Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Frelsarinn og Jón Valur: Áskorun

Í nafni opinskárrar umræðu um mikilvæg málefni býður Vantrú lesendum tækifæri til andsvara við greinum og pistlum hér á síðunni. Til þess er leikurinn gerður, að skoðanaskipti og rökræða geti verið sem mest. Jón Valur Jensson, kaþólskur guðfræðingur með meiru, hefur verið flestum mönnum ötulli að þreyta orðasennur við okkur hér á Vantrú, eða, réttara sagt, við flesta okkar hér á Vantrú. Svo er nefnilega mál með vexti að einn okkar hefur farið á mis við skeyti Jóns Vals, sá okkar sem gengur undir dulnefninu Frelsarinn.

Lesendur hafa séð greinar Frelsarans, þar sem skotið er þungum skotum á kristna kirkju, og þá sögulegu brauðfætur sem hún stendur á. Kirkjan stendur þráfaldlega afhjúpuð. Athyglisvert er að af kirkjunnar mönnum hefur ennþá enginn orðið til þess að taka upp hanskann fyrir þessa stofnun, sem á að vera þeim hjartfólgin. Hverju sætir? Er sannleikurinn svona sár? Vita kirkjunnar menn innst inni að við höfum á réttu að standa og vilja ekki hætta sér út í hríð sem þeir vita að þeir munu tapa? Í sjálfu sér er það skiljanlegt, enda eru kirkjunnar menn mannlegir eins og aðrir menn, og hverjum þykir gaman að vera skotinn í kaf í rökræðu?

Jón Valur hefur, sem fyrr segir, verið flestum kristnum mönnum ötulli að andmæla skrifum okkar Vantrúarmanna. Þótt ágreiningur okkar sé djúpur og margslunginn, þá er umræðan engu að síður af hinu góða. En hvers á félagi okkar, Frelsarinn, að gjalda? Jón Valur skrifaði nýlega að hann svari „ekki þessum nýju greinum hins nafnlausa manns, sem ranglega kallar sig “Frelsarann”.“ Á fólk að trúa því að það sé dulnefnið sem stendur í Jóni, eða á pínleg þögn hans sér ef til vill raunverulegar ástæður? Getur verið að hann sé undir sömu sökina seldur og aðrir krossmenn, að eiga ekki til svör í skjóðu sinni? Er skjöldur krossfarans klofinn?

Þarna stendur sjálfsagt hnífurinn í kúnni. Jón Valur hefur sett á sig snúð og sagt að skrifum nafnleysingja svari hann ekki. Þetta hljómar eins og billegur fyrirsláttur, já, undanbrögð, til að komast hjá erfiðum spurningum. Jón kann að líta á afstöðu sína sem eindregið prinsipp, en þegar öllu er á botninn hvolft er hún bara pínleg fyrir hann sjálfan.

Það verður að viðurkennast, að það er óþægilegt að deila við menn sem ganga undir dulnefnum, en dulnefni Frelsarans á sér gildar skýringar sem ekki verður farið nánar út í hér. Það verður hins vegar ekki séð að þetta dulnefni sé gild ástæða til að líta framhjá rökföstum og þungskeyttum greinum, til að guggna frammi fyrir alvarlegri áskorun. Um leið og Frelsarinn hefur verið fundvís á snögga bletti kirkjunnar má ganga út frá því að rökræðuberserknum Jóni Vali Jenssyni yrði ekki skotaskuld úr að finna snögga bletti á Frelsaranum á móti, eða hvað? Annað eins má skilja af digurbarkalegu tali Jóns, á stundum, sem hann á væntanlega innistæðu fyrir. (Ef í harðbakka slær má alltaf grípa til gamalla og góðra útúrsnúninga að hætti kirkjunnar manna.)

Hér með er skorað á Jón Val Jensson að taka upp hólmgönguhanska Frelsarans af drengskap. Fyrir liggja nokkrar greinar um kirkjuna og syndaregistur hennar, sem verjandinn hlýtur að tjá sig um, ef honum þykir heiður kirkjunnar á annað borð þess virði að verja hann. Þar má nefna greinaflokkinn „Heilagan hrylling“ (fleiri greinar úr honum munu birtast á næstunni, enda af nógu að taka), og svo greinin „Hann er ekki hér, hann er þjóðsaga“. Hér með er skorað á Jón Val Jensson að sleppa fyrirslætti og tjá sig efnislega um það sem kemur fram í þessum greinum. Við verðum undrandi ef hann skortir drengskap til þess.

Ritstjórn 30.10.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 30/10/05 18:30 #

Ég færði athugasemd sem ekki tengist þessari færslu á spjallið um ritstjórnarstefnu Vantrúar.


Jón Valur Jensson - 31/10/05 17:20 #

Manninn skortir bæði nennu og vilja til þess. – En hafið engar áhyggjur, piltar mínir, ég mun svara þessum pistli hér við næsta tækifæri.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.