Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fórnarlamb hryðjuverka geldur líku líkt

Það er alltaf jafn sorglegt að sjá kirkjunnar fólk halda á lofti nöturlegum hindurvitnum. Nýjasta dæmið er svar á kirkjuvefnum við spurningunni Getur Guð fylgst með manni?

Þessu er hiklaust svarað játandi. Guðfræðingurinn sem svarar telur sig vita svona mikið um guðinn sinn, þrátt fyrir að nútímaguðfræði telji Biblíuna aðeins vera lýsingu mannanna á upplifunum sínum á guðdóminum. Maður trúir því varla að fullorðið og vel upplýst (háskólamenntað) fólk skuli ganga með svona hugmyndir í kollinum. Þetta er rakið dæmi um þær skemmdir sem trúarinnræting vinnur á hugum fólks. Alvöru fræðimaður hefði bent á að spurningin væri röng til að byrja með, því fyrst þyrfti að komast að því hvort það væri einhver guð og það hefði ekki tekist að sýna fram á slíkan enn sem komið er.

En það virðist ekki vera nokkur efi í huga Þorvaldar Víðissonar. Svona er hann nú skemmdur og sjálfur hneppir hann glaður aðra í hlekki hugarfarsins. Ef hann hins vegar trúir þessu ekki sjálfur þá jaðrar það við glæp að innræta saklausum sálum svona kjaftæði. Þessi „vitneskja“ getur markerað strákgreyið sem þarna spyr ævina á enda.

Ég spyr hvort verjandi sé að skattfé okkar allra sé notað til að púkka upp á svona rakalausar fullyrðingar, staðhæfirngar sem eru fullkomlega á skjön við allt það sem þekkingin á heiminum hefur fært okkur. Hvenær ætlum við að drullast út úr miðöldunum?

Birgir Baldursson 12.01.2006
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Ágúst - 12/01/06 22:18 #

Birgir. Hvernig er því fólki viðbjargandi sem hefur ánetjast trú?

Heldur þú að rétt sé að draga alla í sama dilkinn?

Ég vil svo líka þakka þér, að svo miklu leyti sem ég er í þakkarskuld við þig, fyrir þennan vef.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/01/06 22:25 #

Það má kenna fólki gagnrýna hugsun, Ágúst. Því miður hefur skólakerfið ekki tekið upp slíka kennslu á grunnskólastigi og í framhaldsskólunum er þetta allt í skötulíki. Aftur á móti er töluverðri orku varið í að menga hugi barna með kristindóminum.

Lausnarorðið er gagnrýnin hugsun.

Heldur þú að rétt sé að draga alla í sama dilkinn?

Um hvað ertu að tala? Útskýrðu.


Ágúst - 12/01/06 22:57 #

Ég á við hvort þeir sem ánetjast trú,sem hafa sótt hugmyndir í trú, þurfi allir að vera jafn ómögulegir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/01/06 00:00 #

Nei, það eru fyrst og fremst þeir sem boða trú sem mér finnst „ómögulegir“, ef hægt er að nota það orð.


Pétur Haukur Jóhannesson - 13/01/06 14:09 #

Ég las þetta svar hans og ég vona bara að hann muni átta sig fyrr en síðar. Ég veit ekki til þess að það séu til neinar sannanir fyrir þessum fullyrðingum.


Ágúst - 13/01/06 20:44 #

Ég spyr hvort verjandi sé að skattfé okkar allra sé notað til að púkka upp á svona rakalausar fullyrðingar, staðhæfirngar sem eru fullkomlega á skjön við allt það sem þekkingin á heiminum hefur fært okkur. Hvenær ætlum við að drullast út úr miðöldunum?

Það sem mér finnst vera afleitt er hvernig þeir vilja loka úti minnihlutahóp eins og samkynhneigða sem vilja fá kirkjulega blessun fyrir hjúskap. Fólk sem vill vera innan kirkjunnar á að vera lokað úti. Einhverjir klerkar, fræðimenn og forstöðumaður sértrúarsafnaðar leggjast á árarnar til að útiloka það og tala um þetta fólk með vanvirðandi hætti. Ég er giftur og ég get ekki séð hvernig er verið að gengisfella mitt hjónaband, þótt samkynhneigt fólk fái kirkjulega blessun. Mér leiðist það ef ég er að borga peninga fyrir slíkt. Mér finnst slíkt vera í andstöðu við kærleikann í reynd. Það er gott að ekki fannst líka eitthvað skrifað í biblíuna um það með hvaða hætti megi niðurlægja og fordæma t.d. rauðhærða og freknótta. Menn hafa talað um samkynhneigð eins og hún varði val einstaklinganna. Gunnar er meðal annars einn þeirra sem talar um að “afhomma” liðið. Ekki get ég fundið til þess í sjálfum mér að ég standi frammi fyrir vali í þeim efnum.

Ef maður fer að draga ályktanir um þessa fullyrðingu Gunnars, út frá þekkingu á eigið eðli, þá getur maður ætlað að hann hafi verið að bæla hommaeðlið allt sitt líf. Þegar lögunum verður breytt og samkynhneigðir hafa fullan rétt á við okkur hin og okkur hinum ber full skylda, samkvæmt lögum, til að sýna þeim fulla virðingu, að þá geta þeir sem eftir eru hætt að berjast þessari ósanngjörnu baráttu við sitt eigið eðli og verið þeir sjálfir frammi fyrir Guði og mönnum, eins og guð skapaði þá, því jú, Guð er skapari alls.

En ef ég kem aðeins nær þeirri spurningu sem þú spurðir, að þá skiptir þetta mig litlu máli. Þeir sem taka við (hugmyndum), verða að hafa hugarfarslegan þroska til að setja sérkennilegar sögur í vitrænt samhengi (finna út úr þeim gagnlegar hugmyndir). Annars; sunnudagaskólaútskýringarnar höfða ekki til mín. Menn meiga ekki skilja það sem svo að það að vera barnalegur sé eitthvað göfugt. Að taka á móti eins og barn, það hlýtur að þíða eitthvað annað ef það á að hafa gagnlega merkingu. Skynsemi er eitthvað sem ekki má kasta á glæ. Auðtrú hefur (og ýmis hindurvitni), því miður, reynst mörgu fólki það afl sem útilokar skynsemina.


Ágúst - 15/01/06 17:56 #

Það má kenna fólki gagnrýna hugsun, Ágúst. Því miður hefur skólakerfið ekki tekið upp slíka kennslu á grunnskólastigi og í framhaldsskólunum er þetta allt í skötulíki. Aftur á móti er töluverðri orku varið í að menga hugi barna með kristindóminum. Lausnarorðið er gagnrýnin hugsun.

Getið þið ekki gert einhverja fræðslu eða kennslusíðu inni á þessu vefsvæði, þar sem fræðin eru tekin beinhörð? Hvernig væri sú hugmynd? Ég held það geti verið áhugavert fyrir lesendur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.