Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn óþarfi Atlas

Þátttaka guðs í heiminum er alltaf að minnka. Áður fyrr var guð alltaf í öllu, hann stjórnaði rigningunni, orsakaði sjúkdóma, barnaði hreinar meyjar af og til, drap heilu þjóðirnar ef því var að skipta. Nú til dags er hlutverk guðs í heiminum nánast horfið, með auknum skilningi á heiminum erum við búin að komast að því að það var ekki guð sem var á bak við tjöldin, heimurinn virðist vera mekanískur. Það er til dæmis almennt viðurkennt núna að rigning orsakast ekki af því að guð sé að opna hlera himnaríkis eins og stendur í Biblíunni þó að aðrar Biblíukenningar séu ennþá nokkuð vinsælar.

Nú til dags eru því guðstrúarmenn í vandræðum með það hvar þeir eigi að koma guði fyrir. Það væri asnalegt að hafa ofursterkan ósýnilegan vin sem að gerir ekki neitt. Til þess að búa til hlutverk fyrir guð gera þeir ráð fyrir ýmsum hlutum svo sem tilgangi lífsins og sköpun heimsins. Síðan semja þeir spurningar út frá þessum gefnu forsendum, spurningar sem að eiga sér ekkert endilega svör. Ég er að tala um spurningar eins og „Hver er tilgangur lífsins?“ eða „Hvers vegna er eitthvað til frekar en ekkert?”. Þessum spurningum og fleirum telja trúmenn sig geta svarað léttilega með tilvísun til goðmagna eins og guðs. En er það nokkuð svar? Athugum svipaða spurningu sem var áður fyrr svarað með tilvísun til guðlegrar veru:


„Á hverju stendur Jörðin?”
„Ég veit það ekki, þarf hún að standa á einhverju?”
„Auðvitað stendur Jörðin á risanum Atlasi!”
„En á hverju stendur Atlas?”
„Atlas stendur ekki á neinu, hann er þannig gerður að hann þarf ekki neitt til þess að standa á. Ef að Atlas þyrfti að standa á einhverju, á hverju myndi það standa? Það yrði bara einhver endaleysa! Atlas stendur ekki á neinu!”

Í þessu dæmi einfaldar Atlas ekki neitt, hann svarar kannski spurningunni en ef að maður beitir sömu spurningu á Atlas þá verður fátt um svör. Annað hvort stendur Atlas ekki á neinu, en þá gæti Jörðin alveg eins ekki staðið á neinu (sem er raunin) og þá myndi Atlas ekkert einfalda málið, heldur flækja það. Eða þá að Atlas standi á einhverju, en þá svífur það sem að hann stendur á annað hvort í lausu lofti eða stendur á einhverju, svo að þetta gæti gengið endalaust. Atlas leysir því ekki vandamálið, hann færir það bara einu skrefi aftar, reynir að forðast það. Guð virkar nákvæmlega eins. Ef að maður spyr trúað fólk „Hver er tilgangur tilvistar guðs?” eða „Hvernig varð guð til?” eða þá „Hvers vegna er guð til frekar en ekki neitt?” , þá verður lítið um svör, nema þá að þeir búi sér til einhvern yfir-guð. En ef svo ólíklega vill til að það koma einhver svör við þessum spurningum þá verður maður að athuga hvort að þau geti ekki svarað hinum upprunalegu spurningum. Ef svo er þá er guð vita gagnslaus til að svara þessum spurningum. Einnig gætu trúmenn neitað því að þessar spurningar gildi um guð, en þá gætu þær alveg eins ekki gilt um heiminn

Því er það, að í hvert skipti sem guðsmenn svara einhverri spurningu með guði ættu þeir að beina sömu spurningu að guði. Ef þeir geta ekki svarað þeirri spurningu þá er skynsamlegast að álykta sem svo að guð svari í rauninni ekki spurningunni. Dæmi síðan hver fyrir sig hvort að risinn Atlas eða guð einfaldi nokkuð eða þá að þeir séu bara algerlega óþarfar flóknar yfirnáttúruskýringar.

Hjalti Rúnar Ómarsson 03.03.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Biggithebug - 03/03/04 17:05 #

Hver haldiði að hafi skapað heiminn ef það var enginn yfirnáttúrulegur? ég held að Guð hafi nú gert þetta Big-bang og rigninguna og allt það.....


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/03/04 23:57 #

Af hverju þarf einhver að hafa skapað heiminn?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 14/03/04 17:52 #

Guð getur nauðsynlegur, eða í það minnsta þægilegur, fyrir þá sem stjórna honum. Tilvist hins góða og hins illa er hin augljósa skýring á sumum hlutum, t.a.m. þegar hryðjuverkamenn duttu af himnum ofan 11. september. Það var ekki tengt fortíð eða utanríkisstefnu Bandaríkjanna, það var vegna þess að þeir voru heiðnir og illir og hata Bandaríkin af því þau eru kristin og góð. Eða hvað?


Úlfurinn - 16/03/04 14:55 #

"Á hverju stendur jörðin?" Hin flata jörð,Heimskringla,hvílir á bakinu á fjórum fílum,sem standa á bakinu á skjaldbökunni An´Tui.

sjá verk Terry Pratchett


Þossi - 11/05/04 21:38 #

Bara til að vera smámunasamur:

Enginn hefur sagt að Atlas beri jörðina uppi. Það eina sem Atlas ber er himininn. Sjálfur stendur hann á jörðinni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.