 10:27 #

Því lengur sem einstaklingur upplifir sig sáttan við Guð og menn, því meir langar hann eða hana til að lifa eftir því sem eru góðir siðir og sýna af sér góðan þokka.

sagði ég og ætla ekki að orðið "sátt" sé bundin við trú, þótt það útiloki hana ekki. Staðhæfing mín (ósönnuð) er á þá leið að það að vera sátt(ur) við umhverfi sitt sé líklegra til að gera hann eða hana viljuga til að lifa dyggðugu lífi af eigin hvötum en ef þessa sátt vantar (t.d. í tilfelli siðblinds (sociopathic) fólks, sem hefur ekki þá getu að skilja hvað er að vera sátt(ur) við annað fólk og þarf að þykjast til að lifa því sem næst eðlilegu lífi).


Carlos - 01/07/06 10:37 #

Hvað er umdeilt við halda því fram að einstaklingur geti varla talist kristinnar trúar ef hann ekki trúir á meyfæðinguna og upprisuna (ásamt öllum öðrum kraftaverkum Biblíunnar)

Skilgreining á því að vera kristin(n) er ansi víð, eins og dæmin í kirkjusögunni sanna: þannig eru Kvekarar kristnir, en þeir afneita sakramenntum og formlegu kirkjustrúktúr, Mennónítar (og Amish) sem hafa fryst tímann við það sem var 1600, messíanskir Gyðingar, frjálslyndir prótestantar sem vilja afmýta gjörvalla Biblíuna ... í hvert sinn sem kristnin er negld við orð eins og "upprisa" þá koma upp túlkunarskólar sem spanna allt frá "upprisa dauðs holds" - "upprisa í andlegum skilningi".

(Ertu nokkuð til í að setja einn línubil á eftir orðið "þokka." í síðustu ummæli mín, Matti?)


Carlos - 01/07/06 10:56 #

Sannir Skotar, hmmm?

Það er hægt að sanna (eða afsanna) persónuleg ferli, það er bara ekki hægt með magnaðferðum eins og Gallup beitir. Það er ekki gert með spurningalista heldur gerist það í sambandi tveggja (eða fleirri) einstaklinga, þar sem a.m.k. einn heldur dagbók og er til þess hæfur að meta það sem gerist innan hópsins. Þetta ferli er kallað single case study á ensku (veit ekki hvað félagsvísindadeild kallar þetta).

Nú svo er auðvitað til fyrirbæri eins og vinátta, þar sem einstaklingar fylgjast að yfir lengri tíma og þekkja styrkleika, veikleika og annað sem máli skiptir.


Kalli - 01/07/06 14:02 #

Ég verð að játa að ég hefði áhuga á að sjá svona rannsóknir.


jonfr - 01/07/06 15:27 #

Það vantar ekki hvað sumir hérna klæða uppáhaldstrúarbrögðin sín í falleg og rómantísk föt. Og gjörsamlega hunsa sannleikan varðandi trúarbrögðin, en trúarbrögð hafa alltaf verið ógeðslegt og sem slík staðið fyrir margri múgæsingunni sem hefur kostað margan mannin lífið. Einnig sem trúarbrögð hafa staðið fyrir því að viðhalda fáfræði almennings og beitt almenning kúgunum og fleiru í þeim dúr.

Kristin trú snýst ekki um að hjálpa fólki, kristin trú eins og önnur trúarbrögð snýst um að viðhalda félagslegri stórnun yfir þjóðfélagshópum. Og síðan má auðvitað ekki gleyma uppáhaldi kristinnar trúar, að fara í rúmið með löggjafanum og hafa áhrif á hann.


Carlos - 01/07/06 18:11 #

jonfr: Varðandi fyrstu staðhæfingu þá er lýsingarorðið "ógeðslegt" illmælanlegt, trúarbrögð standa aukinheldur ekki fyrir múgæsingu þótt fólk sem trúir eða truir ekki geti gert það, og sama má segja um það að trúarbragðið hafi kostað menn lífið, en eins og trúleysið er um hugmyndir og lífsskoðanir að ræða. Menn drepa eða líkna, þurfa ekki að láta undan hugsunum eða freistingum og gera hluti sem eru gegn almennri skynsemi eða almannaheill.

Hvort trúmenn halda aftur af þekkingu og upplýsingu, þá fer það eftir því hvers eðils trúin er. Þau trúarbrögð sem ég kannast við hafa öll gengið í gegnum endurreisnartíð (nema e.t.v. ásatrú), opnað hefur verið fyrir upplýsingastreymið, vísindakennsla verið efld í skólum og háskólum rekin af trúfélögum og prestar og aðir hvattir til að menntast.

Þau trúfélög sem ég kannast við leitast við að efla félagslegt öryggi, þannig að ef þú átt við að trúarbrögð standi gegn stjórnleysi, þá er það rétt, ef með stjórnleysi er átt við ástand þar sem allir berjast gegn öllum.

Það er loks eðli málsins samkvæmt, að trúarbragð á borð við kristni (en líka gyðingdómur, islam, búddismi, shinto, hindúasiður etc.) leitist við að hafa áhrif á löggjafa. Meira að segja þeir sem eru guðlausir gera það, hvort heldur sem eru í meiri eða minnihluta, sbr. barátta Siðmennt fyrir réttarbótum í kristnu umhverfi eða kommúnista í t.d. Kína sem til langs tíma hafa bannað trúarbrögð í sínu landi.

Mér finnst mál þitt ósannfærandi, sérstaklega þar sem allan rökstuðning vantar, jonfr. Kannski hefurðu ekki hugsað hlutina til enda en ættir að taka þér málhvíld og undirbúa þig betur.


Carlos - 01/07/06 18:22 #

Ég verð að játa að ég hefði áhuga á að sjá svona rannsóknir.

Ég fann eina hér, en þar er að finna eftirfarandi grein: " The Narrative Construction of Muslim Identity: A Single Case Study, Tomas Lindgren" (2004). Auk þess þetta eftir sama höfund. Hef ekki lesið þær en þær ættu að gefa hugmynd um aðferðafræðina.


Kalli - 01/07/06 19:34 #

Ég átti þá náttúrulega við þar sem eitthvað á borð við fullyrðingu þína, Carlos, væri rannsakað. Þegar ég hugsa um það frekar sýnist mér sönnu Skotarnir enn passa; það sem þú setur fram er ansi relatíft.


jonfr - 01/07/06 20:06 #

Carlos, þú hefur óþolandi "allir-aðrir-en-ég-hafa-rangt-fyrir-sér" viðhorf. Og það er aðeins undir það síðasta sem þú virðist játa að hafa rangt fyrir þér.

Þú fullyrðir að ég komi ekki með rök með fyrir mínu máli, en samt getur þú ekki nefnt neitt dæmi til þess að afsanna mitt mál. Þú segir að þetta sé bara svona hjá mér, og þá á þetta bara að vera svona.

Það er vitað að það er eðli trúar að "upplýsing" er ekki til í trúarbrögðum, en öll trúarbrögð byggja á valdboði eins og eða fleiri einstaklinga. Það var ekki fyrr en trúin var svipt valdinu að upplýsingin kom, þannig að fullyrðing þín um annað er einfaldlega röng og hefur ekkert með raunveruleikan í þessu máli að gera.

Sú fullyrðing hjá þér að trúarbrögð leitist við að tryggja "félagslegt öryggi" er röng. En trúarbrögð tryggja að viðkomandi samfélag sé einangrað og fáfræði er viðhaldið innan þess, ásamt því að valdboð er stundað innan hópsins og grýlur búnar til (Satan, helvítis osfrv.). Þetta er auðvitað gert til þess að viðalda ástandi sem kallast uppá enskuna FUD (Fear, Unceartinty, Doubt), í þeim eina tilgangi að viðhalda valdi trúarinnar yfir samfélaginu.

Trúarbrögð leitast ekki við að hafa áhrif á löggjafan, trúarbrögð leitast til þess að stjórna löggjafnaum, með húð og hári. Þetta sést best fyrr á öldum, þar sem kirkjan var að stunda bannfæringar á kónga sem ekki hlýddu henni. Þú getur flett þeim dæmum upp sjálfur, ég ætla ekki að gera það fyrir þig.

Hvað á þessi hérna steypa að þýða ? "...og sama má segja um það að trúarbragðið hafi kostað menn lífið, en eins og trúleysið er um hugmyndir og lífsskoðanir að ræða. Menn drepa eða líkna, þurfa ekki að láta undan hugsunum eða freistingum og gera hluti sem eru gegn almennri skynsemi eða almannaheill."

Trúarbrögð eru valdboð og stjórnun, byggð á fáfræði og hræðslu fólks. Freistingar eru hugtak sem er vandlega fundið upp af trúnni til þess að fólk hlíði lögum trúarinnar, hver sem hún er. Almenn skynsemi, sem hefur ekkert með trú að gera, segir fólki að það er slæmt að drepa, vegna þess að það kemur tegundinni illa til langs tíma og fólk gerir mikið til þess sleppa því að þurfa að drepa aðra manneskju. En auðvitað eru geðsjúkdómar til og fleira sem brengla fólk á þann háttin að það hlíðir ekki grunnreglum samfélagsins. Bæði atriðin hafa ekkert með trú að gera.

Ástæðan fyrir því að trúlausir vilja hafa áhrif á löggjan er mjög einfalt, það er verið að troða á rétti þeirra til þess að sleppa að vera skráður í dómsdagskölt, sem er studdur af ríkinu og skattborgurum þessa lands. Og áróðri þessa sama dómsdagskölts er troðið í alla grunnskóla í landinu, og fleiri skólastig hérna á landi. Hérna er auðvitað um grófa misnotkun að ræða á valdi í þágu trúarbragðs.

Trúleysi er meira en lífsskoðun, trúleysi er að taka stöðu gagnvart þeirri fáfærði sem trúin boðar.

Og Carlos, það er við hæfi að minna þig á eitt verk kirkjunnar frá 1616. Tekið af Wikiepda vefnum.

"By 1616 the attacks on Galileo had reached a head, and he went to Rome to try to persuade the Church authorities not to ban his ideas. In the end, Cardinal Bellarmine, acting on directives from the Inquisition [1], delivered him an order not to "hold or defend" the idea that the Earth moves and the Sun stands still at the center."

http://en.wikipedia.org/wiki/Galileo

Þarna er meira um þetta mál, sem er auðvitað stórmerkilegt að lesa.

Fáfræði er í dag viðhaldið af trúarbrögðum, vegna þess að trúarbrögð þrífast á fáfræði og ótta.


Sveinbjörn Halldórsson - 01/07/06 20:56 #

Þið látið alltaf eins og trúarbrögð séu einsleitt fyrirbæri og eingöngu bundin vestrænni sögu. Þið hugsið ykkur jörðina flata! Veruleikinn er allur annar. Nánast allt sem þið fullyrðið um trúarbrögð er ekki algilt. Til eru svæði á jörðinni þar sem trúarbrögð gegna allt öðrum tilgangi en þið getið ímyndað ykkur. Það er einkennilegt að vísindalega sinnað fólk skuli afskrifa rannsóknir mannfræðinga alla síðastliðnu öld. En við hverju má búast af jafn sundurleitum hópi, sumir illa brenndir af strangtrúaruppeldi, aðrir fastir í efnishyggju iðnbyltingaráranna..enn aðrir sannir leitendur. Allir þó sameinaðir undir fána einhvers fáfengilegasta fyrirbæris sem til er: Vantrú! (og nota bene, þeir sem skoða þennan vef reglulega ættu að vera fyrir löngu búnir að sjá að "vantrú" hefur sáralítið með efahyggju að gera.)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/07/06 21:24 #

Þið látið alltaf eins og trúarbrögð séu einsleitt fyrirbæri og eingöngu bundin vestrænni sögu.

Gerum við það virkilega?

Allir þó sameinaðir undir fána einhvers fáfengilegasta fyrirbæris sem til er: Vantrú! (og nota bene, þeir sem skoða þennan vef reglulega ættu að vera fyrir löngu búnir að sjá að "vantrú" hefur sáralítið með efahyggju að gera.)

Er það virkilega? Vinsamlegast reyndu að færa rök fyrir því að Vantrú hafi sáralítið með efahyggju að gera.


Sveinbjörn Halldórsson - 01/07/06 22:14 #

Nefndu mér eitt dæmi þar sem fjallað er um trúarbrögð út frá öðru sjónarhorni en gamalkunnugu samhengi vestrænnar sögu: Vald, ótti, fáfræði.. Eitt dæmi þar sem er einhver vottur þess að menn vilji skoða margbreytni trúarhugmynda. Vilji menn á annað borð finna einhverja skýringu á eiginleika manneskjunnar til að trúa, þá verða menn að reyna horfa út fyrir rammann. Efi felur í sér leit. Maður sem er brenndur af strangtrúaruppeldi, og upplifir fányti trúarinnar afneitar henni oft af nákvæmlega sömu hvöt og gerði honum áður kleift að játast henni. Þetta er gamalt lögmál. Þú ætlast varla til að ég nefni tiltekin dæmi, það fólk sem lýsingin ætti við tæki hana varla til sín. Gott og vel Matti, sumt verður ekki auðveldlega rökstutt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/07/06 22:21 #

Nefndu mér eitt dæmi þar sem fjallað er um trúarbrögð út frá öðru sjónarhorni en gamalkunnugu samhengi vestrænnar sögu: Vald, ótti, fáfræði.. Eitt dæmi þar sem er einhver vottur þess að menn vilji skoða margbreytni trúarhugmynda.

Þetta er afar óljós beiðni, ég held það skipti engu máli hvað ég bendi á, þú getur alltaf troðið því inn í þessa loðnu skilgreiningu þína.

Gott og vel Matti, sumt verður ekki auðveldlega rökstutt.

Slepptu því þá að fullyrða það. Mér leiðast órökstuddar ásakanir.


Sveinbjörn Halldórsson - 01/07/06 23:57 #

Athyglisvert það sem Ormur sagði að það væri enginn trúlaus í skotgröfunum. Ég er ekki viss um að það sé rétt. Það er hins vegar auðvelt að ímynda sér trú sem einskonar viðbragð, ekki aðeins við nálægð dauðans heldur einnig því að finna sem ungur maður líf sitt og minningar þjappað saman í eitt sekúndubrot sem síðan tætist í sundur. Kannski gefst engin tími fyrir trú í venjulegum skilningi, aðeins veikburða og fánýta von um mikilvægi einhvers sem var á því augnabliki varla raunverulegt. Svo finnur fólk hjá sér hvöt til að hirða um þá látnu, af hverju það? Afhverju virðast fílar fara um langan veg til að róta í beinum dauðra afkomenda sinna? Ekki hafa þeir þá skörpu meðvitund sem við höfum, vitund sem er lík þöndu segli ekki af því trúin sé þetta segl, ég er efins um að hún sé okkur meðfædd. En því verður ekki neitað að seglið er frábærlega vel gert fyrir þennan vind.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/07/06 00:25 #

Óskaplega leiðist mér þegar fólk sendir inn óskýrar athugasemdir til að reyna að telja fólki trú um að það sé djúpviturt þegar raunin er að það hefur ekkert gáfulegt að segja.


Color limbo - 02/07/06 12:41 #

Mér finnst líka afskaplega leiðinlegt þegar menn reyna að gera lítið úr máli annarra og gera þeim upp hitt og þetta með innantómum og niðrandi athugasemdum. Það er mikið til í því sem Sveinbjörn segir. Textinn er líka býsna vel skrifaður. Ég hnaut um þetta hér að ofan, þ.e. þegar verið var að tala um að enginn væri trúlaus í skotgröfunum. Merkileg fullyrðing. Skotin niður um leið niður og vísað á einhverja vefsíðu þar sem fram komu stoltir trúleysingjar sem sannarlega höfðu verið í foxholes. Og sannarlega er auðvelt að koma fram eftir að hafa verið í skotgröfunum og segja þá að maður hafi allan tímann verið trúlaus. Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða að ENGIR trúleysingjar séu í skotgröfum en eins og Sveinbjörn kemur inn á hérna að ofan þá er það umhverfið, nálægðin við dauðann allt í kringum mann, óvissan um hvað tekur við, sem hvetur menn til að hugsa sinn gang og takast á við skoðanir sínar. Í skotgröfum er líklega enginn laus við þessar hugsanir, enginn laus við hugsanir um framtíðina, dauðann og líf eftir hann. Andlegt umhverfi? Líf í skotgröfunum var án alls vafa hræðilegt og ekkert mér fjær en að gera lítið úr því sem þar gerðist. Sérstaklega þar sem við minnumst þess í ár að 90 ár eru liðin frá orrustunni við Somme. En kringumstæður eins og þær við Verdun, Somme og fleiri hvetja menn til að hugsa um andleg mál og sýna að það kemst enginn í gegnum lífið án þess að lenda í svona aðstæðum og íhuga; og hver svo sem hin endanlega niðurstaða verður þá hljóta flestir, einhvern tímann á lífsleiðinni, að trúa, og þannig eru það kringumstæður sem þessar, t.a.m. skotgrafalíf sem öllu heldur fá menn til þessarar íhugunar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/07/06 13:14 #

auðvitað er ekkert hægt að fullyrða að ENGIR trúleysingjar séu í skotgröfum

Akkúrat, það er ekki hægt því það er ósatt. Því er betra að sleppa því að halda þessu kjaftæði fram.


Color limbo - 02/07/06 14:59 #

Af hverju að ríghalda svo í staðreyndir og rök að það ætlar öllum umræðum hér lifandi að ganga frá? Mér finnst allt í lagi að ræða þá fullyrðingu að það sé enginn trúlaus í skotgröfunum. Þrátt fyrir að það sé enginn sem fyrir fullt og fast getur sagt af eða á.

Er það vantrúin sem gerir menn svona hrædda við opna umræðu? Vantrú getur af sér traust á rök og fakt sem reynir að fylla upp í það gap sem vantar í hinn vantrúaða. Einhvern veginn verða menn að taka á þessum málum og nota þetta afkvæmi vantrúarinnar til þess. Þannig er ég sammála þeirri fullyrðingu sem fleygt var fram hér að ofan að trúin væri hverjum manni meðfædd. Um leið og henni er fleygt er gripið í eitthvað annað. En trúartilfinningunni fylgir ákveðinn sjarmi, litur á lífið sem þetta faktatraust getur ekki náð og nær aldrei.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/07/06 15:07 #

Af hverju að ríghalda svo í staðreyndir og rök að það ætlar öllum umræðum hér lifandi að ganga frá?

Vegna þess að umræður án staðreynda og raka eru með öllu tilgangslausar. Ég vil frekar að hér séu engar umræður heldur en rakalausar og vitlausar umræður.


Lína - 11/07/06 07:18 #

Lína er komin aftur á Sjónarhól eftir frí og svarar nú fyrir sig:

Lárus spyr: "Ef þú veist nú þegar hvað þú ætlar að velja úr hinni heilögu ritningu og hvað þú ætlar að sleppa, afhverju þarftu þá á þessari bók að halda? Getur sá mælikvarði sem þú notar í grisjuninni ekki dugað þér í lífinu líka? Er ekki þitt eigin siðferði og hugmyndafræði á miklu hærra stigi en er í þessu helgiriti fornaldarþjóða?"

Svar: Ef þú átt uppskriftabók þýðir ekki að þú neyðist til að baka allar kökurnar í uppskriftabókinni, líka þessar sem þér finnst vondar! Feminískir guðfræðingar hafa sumir hafnað Biblíunni algjörlega en aðrir beitt hana mikilli gagnrýni og hreinlega valið þaðan það sem þeim finnst hafa fordæmisgildi. Sá sem er í hjarta sínu kristinn hættir ekki að trúa á Jesú Krist né Guð. Sú tilfinning er djúpt við hjartarætur. Að trúa án Jesú Krists er fyrir mér eins og klukka án gangverks. Heimur án sólar. Ég klippi ekki Jesús úr mínu lífi og fatta ekki ástæðu þess að gera það.

Lárus spyr áfram: "Þú segir að fyrir þér er trúleysi "tómið eitt". Heldur þú að ég og aðrir trúleysingjar lifi í einhvers konar andlegu tómarúmi? Að líf okkar sé snautt af andlegum gæðum bara vegna þess að við tökum ekki goðsagnir trúanlegar?"

Þarna er eitt lykilorð í mínum huga – andlegt – hvað er það í huga trúleysingja? Fólk getur vissulega trúað án þess að trúa á hinn sögulega Jesús eða Guð sem framreiddur er í Biblíunni. (Að vísu í mismunandi myndum eftir hvar í Biblíunni lesið er). Dæmi um það eru t.d. trúleysingjar sem finna trú á æðri mátt í AA samtökunum. Þeirra andlegu gæði (og von um bata) liggja m.a. í því að geta treyst á þennan æðri mátt. Ég spyr því aftur hvaðan rót hinna andlegu gæða kemur hjá þeim sem trúir ekki á neitt nema hmm..? Getur trúleysingi trúað á kærleikann ?

Lárus skrifar áfram: "Trú á kærleikann þarf ekki að vera eitthvað sérstakt kristið fyrirbæri. Ef þú ert ein af þeim sem segjast vera kristin en trúa ekki á hluti eins og meyfæðinguna, upprisuna og vatnsgöngur þá ertu líklega nær því að vera húmanisti heldur en kristin."
Ég er skynsöm kona, ég trúi ekki að kona eignist barn án getnaðar. Það er líka umdeilanlegt hvort að hebreska þýðingin á orðinu almah sé rétt – s.s. orðið meyja/virgin eigi að vera ung mær – sjá nánar: http://www.frontline-apologetics.com/virginbirthrevisited.htm

Jesús kallaði Guð föður sinn. Ég held að það sé reginmisskilningur að álykta að Jesús sé sinn eigin faðir og er ég þar með að hafna þríeinum Guði sem fæstir skilja. Við getum verið í Guði og Guð í okkur án þess að vera Guð. Guð birtist fólki í ýmsum myndum. Fyrir Jesú Kristi var Guð faðir. En fyrir mörgum er föðurímynd ekkert endilega jákvæð.

Sumir leita til Guðs sem móður, - "Ég er hjá þér ó Guð, sem barn hjá blíðri móður".. semur Kristján Valur Ingólfsson. Sumum finnst Guð frekar sem vinkona/vinur. Ég trúi ekki á kirkjufeðurna eða kirkjuþing eða ályktanir þeirra. Grundvallaratriði í trúnni er að við höfum eiginleikann til að greina milli góðs og ills. Get ég þá verið Kristin án þess að Jesús sé Guð. Mín niðurstaða er "Já" .. Varðandi upprisuna þá trúi ég á að lífið haldi áfram eftir dauðann og Það sést nú ljósast hvað Jesús Kristur er lifandi enn í dag. Ég trúi ekki á upprisu í holdi – ..Í Jóhannesarguðspjalli er talað um upprisu í "dýrðarlíkama" .. það er enginn holdlegur líkami. Ekki trúi ég heldur að Jesús blessaður hafi gengið á vatninu .. frekar en þú.

Niðurstaðan: Jesús lifir fyrir mér NÚNA og býsna mörgu öðru fólki. Hann er í núinu enda eigum við að lifa í núinu. Já það má sortera það sem maður vill úr Biblíunni – við erum alltaf að velja. Hvort sem það er úr Biblíunni eða úr hillunni á Videóleigunni. Nóg í bili. Bíð eftir stórskotaliðinu í rigningunni :-) ...


Lína - 11/07/06 07:30 #

Jórunn skrifar:

Lína er upptekin af því að það sé manninum "eðlilegt" að trúa.

Já Jórunn, vísa aftur í upphafsorð mín. Er aðeins að tala um staðreyndir. Mannfræðingar hafa rannsakað þjóðflokka í myrkustu frumskógum og alls staðar finnast trúarbrögð. Hvort þau eru góð eða slæm, gáfuleg eða heimskuleg, ætla ég ekki að leggja dóm á hér. Það virðist s.s. vera sammannlegt að trúa. Hvort sem það er á líkneski í miðju þorpi, óræðan "æðri mátt" eða á Jesú Krist. Þetta virðist vera félagslegt fyrirbæri að sumu leyti, hópefli þar sem andinn styrkist við að fleiri koma saman. Það gildir kannski líka um trúlausa, miðað við nýafstaðna samkomu þar sem fólk gladdist yfir að hitta skoðanabræður og systur með sameiginlega heimsmynd. Bara að pæla.


Lína - 11/07/06 07:51 #

Kalli spyr:

Hvernig lýsir það sér að Jesús hafi verið femínisti?

Jesús var feministi í karlrembuþjóðfélagi. Jesús áleit konur á sama plani og karla. Það sést á því hvernig hann kenndi konum og kemur einna skýrast fram í sögunni af systrunum Mörtu og Maríu. (Lúkas 10.38-42) Þar tók Marta hið týpíska kvenhlutverk en María hlutverkið sem venjulega var ætlað karlmanni. Að setjast niður og hlusta á Jesú kenna. Marta kvartaði við Jesú en hann stóð með Maríu – hún þurfti ekki að falla inn í staðalmynd kvenna. María VALDI hið góða – og það MÁTTI ekki að taka það frá henni.

Einnig má benda á dæmið um samversku konuna – sem hann mætir við brunninn. Það mátti ekki tala við Samverja og hvað þá konu. Jesús hlustaði ekki á þá rödd samfélagsins heldur tók konuna sem jafningja.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 12:28 #

Jesús áleit konur á sama plani og karla.

Dæmin sem þú bendir á sýna ekki fram á það. Þetta kallast að oftúlka.

Síðan svaraðirðu ekki spurningu Lárusar um hvernig þú velur og hafnar hlutina úr biblíunni, nema þá að geðþótti sé svarið.

Ég er skynsöm kona, ég trúi ekki að kona eignist barn án getnaðar.

Ef þú trúir á yfirnáttúrulega veru sem getur framkvæmt kraftaverk, þá getur kona eignast barn án getnaðar.

Það er líka umdeilanlegt hvort að hebreska þýðingin á orðinu almah sé rétt – s.s. orðið meyja/virgin eigi að vera ung mær – sjá nánar: http://www.frontline-apologetics.com/virginbirthrevisited.htm

Almah þýðir ekki hrein mey, en í Matt. er td notað parþenos sem er hrein mey.

Varðandi upprisuna þá trúi ég á að lífið haldi áfram eftir dauðann og Það sést nú ljósast hvað Jesús Kristur er lifandi enn í dag.

Nú? Hvernig sérðu það í dag að Jesús sé lifandi?

En mér sýnist þú afneita guðlegu eðli Jesú, upprisu holdsins, þrenningunni, meyfæðingunni og ég veit ekki hvað. Hvað gerir þig að kristinni manneskju?


Þorsteinn Þorvaldsson - 07/01/07 16:15 #

"Það er enginn trúlaus í skotgröfunum"

Ef Guð væri til, væri fólk þá í þessum skotgröfum?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.