„Í sínum nútímabúningi er trúleysið án efa í hópi mestu afreka mannshugans“. Þessi orð lét hinn heimsþekkti breski guðfræðingur Alister McGrath falla í bókinni The Twillight of Atheism (2005) þar sem hann rekur sögu trúleysishreyfingarinnar frá upphafi hennar í frönsku byltingunni fram á okkar dag. Orð McGraths endurspeglar þá visku að "það getur verið gaman að ræða við gáfaða heiðingja", eins og herra Sigurbjörn Einarsson biskup benti á í grein árið 1948. Ein megin ástæða þess að trúleysishreyfingin komst á flug er að mati McGraths sú að "ef Guð er ekki til, þá er mannsandanum engin takmörk sett" og "ekki þarf að virða og viðhalda guðlega ákvarðaðri félags- og stjórnmálaskipan". Með því að kippa Guði út úr samfélagsumræðunni "var allt hægt, þar á meðal stofnun nýs samfélags sem frelsað var undan oki einræðis og frönsku kirkjunnar". Trúleysishreyfingin er því nátengd sögu málfrelsis og lýðræðis í vestrænni menningu eins og berlega má sjá í Frelsinu (1859) eftir John Stuart Mill. Ástæða þess að ég er að hamra á þessum staðreyndum er sú að ég er ósáttur við þann veigamikla sess sem kristinfræðsla skipar í menntun barnanna minna.
Því er oft haldið fram að kristnin sé svo samofin menningu okkar að réttlætanlegt sér að leggja viðlíka áherslu á trúarbragðamenntun barna okkar og gert er í menntakerfinu í dag. Það er engum blöðum um það að fletta að menning okkar á sér kristnar rætur og efast ég ekki um gildi þess að fræða börnin okkar um kristna trú og tengsl hennar við önnur trúarbrögð. Spurningin snýst um hvernig staðið er að þessari kennslu, á hvaða grunni hún er byggð, og hversu miklum tíma er réttlætanlegt að eyða í hana. Að mínu viti á þetta að vera almenn trúarbragðafræðsla sem ekki má bera of mikinn keim að hagsmunum Þjóðkirkjunnar. Í þessu felst að gera þarf öllum trúarbrögðum jafn hátt undir höfði og þar með verður að draga úr vægi kristinnar fræðslu, sem þeir foreldrar er áhuga hafa geta sótt fyrir börn sín í sunnudagaskóla Þjóðkirkjunnar. Í ljósi þess sem áður segir þarf einnig að uppfræða börnin okkar um trúleysis hugtakið og hvaða þýðingu það hefur haft fyrir menninguna.
Við þessu er hins vegar varla að búast meðan trúarbragðafræðslan er leidd af Þjóðkirkjunni sem hefur innanborðs áhrifamikla einstaklinga sem telja "trúleysi ógna mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna."
Þessi orð lét biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, falla í prédikun 1. janúar 2003 og endurspegla þau sjónarmið margra trúaðra einstaklinga að trúleysi feli sjálfkrafa í sér siðleysi, sem er argasta firra. Eins og faðir herra Karls gaf í skyn árið 1948 geta trúaðir einstaklingar lært ýmislegt af hinum trúlausu og skynsemishyggjunni sem þeir aðhyllast. Með þetta að leiðarljósi verðum við að fræða börn okkar um þátt trúleysishugsjónarinnar í málfrelsi samtímans, sem gerir okkur til að mynda kleift að fræða börnin okkar um önnur trúarbrögð en kristni, og almennum lýðréttindum okkar. Á sama hátt verðum við að fræða börnin okkar um vísindin, sem eru ein af helstu stofnunum samtímans, og hugmyndafræði þeirra er grundvallast á því að engir yfirnáttúrulegir kraftar séu til staðar í náttúrunni, án þess þó að segja nokkuð af eða á um tilvist Guðs. Ég legg því til að hluta þess tíma sem eytt er í trúarbragðafræðslu í grunnskólum landsins verði varið í að fjalla um mikilvægi málfrelsis og lýðræðis, sem mun gera börnin okkar að betri þátttakendum í okkar lýðræðislega samfélagi. Ég legg einnig til að hluta þessa tíma verði varið í að kynna börnunum sögu vísindanna og þátt þeirra í menningu okkar, sem án efa mun auka áhuga þeirra á vísindum og mikilvægi þeirra fyrir framtíðina. Málfrelsi, lýðræði og vísindi eru ekki síður hornsteinar samfélagsins en kristnin og fyrst börnin okkar geta þegar í fyrsta bekk lært um Jesú , Guð og Búdda, geta þau allt eins lært um hugmyndir Holbachs, Voltaires, Mills, Darwins og Newtons.
Já, ég er sammála því að fræðsla sé mikilvæg til þess að vinna bug á fordómum í garð trúlausra. Ég hef þó athugasemd varðandi grein Steindórs.
Þegar maður flettir upp “Atheism” á vef Wikipedia er þetta efst á blaði:
Atheism is the absence of belief, or an active disbelief, in the existence of gods, thus contrasting with theism. Some people define the term more narrowly to require active disbelief, calling everything else nontheism. Although atheists often share common concerns regarding evidence and the scientific method of investigation and a large number are skeptics, there is no single ideology that all atheists share. Additionally there are atheists who are religious or spiritual, though many of these would not describe themselves as atheists.
http://en.wikipedia.org/wiki/Atheism
Ég hef ekki lesið bókina sem Steindór vitnar í (kannast þó við höfundinn) en ef Wikipediunni skjátlast ekki þá get ég ekki betur séð en McGrath hafi rangt fyrir sér þegar hann talar um trúleysi sem hreyfingu. Og ef trúleysingjar deila engri sérstakri hugsjón að þá sé engin sérstök trúleysishugsjón til að kenna börnum. Hvað finnst ykkur? Eru einhverjir hér sem hafa lesið þessa bók?
Annars vil ég þakka Steindóri fyrir mjög áhugaverða grein.
Veit einhver hvernig trúarbragðafræðslu eða trúboði í grunnskólum er hagað í löndunum í kringum okkur?
Ég get staðfest það að í löndum eins og Hollandi, Frakklandi og fleiri löndum mið-Evrópu er trúarbragðafræðsla eingöngu á fræðslunótunum þ.e. ekkert sem kallast mætti trúboð einhverjar ákveðinar trúar.
Ég held að þetta sé líka svona í Danmörku og Svíðþjóð en í Noregi eru málin svipuð og hér. Þar féll dómur gegn norska ríkinu vegna trúboðs í grunnskólum. Veit ekki hvort þeir gerðu eitthvað til að laga ástandið hjá sér vegna þess.
Kristindómur er einnig sérstakt grunnskólafag í Danmörku--kristendomskundskab, minnir mig það heiti. Verið töluverð umræða v. múslímskra innflytjenda o.s.frv. um réttmæti þess.
Já, þessi frægi guðfræðingur ætti að halda sig við það að skrifa um trú. Eins og sést í þessum bókadómi á bókinni sem Steindór vitnar í hefur hann sannarlega skrýtið viðhorf á trúleysi, enda guðfræðingur. Hann virðist halda að trúleysi sé einhver heildstæð lífssýn með sína eigin hreyfingu.
Hjalti, málflutningur þinn og Ólafs snýst um algjört auka atriði, þ.e. hvort trúleysi sé hreyfing. Aðal atriðið er að allt sem ég hef eftir McGrath varðandi mikilvægi trúleysis og tengsl þess við málfrelsi og lýðræðis er rétt. Lítið í hvaða hugmyndasögubók sem er. Ég notaðist við McGrath af taktiskum ástæðum til þess að sýna trúuðu fólki, sem einnig les Moggann og vantru.net, að jafnvel trúaðir einstaklingar eins og McGrath geta ekki litið fram hjá þessum staðreyndum. Þið eruð að skjóta ykkur í fótinn með þessum tittlingaskít.
PS Eins og ég hef sagt þér áður Hjalti hef ég ekki mikið álit á heildarniðurstöðum McGraths í bókinni
Jájá, þetta er algert aukaatriði í greininni. En eitthvað verður maður að gagnrýna ;)
Hvar er trúaða fólkið núna? Af hverju tekur það ekki afstöðu til greinarinnar? Getur það ekki viðurkennt að trúleysi skipti líka máli? Ég vil ítreka að ég er ekki atheist, heldur sveiflast ég á milli þess að vera agnostic og deist. Ræðum málin
Ef þú átt við starfsfólk Þjóðkirkjunnar er sennilegt að þar á bæ séu samantekin ráð um að tjá sig ekki á þessu vefsetri. En samt liggur þetta fólk yfir öllu því sem hér er skrifað. Þetta eru Vantrúardjönkís. :)
Eins og ég hef áður bent á er sennilegt að setja þurfi fram miklu ákveðnari kröfur en gert er í dag til að trúmenn sættist á að trúmálakennsla í grunnskólum verði hlutlaus.
Auðvitað er sjálfsagt að kenna um trúleysi og fræða börnin um helstu rök þeirra sem aðhyllast þá lífsskoðun. Sjálfur myndi ég t.d. vilja að grunnskólakrakkar myndu lesa ritgerðina Why I am not a christian eftir Bertrand Russel. Ég er samt viss um að margir trúmenn myndu brjálast ef slíkt yrði gert.
Af hverju taka fáir þátt í umræðu hér nema þeir sem eru sammála trúleysingjum hér?
Ég er löngu hættur að gera tilraun til þess að ræða málin hér á skynsamlegum nótum, vegna þess að mér finnst skort forsendur fyrir skynsamlegri umræðu um þessi mál
Ég hef það á tilfinningu þó að skörpustu trúmenn allra tíma skrifuðu á þennan vef væru þeir fljótlega teknir í bakaríið og afgreiddir með þeim hætti að þeir entust ekki lengi til að skrifa hér.
Þetta er eflaust tómt bull í mér og morgum fyllist vefurinn eflaust af bréfum frá trúuðu fólk sem flykkist hingað til að taka þátt í þeirri skynsamlegu og sanngjörnu umræðu sem hér fer fram.
Ég er löngu hættur að gera tilraun til þess að ræða málin hér á skynsamlegum nótum
Það er efni í allt aðra umræðu, en þessar tilraunir hafa farið framhjá mér Guðjón. Bendi á spjallið ef þú villt telja upp dæmi um fyrri tilraunir þínar.
Takk fyrir frábæra grein Steindór. Vissulega eru til margs konar trúleysingjar en þeir sem hafa skipt máli hafa jafnframt verið miklir rökhyggjumenn og hafa komið miklu til leiðar í vísindum, heimsspeki og stjórnmálum. Þó að trúleysi eitt og sér tákni ekkert annað en það að aðhyllast ekki trú, er sjaldnast um eitthvað siðferðislegt tómarúm hjá trúlausu fólki. Ég held reyndar að virkir trúleysingjar nútímans í vestrænni menningu hafi oft á tíðum sterkari siðferðiskennd og þroskaðri hugsun en hinn almenni borgari sem tekur ekki afstöðu til þessara mála. Ég hef ekki séð neinar rannsóknir á þessu þannig að ég gæti haft algerlega rangt fyrir mér, auk þess sem menn gætu verið ósammála um mælikvarðann. Það væri forvitnilegt að sjá hvort að guðhræddir reyni að mótmæla grein þinni. Kannski eru þeir nógu skynsamir til að gera það ekki. :-) Svanur
Takk fyrir Svanur. Ég hafði gaman af því að lesa viðbrögð þín við skrifum Huldu Guðmundsdóttur. Ef þú lest þetta þætti mér vænt um ef þú hefði samband við mig.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Bragi - 01/12/05 05:00 #
Sá þetta líka í Mogganum, fín grein.