Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Örn Bárður sér ljósið

Á fréttavakt NFS fyrir hádegi 28. desember var viðtal við prest, nánar til tekið Örn Bárð. Margt áhugavert kom fram í viðtalinu, til dæmis var minnst á styrk sem hann fékk frá kristnihátíðarsjóði til þess að vinna að verkefni sem snýr að umræðum við unglinga um “grundvallarspuringar”.

Örn er einn fárra presta sem hafa séð sóma sinn í því að ræða eitthvað við okkur Vantrúarmenn. Í kjölfar umræðna við predikun sem var full af vitleysum, ákvað hann að birta grein sem bar heitið: „Vantrúarmönnum“ svarað. Við svöruðum að bragði [1, 2, 3, 4, 5], en síðan hefur ekkert heyrst í honum. Hin æpandi þögn virðist hafa gleypt hann líka.

En hvað um það, þessar rökræður við okkur virðast þó hafa gert eitthvað gagn, því miðað við eina setningu í viðtalinu virðist Örn hafa séð ljósið:

Það er það sem er svo merkilegt við kristna trú, full af mótsögnum.

Velkominn í hópinn Örn! Þetta höfum við verið að segja ykkur prestunum alveg frá opnun Vantrúarvefritsins. Það stendur ekki steinn yfir steini í kristinni trú. Ætli Örn Bárður hætti nú að segja fólki að kristin trú sé sannleikurinn? Mun hann segja fermingarbörnunum að kristin trú sé full af mótsögnum? Ég efast um það.

En í ljósi þessara frábæru uppljómunar Arnar Bárðar er kannski rétt að skoða hvað Örn lét frá sér áður fyrr:

“Ef einhver trú byggir á jafntraustum heimildum og rökum og kristin trú lýsi ég hér með eftir henni.” -Viðhorf byggð á hindurvitni?

Nú vita allir, þar á meðal Örn, að rökfræðin er ekkert sérlega hrifin af mótsögnum. Reyndar segir ein frumforsenda rökfræðinnar að eitthvað sem er mótsagnakennt geti ekki verið rétt. Trú sem er “full af mótsögnum” getur ekki verið vel rökstudd. Hún er auðvitað mótsagnakennd rökleysa. Örn hlýtur að vita það, enda er hann góðvinur skynseminnar:

“Notum skynsemina sem Guð hefur gefið okkur.” -Veðbókarvottorð að handan

Hann meira segja biður guðinn sinn um að tilkomi “heilbrigð skynsemi, heilbrigð trú og hindurvitnalaus” í almennri umræðu hér á landi, vonandi vill hann flokka trúmálaumræðu með því. En nú segir heilbrigð skynsemi að trú sem er full af mótsögnum geti ekki verið sönn. Örn Bárður segist styðja heilbrigða skynsemi og viðurkennir að kristin trú sé full af mótsögnum. Þar af leiðandi ætti hann að vita að kristin trú er ekki sönn. Ætli Örn sé sammála því?

Ef til vill gæti Örn bara sagt að hann viti vel af þessu, en þegar þú ert á annað borð sáttur við að hafa mótsagnir í heimsmynd þinni, þá geturðu alltaf bætt einni við. Ætli það verði ekki að koma í ljós. Mig langar að minnsta kosti að vita það hvort við eigum von á því að Örn verði fyrsti prestur Íslands sem opinberlega afneitar kristinni trú og hef því ákveðið að senda honum nokkrar línur:

Sæll Örn Bárður

Ég sá viðtalið við þig á fréttavakt NFS.
Til hamingju með að hafa fengið styrk frá kristnihátíðarsjóði fyrir verkefnið “klassískir unglingar”. Það sem vakti enn meiri athygli mína var samt þessi setning: “Það er það sem er svo merkilegt við kristna trú, full af mótsögnum.”

Ég verð að byrja á því að óska þér til hamingju með að hafa komist að þessari niðurstöðu. Ég hef skrifað grein um þetta á Vantrúarvefinn. Ef þú vilt einhvern tímann skrifa greinar um þessar fjöldamörgu mótsagnir, þá skaltu ekki hika við að senda þær til Vantrúar-vefritsins.

Annars hlýtur þessi afstaða þín að breyta miklu varðandi starfið þitt. Muntu til dæmis segja krökkunum í verkefninu “klassískir krakkar” frá öllum þessum mótsögnum? En hvað með fermingarbörnin?

En stóra spurningin hlýtur að vera hvaða áhrif þetta hefur á trú þína. Nú hefur þú hvatt fólk til þess að nota skynsemina og hugmyndakerfi sem er fullt af mótsögnum er augljóslega ekki satt, ef við notum skynsemina. Ertu þá ekki lengur kristinn?

Ef þú svarar þá mun ég líklega birta efnislegt innihald svarsins á Vantrúarvefnum, nema þú óskir sérstaklega eftir öðru.

bestu kveðjur,
Hjalti Rúnar

Hjalti Rúnar Ómarsson 02.01.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/01/06 12:39 #

Ég verð að segja eins og er. Eftir að hafa hlustað á þetta viðtal við Örn Bárð, tel ég að hann sé alls ekki rétti einstaklingurinn til að ræða þessi atriði við unglinga. Mér finnst nálgun hans á þessar "stóru spurningar" afar barnaleg. Það er örugglega hægt að finna heimspekinga og aðra fræðimenn, t.d. hjá Vísindavefnum, til að ræða þessi mál við unglinga og fræða þau á forsendum þekkingar, ekki forsendum fáfræði eins og Séra Örn Bárður gerir.

Ég get t.d. ekki skilið Örn Bárð öðruvísi í þessu viðtali en að hann væri ákafur talsmaður ID kenningarinnar byggi hann í Bandaríkjunum. Eða svo við vitnum í hann

Ég held það séu mjög mörg göt í Þróunarkenningunni. Hún er svona tilgáta sem að útskýrir ýmislegt en ég hef ekki þekkingu, hvorki til að hafna henni né gleypa hana hráa. Við erum auðvitað að leita svara um tilgang lífsins og vísindamenn hafa komið með kenninguna um Miklahvell og Biblían talar um þetta í þessu sjö daga skema ... og svo eru til allskonar aðrar kenningar og við bara vitum þetta ekki. Mér finnst skipta mestu máli að veröldin er ekki tilviljun. Mér finnst lífið segja okkur það. Mér finnst það að við sitjum hér og rökræðum segja mér að það er einhver hugsun, einhver æðri hugsun til...

(mofi, haltu þig á mottunni)

Hvað græða unglingar á því að ræða grundvallarspurningar við þennan gaur? Auk þess finnst mér hann gera frekar lítið úr þeim unglingum sem sýna fram á heilbrigðan efa og skynsemi. En hann er svosem vanur því.

Helsta gullkorn þessa viðtals er samt þessi perla:

Nei, kristin trú þolir alla umræðu, ég held það sé ekkert sem er einsn rifið og tætt eins og kristin trú og Biblían, menn hafa legið yfir þessu í 2000 ár og gagnrýnt.

Í fyrsta lagi skal bent á það að í um 1500 af þessum 2000 árum áttum menn á hættu að vera pyntaðir og/eða myrtir fyrir að gagnrýna þessi speki. Fullyrðingar Arnar um að kristin trú þoli alla umræðu er áhugaverð og í því ljósi verður spennandi að sjá viðbrögð hans við þessari grein Hjalta. Hver veit, kannski mun Örn Bárður hvetja presta til að tjá sig hér á Vantrú og leiðrétta meintar rangfærslur okkar. Kristin trú þolir jú alla umræðu. Eða hvað?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/01/06 17:33 #

Líka afar fyndið að eftir þennan stutta tíma sem kristin trú hefur mátt vera gagnrýnd, þá kemur i ljós að hún er "full af mótsögnum", nánast allt í Biblíunni skáldskapur og einnig hún er "full af mótsögnum".


Dipsí - 03/01/06 03:46 #

Ég er nú ekki alveg að fatta þetta ID dæmi ef satt skal segja.

Var það ekki svo að í gamla daga voru óútskýrðir hlutir alltaf skýrðir út með guði eða djöflinum.

Hví er ég með þessi kýli um allan kroppinn?... jú, djöfullinn gerði það.

Svarið hefur síðan færst nær raunveruleikanum með tilkomu vísindanna og svona.

Í dag spyrja menn hvernig heimurinn hafi orðið til og af því að svarið er ekki á reiðum höndum er farið aftur í fornöld og þær úreldu skýringar notaðar. Guð gerði það.

Hefði lækning við hinum ýmsu sjúkdómum fundist fyrr ef fólk hefði svarað kýlaspurningunni með "ég veit það ekki en skal reyna að finna út úr því" í stað þess að benda bara á djöfulinn?

"Guð gerði það" er svona tákn um uppgjöf finnst mér. En það er hinsvegar þægilegt svar þegar maður getur ekki útskýrt hlutina eða þeir eru eitthvað flóknir. Ef mín 3ggja ára spyr mig af hverju regnboginn sé þarna, þá er þægilegt og gott að segja bara "guð gerði það" í stað þess að þurfa að fara að pæla eitthvað í ljósbroti og svoleiðis veseni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.