Tilvist ósýnilega andans Jahvehs, sem kristnir menn kalla gjarnan “Guð”, er ein grundvallarkennisetninga kristninnar. Þegar Þjóðkirkjan “fræðir” fermingarkrakka, sem fermast flestir ekki vegna trúar, um kristnina, reynir kirkjan að sannfæra krakkana um tilvist guðs: "Fermingarundirbúningnum er ætlað að hjálpa þér að sjá að Guð er til." 1 Miðað við mikilvægi þessarar kennisetningar mætti ætla að þeir færðu góð rök fyrir henni. Kíkjum á hvað Þjóðkirkjan hefur fram að færa.
Til að byrja með skulum við kíkja á fermingarfræðslubókina mína, Líf með Jesú2. Annar kafli þeirrar bókar heitir einfaldlega “Er Guð til?”.
Kaflinn byrjar á því að benda fermingarbörnunum á að fletta upp tveimur stöðum í Biblíunni, Sálm. 14,1. og Hebr. 11,1-3,6.
Heimskinginn segir í hjarta sínu: Guð er ekki til. Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð. Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð. .... En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita
Kaflinn byrjar ekki vel. Trú er skilgreind sem blanda af fullvissu og von, án þessarar afneitunar skynseminnar geturðu ekki þóknast guði og síðan eru þeir sem trúa ekki á guð kallaðir illir heimskingjar sem breyta bara andstyggilega. Vonandi er kaflinn málefnalegri:
Það er margt í veröldinni, sköpuninni, sem bendir til þess að Guð sé til. Það er líka ótal margt, sem mælir á móti því. Sama um samviskuna. Hún gefur engin óyggjandi svör. Margir spyrja: “Hvernig getur þú sannað, að Guð sé til?"
Það er hárrétt að margt mæli á móti því að guð sé til. Ég veit ekki um neitt sem bendir til þess að hann sé til, vonandi getur kaflinn bent á eitthvað, fyrst það er svona mikið af rökum.
Hefurðu nokkru sinni hugsað um, hve það er margt, sem er ákaflega erfitt að sanna? Reyndu að svara þessum spurningum:
A Hvort er falllegra?
a. Gullfoss eða
b. Dimmuborgir?
Getur þú sannað svar þitt?
B. Hvað er rétt?Nokkrir skólanemendur voru að fikta við að reykja í frímínútunum. Einn félaga þeirra sagði frá því, svo að skólastjóri og foreldrar blönduðu sér í málið. Var rétt eða rangt að segja frá þessu? Sannaðu að svar þitt sé rétt.
Það er erfitt að gefa óyggjandi svör við spurningunum um hvað sé fagurt eða rétt. Það er því ekkert undarlegt þótt erfitt sé að færa fram sannanir fyrir tilveru Guðs.
Engin rök fyrir tilvist guð enn sem komið er. Þarna virðast höfundarnir ekki þekkja muninn á staðhæfingum um staðreyndir og gildisdóma. Í kennslubókinni í heimspeki3 sem ég notaði í framhaldsskóla stendur þetta:
“Setningar sem lýsa einhverju eða greina frá "bláköldum staðreyndum" kallast þá staðhæfingar um staðreyndir” ...”Annar flokkur fullyrðinga eru setningar sem tjá gildismat og kallast gildisdómar. Þar er fullyrt að einhver eða eitthvað sé illt eða gott, ljótt eða fallegt, rétt eða rangt.” Síðan stendur: “Vandinn við gildisdóma er að erfitt reynist að skera úr um réttmæti þeirra”.
“Guð er til” er augljóslega staðhæfing um staðreynd en hin dæmin eru augljóslega gildisdómar. Það að það sé erfitt að gefa óyggjandi svar við gildisdómum þýðir alls ekki að það sé “erfitt að færa fram sannanir fyrir tilveru Guðs.” Við gætum alveg eins sagt:
“Það er erfitt að gefa óyggjandi svör við spurningunum um hvað sé fagurt eða rétt. Það er því ekkert undarlegt þótt erfitt sé að færa fram sannanir fyrir tilveru Frakklands.”
Algert kjaftæði. Heppilegt fyrir kirkjuna að fermingarbörnin eru ekki búin að læra heimspeki. Áfram heldur kaflinn:
Ef unnt væri að sanna tilveru Guðs, þá yrði trúin óhjákvæmileg nauðsyn. Allir yrðu að trúa á Guð og hlýða honum. Enginn þyrði annað. En Guð vill engan þvinga til hlýðni við sig.
Það er augljóst að ef guð myndi sanna tilveru sína þyrftum við ekki að afneita skynseminni okkar til þess að trúa á tilvist hans. Allir “yrðu” að trúa honum á sama hátt og allir “verða” að trúa því að himininn sé blár. En myndi guð þvinga fólk til hlýðni við sig með þessu? Varla, það væri örugglega einhver ástæða til þess að taka boð hans alvarlega, en vissulega gæti maður óhlýðnast ef maður vildi. En hvernig er þessu háttað núna? Finnst guði það árangursríkara að fela tilvist sína fullkomlega? Myndum við ekki telja þann foreldra klikkaðan sem teldi bestu aðferðina til þess að fá börnin sín til þess að hlýða sér að fela sig gjörsamlega fyrir þeim? Væri hann að þvinga þau til hlýðni með því að sanna fyrir þeim að hann sé til?
Þessi feluleikur guðs verður líka óafsakanlegur þegar maður tekur með í reikninginn þá kenningu kirkjunnar að fólkið sem trúir ekki mun kveljast að eilífu í helvíti. Ef við líkjum þessu aftur við foreldra þá myndi hann fela sig fyrir börnunum sínum og síðan kvelja að eilífu þau sem trúðu ekki á tilvist hans. Þessi foreldri væri sannarlega ekki einungis klikkaður heldur einnig illur.
Næst kemur bæn þar sem guð er beðinn um að “sýna, gefa merki, tákn um tilveru sína, en ekki sanna.” Guð forði okkur frá því að hann sanni tilveru sína! Þar næst er listi yfir nokkur tákn, “sem menn hafa talað um”:
a. Samviskan bauð mér að gera þetta.
b. Ég baðst fyrir og fann innri frið.
c. Ég las í Biblíunni, og fannst Guð tala til mín.
d. Þetta virtist vera kraftaverk.
e. Ég fann, að ég gat ekki lifað án Guðs.
Dæmi b, c, og e lýsa innri tilfinningu og bendir varla til tilvistar guðs, ég gæti alveg eins sagt “Ég fór í bað og fannst guð ekki vera til”. Tekur nokkur maður svona “tákn” alvarlega? Dæmi a er óskiljanlegt, hvernig bendir samviskan til þess að til sé ósýnilegur andi? Dæmi d er hlægilegt, þar sem kraftaverk virðast hafa horfið um leið og fólk varð upplýst. Gat höfundurinn ekki bent á kraftaverk?
Þá er kaflinn búinn og höfundarnir hafa ekki komið með nein rök fyrir tilvist guðs þrátt fyrir að segja að “margt í veröldinni, sköpuninni [bendi] til þess að Guð sé til”. Næst mun ég líta á aðra bók sem Þjóðkirkjan hefur notað við fermingarfræðslu, Fermingarkverið eftir séra Pál Pálsson. Vonandi mun Páll að minnsta kosti reyna að rökstyðja tilvist guð.
1 Jan Carlquist og Henrik Ivarsson, Líf með Jesú, Einar og Karl Sigurbjörnssynir þýddu og staðfærðu. Æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar. Reykjavík 1979. bls. 4
2ibid. bls 5-6
3Martin Levander, Heimspeki, Aðalheiður Steingrímsdóttir og Þröstur Ásmundsson þýddu. Mál og menning. Reykjavík 1997. bls 11-13
Já, það er afar óheiðarlegt að bera saman tilvist guðs og gildisdóma.
Annars er kannski rétt á að minnast á það að ég fermdist fyrir um það bil áratug síðan og það er notuð nýrri útgáfa af bókinni núna, veit ekki hvort einhverju hafi verið breytt.
Miðað við þennan pistil hefur fermingarfræðslan ekki batnað mikið síðan ég fermdist, illu heilli, fyrir allmörgum árum.
Það var einmitt í fermingarfræðslunni sem ég missti endanlega barnatrúna. Var með ýmsar spurningar sem ég lagði fyrir prestinn og fékk svör sem voru álíka út úr kú og þessi dæmi sem þið birtið þarna.
Ég held að höfundarnir haldi að 14 ára unglingar séu ekki eins skynsamir og þeir eru í raun og veru, alla vega margir þeirra.
"Höfundarnir" vita ekkert um hve skynsamir 14 ára unglingar eru en eru einungis að benda á hve lélegur rökstuðningur kirkjunnar er.
Er hann ekki að tala um höfunda Líf með Jesú?
Ég var að velta þessu öllu fyrir mér og spurði sjálfan mig þessarar spurningar, hvar byrjaði allt? Sagt er í Biblíunni að Guð hafi skapað heiminn á 7 dögum, þ.e jafn mörgum dögum og vikan er. Svo hafa vísindin komið með þessa áhugaverðu kenningu um mikla hvell. En málið er bara þannig að ég varð efins um hvar allt byrjaði. Var eitthvað sem kom þessu öllu af stað, eitthvað yfirnáttúrulegt. Þannig að ég komst að því að hvernig sem maður reynir að afsanna það að það sé eitthvað fyrir ofan okkur þá lendir maður stundum á þessari spurningu, hvar byrjaði allt.
Baldur, ég sé ekki hvernig guð leysir neitt það vandamál. Við vitum ekki hvers vegna eitthvað er til, en að stinga upp á því að "guð" svari einhverju er bara að færa vandamálið einu skrefi aftar. (sbr þessa grein)
Hjalti, eina vandamálið í stöðunni er það að þú getur ekki enn svarað þessari "auðveldu spurningu" sem ég setti fram. Þú verðu allavegana að gera þér grein fyrir því að ekkert gerist af sjálfu sér, þá er ég ekkert endilega að tala um neitt trúartengt. Fyrst ekkert annað er í heiminum en það sem við sjáum þá væri auðvelt að afsanna fjöldann allann af hlutum.
Er þetta ekki á sömu nótum og að segja að ef maður finnur ekki bíllyklana sína hljóti huldufólk að hafa tekið þá?
Spurningunni um "hvar byrjaði allt?" verður hver að svara fyrir sig, en að mínum dómi er slík spurning meingölluð. Douglas Adams, sá öndvegis rithöfundur, átti svar við henni - 42. Hvað meinar þú t.d. með "allt"? Eða "hvar", svo maður tali nú ekki um "byrjaði". Þessi spurning er sprottin af sömu rótum og hin um tilgang og er mjög sjálfmiðuð anthropogen. Einnig spilar tungumálið hér inn í, en með því fáum við verkfæri til að tjá okkur um eitthvað sem enginn hefur reynt. Að þessu sögðu vil ég snúa umræðunni aftur að efni greinarinnar.
Er ekki magnað að prestarnir skuli ekki vija viðurkenna að 14 ára krakkar séu börn. Þau eru að dómi kirkjunnar nógu þroskuð til að selja sálu sína í eilífar hendur drottins og sonar (maría er hornkerling, svo við látum hana liggja milli hluta). En að dómi sömu presta eru þau of óþroskuð til að gera nokkuð annað, t.a.m. detta í það og gifta sig (ekki endilega í þessari röð). Svo jarma þeir um allt gjafasukkið! Og eftir því sem mér skilst er ferming ekki eitthvert sáluhjálparatriði. Eftir stendur ágætis partý, sem hægt er að halda án leiðindanna er fylgja kirkjunni.
Fermingin er orðin að athöfn og siður til margra alda. Satt er það að krakkar nú til dags spá ekkert í hlutunum og eru til tölur um það að helmingur barna sem fermast séu ekki viss hvort þau trúa nokkuð. En verst finnst mér að þú skulir nota orðið prestar sem heild um alla presta hér lendis því enginn er eins og til eru prestar sem ganga ekki heilir til skógar. Að selja sálu sína er heldur ekki gott orð þar sem skuldbindingar fermingar eru aðeins
þær að maður segist ætla að trúa á guð, sem sagt trúa á eitthvað og hafa einhvern tilgang í lífinu annan en þann að geta ekki pælt í hlutunum og gá hvort þeir gætu verið réttir eða rangir.
Svo þarf þaður líka að pæla í heiminum með óhlutdrægum hætti og gá hvort eitthvað gæti verið eða ekki. Enn hefur ekki nokkur sála getað svarað spurningunni um það hvar allt byrjaði nema með lélegu kommenti um það sem einhver annar sagði eða gerði.
Enn hefur ekki nokkur sála getað svarað spurningunni um það hvar allt byrjaði
Það er satt, enginn hefur getað svarað þeirri spurningu, í mesta lagi hafa menn leitt líkur að réttu svari.
Hins vegar muntu ekki fá nein svör hér, í athugasemdunum við þessa grein, enda segir í litlu boxi hérna rétt fyrir ofan innsláttarsvæðið: "Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið". Ég skora á þig að fara með þessar pælingar þangað, það eru mun meiri líkur á að þú fáir einhver viðbrögð þar.
Baldur: ég setti fram dæmið um bíllyklana sem vandamál sem skortir svar við. Kannski ekki gott dæmi en það að maður viti ekki (með vissu) hvernig þeir týndust skapar ekki tilvistargrundvöll fyrir huldufólk. Það að engin hér geti hafi á reiðum höndum svarið við „lífinu, alheiminum og öllu“ þýðir ekki að Guð hljóti að vera til.
Þess fyrir utan skil ég ekki athugasemd þína varðandi að ég sé að tala um orðatiltæki en ekki trú. Mér sýnist hún ekki vera neitt annað en útúrsnúningur.
Baldur, varðandi þessa athugasemd: "En verst finnst mér að þú skulir nota orðið prestar sem heild um alla presta hér lendis því enginn er eins og til eru prestar sem ganga ekki heilir til skógar."
Enginn prestur gengur heill til skógar. Þú þarft að vera algerlega úr tengslum við raunveruleikann til að taka prestvígslu og halda fram trúarbullinu kinnroðalaust.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Svanur Sigurbjörnsson - 29/11/05 01:34 #
Takk fyrir að koma fram með þetta hér Hjalti Rúnar. Þessi málflutningur fyrir tilvist Guðs í fermingarfræðslunni er með ólíkindum. Það er ljóst að höfundurinn/höfundarnir eru sjálfir úti á þekkju varðandi rökfærslur og bera því algert rugl á borð fyrir börnin. Þeir líkja vandanum bakvið spurninguna um tilvist guðs við fagurfræðilega spurningu þar sem ekki er hægt að benda á eitt rétt svar (því að það einfaldlega smekksatriði). Er því spurningin um tilvist guðs smekksatriði hjá þeim? Ég hélt að kirkjunnar menn tækju þetta alvarlegar. Þeir virðast hæst ánægðir með það að ekki sé hægt að sanna tilvist guðs út frá því að það sé ósannanlegt í eðli sínu. Ótrúleg rökleysa því að líkt og með tannálfinn er ekki hægt að sanna að ímyndaðar "fígúrur" séu til. Hvenær ætla trúaðir að gera sér þetta ljóst?