Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vísun í yfirvald

Vísun í yfirvald er rökvilla þegar sá sem vísað er til er málinu óviðkomandi. Það að vísa í Einstein til að rökstyðja eitthvað sem tengist trúmálum væri dæmi um vísun í yfirvald sem á ekki við. Einstein var sérfræðingur í eðlisfræði, ekki trúmálum. Hinsvegar, jafnvel þó hann hefði verið rabbíni, væri það samt vísun í óviðkomandi yfirvald að vísa í rabbínan Einstein sem rök fyrir því að Guð sé til vegna þess að trúarbrögð eru í eðli sínu umdeilt efni. Ekki er nóg með að trúarbragðasérfræðingar séu ekki sammála um grundvallarforsendur trúarbragða, margt fólk trúir því að trúarbrögðin sjálf séu fölsk. Það að vísa til einhverra sem ekki eru sérfræðingar, eins og þeir væru sérfræðingar eða að vísa til sérfræðinga í umdeildu fagi sem rök fyrir trú er hvoru tveggja dæmi um vísun í yfirvald sem tengist málinu ekki.

Vísun í óviðkomandi yfirvald er dæmi um “genetic fallacy”, tilraun til að dæma skoðun útfrá uppruna hennar í stað raka með og móti skoðuninni. Ef skoðunin á uppruna sinn hjá persónu með sérþekkingu, þá er hún talin sönn. En fólk með sérfræðiþekkingu getur haft rangar skoðanir.

Vísun í yfirvald verður ekki réttmæt þó að í stað þess að vísa í einn sérfræðing sé vísað í marga sérfræðinga sem trúa því að eitthvað sé satt. Ef sérfræðingarnir eru að fjalla um eitthvað utan þeirra sviðs eða efnið er umdeilt, verður vísunin ekki réttmætari þó langur listi sérfræðinga sé dreginn fram. Í hverju umdeildu máli er líklegt að álíka margir hæfir sérfræðingar séu beggja megin borðsins. Ef umdeild fullyrðing væri talin sönn vegna þess að sérfræðingar styðja hana, þá væri andstæð fullyrðing líka sönn með sömu rökum, sem er absúrd. Réttmæti eða rangmæti skoðunar verður að standa óháð þeim sem viðurkenna eða hafna skoðuninni.

Að lokum er vert að taka fram að ekki er óviðeigandi að vísa til sérfræðinga til að styðja fullyrðingar sem maður hefur ekki getu til að meta sjálfur. Hinsvegar þarf sérfræðingurinn í slíkum tilvikum að vera að tjá sig á sérsviði sínu og fullyrðingin má ekki vera umdeild meðal sérfræðinga á því sviði. Í fagi eins og eðlisfræði er eðlilegt að trúa fullyrðingum um eitthvað sem eðlisfræðingar setja fram ef flestir aðrir eðlisfræðingar taka undir það. Væntanlega trúa þeir því vegna þess að það eru góð sönnunargögn til að styðja kenninguna. Að sjálfsögðu gæti komið í ljós að slík fullyrðing væri ósönn, en það ætti að vera augljóst að engin fullyrðing verður sjálfkrafa sönn einungis útfrá því hverjir trúa henni.

Upphaflega útgáfan af greininni og ítarefni.

Greinin er þýdd og birt með leyfi höfundar Skeptic's Dictionary.

Matthías Ásgeirsson 22.01.2004
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin , Rökvillur )

Viðbrögð


Lárus Páll Birgisson - 22/01/05 06:09 #

Já þetta er merkilegt. Ég verð að muna þennan pistil næst þegar vantrúarseggirnir vitna í Randi, Sigga Hólm og aðra fræðimenn sem tengjast Guði ekki á nokkurn hátt :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/05 07:36 #

Hefurðu einhverntíma séð okkur vísa í Randi sem eitthvert yfirvald þegar Guð er til umræðu? Eða Sigurð Hólm? Bjánagangur er þetta.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 22/01/05 10:16 #

Leggurðu þig fram við að skilja ekki neitt og snúa út úr Lárus Páll eða ertu bara svona tregur af náttúrunnar hendi.?

Að lokum er vert að taka fram að ekki er óviðeigandi að vísa til sérfræðinga til að styðja fullyrðingar sem maður hefur ekki getu til að meta sjálfur. Hinsvegar þarf sérfræðingurinn í slíkum tilvikum að vera að tjá sig á sérsviði sínu og fullyrðingin má ekki vera umdeild meðal sérfræðinga á því sviði.

Bentu á eitt dæmi á Vantrúvefnum sem túlka má sem vísun í yfirvald út frá þessum pistli úr efahyggjuorðabókinni.

Þó til sé rökvilla sem heitir vísun í yfirvald þýðir það ekki að aldrei megi vísa í það sem aðrir segja. Að halda slíku fram er innantómt bull, annað hvort sett fram af fávisku eða óheilindum.


Lárus Páll Birgisson - 24/01/05 05:53 #

Matti segir:

"Leggurðu þig fram við að skilja ekki neitt og snúa út úr Lárus Páll eða ertu bara svona tregur af náttúrunnar hendi.?"

Ég spyr: Er einhver munur, svona í mekanísku samhengi?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.