Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarskoðun eða lífsskoðun?

Í nýlegri grein séra Arnar Bárðar Jónssonar virðist hann af einhverjum ástæðum vilja útrýma trúleysinu í heiminum með orðaleik. Sagt er að ekkert sé nýtt undir sólinni og mætti halda að George H. Smith hefði lesið grein Arnar þegar að hann skrifaði þetta í bók sinni Atheism: The Case against God:

Whereas the Christian of yesterday had to expend a great deal of time and energy to win converts, the modern theologian has instituted a convenient time-saving device. By jggling a few terms here and there, the atheists of the world (whether they know it or not) are suddenly believers in a god. (s. 35)

Á svipaðan hátt og guðfræðingar hafa reynt að gera guðleysingja að guðstrúarmönnum reynir Örn að gera trúleysingja að trúmönnum. Orðaleikurinn hans er svona: Allar lífsskoðanir eru trúarskoðanir. Þar sem að guðleysi er lífsskoðun þá er það sjálfkrafa trúarskoðun.

Það er eitthvað athugavert við þetta. Ef allar lífsskoðanir eru trúarskoðanir hvers vegna höfum við þá þessi tvö orð? Það hlýtur að vera einhver munur á þessum hugtökum. Íslensk lög gera til dæmis skýran greinarmun:

Lög um skráð trúfélög 1999 nr. 108 28.desember 1. gr. Trúfrelsi. Rétt eiga menn á að stofna trúfélög .... Á sama hátt eiga menn rétt á að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þ.m.t. um trúleysi.

Vissulega geta trúarskoðanir verið lífsskoðanir, um það er ekki deilt, en ekki eru allar lífsskoðanir þar með sagt trúarskoðanir. Þótt bækur geti verið þungar eru ekki allir þungir hlutir bækur. “Trúarskoðanir eru mengi í mengi lífsskoðana en ekki öfugt.” (BB). Hvað finndist fólki um þessi samtöl:

A: “Siggi telur að tilgangur lífsins sé að safna frímerkjum” B: “Ha? Ég vissi ekki að Siggi væri trúaður.”

og:

A: “Siggi trúir því ekki að yfirnáttúra sé til” B: “Ha? Ég vissi ekki að Siggi væri trúaður.”

Ég held að flest ef ekki allt óprestlært fólk sé sammála því að B virðist ekki skilja það sem A sagði honum, það að telja tilgang lífsins vera að safna frímerkjum gerir engan trúaðan hvað þá að trúa ekki á yfirnáttúru. En ef að samtalið væri svona:

A: “Siggi telur að tilgangur lífsins sé að tilbiðja guð” B: “Ha? Ég vissi ekki að Siggi væri trúaður”

eða:

A: “Siggi telur að til sé yfirnáttúrulegur ósýnilegur bleikur einhyrningur.” B: “Ha? Ég vissi ekki að Siggi væri trúaður”

Enginn vafi er á því að núna er Siggi orðinn trúaður. Hvað aðgreinir þá trúarskoðanir frá lífsskoðunum? Trúarskoðanir byggja á yfirnáttúru og hindurvitnum, aðrar lífsskoðanir ekki. Þær skilgreiningar á trúarskoðunum sem gera allar lífsskoðanir að trúarskoðunum eru of víðtækar, alveg eins og skilgreiningin hans Arnar.

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.12.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Bjarni - 16/12/04 12:16 #

Á myndina mætti bæta við hlutmengi C (inni í B), sem væri mengi þeirra sem byggja lífskoðun sína á því sem sanna má með áþreifanlegum hætti (vísindum).

Mér þykir ástæða til að benda á að C mundi skarast við A. Það er hægt að vera bæði trúaður og temja sér gagnrýna hugsun og vísindalega aðferð.


Hafþór Örn Sigurðsson - 16/12/04 12:25 #

Sælir.

Þetta er eitt af því mest óþolandi þegar maður er að ræða trúmál við trúaða, þegar þeir koma með þessa klisju að maður sé í raun trúaður þó maður sé ekki trúaður.

En hér um árið var Siðmennt (var það ekki siðmennt annars) að sækja um að fá sig skráð sem trúfélag. Og var hafnað.

Væri ekki hægt að stinga klausu inn í reglur Siðmenntar um bleika einhyrninginn (ss, trúa að til séu bleikir einhyrningar) og þá er vandamálið leyst, og Siðmennt fær sig skráð sem trúfélag.

Æ bara svona pæling.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/12/04 12:53 #

Nei, það er ekki hægt. Fyrir nokkrum árum þá var trúfélagslögunum breytt þannig að nú þurfa trúfélög að byggja á sögulegum grunni.


Thorvaldur - 16/12/04 13:02 #

Fyrir mér er allt trú,(lásuð þið grein Jón Gnarss í morgun). Siðmennt er trúfélag fyrst það vildi fá sig skráð sem trúfélag. Smá pæling: Mér finnst það mjög böggandi þegar þið segist trúa því sem vísindin segja og neita því svo að það sé trú. Vísindatrú og gríðarleg trú á vísindalegar aðferðir finnst mér þessa síða einkennast af og ef það er ekki trú þá tel ég svokallaða trúleysingja vera djúpt sokkna í sjálfsafneitun. Allt er trú.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/12/04 13:09 #

Ef allt er trú þá er orðið trú marklaust. Hér er fín skilgreining á trú:

Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.

"Trú" á vísindin er allt annars eðlis, það er það að telja vísindalega aðferð bestu leiðina til að afla þekkingar um heiminn. Vísindin ganga út á að rannsaka hlutina vel áður en dæmt er um eðli þeirra.


Thorvaldur - 16/12/04 13:34 #

Ég er ánægður að þú vitnar í bók bókanna.


Bjarni - 16/12/04 13:58 #

Ég á ekki við, Hafþór, að maður í sniðmenginu AC "sé í raun trúaður þó hann sé ekki trúaður.", heldur það að er hægt að hafa trú innbyggða í sína lífsskoðun þó svo að flestu leyti telji maður vísindalega aðferð "bestu leiðina til að afla þekkingar um heiminn", eins og Óli Gneisti bendir á.

Dæmi: Bílskúrinn minn brennur. Þótt ég trúi á Guð segi ég ekki við fulltrúa tryggingafélagsins að þetta hafi verið Guðs vilji. Ég læt rannsaka málið og kemst þá ef til vill að því að ég gleymdi að taka lóðboltann minn úr sambandi. OK, ég reyni að sætta mig við að mér urðu á mistök.

Segjum svo að mér gangi mjög illa að sætta mig við mistök. Þá get ég, með sjálfum mér, beðið Guð minn um yfirvegun til að auðvelda mér það. Og ég get líka beðið hann að minna mig á að vera ekki stressaður, þannig að ég gleymi að gæta varkárni í meðferð rafmagnstækja. Og hann gerir það.

Vísindaleg heimssýn mín að öðru leyti, segir mér reyndar að þetta sé eitthvað ferli sem á sér stað í hausnum á mér, ég tengi guðshugmyndina við það að halda ró minni og fara varlega í bílskúrnum. Ég framkalla sem sagt ákveðið hugarástand mér til hjálpar.

En ég sé ekki að þetta þurfi að vera andstæður, trú eða vísindaleg aðferð. Þvert á móti vinnur þetta mjög vel saman.

Ætli ég líti ekki á trú frá "funksjónal" sjónarhorni, fremur en innihalds-, sbr. grein Arnar Bárðar.

B.kv.


Ásgeir - 17/12/04 02:03 #

Bók bókanna? Er það ekki Sjálfstætt fólk?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/04 15:06 #

Nei, er það ekki Das Kapital?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/12/04 15:08 #

Mér hefur alltaf þótt Birtingur eftir Voltaire í þýðingu Laxnes vera bók bókanna :-)


urta (meðlimur í Vantrú) - 17/12/04 17:01 #

Maður að nafni Dan Barker var mikill trúmaður. Svo mikill að hann var predikari sem ferðaðist um Bandaríkin og hélt miklar samkomur fyrir troðfullu húsi. Hann lét það eftir sér að fara að efast og eftir mikla pælingu viðurkenndi hann sig trúlausan. Hann hefur skrifað bók um reynslu sína af því að vera predikari og losa sig síðan undan trúnni. Í bók sinni segir hann m.a.: frá því að í hvert sinn sem hann kom akandi að nýjum samkomustað bað hann guð um að bjarga sér um bílastæði nálægt innganginum. Þegar það gerðist þakkaði hann guði. Þegar það gerðist ekki þakkaði hann einnig guði fyrir að reyna í sér þolrifin. Vegir guðs eru jú órannsakanlegir...

p.s. bók bókanna er að sjálfsögðu HEIMSLJÓS


ulfurinn - 20/12/04 12:59 #

Var ekki bók bókanna Mein Kapf?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.