Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Keðjubréf: Veðmál Pascals í praxis

Margir falla fyrir veðmáli Pascals. Þeir segja að það sé besta mál að trúa á Guð af því að þeir hafi allt að vinna en engu að tapa. Við á Vantrú teljum okkur hafa margsinnis sýnt að þetta er rökleysa. Atli Harðarson heimspekingur hefur líka sagt sitt um málið á Vísindavefnum. Þessi grein mun vonandi ekki endurtaka það sem hefur verið sagt aftur og aftur heldur er ætlunin að sýna hve röksemdafærsla Pascals virkar illa þegar hún er notuð í daglegu lífi.

Fyrir nokkru greindum við frá tölvupóstsi sem var að ganga. Í þessum tölvupósti var fólki lofað ókeypis Nokia síma ef það bara áframsendi póstinn til 20 vina. Frægari útgáfa af þessu gabbi er væntanlega sú sem fjallaði um það að Bill Gates myndi gefa þér peninga fyrir að áframsenda tölvupóst. Og fólk áframsendir þessa pósta í gríð og erg. Bill er hins vegar ekki að gefa tölvupóstnotendum peninga og Nokia er orðið ákaflega pirrað á fólki sem vill fá ókeypis síma.

En hvað veldur því að fólk sendir svona pósta áfram? Sumir falla alveg fyrir gabbinu, kokgleypa það. Ég held hins vegar að önnur ástæða gæti verið jafnvel algengari. Fólk setur upp veðmál Pascals í huganum. Ef þetta er rangt þá hef ég engu tapað en ef þetta rétt þá fæ ég síma/pening. Lítil fyrirhöfn, mikil verðlaun. Það vantar hins vegar eitthvað inn í dæmið. Ef allir veðja að hætti Pascals þá fyllast pósthólf allra af rusli.

"Ef það er of gott til að vera satt þá eru allar líkur á að það sé ekki satt", þetta sagði ég þegar ég varaði við Nokia-gabbinu. Ég held að nákvæmlega sama prinsipp gildi þegar þér er lofað eilífu lífi og hamingju, það er of gott til að vera satt. Á sama hátt og gylliboð fylla pósthólf okkar þá menga trúarbrögð umhverfi okkar. Það sem gerir trúarbrögðin verri en ruslpóst er að það er enginn Delete hnappur sem getur bjargað sent þetta í ruslið né nokkur sía sem getur fargað þessu áður en þessu er troðið upp á okkur.

Það er til fólk sem áframsendir ruslpóst en það er til fólk sem metur gylliboðin með gagnrýnu hugarfari og brýtur síðan keðjuna. Í hvorum hópnum ert þú?

Um tengt efni>
Hugvekja: Hvað ef ef ef....
Pascal-rökvillan
Nokia gabb

Óli Gneisti Sóleyjarson 03.10.2005
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.