Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað ef ef ef....

Ég hef óþarflega oft verið spurður af því hvort mér myndi ekki þykja ég kjánalegur ef ég myndi deyja og komast að því að það væri til guð. Að það væri líf eftir dauðann. Allt það kjaftæði. Svarið sem ég gef oftast er nú að ég hafi engar sérstakar áhyggjur af þeim möguleika.

Kannski ég ætti að svara spurningu með spurningu. Ef kristinn maður spyr mig að þessu þá væri mótspurningin á þessa leið: Þætti þér þú ekki svoltið kjánalegur að vakna eftir dauða þinn í Helvíti þar sem þú kemst að því að enginn kemst til himna nema Mormónar? Væri það ekki bömmer? Veðmál Pascals er fyrir þá skammsýnu.

Ef það er til einhver guð þá gæti vel verið að hann sé hrifinn af allt öðru en guðinn sem þú tilbiður. Kannski er hinn eini sanni guð með hvíldardag á mánudögum þannig að við erum öll á leið til helvítis. Einnig væri það mögulegt að guð sé á móti hvítu fólki yfirhöfuð. Við gætum verið einskonar djöflar í mannsmynd sem Satan bjó til. Hver veit? Hvítir rapparar sem halda að þeir séu svartir gætu verið með réttu pælinguna. Hugsanlega er eina leiðin útúr þessu að fara í kynþáttaskiptiaðgerð einsog Michael Jackson fór í (bara hina leiðina).

Ef guð væri yfirhöfuð til þá gætirðu ekki vitað hvað hann vill frá þér. Það sem þú getur gert í lífinu er að reyna að vera hamingjusamur, góður við aðra og látið vera að hafa áhyggjur af handanheimsmálum. Þú getur hvort eð er ekki vitað fyrir víst hvað hugsanlegur guð á himnum vill frá þér. Lifðu lífinu núna, líf eftir dauðann getur beðið.

Óli Gneisti Sóleyjarson 28.08.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Karl Gunnarsson - 28/08/05 02:48 #

Svo getur maður líka spurt hvort sá Guð sem heimtar tilbeiðslu svo að maður sé gjaldgengur í paradís eftir dauða sé ekki hégómagjarn Guð? Hvernig Guð er það sem hafnar manni um himnaríkisvist fyrir það eitt að trúa ekki né tilbiðja sig?

Er atheismi ekki „win-win situation“ í heimi sem algóður Guð vakir yfir?

Ætli hræðilegasta tilhugsun í heimi sé ekki að Guð sé til og hann hafi ekki skopskyn?


Jón Frímann - 28/08/05 16:41 #

Það sem gerist eftir að ég er dauður, er ekki mitt vandamál.


Haukur - 31/08/05 09:07 #

Einu sinni spurði Baháíi mig hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að líf mitt þjónaði tilgangi fyrir Guð og þegar ég dæi þá kæmi kanski til mín ábúðarfullur sendiboði og tilkynnti mér að ég hefði ekki sinnt starfi mínu sem lifandi maður nógu vel.

Mitt svar, sem var spurning, varð einhvern veginn á þessa leið: „Hvað ef það fyrsta sem þú sérð eftir dauðann er bleik kanína sem tilkynnir þér að þú hafir ekki þjónað sælgætislandinu nógu vel í lifanda lífi“

Hann hló að mér, röflaði eitthvað um að það spáði engin ritning fyrir um þess háttar sendiboða og fór síðan að benda mér á að ég ætti nú samt að lifa trúarlegu lífi, af því að trúarlegt líf væri gott líf.

BLah!!


Karl Gunnarsson - 31/08/05 15:46 #

Mér líst vel á þessa sælgætiskanínu. Væri ábyggilega mjög upplyftandi að vakna upp eftir hræðilegan dauðdaga og hitta risavaxna, talandi kanínu.

Annars myndi ég spyrja Guð hvar ráðningarsamningurinn væri. Ég man ekki eftir að hafa kvittað undir eitt eða neitt. Lágmark að láta mann vita skýrt og greinilega hvers er ætlast til af manni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.