Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er guð til? Annað svar kirkjunnar

Í fyrsta svari kirkjunnar fór ég yfir rök , eða öllu heldur skort á þeim, fyrir tilvist guðs í fermingarfræðslubókinni Líf með Jesú. Núna ætla ég að kíkja á rökin í annarri bók sem Þjóðkirkjan hefur notað við fermingar-fræðslu, Fermingarkverið eftir Séra Pál Pálsson á Bergþórshvoli.

Sjöundi kaflinn í bókinni heitir einfaldlega Guð. Næsti kafli á eftir heitir Maðurinn og fleiri verur, sem fjallar um engla, Jesús, illa anda, djöfla og Satan, sem að sögn Páls eru allir staðsettar í öðrum “tilverustigum” og “lífsvíddum”. Páll ákveður sem sagt að sanna tilvist aðalandans áður en hann fer í aðrar verur í "lífsvíddunum". En áður en við kíkjum á kaflann Guð er best að skoða þrjá aðra staði í bókinni þar sem Páll reynir að færa rök fyrir tilvist guðs. Þar sem kverið er sett upp sem spurningar og svör skulum við ímynda okkur að fermingarbarn spyrji Séra Pál:

Hvað er það svo helst, sem sýnir okkur Guð? (bls.61)

Páll eyðir meira en hálfri síðu í að tala um hve margar stjörnurnar eru, hve stór heimurinn er, hve fagurt og stórbrotið Ísland er og svo framvegis.....ætla mætti að spurula fermingarbarninu væri farið að syfja þegar Páll spyr það loksins og svarar spurningunum sínum sjálfur:

Hver stjórnar þessu öllu? Hver lætur allt ganga eftir vissum lögmálum? Hver býr þau lögmál til?

Skynsamlegt svar verður aldrei annað en Guð. (bls 62)

Ef einhverjum finnst skrýtið hvers vegna þessi “rök” Páls eru í formi spurninga, þá er svarið einfalt: ef hann hefði ekki notað spurningaformið þá hefði komist upp um rökbrellu Páls. Hann er nefnilega að reyna að lauma inn órökstuddum forsendum í spurningarnar.

Ef við tökum sem dæmi fyrstu spurninguna, "Hver stjórnar þessu öllu?", þá gefur hún sér að fullyrðingin “Einhver stjórnar þessu öllu” sé sönn, en Páll hefur ekki fært nein rök fyrir því að það sé einhver sem stjórnar þessu öllu.

Þangað til að Páll eða aðrir kirkjunnar menn koma með rök fyrir því að “einhver stjórni heiminum”, að “einhver láti allt ganga eftir vissum lögmálum”, að “einhver búi þau lögmál til”, þá flokkast þessar spurningar hans með “Ertu hættur að berja eiginkonuna þína?” og öðrum álíka heimskulegum spuringum.. Áður en Páll getur komið með "skynsamleg svör" þá verður hann fyrst að koma með skynsamlegar spurningar.

Strax á eftir þessu byrjar Páll að ræða um samviskuna og segir “Samviskan gefur okkur oft, nokkrar, en óljósar hugmyndir um, að Guð sé til.”(bls 62) Fermingarbarnið spyr Pál síðan:

Hvað er samviska?

Samviskan er sú tilfinning, sem við höfum fyrir því hvað sé rétt og rangt. (bls. 62)

Páll eyðir síðan tveimur blaðsíðum að fjalla um samviskuna, en aldrei útskýrir hann hvernig hún bendir til þess að guð sé til. Það hefði varla sakað að reyna, en það er ef til vill skiljanlegt að Páll hafi ekki viljað fara nánar út í þetta ímyndaða samband sem hann sér á milli samviskunnar og tilvistar guðs.

Næstu rök Páls eru þau að: "Sköpunarverkið varð til af því að Guð skapaði það. Það bjó sig ekki til sjálft." (bls. 126). Þessa niðurstöðu fær hann af fullyrðingunni. “Þannig hefur allt sitt upphaf” Hvernig tilvist guðs leiðir af því að allt eigi sitt upphaf útskýrir Páll ekki nánar. En fermingarbarnið þarf ekki að velta því fyrir sér því það sér strax villu í þessum rökum og spyr:

En hver skapaði þá Guð?

Enginn. Hann er eilífur andi sem hefur alltaf verið til. (bls 127)

Þarna hefur Páli tekist af fara í mótsögn við sjálfan sig í tveimur línum! Geri aðrir betur. Allt hefur upphaf og guð hefur ekki upphaf. Auðvitað myndi Páll segja "allt hefur upphaf...nema guð" ef það væri ekki svo ótrúlega augljóst að hann væri að gera sérstaka undantekningu þegar kemur að guðinum hans. Fyrst að guð er undantekning, hvers vegna þá ekki alheimurinn eða eitthvað annað? Það er einfaldari útskýring að segja þetta bara um heiminn og það gerir guð óþarfan.

Fermingarbarnið er skiljanlega ósátt við þessi “rök” séra Páls og spyr hann loksins hreint út í kafla sjö:

Er Guð til?

Já.

Það kennir kirkjan okkur frá blautu barnsbeini.

En jafnvel heiðingjarnir vita að Guð er til. Samt tilbiðja þeir ekki hinn sanna og lifandi Guð, þótt samviska þeirra bendi þeim oft á hann og einnig náttúran, sem Guð skapaði (sköpunarverkið)

Hvernig stendur á því? Stundum er þetta vegna þess að heiðingjarnir þekkja Guð of lítið og stundum vegna hins, að þeir vilja alls ekki tilheyra honum.” (bls 71)

Ólíkt Lífi með Jesú reynir Páll strax að koma með rök fyrir tilvist guðs: “Kirkjan segir það”.

Það eru náttúrulega engin rök að eitthvað sé satt vegna þess að trúfélag haldi því fram, heldur rökvilla. Ef kirkjan segir að guð sé til þá hlýtur hún að þurfa að koma með rök fyrir þeirri fullyrðingu en ekki benda bara á að hún fullyrði það.

En líkt og Líf með Jesú, ræðst hann á trúleysingja með tilvitnun í Sálm 14, þó ekki í þessum kafla:

Hvað segir Biblían um þá, sem halda því fram, að Guð sé ekki til?

Heimskinginn segir í hjarta sínu: Guð er ekki til. (Sálmur 14,1) (bls 128)

Fermingarbarnið lætur auðvitað ekki sannfærast af innantómri vísun til yfirvalds og spyr:

En hvernig vitum við að Guð er til?

Við vitum það vegna þess að Guð hefur opinberast þeim mönnum, sem hann hefur sérstaklega útvalið til þess að flytja mannkyninu boðskap sinn. Þessar opinberanir getum við lesið í Biblíunni. (bls 71)

Ekki nóg með að kirkjan segi að guð sé til, biblían segir það líka! Blessað fermingarbarnið hlýtur núna að sjá hversu yfirgnæfandi rök eru fyrir tilvist guðs, ekki ein, heldur tvær vísanir til yfirvalds. Þriðja rökvillan sem Páll hefði getað fært fyrir tilvist guðs væri “Presturinn segir þér að guð sé til!” eða kannski "Foreldrar þínir segja þér að guð sé til!"

Stuttu seinna upplýsir Páll fermingarbarnið um að við getum ekki séð guð vegna þess að “hann er andi og hefur ekki jarðneskan efnislíkama eins og við” (bls 72) og við það fer barnið aftur að efast og spyr Pál:

En þótt Guð sé venjulegast ósýnilegur, eigum við að vera viss um að hann sé til?

Við eigum ekki að efast, heldur að trúa því, sem Biblían segir okkur um Guð. Þar með rifjast það þá líka upp fyrir okkur, að Biblían er einmitt trúarbókin okkar. (bls 72)

Ég held að þetta svar dæmi sig sjálft. Ljóst er að rökin sem séra Páll Pálsson kemur með eru rökleysur af verstu gerð og að boðskapurinn er sá að efi sé slæmur og að við ættum að trúa biblíunni og kirkjunni í blindni. Kirkjan hlýtur líka alltaf að vera á móti efanum því hún byggir tilvist sína á kennisetningum sem standast ekki hreinsunareld efans, eins og einhver hefur mælt:

Heimspekin varpar fram fjölda spurninga sem ekki er unnt að svara. Trúarbrögðin tefla hins vegar fram svörum sem ekki má spyrja út í.

Í þriðju og síðustu grein minni um svör kirkjunnar við spurningum fermingarbarna um tilvist guðs mun ég kíkja á nýjasta og að margra mati lélegasta svar kirkjunnar.


Heimild: Sr. Páll Pálsson á Bergþórshvoli, Fermingarkverið, Fjölvaútgáfa. Reykjavík 1990

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.01.2006
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 11/01/06 10:43 #

Hvað er samviska? Það eru þrír virkir staðir í heilanum sem stýra samviskunni. Psychopatar skorta yfirleitt virkni á tveim stöðum af þessum þremur. Samviskan er í heila okkar og ef þeir staðir í heilanum verða fyrir skemmdum getum við tapað samvisku. Það er ekki til nein lækning fyrir t.d. Psychopata og allar meðferðir í fangelsum hafa reynst árangurslausar. Trú á Jesú læknar þá aldrei! Eina von lækna er að í framtíðinni verði hægt að lækna þennan galla með örgjörva sem örvar þessi svæði heilans. Fjöldi Psychopata í samfélaginu er á bilinu c.a. 1/200. Það er ekki langt síðan að nothæf sálfræðipróf til að finna Psychopata voru samin. Trúin hefur engin svör um samvisku okkar en það hafa vísindin. Við vitum hvar samviskan er og hvað gerist ef hana vantar.

Takk fyrir góðagrein Hjalti :)


Svanur Sigurbjörnsson - 12/01/06 00:43 #

Virkilega gott yfirlit yfir þennan fáránlega málflutning fyrir tilvist Guðs í fermingarkveri Páls Pálssonar. Merkileg þvermóðska í biblíunni þegar sagt er "Heimskinginn segir í hjarta sínu: Guð er ekki til. (Sálmur 14,1) (bls 128", þegar það er akkúrat heimska að trúa því blint að hann sé til. Það er engu líkara en höfundurinn hafi vitað hversu mikil heimska það var að trúa á Guð og þurfti því að snúa dæminu við til að virka nógu sannfærandi. Batnandi bulli er best að blíva!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.