Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trú, mennt og kristniboð

Síðastliðinn þriðjudag birtist greinin Trú, mennt og samfélag í Morgunblaðinu eftir guðfræðinemann og kirkjuþingsmanninn Huldu Guðmundsdóttur. Í greininni kvartaði hún yfir „gífuryrðum“, „rangfærslum“ – án þess að benda á nein dæmi – „einræðum“ og „niðrandi skrifum ... Siðmenntar og skoðanabræðra hennar“. Þrátt fyrir að hafa svona ákveðnar skoðanir á þessu máli virðist hún, eins og aðrir kirkjunnar menn, ekki hafa kynnt sér málflutning Siðmenntar.

Hulda virðist halda að Siðmennt sé alfarið á móti kristinfræði þegar það sést í trúfrelsisstefnu félagsins hvað Siðmennt hefur við að athuga í skólakerfinu: “Hlutdræg kristnifræðsla og stundum trúboð er stundað í opinberum skólum”.

Varaformaður Siðmenntar, Sigurður Hólm Gunnarsson, hefur aftur og aftur þurft að leiðrétta ranghugmyndir kirkjunnar manna:

“Það er hins vegar beinlínis rangt að Siðmennt vilji afnema "fræðslu" um kristni úr skólum. Siðmennt hefur einmitt hvatt til fræðslu um trúarbrögð í skólum og tekið skýrt fram að eðlilegt sé að börn séu sérstaklega frædd um trúarbrögð kristinna vegna sögulegra tengsla Íslendinga við kristni.” [feitletrun upprunaleg-Biskup fer rangt með stefnu Siðmenntar]

Ég er ekki og hef aldrei verið meðlimur í Siðmennt en þar sem ég er sammála þessu flokkast ég líklega sem „skoðanabróðir“ félagsins, ásamt líklega meirihluta Íslendinga og Þjóðkirkjunni sjálfri. Reyndar virðast atvinnutrúmenn eiga erfitt með að greina á milli fræðslu og boðunar, að minnsta kosti miðað við “fræðsluna” sem sumir prestar stunda á leikskólum.

Hulda virðist halda að foreldrar sem ákveða að taka börnin sín úr kristinfræðitímum átti sig ekki á því að þeir séu að skapa “umburðarleysi og ýta undir fordóma, í stað þess að stuðla að samlögun”. Hulda gerir sér grein fyrir að borgíska orðið samlögun hljómar, illa enda dettur manni strax trúarleg samlögun í hug. Það sem Hulda virðist hins vegar ekki gera sér grein fyrir er ástæða þess að foreldrar dragi börnin sín úr kristinfræði: “hlutdræg kristinfræði og trúboð”.

Flestir, þar á meðal ég, eru sáttir við það að frætt sé um trúarhugmyndir trúarbragða og goðsagnir þeirra, þar á meðal goðsagnir kristinna manna. En þá á líka að kenna þetta sem trúarhugmyndir og goðsagnir, ekki sem sannleika. Við viljum betri trúarbragðafræðslu en ekki afnema hana, trúarbragðakennslu sem er það góð að ekkert foreldri sér sig tilneyddan til þess að forða börnum sínum frá “samlögun”.

Í greininni fer Hulda síðan að leika sér með tölur úr nýlegri trúarlífskönnun. Könnunin bendir til þess að fólk sé almennt sátt við magn kristinfræðikennslu og vilji meiri kennslu um önnur trúarbrögð (hvað með trúleysi?). Þessar tölur eru áhugaverðar en skipta ekki máli þegar kennsluaðferðin er gagnrýnd. Það eru fáir að gagnrýna það að börn séu frædd um trúarbrögð, heldur að þau séu boðuð í skólum. Eftir þessar tilgangslausu tölur fer Hulda að tala um enn tilgangslausari tölfræði: trúarafstöðu. Hvaða máli skiptir trúarafstaða þegar kemur að trúfrelsi? Er allt í lagi að boða trú ef 51% Íslendinga játa kristna trú? 66%? 75%? 90%? Augljóslega ekki. Trúfrelsi er grundvallaratriði og þá skiptir hlutfall kristinna manna ekki neinu máli.

Lokaorð greinarinnar lýsa anda greinarinnar vel, þar sem nánast allt er rangt í þeim:

“Það fylgir þeim sem aðhyllast hófsöm gildi að gaspra ekki með gífuryrðum. Þess vegna hafa hinir fáu og háværu komist upp með einræður og niðrandi skrif á undanförnum árum, um málefni sem almenn sátt hefur ríkt um. Um leið hafa ýmsir vanvirt þá trú og menningu sem ríkið, í umboði samfélagsins, hefur staðið vörð um í aldir.”

Það er afar hófsamt að krefjast þess að það sé ekki verið að troða kristinni trú á börn í opinberum skólum. Að krefjast þess flokkast líklega ekki sem “gaspur með gífuryrðum”. Hinir fáu og háværu eru þeir sem vilja kristna börn í skólum og það er örugglega ekki almenn sátt um það. Einu einræðurnar sem ég veit af eiga sér stað í kirkjum landsins á sunnudögum og samfélagið er ekki sátt voð að ríkið “standi vörð um” kristna trú, enda vill meirihluti Íslendinga aðskilja ríki og kirkju.


Sjá einnig: Kristinfræði?, Trúboð í skólum, Innræting þagnarinnar

Hjalti Rúnar Ómarsson 18.11.2005
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Hulda Guðmundsd. - 18/11/05 10:58 #

Hjalti bendir réttilega á að í grein minni þann 15. nóv. sl. birti ég ekki dæmi úr þeim greinum sem ég vitnaði í, enda taldi ég þar vera á ferðinni skrif hinna fáu og háværu sem tæpast væru hafandi eftir, sér í lagi þar sem viðkomandi kenna sig við vísindi, sið og mennt.

Er það t.d. dæmi um hófsemi og umburðarlyndi af hálfu þeirra sem boða trúleysi að tala um „ofsatrúaða kennara“, „umburðarlaust trúboð“, „gamlar draugasögur“ og „samsull ranghugmynda og aldagamallar mannvonsku“ og telja sig „eiga heimtingu“ á þessu og hinu? Er rétt að fullyrða að „kirkjunnar menn“ séu að troða sér inn í skólana og er það dæmi um sanngirni að segja „yfirvöld menntamála dansa með í umburðarlausu trúboði?“

Framangreindar tilvitnanir eru í umræddar greinar þann 3. og 7. nóv. sl. og eru í besta falli gaspur með gífuryrðum, en þó miklu fremur dæmi um ofsóknir og umburðarleysi.

Það er eðlilegt að ræða um framkvæmd samfélags- og trúarbragðafræðslu í skólum, en það þarf að gera það af sanngirni og sáttfýsi og milli réttra aðila, en ekki með einræðum í formi niðrandi blaðaskrifa. Hulda Guðmundsdóttir


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 18/11/05 12:07 #

Ha? Hví ekki? Hver ert þú að segja að séu 'réttu' aðilarnir til þess að ræða mál. Hvernig ræðir fólk við af sáttfýsi? Eiga þeir ekki að stunda heiðarlega og aftráttarlausar rökræður eða bara guðfræðilegar samræður þar sem allir eru sammála eða þá hunsa rök? Á fólk bara að vera þurrlufsur sem samþykkja rakalaust vitleysum hægri og vinstri.

Ég held að þú sér að nota móðgunargirni sem vörn fyrir rakalausa afstöðu. Hinipir í einstaka orðalag eins og þú getir ekki séð aðalatriðin en eltist í stað við tittlingarskít. Kristin siður er ekkert annað en gömul heimska ættað úr miðausturlöndum, og því harla íslenskt, komið frá fáfróðum hyrðingjaættbálkum. Þessar staðhæfingar og aðrar afdráttarlausar staðhæfingar eru bara of sannar að tíl þess að orða þær öðruvísi. Maður getur ekki talað um mál eins og köttur í kringum heitan grautin, maður segir það sem maður meinar. Það að heimska er meir en 2000 ára gömul gerir hana ekkert vitrænni. Og réttlætir ekki að það sé verið að innræta börn til þess að trúa á ímyndað yfirvald í líki síðhærðs hvíts hippa í hvítum náttslopp (s.s ésú).


G2 (meðlimur í Vantrú) - 18/11/05 13:08 #

Ef meint upprisa Krists er ekki gömul draugasaga þá er mér illa brugðið - það er alltént íslensk málvenja að kalla þá drauga, sem ekki liggja kyrrir eftir að þeir eru allir.

Sanngirnin og sáttfýsin sem Hulda nefnir sem nauðsynlegan þátt í kristinfræði- og trúarbragðakennslu hefur ekki verið fyrir hendi vegna einræðistilburða kirkju og menntamálayfirvalda. Og hverjir eru "réttir aðilar"? Ég sem foreldri grunnskólabarna hef fullan rétt á að skipta mér af og gagnrýna það sem þeim er kennt ef mér býður svo við að horfa. Það er síðan enginn að boða trúleysi - trú er boðuð; trúleysi er ekki einu sinni rætt í grunnskólanum.

Þessi setning er með ólíkindum:

"Framangreindar tilvitnanir eru í umræddar greinar þann 3. og 7. nóv. sl. og eru í besta falli gaspur með gífuryrðum, en þó miklu fremur dæmi um ofsóknir og umburðarleysi."

Ofsóknir? Umburðarleysi!?! Er eitthvað ekki í lagi hjá þér Hulda mín? Hvern er verið að ofsækja með rökstuddri gagnrýni á núverandi ástand? Eru það ofsóknir og umburðarleysi að vilja hlutlausa fræðslu um trúarbrögð? Er það umburðarleysi að benda á þversagnir kristindómsins? Hulda, búðu þig undir frekari "ofsóknir" trúlausra á hindurvitni kirkju þinnar. Enginn óbrjálaður maður getur annað en gagnrýnt það leikhús fáránleikans sem ríkisrekin kristni er.

Og já það er sanngjarnt að segja:

"....... og er það dæmi um sanngirni að segja „yfirvöld menntamála dansa með í umburðarlausu trúboði?“"

Hér er er ástæðan, beint úr aðalnámskrá (útg. Menntamálaráðuneytið):

"Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists."

Svo er fólk að gera gys að Ameríkönum fyrir að kenna "intelligent design" í sínum skólum! Myrkur miðalda er etv. kirkjunni þóknanlegt, en það er kominn tími til að kveikja rafmagnsljós 21. aldar til að stökkva því á burt.


Árni Árnason - 18/11/05 13:49 #

Hulda Guðmundsdóttir er svo örlát að birta tilvitnaðar setningar sem hún kallar " gaspur og gífuryrði". Skoðum aðeins þessar tilvitnanir hennar: „ofsatrúaða kennara“ Vissulega eru dæmi um ofsatrúaða kennara sem misnota skólana til trúboðs, þeir eru e.t.v ekki margir, en einn er einum of mikið.

„umburðarlaust trúboð“ Boðun sem einskorðast við ein trúarbrögð, og gerir jafnvel lítið úr öðrum.

„gamlar draugasögur“ Sögur um látið fólk sem fæst ekki til að liggja kyrrt í gröfum sínum.

„samsull ranghugmynda og aldagamallar mannvonsku“ Öll kristni byggir að okkar mati á ranghugmyndum ( heilu bækurnar eru til sem rökstyðja það) og saga kirkjunnar lýsir ótrúlegri mannvonsku ( sjá greinar Frelsarans "Heilagur hryllingur" hér á vefnum. „eiga heimtingu“ Það er rétt, við eigum heimtingu á jafnrétti trúarbragða, og trúleysis.

„kirkjunnar menn“ séu að troða sér inn í skólana ..." Ég varð sjálfur vitni að því þegar sóknarpresturinn kom í tíma í skólanum og sagði: " jæja krakkar nú eigið þið að fermast í vor"

" Yfirvöld menntamála dansa með í umburðarlausu trúboði?“

Það er staðreynd að námsskrár og framkvæmd þeirra ( á vegum menntamálayfirvalda ) leggja kirkjunni lið í því sem við köllum óþolandi trúboð í skólum.

Ég sé hvorki gaspur né gífuryrði. Hér er bara talað tæpitungulaust um staðreyndir. Hverskonar viðkvæmi er þetta eiginlega ?

Þið getið sjálf átt ykkar tæpitungu, þú og biskoppurinn sem getur aldrei sagt já eða nei, heldur bara humm og hu, af hræðslu við að styggja einhvern skattþegn sinn.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/05 19:00 #

Ég vil hrósa Huldu fyrir það að koma hingað og taka þátt í umræðunum, þó svo að frammistaðan sé ekki beint glæsileg.

Fyrst að þú ert komin, þá gætirðu kannski sagt okkur, eftir að hafa lesið yfir það sem Siðmennt skrifar á heimasíðunni sinni, að hvaða leyti þú ert ósammála Siðmennt í þessum málum?

Árni og Guðmundur eru búnir að fara yfir flest dæmin sem þú vísar í (þú bentir samt ekki á neina rangfærslu) en ég ætla að fara yfir tvö dæmi:

Er það t.d. dæmi um hófsemi og umburðarlyndi ...að...telja sig „eiga heimtingu“ á þessu og hinu?
Kíkjum á hvað Jóhann segir:
Við sem eigum börn í skólunum eigum heimtingu á að fá skýr svör við því hvernig þessum málum verður háttað í skólum landsins og hvort enn eitt árið ætli yfirvöld menntamála að dansa með í umburðarlausu trúboði eða umbera og virða fjölbreytt mannlíf í skólunum.
Það hljóta allir að sjá að "eiga heimtingu" er ekki dæmi um óhófsemi og umburðarleysi. Hann er bara að benda á að foreldrar eigi rétt á því að vita hvort yfirvöld ætli að sætta sig við það óréttlæti að trú sé troðið á börnin þeirra í opinberum skólum.
Er það t.d. dæmi um hófsemi og umburðarlyndi af hálfu þeirra sem boða trúleysi að tala um „ofsatrúaða kennara“,...
Þarna ertu að vitna í grein Jóhanns, þar stendur:
Ætlum við að láta ofsatrúaða kennara skikka börnin okkar til þess að fara með bænir án þess að hafa til þess nokkurt leyfi forráðamanna?
Hvað er að þessari spurningu? Það eru til ofsatrúaðir kennarar, finnst þér það ásættanlegt að þeir séu að láta börn taka þátt í trúarathöfnum?

Ég veit ekki hvað það kallast að mega ekki nefna tilvist ofsatrúaðra kennara, án þess að það sé kallað gaspur, gífuryrði og ég veit ekki hvað. Þetta er hálfsjúkleg viðkvæmni, sérstaklega þar sem þú vogar þér að líkja þessu við ofsóknir og ert þar með að gera lítið úr fólki sem er raunverulega ofsótt. Eru stjórnmálamenn umburðarlausir og eru þeir að ofsækja aðra þegar þeir skrifa blaðagreinir? Eru greinaskrif í blöð einræður?


Asta Norrman - 19/11/05 16:03 #

Mig langar til að spyrja Huldu hvernig henni finnst ég eigi að bregðast við þegar 7 ára gömul dóttir mín kemur heim og segir mér að guð hafi búið sig til og ekki nóg með það heldur allan heiminn líka. Hún segir að kennarinn hafi sagt þetta og þess vegna hljóti þetta að vera satt. Á ég að segja að kennarinn hljóti að hafa misskilið bókina og grafa þannig undan hennar trúverðugleika í öðrum efnum líka? Eða á ég að láta þetta eiga sig og sætta mig við að ég get ekki ráðið hvaða trúar- eða trúleysis uppeldi barnið mitt hlýtur.


Hulda Guðmundsd. - 20/11/05 21:52 #

Sæl Ásta. Þú beinir til mín þeirri stóru spurningu hvernig þú eigir að bregðast við því sem dóttir þín hefur eftir kennaranum. Þér er ekki sama um hvað henni er kennt og vilt ráða "hvaða trúar- eða trúleysis uppeldi" barnið þitt hlýtur. Um leið vilt þú ekki gera lítið úr því sem kennarinn hefur sagt.

Mig langar að spyrja þig fyrst: Hvað vilt þú kenna dóttur þinni? Hvaða áhrif vilt þú hafa á afstöðu hennar til trúarbragða? Ekki gera lítið úr því að þú sem móðir berð gríðarlega mikla ábyrgð á því hvaða stefnu hún tekur, sérstaklega ef þú ert ein með forræðið. Þetta á auðvitað ekki bara við um trúmál, heldur snýst þetta um öll þau áhrif sem þú vilt hafa á hana sem uppalandi. Ef þið eruð tvö/tvær eða fleiri sem berið ábyrgð á uppeldi hennar þá þurfið þið að vera sammála um hvernig þið ætlið að ræða við hana um trúmál, vegna þess að þið vitið að í skólanum er henni kennt um megininntak þeirrar samfélagsgerðar sem hún býr í. Þannig segir í áfangamarkmiði aðalnámskrár fyrir 1.-4. bekk um Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði:
"Nemandi á að: a)kunna skil á Biblíunni sem trúarbók kristinna manna og þekkja vel nokkrar mikilvægar frásagnir af Jesú Kristi og kenningu hans, svo og öðrum persónum í Biblíunni, bæði í Gamla og Nýja testamentinu b)hafa haft kynni af kristnu helgihaldi og umgjörð þess og tamið sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt c)þekkja helstu hátíðir kristninnar og siði og tákn sem tengjast þeim d)þekkja kirkjuhúsið, helstu tákn, kirkjulegar athafnir og starf kirkjunnar í heimabyggð e)hafa kynnst listrænni tjáningu trúar og fengið tækifæri til listrænnar tjáningar eigin hugmynda f)þekkja grundvallargildi kristilegs siðgæðis og hafa fengist við efni sem stuðlar að ábyrgðartilfinningu, sáttfýsi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum g)hafa kynnst öðrum trúarbrögðum, lífsviðhorfum og menningu, m.a. með frásögnum af jafnöldrum"

Þetta eru sem sagt þau markmið sem kennarar eiga að fara eftir fyrstu fjögur námsárin í grunnskólanum. Nú sýnist mér að þú teljir að kennarinn hafi farið útfyrir það sem þú/þið vilt/viljið kenna dótturinni á þessu sviði. Ef svo er þá þarft þú/þið að ræða við kennarann og koma þínum sjónarmiðum á framfæri. Aðalnámskráin er, eins og ég sagði í grein minni, nokkurs konar menntasáttmáli sem við sem samfélag höfum orðið ásátt um. Í því felst m.a. að kennt er á þeim forsendum að samfélag okkar er "kristið". Það merkir t.d. að námsárið er mjög litað af kristnum hátíðum og kristinn siður setur mark sitt á allt, líka fjölmiðlana. Þannig er nú framundan tímabil sem tengist þeirri kenningu að Jesús Kristur hafi komið í heiminn og að það sé tilefni þeirra hátíðarhalda sem við köllum jól.

Allt samfélagið er litað af þessari menningu. Það er t.d. þegar búið að jólaskreyta í verslunum og jólasveinar hafa sést um bæinn. Margt af þessu ert þú e.t.v. mjög ósátt við og vilt kannski ekki að dóttir þín trúi á guð, Jesú Krist eða á jólasveininn. Hvernig eiga foreldrar að bregðast við öllu þessu samfélagslega 'áreiti'?

Allt þetta snýst um það hvernig við lítum á aðlögun, eða samlögun okkar að þeirri menningu sem við lifum í. Hvað felst í því að vera Íslendingur? Hvað felst í því að tilheyra þjóð? Hvernig finnum við okkur 'heima' í umhverfi okkar? Hvernig fara ólíkir hópar/einstaklingar að því að lifa saman í sátt og samlyndi? Finnum við fyrir samkennd með náunga okkar...eða erum við full af ókennd, þannig að okkur líði aldrei eins og að við séum hluti af heild? Hvað gerum við ef við erum full af ókennd, en ekki samkennd? Hvað gerum við t.d. um jólin ef við finnum okkur ekki 'heima' í þessu samfélagi?

Mín skoðun er sú, eins og ég sagði í grein minni, að vel fram sett samfélags- og trúarbragðafræðsla í skólum sé mikilvægur þáttur í forvörnum gegn fordómum og stuðli að samfélagskennd. Ég trúi því að 'samfélagskennd' sé eitt mikilvægasta veganesti til velferðar sem við getum gefið börnunum okkar. Í því felst að við sem foreldrar í samstarfi við skólana kennum börnunum okkar að virða það samfélag sem við búum í. Ef við erum hins vegar ósammála þeim menningarstraumum sem eru áhrifamestir þá verðum við að ræða um það við börnin okkar, eftir því þroskastigi sem þau eru á. Um leið verðum við að gera okkur grein fyrir því að við erum MEÐVITAÐ að hafa áhrif á afstöðu þeirra til samfélagsins sem þau búa í. Þú getur sagt við dóttur þína að kennarinn sé núna að kenna um kristna trú, alveg eins og þú útskýrir hvers vegna þú haldir jól (ef þú heldur jól). Um leið getur þú sagt henni að hún eigi eftir að læra um önnur trúarbrögð þar sem ekki er talað um að guð hafi skapað heiminn, eða að fæðing Jesú hafi haft einhverja sérstaka þýðingu. Í sumum bekkjum er ekkert barn með annan menningarbakgrunn en kristinn. Í öðrum bekkjum er þetta blandað og þá misjafnlega mikið. Kannski er dóttir þín í einsleitum bekk og þá þarft þú að hafa meira fyrir því að kenna henni að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Ef bekkurinn hennar er hins vegar ríkur af fjölbreytni, þá er auðveldara fyrir hana að skilja margbreytileika samfélagsins og mismunandi lífsskoðanir. Ef þú vilt kenna henni að öll trúarbrögð séu hindurvitni, þá þarftu SAMT að leyfa henni að taka eigin afstöðu, eftir því sem þroska hennar fleygir fram, alveg eins og þú þarft að kenna henni að bera virðingu fyrir því að fjölskyldur eru mismunandi saman settar, þannig að samkynhneigðar fjölskyldur eru t.d. alveg jafn sjálfsagður hluti tilverunnar og fjölskyldur þar sem bæði mamman og pabbinn eru til staðar.

Ég tel umfram allt, að það sé grundvallarskylda okkar sem foreldra að kenna börnunum okkar að ást og virðing fyrir hvert öðru, alveg sama hvernig við erum, sé það sem okkur beri fyrst og fremst að lifa eftir. Á sama tíma og við reynum sjálf að lifa saman í sem mestri sátt við hvert annað. Munum að við erum ALLTAF fyrirmyndir barnanna sem við berum ábyrgð á, bæði sem einstaklingar og fjölskyldur og sem samfélag.

Svo óska ég þér góðs gengis Ásta með uppeldið og ræddu endilega við kennarann fyrst þú ert ósátt við framsetningu kennslunnar, því það er sá "rétti" aðili sem við ræðum við í sambandi við aðkomu skólans að uppeldi barnanna okkar.

Þetta er orðinn langur pistill hjá mér, en ég lít svo á að með honum hafi ég líka reynt að svara því sem að mér er beint af öðrum sem séð hafa ástæðu til að ræða um grein mína í Morgunblaðinu þann 15. nóvember sl., hér á þessum vettvangi. Þetta er mín leið að samtali við ykkur, þó vissulega séu svona skrif meiri einræður en "alvöru" samtöl.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 20/11/05 22:25 #

Þetta er orðinn langur pistill hjá mér, en ég lít svo á að með honum hafi ég líka reynt að svara því sem að mér er beint af öðrum sem séð hafa ástæðu til að ræða um grein mína í Morgunblaðinu þann 15. nóvember sl., hér á þessum vettvangi. Þetta er mín leið að samtali við ykkur, þó vissulega séu svona skrif meiri einræður en "alvöru" samtöl.
Það er frábært hjá þér að notfæra þér athugasemdakerfið. En þú svaraðir alls ekki öllu. Td vantar:

  1. að benda á rangfærslur í greinunum sem þú kvartaðir yfir.
  2. að benda á að hvaða leyti þú ert ósammála "Siðmennt og skoðanabræðrum hennar“.

En mér finnst það afar fyndið að kalla námsskrá öfgatrúmannsins Björns Bjarna, námsskrá sem talar um upprisu Jesú sem sögulegan atburð, menntasáttmála samfélagsins. Er fólk sátt við trúboð í skólum?

Það merkir t.d. að námsárið er mjög litað af kristnum hátíðum og kristinn siður setur mark sitt á allt, líka fjölmiðlana. Þannig er nú framundan tímabil sem tengist þeirri kenningu að Jesús Kristur hafi komið í heiminn og að það sé tilefni þeirra hátíðarhalda sem við köllum jól.

Allt samfélagið er litað af þessari menningu. Það er t.d. þegar búið að jólaskreyta í verslunum og jólasveinar hafa sést um bæinn.

Mér finnst það afar fyndið að eina dæmið sem þú tekur um "kristni" samfélagsins hefur ekkert með kristni að gera.


Hulda Guðmundsd. - 21/11/05 11:30 #

Sæll Hjalti

Þú reynir að benda á "fyndin" atriði í pistli mínum. Það er þín aðferð til að líta framhjá aðalatriðum máls míns, svo þá dreg ég þau aftur fram: Ég tel umfram allt, að það sé grundvallarskylda okkar sem foreldra að kenna börnunum okkar að ást og virðing fyrir hvert öðru, alveg sama hvernig við erum, sé það sem okkur beri fyrst og fremst að lifa eftir. Á sama tíma og við reynum sjálf að lifa saman í sem mestri sátt við hvert annað. Munum að við erum ALLTAF fyrirmyndir barnanna sem við berum ábyrgð á, bæði sem einstaklingar og fjölskyldur og sem samfélag.

Við sem skrifum á þennan miðil erum líka fyrirmyndir þeirra sem lesa. Hér sést hvernig við veljum að 'tala' við hvert annað. Gerum við það á uppbyggilegum nótum, eða erum við sífellt að níða skóinn af meðbræðrum okkar? Þegar ég tala um "rangfærslur" í þeim skrifum sem birst hafa, þá merkir það að ég er "ósammála" því að þeir sem vilja kenna sig við "sanngirni og að útrýma umburðarleysi og ofsóknum" geri það með niðurrífandi hætti í einræðuskrifum. Þess í stað ættu þeir sem telja á sig hallað að ræða beint við þá skólastjórnendur og kennara sem þeim þykir að hafi farið útfyrir mörk námsskrárinnar, eins og ég benti Ástu á að gera.

Að níða niður það sem vel er gert og breið samstaða er um, sbr. pistil þinn um "Verndum bernskuna" hér á vefnum og "Vinaleið" þar með, er t.d. ósanngjarnt gagnvart uppbyggjandi samvinnuverkefni margra aðila(ekki bara af hálfu kirkjunnar) og rangfærsla staðreynda þar sem hér er ekki verið að fást við trúboð, heldur að sýna kærleika í verki.

Svo þykir mér það ósmekklegt af þér að slengja því fram um Björn Bjarnason að hann sé "öfgatrúarmaður". Orðfæri af þessu tagi er hins vegar dæmigert fyrir þann stíl sem þið hér á vantru.is sláið um ykkur með. Að sjálfsögðu ber Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra svo ekki ábyrgð á aðalnámsskrá. Hún er á ábyrgð menntamálaráðuneytisins, unnin af fjölmörgu fagfólki og er t.d. í endurskoðunarferli eins og er.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 11:45 #

Þegar ég tala um "rangfærslur" í þeim skrifum sem birst hafa, þá merkir það að ég er "ósammála" því að þeir sem vilja kenna sig við "sanngirni og að útrýma umburðarleysi og ofsóknum" geri það með niðurrífandi hætti í einræðuskrifum. Þess í stað ættu þeir sem telja á sig hallað að ræða beint við þá skólastjórnendur og kennara sem þeim þykir að hafi farið útfyrir mörk námsskrárinnar, eins og ég benti Ástu á að gera.

Þannig að þegar Hulda talar um rangfærslur á hún við eitthvað allt annað.

Maður gæti haldið að hún væri að stúdera við guðfræðideild :-)


G2 (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 12:01 #

Hulda,

Björn Bjarna var menntamálaráðherra þegar núverandi aðalnámsskrá var gefin út árið 1997.

Þessi frasi:

"Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists."

er því þar inni á hans ábyrgð. Engum nema bókstafstrúarmönnum dettur í hug að bera annað eins á borð fyrir alþjóð.


Hulda Guðmundsd. - 21/11/05 14:22 #

Sæll Guðmundur, ég tel víst að G2 (g-íöðru) sé vísindalegt dulnefni þitt. Mér finnst að "alþjóð" sé betur upp lýst ef við drögum fram að aðalnámsskrá byggir á lögum um hlutverk grunnskóla nr. 49 frá 27. mars 1991.

Í 2. gr. segir um: "hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.

  1. gr. Menntamálaráðuneytið setur grunnskólum aðalnámsskrá. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr.

Við setningu aðalnámsskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms, sbr. 2. gr. Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar. Í öllu skólastarfi skal tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasviðum nemenda. 49. gr. Í aðalnámsskrá skal setja meginmarkmið og ákvæði um megininntak og skipulag náms og kennslu á þessum sviðum: g. Mannlegt samfélag, samfélagshættir, umheimur og umhverfi nær og fjær í fortíð og nútíð, einkum með hliðsjón af Íslandi. h. Kristin trú og siður, önnur trúarbrögð og almenn lífsgildi."

Í inngangi aðalnámsskrár sjá vefinn: http://www.ismennt.is/vefir/namskra/g/tru/tru.rtf er úr Aðalnámskrá Grunnskóla -KRISTIN FRÆÐI, SIÐFRÆÐI OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐI 1999 segir svo: "Námi í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum er ætlað að stuðla að menntun og þroska nemenda og efla skilning þeirra á íslensku samfélagi og menningu í fortíð og nútíð.

Þeir þroskaþættir, sem greininni er einkum ætlað að efla, eru trúar-, siðgæðis- og félagsþroski þannig að nemendur verði sífellt hæfari til að taka ábyrga afstöðu í trúarlegum, siðferðilegum og félagslegum efnum. Með trúarþroska er hér átt við hæfni til að fást við trúarleg viðfangsefni á grundvelli þekkingar og skilnings.

Þá er náminu ætlað að hafa mótandi áhrif á skólastarfið, sem á að einkennast af lýðræðislegu samstarfi, kristilegu siðgæði og umburðarlyndi, og efla þannig virðingu og skilning í samskiptum einstaklinga og þjóða með ólík lífsviðhorf.

Kristin trú hefur verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi í þúsund ár og er enn enda eru meira en 95% þjóðarinnar skráð í kristin trúfélög. Saga og menning þjóðarinnar verður vart skilin án þekkingar á kristinni trú og siðgæði og sögu kristinnar kirkju. Sama gildir um vestræna sögu og menningu. Bókmenntir og aðrar listir sækja vísanir og minni í texta Biblíunnar og daglegt íslenskt mál er ríkt af orðatiltækjum og líkingum sem sóttar eru þangað.

Önnur og ólík samfélög verða heldur ekki skilin án þekkingar á ríkjandi trúarbrögðum og siðferðilegum gildum. Námi í almennum trúarbragðafræðum er ætlað að miðla þeirri þekkingu og auka þannig skilning á ólíkum menningar- og trúarhefðum. Traust þekking á eigin rótum og skilningur á ólíkum lífsviðhorfum stuðlar að umburðarlyndi og víðsýni.

Mikilvægur þáttur í þroskaferli hvers einstaklings er mótun heilbrigðrar sjálfsmyndar. Hún felur meðal annars í sér heildstætt lífsviðhorf og skilning á sjálfum sér sem einstaklingi og sem hluta af stærri heild. Skólinn þarf því að gefa nemendum tækifæri til að fást við viðfangsefni sem tengjast leit þeirra að svörum við spurningum um merkingu lífsins og siðræn gildi og miðla þekkingu þar að lútandi. Umræða um þessi efni þroskar dómgreind nemendanna og eykur þeim víðsýni. Hvatning til að taka afstöðu á forsendum þekkingar og skilnings stuðlar að sjálfræði að því er varðar lífsviðhorf og gildismat.

Uppeldishlutverk grunnskólans hefur aukist jafnt og þétt þótt meginábyrgð uppeldismótunarinnar sé foreldranna. Góð samvinna skóla og heimilis skiptir því sköpum. Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi. Skólinn þarf því að temja nemendum að spyrja um skyldur sínar, réttindi og ábyrgð í samskiptum sínum við einstaklinga, samfélagið og umhverfi sitt."

Á sama vef segir um nám og kennslu í KRISTIN FRÆÐI, SIÐFRÆÐI OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐI: "Nám og kennsla Inntak námsgreinarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi fræðsla um kristna trú og menningu og sögu kirkjunnar. Í öðru lagi siðferðileg viðfangsefni. Í þriðja lagi fræðsla um helstu trúarbrögð heims." HÉR NÆST ER KLAUSAN SEM ÞÚ KALLAR "FRASA" GUÐMUNDUR: "Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists." FRAMHALDIÐ ER SVONA - SAMHENGIÐ SKIPTIR MÁLI: "Framhald þeirrar sögu er svo saga kristinnar kirkju allt til okkar daga. Í námskránni er leitast við að láta þessa sögulegu framvindu og tengsl hennar við nútímann verða ljós, svo og margvísleg trúarleg og menningarleg áhrif hennar. Mikilvægur hluti þessarar sögu er einnig saga einstaklinga og hreyfinga sem markað hafa spor í þágu trúar, mennta og mannúðar.

Í námskránni er lögð áhersla á þau atriði sem eru sameiginleg kristnum mönnum og teljast vera grundvöllur kristinnar trúar. Eigi að síður er eðlilegt, miðað við íslenska sögu og samtíð, að taka mið af evangelísk-lútherskri trúarhefð. Jafnframt er mikilvægt að gerð sé grein fyrir helstu sérkennum annarra kristinna kirkjudeilda.

Biblían er trúarbók kristinna manna og gyðinga (að hluta) og íslam á sér einnig rætur í Gamla testamentinu. Hún hefur því haft víðtæk áhrif á trú, siðgæði og menningu í heiminum. Má í því sambandi minna á áhrif hennar á bókmenntir, myndlist og tónlist auk áhrifa hennar á íslenska tungu. Því er í námskránni stefnt að því að nemendur þekki efni Biblíunnar, geri sér grein fyrir trúarlegu og menningarlegu mikilvægi hennar og kynnist jafnframt sögu hennar sem ritsafns.

Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.

Trúarbragðafræðsla er umfangsmikið viðfangsefni. Eðlilegt er að beina sjónum nemenda fyrst og fremst að útbreiddustu trúarbrögðum heims, svo sem búddadómi, hindúasið, íslam og gyðingdómi. Í tengslum við landafræði og sögu er mikilvægt að skoða átrúnað í þeim samfélögum sem fjallað er um hverju sinni. Í yngstu bekkjum grunnskólans er stefnt að því að nemendur kynnist framandi trúarbrögðum með frásögnum af jafnöldrum og hvernig trú þeirra hefur áhrif á daglegt líf. Í efstu bekkjum grunnskóla er síðan farið kerfisbundið í helstu trúarbrögð heims.

Með vaxandi fjölda nýbúabarna frá ólíkum menningarsvæðum þarf skólinn að huga að því, í samvinnu við heimili þeirra, hvernig koma má til móts við óskir um að þau fái fræðslu um eigin trú og menningu. Þá er æskilegt að nýta þá möguleika sem blandaður nemendahópur gefur til að kynna nemendum ólíka trú og siði og stuðla þannig að auknum skilningi, virðingu og umburðarlyndi.

Miklar breytingar hafa orðið á kennslu þessara fræða í skyldunámsskólum á þessari öld. Framan af voru eingöngu kennd kristin fræði og var fræðslan skilgreind í lögum sem skírnarfræðsla kirkjunnar. Síðustu áratugi hefur greinin alfarið verið á ábyrgð skólayfirvalda og skilgreind af þeim.

Inntak greinarinnar hefur einnig breyst, svo og framsetning efnisins. Hlutur siðfræðinnar og trúarbragðafræðanna hefur aukist að mun á síðustu áratugum.

Í þessari námskrá eru biblíusögur veigamikill þáttur og gert ráð fyrir að leitað sé eftir trúarlegri merkingu þeirra, menningaráhrifum og tengslum við daglegt líf. Þá er ætlast til að nemendur öðlist þekkingu og skilning á trúarlegum hugtökum. Sama á við um fræðslu um önnur trúarbrögð.

Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum. Liður í því er að nemendur séu hvattir til að setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá, með augum hins trúaða.

Enda þótt gert sé ráð fyrir að fengist sé við siðræn viðfangsefni á skipulegan hátt er enn mikilvægara að kennari sé vakandi fyrir því að taka siðferðileg álitamál til umræðu þegar tilefni gefst, hvort heldur er innan skólans (bekkjarins) eða í samfélaginu almennt.

Öll kennsla, sem fæst við álitamál svo sem trú og lífsskoðanir, siðgæði og mannleg samskipti, gerir miklar kröfur til kennarans. Hún þarf að vera málefnaleg og einkennast af víðsýni og vilja til að skilja og virða fólk með mismunandi trúar- og lífsskoðanir.

Kristin fræði, siðfræði og fræðsla um önnur trúarbrögð gefur kennara tækifæri til að beita fjölbreytilegum kennsluaðferðum. - Í öndverðu var kristinni trú miðlað með frásögnum af lífi og starfi Jesú Krists. Frásagan (hin munnlega frásögn) ætti því að skipa veglegan sess í þessari fræðslu. Vert er að gefa því gaum að frásagnarhefðin skipar mismunandi sess í ólíkum trúarbrögðum. - Þekkingu og skilningi á trú og siðgæði verður ekki miðlað öðruvísi en með virkri glímu nemenda við viðfangsefnin og umræðu um þau. Markmiðið er að nemendur verði færir um að taka sjálfstæða og ábyrga afstöðu á grundvelli þekkingar og skilnings. - Vettvangsferðir í kirkjur og aðra helgidóma, á söfn, sögustaði, tónleika o.fl. eru til þess fallnar að tengja sögu og samtíð með lifandi hætti og hjálpa nemendum að kynnast margvíslegri trúarlegri túlkun og tilbeiðsluháttum. - Skapandi vinnubrögð eru mikilvægur þáttur í náminu. Með þeim fá nemendur tækifæri til að túlka þekkingu sína og tjá reynslu sína og tilfinningar á listrænan hátt. - Nútímaupplýsinga- og margmiðlunartækni opnar möguleika á fjölþættri öflun þekkingar. Skólasöfn eru kjörinn vettvangur til sjálfstæðrar þekkingaröflunar á þessum sviðum sem öðrum. - Gagnrýnin hugsun er mikilvægur eiginleiki þegar fengist er við efni sem tengist trú, lífsskoðun og siðferði. Þjálfun í agaðri, málefnalegri umræðu um álitamál er öðru líklegri til að þroska með nemendum gagnrýna hugsun og efla dómgreind þeirra.

Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði tengjast fjölmörgum öðrum greinum með margvíslegum hætti á öllum skólastigum. Mikilvægt er að kennarar nýti þá möguleika til samþættingar sem bjóðast enda auðgar það og styrkir ekki aðeins þetta nám heldur einnig nám í öðrum greinum. Við skipulag kennslu ættu kennarar að huga sameiginlega að þessum möguleikum og hafa samvinnu um þá.

Af þeim námsgreinum, sem nærtækastar eru, má t.d. nefna sögu enda er saga kirkju og kristni samofin stjórnmála- og menningarsögu. Þá má nefna móðurmál með margvíslegum vísunum í biblíuleg minni í bókmenntum og áhrifum Biblíunnar á daglegt mál um aldir. Listgreinar, einkum tónlist, myndlist og byggingarlist, eru ríkar af trúarlegri tjáningu að fornu og nýju. Þá eru tengsl við nýja námsgrein, lífsleikni, ótvíræð þar sem báðum greinunum er ætlað að stuðla að persónuþroska og styrkja sjálfsmynd og siðferðilega dómgreind nemenda. Sama gildir um heimspeki þar sem hún er kennd. Að lokum má nefna náttúrufræði, landafræði og umhverfisvernd enda fást þessar greinar í ríkum mæli við manninn og tengsl hans við umhverfi sitt.

Þessi upptalning er síður en svo tæmandi en gefur hugmynd um margvíslega möguleika til tengsla sem auka fjölbreytni kennsluhátta og stuðla að heildstæðri sýn á lífið og tilveruna."


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/05 14:22 #

Þú reynir að benda á "fyndin" atriði í pistli mínum. Það er þín aðferð til að líta framhjá aðalatriðum máls míns, svo þá dreg ég þau aftur fram: Ég tel umfram allt, að það sé grundvallarskylda okkar sem foreldra að kenna börnunum okkar að ást og virðing fyrir hvert öðru, alveg sama hvernig við erum, sé það sem okkur beri fyrst og fremst að lifa eftir. Á sama tíma og við reynum sjálf að lifa saman í sem mestri sátt við hvert annað. Munum að við erum ALLTAF fyrirmyndir barnanna sem við berum ábyrgð á, bæði sem einstaklingar og fjölskyldur og sem samfélag.
Nei, ég sagði bara að það væri fyndið að eina dæmið sem þú tekur um "kristni" samfélagsins hefur ekkert með kristni að gera og leit ekki fram hjá neinu mikilvægu í innlegginu þínu. Þessi samantekt þín á aðalatriðunum sýnir vel að þetta eru bara skemmtilegir frasar sem allir eru í raun sammála um.

Þú ert búin að svara fyrri punktinum, það voru engar rangfærslur í greinunum, þú ert bara ósammála einhverju og notar ranglega orðið rangfærslur um það. En enn áttu eftir að svara þessu:

  1. Að hvaða leyti ert þú ósammála "Siðmennt og skoðanabræðrum hennar“?
    Svo þykir mér það ósmekklegt af þér að slengja því fram um Björn Bjarnason að hann sé "öfgatrúarmaður".
    Er kannski líka ósmekklegt að kalla þingmann? Hann er öfgatrúmaður og eins og Guðmundur er búinn að benda á þá var hann menntamálaráðherra þegar námskráin var gefin út og undirskriftin hans er á námskránni.

Asta Norrman - 22/11/05 02:59 #

Sæl Hulda og þakka þér fyrir svarið. Þú virðist ganga út frá því að ég sé annað hvort homo eða einstæð móðir sem er ósátt við lífið og tilveruna og hafi þess vegna hafnað guði. Eg verð að leiðrétta þann misskilning. Eg er hamingjusamlega gift 3 barna móðir (öll með saman manninum) og er ekki ósátt úti guð frekar en jólasveininn.

Þú spyrð hvað ég vil kenna dóttur minni og hvaða áhrif ég vil hafa á afstöðu hennar til trúarbragða.

Ég vil kenna dóttur minni að virða aðra, en líka að virða sjálfa sig. Ef ég leyfi skólanum sífellt að ganga á rétt okkar til að hafna trúboði, er ég ekki að kenna henni virðingu fyrir sjálfri sér. Mér finnst það stangast á að vera kristinn og að virða aðra, því það sýnir sig aftur og aftur að fyrir kristna er mikilvægara að koma sínu á framfæri en að virða það sem öðrum finnst. Ef hún mundi vilja taka kristna eða aðra trú, verð ég að virða þá ákvörðun hennar, en ég vona þó að hún hafi þá alla vega lært að virða aðra.

Eg vil kenna henni að treysta á sjálfa sig. Ekki láta ábyrgðina á einhvern eða eitthvað annað. Þar sem ég hef unnið mikið með fólk í sorg og í miklum erfiðleikum, hefur mér funnist fólk sem treystir á sjálfa sig, koma mikið betur út en þeir sem leggja sitt traust á æðri máttarvöld eða aðra manneskju.

Eg vil kenna henni góða siði. Ég álít að siðgæði og trúarbrögð séu tveir ólíkir hlutir og þurfi alls ekki að fara saman. Við þurfum ekki annað en að fylgjast með fréttum eða lesa mannkynssöguna til að sjá að alla vega hafa kristnir ekki hærri siðgæðisvitund en aðrir.

Ég vil kenna henni að standa fast við það sem henni finnst rétt. Margir merkir menn hafa þurft að berjast fyrir sinni sannfæringu og þó aðeins 1% sé ósammála, er ekki þar með sagt að sá hluti hafi vittlaust fyrir sér. Ég reyni að vinna að því að hún verði það sjálfstæð að hún geti farið á móti straumnum.

Hvað varðar jólin, er það ekkert vandamál hjá okkur. Við höldum jól eins og stór hluti Íslendinga, gefum gjafir og borðum góðan mat. Við erum ekki að halda uppá fæðingu Jesu frekar en hinir, heldur er þetta fjölskylduhátið sem kristnir eiga engan einkarétt á. Enda komin til langt á undan kristni.

Mér finnst mín lífsviðhorf ekki stangast á við það að vera Íslendingur. Þú skrifar eins og 90% íslendinga séu kristnir og okkar fjölskylda hljóti því að vera algjörlega utangátta. Það er kannske kominn tími fyrir ykkur kirkjukonur og menn að koma út úr skápnum og sjá hvernig aðrir hafa það. Það eru miklu fleiri í landinu en þessar fáu hræður sem koma í kirkjuna.

Hvað varðar trúarbragðafræðslu í skólum, vil ég að kennarar læri muninn á trúarbragðafræðlu og trúboði og hvað á heima í ríkisreknum skólum og hvað á heima í sunnudagsskóla. Eg vil að börnin fái að læra um öll trúarbrögð. Mer finnst mikilvægt að þau læri til dæmis að kristnir trúi að guð hafi skapað heiminn, en ekki að hann hafi gert það. Mér finnst þó að sköpun heimsins megi bíða þar til börnin eru orðin það gömul að þau skilji hvernig heimurinn var skapaður. Dóttir mín 7 ára á ekki í neinum vandræðum með að skilja hvernig hún varð til. Hún hefur séð hvernig fræ verður að blómi og hún veit allt um egg og sæðisfrumu, en þegar kemur að myndun lífs á jörðinni, versnar málið. Þess vegna finnst mér líka allt of snemmt að kenna 7 ára börnum hvernig kristnir trúa að heimurinn hafi orðið til. Nema þá að það sé vilji skólans að börnin fari að trúa á guð þar sem þau hafi ekki aðra skíringu á hlutunum. Það þarf líka að kenna þeim hlutverk trúarinnar hér áður, að skíra út allt óútskíranlegt með því að guð hafi gert það. Það er líka eðlilegt að kenna þeim um bænina og að sumir trúi að það hafi einhver áhrif, en mér finnst líka eðlilegt að þau fái að læra að sumir hafi enga trú og klári sig ágætlega án hennar. Það verður líka að koma fram að trúarbrögð og siðgæði eru tveir óskildir hlutir. Mér finnst “trúarbragðafræðslan” í skólum í dag minna á einræðisríki þar sem aðeins eru leyfðar framboðsræður stjórnarflokksins, en stjórnarandstæðingar fá ekki að kynna sín málefni.. Eg hef alla tíð efast um að nokkur guð væri til, þrátt fyrir að ég se alin upp í kristinni trú. Þar sem kirkjan passar uppá að láta börnin fermast áður en þau hafa of mikið vit í kollinum og skólakerfið bíður ekki uppá annað en kristið trúboð, þá fermdist ég líka kristilegri fermingu. Síðar þegar ég fór að heiman og kynntist öðru fólki sem hafði sömu efasemdir og ég, fór ég að finna mig betur. Það var mikill léttir að lostna undan þessari hræsni sem það var fyrir mig að játast einhverju sem ég eiginlega trúði ekki á. Þess vegna er það mér mikils virði að kenna börnunum mínum að hugsa sjálfstætt og að þau þurfi ekki að skammast sín fyrir sína skoðun, jafnvel þó þau séu ein um hana.

Auðvitað er ég fyrir löngu búin að tala við kennarann um þessa kennslu og eftir að ég var búin að skýra út fyir henni muninn á trúboði og fræðslu, eins og ég lít á það, var hún alveg sammála mér og lofaði að bæta þetta. En ef það væri svo gott að ég gæti reiknað með að þetta væri búið núna, þá væri þetta allt í lagi. Í fyrra þegar dóttir mín byrjaði í skólanum, lét ég kennarann vita að við værum ekki kristin. Samt var hún látin læra og syngja á árshátið lagið "Eg er furðuverk, sem guð bjó til" sem Rut Reginalds gerði frægt hér um árið. Hvar var virðingin sem kristnir eru að tala um? Hún fékk svo nýjan kennara í ár og aftur sagði ég kennaranum frá því að við hefðum ákveðið að ala hana ekki upp í kristinni trú. Samt kemur hún heim með þessa vittleysu. Af hverju þarf þetta að vera svona mikið stríð. Það er trúfrelsi í landinu og trúboð er bannað í skólum? Hversu oft á ég að þurfa að skíra þetta út fyrir hversu mörgum kennurum. Hvað ef kennarinn hennar er veikur einn daginn og afleysingarkennarinn veit ekki um okkar afstöðu. Eg held að margir foreldrar sem eru á móti trúboði í skólum , gefist upp. Væri ekki nær að hreinsa trúboð úr skólum og kenna trúarbragðafræði. Þeir sem vilja, geta svo sent börnin sín í sunnudagsskóla.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 22/11/05 12:00 #

Glæsilegt svar Ásta.

Ég deili með þér vandræðum vegna skólakerfisins. Ég gafst upp og lét hella yfir barnið mitt kristniboði þar sem allt annað bauð uppá einelti af verstu sort. Það er eins og krissarnir hreinlega fatti ekki hina fasísku tendensa ("kærleiksfasismi" ha,ha) sem trú"fræðslu" þeirra fylgir.

Mín skoðun er sú að aldrei verði hægt að treysta á að trúaarbragðafræðsla verði ekki að trúboði og því beri að afnema slíka kennslu. Látum foreldrum eftir að kenna um yfirnáttúrutrú ef þeir vilja en nefnum kirkjuna og trú bara í framhjáhlaupi í mannkynssögutímum.


Svanur Sigurbjörnsson - 23/11/05 18:06 #

Athyglisverð umræða. Takk fyrir að koma hér og svara fyrir grein þína í mbl Hulda.

Ég er Svanur Sigurbjörnsson (40), stjórnarmaður í Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi.

Nú er komið að mér að senda langloku.

Dæmi Ástu hér að ofan sýna vel hversu erfitt er fyrir trúlausa foreldra eða foreldra af annarri trú en kristni að fá hlutlausa kennslu um trúarbrögð í íslenskum skólum.

Ég var að fara ítarlega yfir Aðalnámskrá Grunnskóla í kristinfræðum, siðfræði og trúarbragðafræði. Af þeim lestri er mér eftirfarandi ljóst:

i) Ofuráhersla er lögð á að þekkja kristni út frá nær öllum hugsanlegum hliðum. Miklum tíma er varið frá 1. til 10. bekkjar í að fara vel flestar sögur biblíunnar, og gildir þar einu hvort að þær hafa eitthvað siðferðislegt gildi eða ekki.

ii) Kynning á öðrum trúarbrögðum er aðeins á formi sagna af jafnöldrum á námsstigum 1-4. bekkjar og svo með "völdu" efni á síðari stigum. Í tíunda bekk á að geta greint á milli trúarbragðanna sem er gott.

iii) Hvergi er minnst á að drjúgur hluti fólks kjósi að aðhyllast ekki nein trúarbrögð og að það þurfi að skýra frá sjónarmiðum þess fólks.

iv) Hvergi er minnst á siðrænan húmanisma og mikilvægi hans og vísindahyggju / skynsemisstefnu í framförum og umbótum, m.a. á trúarbrögðum.

v) Farið er svo langt í kennslu um kristni að kenna eigi um trúarlega myndlist, tónlist og sálma og þá er eingöngu kristileg list nefnd í þessu sambandi. Þetta er bara fyrir sérstakt áhugafólk um trú nema þá helst verk eftir snillinga eins og Leonardo Da Vinci og Michaelangelo. Svo hamrað á því í þrepalýsingu hvers árs að gefa börnunum "tækifæri til eigin listsköpunar" m.a. í formi leikrita og myndlistar. ER ÞETTA KENNSLA Í MYNDMENNT? Til hvers ættu krakkar að teikna jesúmyndir eða um annað í biblíunni í skólanum? Þetta á að heita fræðsla en ekki trúartjáning. Ég sé ekki fyrir mér að barn trúlausra foreldra eða múslima sé sett fyrir að teikna myndir úr efni kristilegrar biblíu án þess að það teljist til tilraunir til að gera kristni að hluta lífs þess barns. Listtjáning er persónuleg og það á ekki að setja börnum fyrir að tjá sig þannig um trúarleg efni.

vi) Gert er ráð fyrir að kennslan í siðfræði miði við "kristilegt siðgæði". Í kaflanum "Nám og kennsla" segir:

Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.
Þessi málsgrein lýsir ótrúlegri þröngsýni, trúarhroka og vanþekkingu viðkomandi höfunda og samþykktaraðila á því hverju siðferði byggir og hvaðan það kemur. Það er ljóst út frá þessari málsgrein að hið kristilega á að vera allsráðandi í skólastarfinu.

vii) Í þrepalýsingu fyrir 3. bekk segir: " -viti hvað kristniboð er og kynnist starfi íslenskra kristniboða erlendis". Síðan fyrir 5. bekk: "-öðlist skilning á ástæðunum fyrir kristniboðs- og hjálparstarfi kristinnar kirkju og þekki til einstaklinga sem unnið hafa að því" Þetta er útí hött! Með þessu er verið að persónugera kristniboð fyrir krökkunum og fara útí alltof sértæk trúarleg málefni en eðlilegt getur talist.

viii) Eitt af því sem talið er sem "Lokamarkmið" er:

-[nemandinn]öðlist þekkingu á kristinni trú á Guð, föður, son og heilagan anda, einkum Jesú Kristi og kenningu hans, og skilji áhrif fagnaðarerindisins á einstaklinga og samfélög.
Þetta er ótrúleg klausa. Þarf hér að tiltaka hina heilugu þrenningu? Það er ljóst að hér er skrifað um efnið af presti. Síðan þetta um "áhrif fagnaðarerindisins ...". Þetta eru mjög trúarleg orð og hafa allt yfirbragð trúboðs. Texti biblíunnar er ekki "fagnaðarerindi" í eyrum neins nema þeim sem trúa á hana. Dulinn tilgangur kristinfræðslunar skín hér í gegn.

ix) Í þrepalýsingu fyrir 4. bekk segir m.a.:

-hafa haft kynni af kristnu helgihaldi og umgjörð þess og tamið sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt.
og í lýsingu fyrir 5. bekk segir
- fái vitneskju um hugtakið heilagur og mismunandi merkingar þess og temji sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt.
Þetta er dæmigert fyrir trúarkreddu sem troðið var í hausinn á mér sem krakka og er greinilega enn á dagskrá. Til dæmis var manni kennt að það væri heilagt að eiga sér trú og því mátti ekki gagnrýna það. Það var talið "ljótt". Það sem er flokkað sem heilagt hérna er væntanlega í trúarlegum skilningi og þetta er eitt af því sem setur hömlur á tjáningarfrelsi. Það þarf ekki "heilagleika" umfram venjulega virðingu gagnvart manneskjum og umhverfi.

x)Í þrepalýsingu 6. bekkjar segir:

-þekki grundvöll kristinnar sköpunartrúar og geri sér ljósa ábyrgð mannsins á sköpunarverkinu, sjálfum sér og náunga sínum -fái tækifæri til að ræða mismun á trú og vísindum í tengslum við sköpunartexta Biblíunnar
Maður verður hálf hræddur um börnin við þennan lestur. Hvað í andskotanum er átt við orðunum "..og geri sér ljósa ábyrgð mannsins á sköpunarverkinu"? Hér er verið að setja inn "sköpunarverkið" sem staðreynd og að maðurinn beri einhverja ábyrgð á því. Orðinu "jörðin" eða "alheimurinn" er skipt út fyrir trúarhugtakið "sköpunarverkið" eins og ekkert sé sjálfsagðara! Kom sköpunarsinni að samningu þessarar aðalnámsskrár? Lifum við á 14. öld?

Rankaðu við þér Hulda, í nafni heilbrigðrar skynsemi. Við búum alls ekki við jafnrétti í trúarbragðafræðslu grunnskólanna og hér fer fram ljóst og dulið trúboð sem sæmir okkur ekki á nýju árþúsundi. Ítarleg þekking á sögum biblíunnar er ekki forsenda siðferðisþroska og menning þjóðarinnar er meira í anda popmenningar og neyslusamfélgs en kirkjulistar. Passíusálmarnir eru ekki lengur lærðir utanbókar. Fólk fer mikið utan og dvelur þar oft í mörg ár - börn okkar þurfa að læra meira um heimsmenningu, önnur trúarbrögð og trúleysi. Ísland þarf að vakna úr viðjum kvertaks sem kirkjan hefur á henni. Það er langt frá því að allt sé slæmt sem komi frá kirkjunni, þvert á móti, margt er gott, en hún getur ekki lengur átt heimtingu á því að vera eitthvert allsráðandi afl í þjóðlífinu. Það er kominn tími til að hættir nútímans taki við.


Hulda Guðmundsd. - 24/11/05 13:30 #

Sæll Svanur Þetta er ítarleg og ágæt úttekt hjá þér á inntaki Aðalnámsskrárinnar. Þú skrifar öfgalaust en af festu og því ber ég virðingu fyrir skoðunum þínum. Komdu þeim (og væntanlega Siðmenntar um leið) á framfæri, t.d. í Morgunblaðinu. Þær væru gagnlegar fyrir umræðu almennings.

En hér bið ég þig að svara því hvaða hagsmuni, aðra en ríkisinnheimtu á félagsgjöldum, Siðmennt sjái í því að óska efir skráningu á forsendum laga um skráð trúfélög nr. 108/1999


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/11/05 13:47 #

...hvaða hagsmuni, aðra en ríkisinnheimtu á félagsgjöldum, Siðmennt sjái í því að óska efir skráningu á forsendum laga um skráð trúfélög nr. 108/1999

Nú svara ég ekki fyrir Siðmennt, en langar að benda á hve furðulegur þessi málflutningur Huldu er. Staðreyndin er að allir meðlimir Siðmenntar hafa þegar greitt félagsgjald skv. lögum um skráð trúfélög. Vandamálið er að Siðmennt fær ekki krónu af þessu fé heldur sjóður innan Háskóla Íslands. Félagar í Siðmennt þurfa því að greiða annað gjald til að halda upp rekstri þess félags.

Ég er nokkuð viss um að Siðmennt myndi styðja það að ríkið hætti að innheimta félagsgjöld fyrir trúfélög og það yrði fært yfir á félögin sjálf. Meðlimir Siðmenntar gætu þá ráðstafað þessu fé, sem þeir neyðast til að greiða til Háskólans í dag, á þann hátt sem þeir vilja, t.d. gætu þeir notað það fé til að standa undir rekstri Siðmenntar.

Það er mismunun að ég og aðrir trúleysingjar séum látin greiða í Háskólasjóð en ekki Hulda Guðmundsdóttir.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 24/11/05 14:02 #

Það kemur mér á óvart Hulda hvað þú virðist vita lítið um stefnu Siðmenntar miðað við hvað þú talar mikið um félagið. Það er líka svolítið undarlegt að þú skulir bera fram spurningar á þessum vefsíðum um Siðmennt, þar sem Vantrú og Siðmennt eru tvö ólík félög (þó við séum oftast sammála). Ég mæli með því að þú sendir okkur í Siðmennt tölvupóst (sidmennt [att] sidmennt.is) ef þú vilt fræðast um félagið.

En þar sem þú spyrð sérstaklega hér um þá kröfu Siðmenntar að félagið fái sömu þjónustu og trúfélög þá bendi ég þér á að lesa stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum (www.sidmennt.is/trufrelsi). Þar segir m.a.:

Fjárhagsleg mismunun Annað hvort verða yfirvöld að hætta að styrkja og styðja öll trúfélög á Íslandi eða sjá til þess að öll trúfélög fái sama stuðning. Þetta væri t.d. hægt með því að fella niður allan þann stuðning sem Þjóðkirkjan fær umfram sóknargjöld og hækka svo sóknargjöldin í samræmi við tekjutap Þjóðkirkjunnar. Með þessari aðgerð myndu þá sóknargjöld allra trúfélaga hækka hlutfallslega jafnt og þannig væri jafnrétti betur tryggt.

Og

Gagnrýna má ýmislegt við það fyrirkomulag sem er á svokölluðum sóknargjöldum. Alvarlegast er þó að lífsskoðanafélögum er gróflega mismunað eftir því hvort meðlimir þeirra trúa á yfirnáttúruleg fyrirbrigði eða ekki. Þetta getur einfaldlega ekki staðist jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar. Annað af tvennu þarf að gera: • Leggja niður sóknargjöld með öllu og leyfa trú- og lífsskoðanafélögum að fjármagna starfsemi sína óháð yfirvöldum. • Viðurkenna önnur lífsskoðanafélög en þau sem krefjast átrúnaðar á yfirnáttúrulegar verur og veita þeim sama lagalaga rétt og önnur lífsskoðanafélög hafa. Þannig gætu þeir sem eru í lífsskoðanafélögum látið sóknargjöld sín renna til þess félags. Einnig þarf að gefa fólki þann valkost að fá sóknargjöld sín endurgreidd ef það vill ekki tilheyra neinum lífsskoðanafélögum.

Almenn afstaða Siðmenntar um hver afskipti ríkisins eigi að vera af lífsskoðanafélögum og trúfélögum er eftirfarandi:

Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi, og þar með frelsi einstaklingsins, ekki tryggt.

Svanur Sigurbjörnsson - 24/11/05 15:08 #

Takk fyrir jákvæð viðbrögð Hulda. Það er ekki slæm hugmynd hjá þér að að ég komi greiningu minni á þessum hluta aðalnámskrár í dagblað.

Þakka þér fyrir spurninguna "um hvaða hagsmuni, aðra en ríkisinnheimtu á félagsgjöldum, Siðmennt sjái í því að óska efir skráningu á forsendum laga um skráð trúfélög nr. 108/1999".

Matti, sem er ekki málsvari okkar í Siðmennt, svaraði þessu ágætlega og Sigður Hólm, okkar varaformaður og málsvari, svaraði þér ítarlega með góðum tilvitnunum.

Það er einnig mikilvægt að sá skilningur komi fram í lögunum að trúfélög eru bara ein tegund lífsskoðunarfélaga. Lífsskoðunarfélög sem aðhyllast ekki trúarbrögð eiga að vera jafnrétthá trúfélögum.

Ég tek undir það sem báðir ofangreindir sögðu, að réttast væri að ríkið hefði engin fjárhagsleg afskipti af lífsskoðunarfélugum og þau störfuðu sjálfstætt. Ríki og lífsskoðunarfélög eiga að vera aðskilin, þ.m.t. trúfélög.


Hulda Guðmundsd. - 24/11/05 17:58 #

Sæll Sigurður Hólm Þú vitnar í afstöðu Siðmenntar: "Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju..."

Í USA er yfirlýst stefna sú að ríkið skipti sér ekki af trúmálum... Samt er Bush með höndina á Biblíunni nærri daglega, eða vitnandi í hana, hvenær sem hann stígur á stokk. Samkvæmt þessu er það engin trygging fyrir "hlutleysi" stjórnvalda í trúmálum að stjórnarskrá geri ráð fyrir trúfrelsi, eða aðskilnaði ríkis og kirkju...


Steindór J. Erlingsson - 24/11/05 18:12 #

Hulda, síðasta athugasemdin þín hittir beint í mark.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 24/11/05 18:19 #

Rétt hjá þér Hulda. En það er einfaldlega vegna þess að þar í landi virða menn stjórnarskránna að vettugi. Trúaröfgamenn í BNA (þeir sem vilja neyða sín lífsgildi upp á aðra þegna með ríkisvaldi) eru með mikil völd um þessar mundir. Þeir fara gegn stjórnarskránni. Ímyndaðu þér hvernig þetta væri ef Bandaríkjamenn hefðu ekki stjórnarskrárbundinn rétt til trúfrelsis (sem sumir vilja reyndar afnema með þeim rökum að BNA sé “kristið ríki” og “langflestir” séu kristnir).

Hvernig væri nú að hætta að skipta um umræðuefni og svara því hvers vegna þú ferð fram með rangt mál um Siðmennt á opinberum vettvangi? Finnst þér ekkert að því að fara með rangt mál um annað fólk? Ég hef lagt metnað minn í að útskýra stefnu Siðmenntar skilmerkilega og af yfirvegun. Af einhverjum ástæðum virðast opinberir og óopinberir talsmenn kirkjunnar sífellt hunsa staðreyndir og fara með rangt mál um Siðmennt og talsmenn félagsins. Hver er þín útskýring?

Virðingarfyllst, Sigurður Hólm Gunnarsson Varaformaður Siðmenntar


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/11/05 18:21 #

Stórfurðulegt að Steindór taki undir svona rugl hjá Huldu.

Þessi mál tengjast ekki. Það breytir engu um að það er óréttlátt að Þjóðkirkjan njóti sérstöðu þó ástandið í Bandaríkjunum sé eins og það er. Þessi röksemdarfærsla gengur út á að benda á eitthvað verra. Með öðrum orðum, það er ekkert að því að mismuna fólki hér þar sem ástandið í Bandaríkjunum er einhvernvegin. Svona röksemdarfærsla sæmir ekki fræðimönnum.

Af hverju ekki að nefna frekar Frakkland þar sem ríki og trú eru sannarlega aðskilin.

Það er líka alveg ljóst að í Bandaríkjunum myndi sú starfssemi sem á sér stað í opinberum leik- og grunnskólum hér á landi, ekki standast lög og yrði stöðvuð í dómssal.


Steindór J. Erlingsson - 24/11/05 19:13 #

Matti, það er alveg rétt hjá þér að þessi mál tengjst ekki. Ég tók einungis undir með Huldu að stjónarskrárvarinn aðskilnaður ríkis og kirkju, sem ég er fylgjandi, sé engin trygging fyrir því að trúboði sé haldið utan veggja ríkisrekinna skóla, eins og útbreiðsla vitshönnunartilgátunnar í BNA sýnir. Ég á börn á grunnskólaaldir og er alls ekki ánægður með "trúarbragðafræðsluna" sem borin er á borð fyrir þau. Það verður að endurskirfa allt þetta námsefni og fá til þess "secular" trúarbragðafræðinga, eins og Guðmund Inga Markússon vin minn, sem gera ekki upp á milli trúarbragða.

Einstaklingar sem menntaðir innan guðfræðideildarinnar geta varla fjallað hlutlaust um önnur trúarbrögð. Þetta er einmitt ástæða þess að fræðigreinin mín, vísindasagnfræði, varð til, því vísindamenn geta trauðla fjalla hlutlaust um sína fræðigrein. Þessu verða guðfræðingar á Íslandi að átta sig á og geri ég þetta einmitt að umtalsefni í grein sem mun birtast í næsta hefti Kirkjuritsins


Svanur Sigurbjörnsson - 24/11/05 22:51 #

Í grein þinni, Hulda, þ. 15. nóv í Mbl segir þú:

Skrifin [Jóhanns Björnssonar og Guðmundar Guðmundssonar] eru því miður á þeim nótum að vart er svara vert og í hæsta máta til vansa þeim sem kenna sig við vísindi, sið og mennt.
Þetta eru geysilega sterk orð og þykir mér þér til vansa að rökstyðja það ekki í greininni. Líkt og ég sýndi fram á í skrifum mínum hér að ofan um innihald aðalnámsskrár og dæmin sýna úr skólastarfinu, hafa þeir Guðmundur og Jóhann fulla ástæðu til að nota það orðalag sem að þú vitnar í hér í fyrsta svari þínu á Vantrú.is. Þú hefur ekki getað hrakið neitt í þeirra málflutningi hvorki þá né nú. Svo vil ég spyrja þig út í notkun á orðinu "siður" sem að þér virðist svo annt um að nota í samhenginu "vísindi, siður og mennt". Hver er þessi siður sem að þú vísar í? Er það "siðurinn" sem Karli Sigurbjörnssyni biskup er svo tíðrætt um? Ég þekki hugtökin siðgæði, siðfræði og siðalögmál en siðurinn er mér ókunnugur. Kannski missti ég af einhverju í 7 ára dvöl erlendis. Mér sýnist á öllu að biskup noti þetta orð um kristilegt siðgæði eða kristilegar venjur hér á landi. Kenna þeir Jóhann og Guðmundur sig við slíkt? Vinsamlegast útskýrðu eða leiðréttu sjálfa þig. Kveðja - Svanur


Sigurður Hólm Gunnarsson - 25/11/05 14:39 #

Ég vil ítreka það sem ég sagði í gær:

Hvernig væri nú að hætta að skipta um umræðuefni og svara því hvers vegna þú ferð fram með rangt mál um Siðmennt á opinberum vettvangi? Finnst þér ekkert að því að fara með rangt mál um annað fólk? Ég hef lagt metnað minn í að útskýra stefnu Siðmenntar skilmerkilega og af yfirvegun. Af einhverjum ástæðum virðast opinberir og óopinberir talsmenn kirkjunnar sífellt hunsa staðreyndir og fara með rangt mál um Siðmennt og talsmenn félagsins. Hver er þín útskýring? Virðingarfyllst, Sigurður Hólm Gunnarsson Varaformaður Siðmenntar

Má búast við útskýringum á þessari hegðun eða á að halda áfram að snúa útúr og tala um eitthvað allt annað?

Sigurður Hólm


Snæbjörn - 26/11/05 00:19 #

Trúleysi ætti að vera kennd í skóla rétt eins og kristni. En ég er hræddur um að enginn sátt geti náðst um svona mál því miður. En það er augljóslega eina réttlætið.


Steindór J. Erlingsson - 26/11/05 07:20 #

Snæbjörn, þetta er góð ábending hjá þér. Það er engum blöðum um það að fletta að trúleysishreyfingin, sem á rætur sínar í frönsku byltingunni, er einhver mikilvægasta hreyfingin sem komið hefur fram í vestrænni menningu og er nátengd kröfunni um málfrelsi og lýðræði. Um þetta segir hinn heimsþekkti breski guðfræðingur Alister McGrath í bókinni The Twilight of Atheism:

Yet it was the social and political aspects of atheism that attracted the attention of many French radical thinkers in the 1780s. If there was no God, then there was no limit to human action, no divinely determined social or political order that had to be respected and perpetuated. Without the restraining influence of the idea of God, anything was possible, including the creation of a new society, liberated from the oppressive rule of the Bourbon monarchy and the French church [bls. 35]

Fyrr í bókinni tekur McGrath af allan vafa um mikilvægi trúleysihreyfingarinnar þegar hann segir:

In its moderns forms, [atheism] is unquestionably on of the greatest achievements of the human intellect [bls.4]

Þessum staðreyndum gleyma kirkjunnarmenn oftast þegar þeir eru að gera lítið úr trúleysinu. Reyndar má segja það sama um ykkur vantrúarmenn því þið ættuð að leggja áherslu á að hugsjónir ykkar mynda einn af grunnkjörnunum í menningu nútímans. Ef trúleysi er sett í þetta breiða samhengi er engum blöðum um að fletta að kenna ber það í grunnskólum, alveg á sama hátt og kristin fræði, því eins og McGrath bendir á er trúleysið ekki síður mikilvægur þáttur í okkar menningu en trúin.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/11/05 14:44 #

Góður punktur. Þetta hafði maður bara ekki hugsað út í.


Guðrún - 27/11/05 17:11 #

Er ekki réttlæti í því að fella niður myndmennt í skóla, því að það eru til blindir nemendur? nú og af hverju þurfum við að kenna tónfræði er það ekki ranglátt gagnvart heyrnarlausum nemendum?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/11/05 17:17 #

Finnst þér virkilega að hægt sé að líkja þessu saman?


Guðrún - 27/11/05 20:32 #

Já því að fyrir hinn trúaða er Guð jafn raunverulegur og tónlist er hinum heyrandi, mér finnst eins og mörgum sem að hér skrifa vanti eitthvað skynfæri.


Kalli - 27/11/05 23:13 #

Sammála Matta en stenst ekki mátið og spyrja hvort heyrnarlausum sé kennd tónmennt og blindum myndmennt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/11/05 23:18 #

Mjög góður punktur, Kalli!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.