Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Geðsjúkdómurinn kristni

"Ég bið að forsetinn og ráðgjafar hans leiti eftir visku guðs og treysti ekki á eigin dómgreind."
- Af bloggi Sigga Pönk

Hinir sannkristnu eru duglegir við að benda á að þeir sem fari fram með morðum og ofbeldi í nafni kristindómsins geti ekki talist kristnir, hugmyndakerfið gangi út á hið þveröfuga, nefnilega kærleika og fyrirgefningu. Því getur að George Bush varla verið kristinn, sé mark takandi á þeim.

Bush segist vera frelsaður Kristsmaður og óstaðfestar heimildir segja að hann telji sig útvalinn af Guði til að uppræta hið illa.

Ef satt er þá er það ansi geðsjúk pæling.

Slíkt og þvílíkt hefur loðað við hið geistlega vald allar götur. Menn telja sig vera að fara fram í nafni guðs síns þegar þeir myrða og pynta saklausa borgara. Sjáið rannsóknarréttinn í Evrópu á miðöldum. Sjáið tilskipanir ýmissa páfa t.d. Páls V. sem gerði Galíleó lífið leitt:

Hver sem þekkti Pál V. mátti aldrei búast við neinni miskunn frá honum. Hann trúði því svo fastlega, að hann hefði hafizt til sinnar miklu tignar fyrir sérstakar aðgerðir heilags anda, að hann var sannfærður um að hann gæti ekki framið neitt ranglæti, hversu grimmúðlegt sem það var.
- Níels Dungal, Blekking og þekking, bls. 87.

Spurningin er hvort allir þessir menn hafi verið geðbilaðir eða hvort eitthvað geti verið athugavert við hugmyndafræðina sem þeir aðhylltust. Það vill nefnilega svo til að þegar menn gangast inn á ákveðin trúarbrögð þá fá þau á sig mynd "hins góða" í hugum þeirra. Öll önnur hugmyndakerfi verða þar með að "hinu illa" eða í besta falli að villuráfi.

Það er í krafti þessa sem menn leggjast í dráp og grimmdarverk. Það er jú alltaf verið að berja á "hinu illa" svo þetta er bara allt í fínu lagi.

Kristin trú er eins og mörg önnur trúarbrögð, geðsjúkdómur sem heilbrigt fólk tekur að sér að ganga með. Þetta er hugmyndakerfi óra sem runnir eru undan fólki með ofskynjanir og ranghugmyndir, en því hefur tekist að selja heilbrigðu fólki þessar hugmyndir sínar. Skýrasta dæmið er Páll postuli, sem gerðist ötull Kristsmaður eftir að hafa fengið öfluga ofskynjun. Mjög margt í skrifum hans er þess eðlis að grunsemdir vakna um að hann hafi ekki gengið heill til skógar.

Og sjáið Lúther sem barðist við Djöfulinn með viðrekstur og skít í buxum að vopni. Þjóðkirkjan byggir kenningu sína á hugmyndum þessa fárveika manns.

En hvað fær heilbrigt fólk til að taka óra hins geðsjúka og færa inn í heimsmynd sína? Þar held ég að fáfræði og hjátrú spili stærsta rullu. Sé nægum refsingum hótað, nógu hóglífi lofað og smæð hins trúgjarna ýkt upp gagnvart hinu ósýnilega átoríteti er eftirleikurinn auðveldur.

Í vestrænu nútímaþjóðfélagi ætti fáfræðin að vera að mestu upprætt og vel er hægt að sýna fram á að hjátrúin standist engin rök. En þrátt fyrir þetta eru stórir hópar fólks á valdi hjátrúar og fáfræði, sé klabbinu eignað æðsta valdi alheimsins. Og þetta fólk hlustar á geðveikisóra og ranghugmyndir annarra, les díalóga svipaðrar ættar í trúarritum sínum og þráir að þetta sé allt saman rétt og satt.

Af hverju? Getur verið að þetta fólk sé hrætt við að taka ábyrgð sjálft á eigin lífi og umhverfi sínu. Er óskin eftir æðri mætti, sem sér til þess að allt fari vel, nóg til að þessu sé öllu skilyrðislaust trúað? Og kvikna þá heldur engar gagnrýnisraddir í kolli þess þegar þessu æðsta valdi er beitt til kúgunar og blóðsúthellinga? Er nóg að trúa því að guðinn manns sé góður til að hvað eina megi aðhafast í nafni hans?

Tilvitnunin hér efst er í bænakver nokkurt sem sent var óbreyttum hermönnum Bandaríkjanna við upphaf Íraksstríðsins árið 2003. Þarna kemur skýrt fram að fremur er treyst á guðinn en eigin skynsemi og um það beðið að forsetinn láti hinn guðlega innblástur kæfa rödd eigin hyggjuvits.

Þannig eru stjórnunarhættir valdamesta manns heimsins. Þetta er náttúrlega glórulaus geðsýki.

Þetta er kristni.


Sjá einnig: Geðbilun á bókarformi

Birgir Baldursson 17.08.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Finnur - 17/08/05 08:29 #

Spurningin er hvort allir þessir menn hafi verið geðbilaðir eða hvort eitthvað geti verið athugavert við hugmyndafræðina sem þeir aðhylltust.
Þetta er góð spurning Birgir, og mig langar til að benda á að afkastamestu morðingjar síðustu aldar, Stalín og Maó, voru ekki bara vantrúaðir heldur börðust af heift gegn allri trú og trúarbrögðum. Og kínversk stjórnvöld berjast ennþá af heift gegn hverskyns hindurvitnum og eru jafnframt afkastamest í því að drepa eigin þegna.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/05 11:16 #

Ertu viss um að það sé trúleysi þeirra sem eitthvað er athugavert við? Gæti það verið fylgifiskur hugmyndakerfia sem fær þessa menn til að drepa þegna, pólitískra hugmyndakerfia sem koma trúleysi að öðru leyti ekki við?

Sýndu mér fram á að þarna sé (og hafi) fólk verið drepið vegna trúarskoðana sinna, en ekki sökum pólitískra viðhorfa eða baráttu gegn fasískri valdstjórninni.

Sjá nánar: Kommúnistarnir við og tilsvör t.d. hér, hér og hér.

Jú, það var ýmislegt athugavert við hugmyndakerfi þessara manna, eins og sést best á hvernig þeir stjórnuðu ríkjum sínum, en það kemur trúleysi ekki við. Svo má vel vera að einhver geðbilun hafi háð þessum mönnum líka, a.m.k. er lítið samræmi milli fagurra ritgerða Maós og svo þess þjóðskipulags sem var við lýði í valdatíð hans.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/08/05 11:59 #

Stalín og Maó, voru ekki bara vantrúaðir heldur börðust af heift gegn allri trú og trúarbrögðum

Þetta er í raun bara rangt.

Baráttan gegn kristni í Kína er að mestu ótti við vestræn áhrif, ekki ótti við trú.

Yfirvöld í Kína eru ekkert sérstaklega dugleg við að berjast gegn hindurvitnum QiGong spítalar, nálastungur og fleira kjaftæði fær að vaða þarna uppi. Veit reyndar ekki hvort það hafi verið meira gert af því þegar Maó var á lífi en ég hef lítið heyrt af því.

Síðan verðurðu að athuga Stalín og Maó skiptu að einhverju leyti út hefðbundnum trúarbrögðum fyrir persónudýrkun sem er í raun form költisma. Ef þú reynir að fá fólk til að hætta að trúa á Guð til þess að það dýrki þig þá ertu ekki að gera neitt á forsendum trúleysis.

Stalín var ekkert duglegur við að berjast gegn kristni, hann hjálpaði reyndar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni að berjast gegn kaþólsku kirkjunni en það eru átök milli trúarbragða en ekki milli trúar og trúleysis.

Í Sovétríkjunum fengu allskyns gervivísindamenn að starfa með ríkisstyrkjum, óhóflegt kjaftæði þar á ferð.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/05 13:34 #

Ég hugsa að stuðningur Stalíns við rétttrúnaðarkirkjuna hafi aðallega komið til vegna þess að hún er „rússnesk“ meðan rómverska kirkjan er það ekki. Stalín og Maó ... ég hugsa að í þeirra tilfelli hafi einfaldlega haldist í hendur sjálfsréttlæting vegna þess að þetta væri ásættanlegur fórnarkostnaður og ávinningurinn væri mun meiri en fórnin, enn fremur skeytingarleysi um afdrif fólks, enn fremur að valdið hafi stigið þeim til höfuðs, og kannski eitthvað fleira. Þeir voru samt engar dæmalausar ófreskjur; þeir gátu látið svona mikið illt af sér leiða vegna þess að þeir réðu svo miklu í svo stórum löndum. Það eru til næg dæmi um menn sem hafa haft svipað innræti en ekki haft sömu tækifærin, þar á meðal eru næg dæmi úr nútímanum. Þar við bætist að menn sem við erum ekki vön að álíta ófreskjur, meira að segja innlendir stjórnmálamenn, réttlæta ýmis hroðaverk gegn náunganum og láta eins og þau séu ásættanlegur fórnarkostnaður.


Finnur - 17/08/05 23:09 #

Ertu viss um að það sé trúleysi þeirra sem eitthvað er athugavert við? Gæti það verið fylgifiskur hugmyndakerfia sem fær þessa menn til að drepa þegna, pólitískra hugmyndakerfia sem koma trúleysi að öðru leyti ekki við?
Ég er nokkuð viss um að trúleysi gerði þá ekki að morðingjum, frekar en trú hefur gert Bush og félaga að morðingum.
Hvatinn er ekkert annað en valdagræðgi og trú eða trúleysi er einfaldlega hluti af vopnabúri þeirra.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 00:30 #

Sumir halda að Guðinn þeirra vilji að þeir drepi fyrir "Hann", sú trú gerir þá hættulega. Ég held að Bush sé í þessum hópi.


Finnur - 18/08/05 06:10 #

Yfirvöld í Kína eru ekkert sérstaklega dugleg við að berjast gegn hindurvitnum QiGong spítalar, nálastungur og fleira kjaftæði fær að vaða þarna uppi.
Það er greinilegt að þér þykir skorta á vantrúnað kínverskra kommúnista. Má skilja þessi viðbrögð þín þannig að þú styður baráttu þeirra gegn falun gong; en betur má ef duga skal? Og ekki má gleyma þessum nötturum í Tíbet.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 08:31 #

Finnur, það að þú reynir að snúa út úr orðum mínum á þann hátt að ég styðji ofbeldi og kúgun er afar ósmekklegt. Fyrir utan að það sé siðlaust að reyna að berjast gegn kjaftæði með kúgun og ofbeldi þá virkar það einfaldlega ekki.

Kínversk yfirvöld mættu alveg vera duglegri að upplýsa þegna sína um hvað þetta er mikið kjaftæði. Efla kennslu og skilning almennings á vísindum, það er það sem virkar.


eggert egg - 18/08/05 10:00 #

Nú hlytur þú að viðurkenna að biblían sé viðurkennd sem það rit sem kristið fólk lifir eftir...ekki satt?

Hvar er skrifað í biblíunni að páfi, forseti eða einhver annar aðili hafi vald til að lýsa yfir heilögu stríði eða til að drepa heiðingja.

Ef þú getur ekki bent mér á staðinn þar sem þetta stendur skýrum stöfum í biblíunni þá ert það þú sem ert geðbilaður og þá eru skrif þín hér að ofan algerlega merkingarlaust bull.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 10:15 #

Eggert (ertu ekki að villast á greinum?), geturðu vísað mér á stað í Biblíunni þar sem stendur skýrum stöfum að páfinn, forsetinn eða nokkur annar megi fordæma stríð?

Það er merkilegt nokk eiginlega ekkert sem stendur skýrum stöfum í Biblíunni en línan "Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð" er samt frekar augljós.


eggert egg - 18/08/05 13:32 #

Óli minn, Jésús er maðurinn sem biblían fjallar að stórum hluta um. Kristnir menn reyna að lifa lífi sínu eftir boðum Jésú og reglunum sem hann setti fram. Við sjáum að Jésú kom eins fram við alla menn hvort sem þeir voru sjúkir menn, "heiðingjar", konur og herforingjar.

Hvergi hvetur hann menn til að fara í trúarstríð, hvergi segir hann :"drepið menn í mínu nafni". Á hinn bóginn vill hann gera alla menn að sínum lærisveinum...alla menn.

Auk þess þýðir lítið að vera með kristniboð ef þú ætlar að drepa alla heiðingja......hverja ætlarðu þá að kristna? Þetta hlýtur þú að sjá er mjög heimskulegt.

Getur þú bent mér á einhvern sem var meira friðelskandi en Jésús sem bannaði mönnum að berjast fyrir sig...jafnvel þegar að hann vissi að dauðinn vofði yfir...ég efast um það.

Kirkjunnnar menn hafa framið mörg óhæfuverk í nafni kristninar í hennar óþökk það er alveg satt. En að halda því fram að kristni snúist um að pynta, myrða og deyða fólk skil ég ekki.

Vésteinn útskýrir það sem þú segir í svari þínu ágætlega : ",,Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð." (Matteus, 10:34, sjá Biblíuna). Þetta eru orð sem auðvelt er að misskilja.

Kristnin var ógn við valdastéttir Rómarveldis. Þegar þær gátu ekki yfirbugað kristnina með valdi var hún innlimuð í valdið og jafnvel mætti segja að valdastéttin hafi þá einfaldlega yfirbugað hana innanfrá. Þegar kristni var orðin ríkistrú í Rómarveldi gat hún að sjálfsögðu ekki lengur verið að boða skilyrðislausan frið eða mannkærleika. Sem ríkistrú varð kristni að vera "ábyrgt" trúarbragð, styðja keisarann þegar á þurfti að halda, auk þess sem keisarinn gat farið að berja á heiðingjum í nafni kristninnar og svo framvegis. Kirkjan, sem stofnun, var svipt þyrnikórónu friðarhöfðingjans. " http://www.vantru.net/2004/03/15/00.55/

Engin rök eru í ritgerð þinni, aðeins hugarórar og skoðanir vantrúa manns. Þú átt auðvitað rétt á skoðunn þinni og ég á minni. En þessi ritgerð er greinilega skoðun þín. Þetta er náttúrlega glórulaus geðsýki.

En þetta er þín skoðun.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 14:14 #

Ertu örugglega ekki að villast á greinum?

Biblían fjallar ekki að stórum hluta um Jesús heldur í einungis því sem mætti kalla stuttum viðauka hennar.

Ég er ósammála Vésteini um að það þurfi að rangtúlka þessi orð Jesú, ég held að Vésteinn sé þarna að falla fyrir seinni tíma áróðri kirkjunnar um að Jesú hafi verið friðarhöfðingi.

Það að Jesú hafi stöðvað lærisveinana í því að berjast fyrir sig er vegna þess að hann þurfti að uppfylla örlög sín en ekki af því að hann var svo góður. Hann þurfti að halda þeim á lífi til að stunda trúboð. Það er ekkert friðelskandi við þetta, kallinn var bara með Messíarduld á háu stigi.

Jesús kom ekki eins fram við alla menn og konur. Hann auðmýkti kanversku konuna og lét konur almennt þjónusta sig. Ég held að það megi alveg túlka orð Jesú um að gera alla menn að lærisveinum þannig að það ætti að gera alla gyðinga að lærisveinum.

En ef þetta á við um nákvæmlega alla menn þá spyr ég hvað Jesús ætlaðist til að gert væri við þá sem ekki vildu kristnast?

Það er svo sem eins fáránlegt að pæla í hvað Jesú var að hugsa og að rökræða hvað Óðinn var að gera. Hvorugur var raunverulegur maður.

Það sem skiptir máli er að það er alveg eins hægt að finna réttlætingu fyrir stríði og fyrir friði í boðskap Jesú. Þetta er bara spurning um að túlka hlutina fram og til baka. Það er kannski ástæðan fyrir vinsældum Jesú, allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi hjá honum þó þeir séu ósammála öðrum aðdáendum hans.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 14:31 #

En ef þetta á við um nákvæmlega alla menn þá spyr ég hvað Jesús ætlaðist til að gert væri við þá sem ekki vildu kristnast?

Við vitum allt um það, Jesús segir sjálfur að slíkum villutrúurum verði saman safnað á efsta degi og þeir sendir í eldsofnana. Mjög göfugut og siðlegt, Eggert Egg. Þú ert talandi dæmi um mann með kristilegt tvísinni.


eggert egg - 18/08/05 15:56 #

Þegar hann segir við mennina sem ætla að grýta konuna: "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum"... Þegar hann fyrirgefur skattpíningarmeistarnum og gerir hann að lærisveini sínum... Þegar hann þvoði fætur Maríu Magdalenu...

Eru þetta gjörðir stríð,-múgæsingarmanns eða karlrembusvíns???

Kristniboðunin :"Farið því og gjörið allar þjóðir að yðar lærisveinum" Hvernig í ósköpunum geturðu túlkað þetta þannig að þarna sé bara verið að tala um gyðinga?

Boðorðin 10 í öllu sínu veldi... Gullna reglan :"Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér þeim og gjöra" Eru þetta skilaboð frá Guði sem er æstur í trúarbragðastríð, pyntingar, morð og kvalræði...gaman þætti mér að sjá ykkur reyna að túlka þessi orð þannig?

Svo segir þú að Jésús hafi verið með Messísarduld á háu stigi...ég veit ekki hvað ég á að segja við þessu svo ég svara því bara þannig til að ég telji þig Óla Gneista hafa Óla Gneistaduld á háu stigi...

Ef þú ert raunverulega kristinn þá notarðu ekki biblíuna sem afsökun fyrir stríði...það er bara í svo hróplegu ósamræmi við allt sem í henni er.

Jæjans Birgir minn. Ef þú trúir á Guð þá ferðu til himna. Ef þú trúir ekki á Guð þá ferðu ekki til himna. Þannig er það bara. Þetta er eins og sagan um litlu gulu hænuna... Ef þú nennir ekki að baka kökuna...áttu þá að fá bita af henni? En hvaða máli skiptir þetta svo sem fyrir þig þar sem þú trúir því ekki einu sinni að kakan sé til? Þú getur ekki heimtað sneið ef þú trúir ekki að kakan sé til...það væri bara geggjun, ekki satt :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 16:13 #

Boðorðin 10 í öllu sínu veldi... Gullna reglan :"Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér þeim og gjöra" Eru þetta skilaboð frá Guði sem er æstur í trúarbragðastríð

Eru þetta skilaboð frá guði yfir höfuð? Af hverju í ósköpunum heldurðu það?

En hvaða máli skiptir þetta svo sem fyrir þig þar sem þú trúir því ekki einu sinni að kakan sé til? Þú getur ekki heimtað sneið ef þú trúir ekki að kakan sé til...það væri bara geggjun, ekki satt :)

Hver er að tala um að heimta sneið? Ég veit sem er að enginn kemst nokkurntíma til himna, enda er þetta allt saman haugalygi. Hefurðu ekki enn áttað þig á því?

Það eru skilaboðin sem ég er að gagnrýna. Hið siðlausa "ef þið gerið ekki eins ég segi farið þið í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna." Eða með hans eigin orðum:

Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

(Mt13:41)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 16:22 #

Hver eru siðferðileg markmið Jesú?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 16:24 #

Boðorðin 10 eru bull

Bara rétt svona til að sýna ykkur hvað það er í raun og veru sem Eggert Egg lítur á sem mælistiku alls siðferðis.


Eggert egg - 18/08/05 16:32 #

Guð lét Móse í té boðorðin 10 (15 ef þú ert Mel Brooks aðdáandi). Það stendur í biblíunni góðu. Og afhverju í ósköpunum held ég það...nú afþví að ég er kristinn...ég hélt þú hefðir kanski áttað þig á því.

Haugalygi segir þú.

Ef ég hef rangt fyrir mér þá hef ég ekki tapað neinu. Þá hef ég trúað á Guð sem er góður og stendur fyrir kærleika og ást og reynt að lifa lífi mínu með það að leiðarljósi... er það svona rosalega slæmt? Er það það sem þú ert að reyna að frelsa okkur frá, í þessari vantrúarkrossferð þinni hér á internetinu?

Þú segir :

"Það eru skilaboðin sem ég er að gagnrýna. Hið siðlausa "ef þið gerið ekki eins ég segi farið þið í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.""

Magnað. Þú, Birgir minn, átt augljóslega erfitt með að eiga þér eitthvað yfirvald og er illa við að fylgja reglum, þú ert greinilega svolítill "rebel" í þér.

Er siðlaust að refsa þeim sem eru brotlegir við settar reglur?

Mér finnst nú svolítið geggjað að halda því fram...nema þá að þú viljir afnema allt sem við köllum lög. Út af því að það er svo siðlaust að refsa fólki fyrir að fara ekki eftir því sem því er sagt.

Fangelsi ættum við þá líka að afnema því að þar er fólk sem hefur valdið hneykslunum og ranglæti og þar grætur fólk og gnístir tönnum.

Já já já, siðlaust að refsa þeim sem eru brotlegir?

Þú segir það...

Já Birgir persónulega finnst mér þú satt best að segja vera svolítill "Rebel without a cause".


Kári Rafn - 18/08/05 17:52 #

Síðast þegar ég vissi voru þeir sem senda fólk í fangelsi og setja lög ekkert að spila sig sem einhverja algóðar almáttugar verur svo þessi samlíking hjá þér gengur eiginlega ekkert upp... vildi bara svona koma þessu á framfæri


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/05 18:11 #

Ef ég hef rangt fyrir mér þá hef ég ekki tapað neinu.

Pascal-rökvillan.

Sjálfur segir þú:

Ef þú trúir á Guð þá ferðu til himna.

Þú ert ekki einu sinni að tala á forsendum 50/50 líkinda eins og Pascal, heldur ertu alveg 100% viss. Ef þú trúir þessu - þá gerist þetta.

Eggert minn, það gerist ekki. Það eina sem gerist er að þú eyðir öllu lífi þínu í að ákalla barnalega ímyndun fornmanna, sem af einhverjum ástæðum lifir enn góðu lífi í hugskoti manna, þeirra sem ástunda ásókn í fávisku og leyfa költyfirvöldum að ljúga að sér.

Ég er að reyna að benda á tjónið sem þú og aðrir vinnið sjálfum ykkur, ykkar eigin lífshlaupi, ykkar eigin skynsemi og heimsmynd.

Og svo borgið þið fyrir það stórar upphæðir. Já, m.a.s. ég þarf að borga fyrir að þið séuð að þessu!

Magnað. Þú, Birgir minn, átt augljóslega erfitt með að eiga þér eitthvað yfirvald og er illa við að fylgja reglum, þú ert greinilega svolítill "rebel" í þér.

Er það augljóst? Ansi er þetta ómerkileg afgreiðsla hjá þér, Ad hominem árás í stað þess að svara því sem ég tala um.

Mér er ekkert illa við að fylgja reglum. Séu reglurnar skynsamlegar og auð-rökstyðjanlegar fylgi ég þeim glaður. Ég á meira að segja ekki í neinum vandræðum með að fylgja reglum sem mér þykja bjánalegar, ef út í það er farið. En þær gagnrýni hástöfum með öllum tiltækumr rökum.

Er siðlaust að refsa þeim sem eru brotlegir við settar reglur?

Það fer eftir því hver refsingin er. Ef hún er að brenna grátandi og stynjandi í eldsofni til eilífðar fyrir það eitt að kaupa ekki barnalega hugmyndina um hinn júdókristna guð sem skipti sér í þrennt, þá er það fullkomlega siðlaus dómur, já.

Já já já, siðlaust að refsa þeim sem eru brotlegir?

Þú segir það...

Nei, ég sagði það ekki. Þarna ertu búinn að gera mér upp skoðanir linnulaust. Var þetta viljandi rökræðutrikk hjá þér eða óviljaverk?


Finnur - 18/08/05 22:46 #

Finnur, það að þú reynir að snúa út úr orðum mínum á þann hátt að ég styðji ofbeldi og kúgun er afar ósmekklegt. Fyrir utan að það sé siðlaust að reyna að berjast gegn kjaftæði með kúgun og ofbeldi þá virkar það einfaldlega ekki.
Ég var nú alls ekki að reyna að snúa útúr orðum þínum Óli, en þú ert sammála mér í því að kínverks stjórnvöld beita kúgun og ofbeldi gegn hindurvitnum. Og málið er að þau hafa enga þörf á geðsýki kristinnar trúar til þess, þeim er það fullkomlega kleyft með styrk sinnar vantrúar. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar dregið er samasem merki milli kristinnar trúar og ofbeldis.


Eggert egg - 18/08/05 23:25 #

Pascal rökvillan á ekki við hér og ert þú að gera mér upp skoðun. Ég trúi á Guð en tók þetta aðeins sem dæmi um hvernig málin stæðu ef ég hefði rangt fyrir mér..hvaða skaða væri ég þá að gera heiminum í kringum mig. Gerðu mér greiða...ekki gera mér upp skoðanir sem ég hef ekki, þó svo að þú hafir augljóslega mjög gaman að því... takk fyrir.

Þú segir svo : "Eggert minn, það gerist ekki. Það eina sem gerist er að þú eyðir öllu lífi þínu í að ákalla barnalega ímyndun fornmanna, sem af einhverjum ástæðum lifir enn góðu lífi í hugskoti manna, þeirra sem ástunda ásókn í fávisku og leyfa költyfirvöldum að ljúga að sér.

Ég er að reyna að benda á tjónið sem þú og aðrir vinnið sjálfum ykkur, ykkar eigin lífshlaupi, ykkar eigin skynsemi og heimsmynd. "

Allar þessar staðhæfingar þínar eru byggðar á þinni skoðun, hversu paranoid sem hún nú kann að vera. Hvaða tjón er ég að vinna mér og mínu lífshlaupi með því að fylgja boðum kærleiksríks og elskandi Guðs? Það er alveg sama hvernig þú snýrð út úr hlutum, slítur úr samhengi eða kemur með staðhæfulausar yfirlýsingar. Minn Guð er góður.

Þú svarar spurningu minni :

"Er siðlaust að refsa þeim sem eru brotlegir við settar reglur?"

Á þennan hátt ::

"Ef hún er að brenna grátandi og stynjandi í eldsofni til eilífðar fyrir það eitt að kaupa ekki barnalega hugmyndina um hinn júdókristna guð sem skipti sér í þrennt, þá er það fullkomlega siðlaus dómur, já."

Má ég aðeins benda þér á eitt atriði Birgir minn... Þú trúir ekki á Guð...afhverju í ósköpunum ertu þá svo barnalegur að kvarta yfir því að fá ekki að fara til himna...hvaða máli gæti þetta þá hugsanlega skipt þig fyrst þú trúir ekki á Guð og himnaríki.

Afhverju er það slæmt að þeir sem trúa á Guð fari til himna en hinir ekki?? Ef þeir vilja ekki trúa á Guð þá eiga þeir ekki að vera að væla yfir því að verða sendir á einhvern annan stað sem þeir trúa ekki heldur að sé til. Þessvegna skil ég ekki þetta tilgangslausa vol í þér.

Eitt enn...þú vænir mig um árásir á þig þegar ég kalla þig "rebel"... hvað kallar þú það þá þegar þú segir mig sækja í fávisku og að láta ljúga að mér??? Er það ekki árás á mig? Ertu þá ekki að segja, nánast berum orðum, að ég sé fífl?

Kanski sæki ég í fávisku og lygar, eins og þú segir, það er kannski akkúrat ástæðan fyrir því að ég er að tala við þig hérna Birgir minn. En hei, hvað veit ég?


kristín - 19/08/05 01:05 #

finnur, mér finnst ekki hægt að setja þetta eins upp. biblíuna td er hægt að nota sem vörn fyrir ofbeldisverkum, og það hefur verið gert, en kínverjar geta ekki notað vantrú sína til að afsaka neitt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/08/05 01:27 #

eggert skrifar:

Minn Guð er góður.

Svo ver hann trú sína sem gengur meðal annars út á að þessi gvuð brennir í helvíti alla þá sem ekki trúa á hann. Lykilatriði trúar hans er að til að vera hólpinn þarf að trúa á hindurvitni án raka, þeir sem ekki gera það, þeir mega éta það sem úti frýs, til eilífðar.

Ég ætla að endurtaka orð eggert

Minn Guð er góður.

Gvuðinn hans eggert stendur fyrir stöðugri helför. Þeir sem ekki á hann trúa, þeir munu brenna, þeir munu stikna.

En eggert, hann er ekki í neinum vanda, því hann segir bara

Minn Guð er góður.

Gvuð minn góður!

Skaðinn felst í því að fólk trúir þessu og finnst það ósköp eðlilegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/08/05 02:34 #

Pascal rökvillan á ekki við hér og ert þú að gera mér upp skoðun.

Þú sagðir:

Ef ég hef rangt fyrir mér þá hef ég ekki tapað neinu. Þá hef ég trúað á Guð sem er góður og stendur fyrir kærleika og ást og reynt að lifa lífi mínu með það að leiðarljósi... er það svona rosalega slæmt?

Þetta er nákvæmlega það sem Pascal sagði, að trúa á guðinn er ávísun á ávinning ef hann er til, en menn hafa ekki tapað neinu sé hann ekki til.

Ég bendi á að menn tapa heilmiklu þegar fyrirgera lífi sínu fyrir bjánaleg hindurvitni og forheimskun.

Ég trúi á Guð en tók þetta aðeins sem dæmi um hvernig málin stæðu ef ég hefði rangt fyrir mér..hvaða skaða væri ég þá að gera heiminum í kringum mig. Gerðu mér greiða...ekki gera mér upp skoðanir sem ég hef ekki, þó svo að þú hafir augljóslega mjög gaman að því... takk fyrir.

Er ég að gera þér upp skoðanir? Segi ég einhversstaðar að trú þín skaði heiminn í kring um þig? Þarna ert þú öllu heldur að gera mér upp skoðanir, því ég sagði:

Ég er að reyna að benda á tjónið sem þú og aðrir vinnið sjálfum ykkur, ykkar eigin lífshlaupi, ykkar eigin skynsemi og heimsmynd.

Rökræðutaktík þín er fössí og ómerkileg.

Allar þessar staðhæfingar þínar eru byggðar á þinni skoðun, hversu paranoid sem hún nú kann að vera.

Rökstuddri sannfæringu já. Hversu vel rökstudd er sannfæring þín? Af hverju er þér fyrirmunað að koma auga á að staðhæfingar trúarbragða þinna eru lygar einar og það ekki einu sinni sennilegar.

Hvaða tjón er ég að vinna mér og mínu lífshlaupi með því að fylgja boðum kærleiksríks og elskandi Guðs?

Þú ert t.d. haldinn blindu á hve lítt siðleg sum boð þessa guðs þíns eru. Og svo ertu líka alveg blindur á hve gersamlega siðlaus sá dómuri og refsing eru sem dregin eru upp af þeim sem í árdaga kokkuðu upp þessa vitleysu alla. Sérðu ekki hvers lags monster sá guð væri, væri hann í alvöru til, sem ákveðið hefði þessi viðurlög við þeim glæp að kaupa ekki eitthvað sem lítur út fyrir að vera barnalegt og ósennilegt kjaftæði?

Þú trúir ekki á Guð...afhverju í ósköpunum ertu þá svo barnalegur að kvarta yfir því að fá ekki að fara til himna...hvaða máli gæti þetta þá hugsanlega skipt þig fyrst þú trúir ekki á Guð og himnaríki.

Ég var ekki að því. Ef ég var að kvarta yfir einhverju þá er það þessi siðlausa refsing sem þér finnst í góðu lagi að fari fram á öllum þeim sem ekki kaupa bjánaskapinn. Ég er ekki að væla neitt yfir því að ég verði sendur einhvert eftir dauðann heldur benda á hve ósiðlegt og grimmúðlegt þetta hugmyndakerfi er sem þú aðhyllist. Ef þér finnst svona fyrirkomulag í góðu lagi ertu siðlaus fáviti. Annað var það nú ekki.

Eitt enn...þú vænir mig um árásir á þig þegar ég kalla þig "rebel"...

Ég sakaði þig um rökvillu, um það að sinna ekki því sem til umræðu er, heldur byrja að draga upp einhverja ósanna mynd af mér sem kemur málefninu ekkert við.

hvað kallar þú það þá þegar þú segir mig sækja í fávisku og að láta ljúga að mér???

Ábendingu. Þú mættir m.a.s. taka hana til greina.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/08/05 03:05 #

Ertu þá ekki að segja, nánast berum orðum, að ég sé fífl?

Nei. Það er með ólíkindum hve ósennilegu rugli er hægt að ljúga að annars eðlilegu og skynsömu fólki. Það er eins og menn hafi almennt lítið viðnám gagnvart kjaftæði, sér í lagi ef það tengist yfirnáttúru á einhvern hátt.


Ormurinn - 19/08/05 12:31 #

"Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín." Tekið héðan: http://www.vantru.net/2003/11/27/15.58/

til Eggerts Eggs Þú byrjaðir á að minnast á boðorðin 10 sem einhvern siðferðisboðskap.

Nú meika sum alveg sens en sérðu ekkert athugavert við t.d. annað boðorðið? Ef ÞÚ brýtur þessa reglu og tilbiður og dýrkar líkneski af einhverjum þá mun guðinn þinn góði ekki refsa þér, heldur BÖRNUNUM þínum og barnabörnum og barnabarnabörnum. Hvers eiga þessi ófæddu grey að gjalda? Er þetta ekki nokkuð ósanngjarnt?

Nú er ég með slæmar fréttir fyrir þig. Í hvert skipti sem þú ferð inn í kirkju lýturðu höfði og tilbiður LÍKNESKI af manni sem hefur verið krossfestur og þú trúir að sé sonur guðs.

Aumingja börnin


Sigrún og Ísafold - 27/04/06 12:15 #

Mér finnst rétt að kristni er ekki afsökun fyrir stríði og illvirkjum. Og ísafold finnst það líka..;o)Ég held hinsvegar ekki að kristni sé geðsýki


sigrún og Ísafold - 27/04/06 12:17 #

En ísafold finnst samt að það er hægt að láta kristni verða að geðsýki...........................................


Olina - 29/04/06 03:21 #

Jæja Þið gáfuðu karllíkneski. Týpískt að allt sé komið í hártoganir og rifrildi. Eggert ég stend með þér. Guð er auðvitað góður. Hann gaf okkur mönnunum frjálsan vilja og við kennum Guði svo um þegar einhver gerir eitthvað í Guðs nafni sem ekki er gott. Eins og Blair og Bush sem fannst þeir vera eitthvasð betri en hinir því þeir eru kristnir. Þvílíkur hroki. Ormur, var Eggert eitthvað að segja að hann tilbæði líkneski af jesú? Þetta er bara mynd eða stytta eins og myndin af ömmu í stofunni. Góð kona sem ég vil hugsa til. Ekki tilbið ég hana samt. Varið ykkur hrokagikkir....Það að gera lítið úr skoðunum og trú annara ætti akkúrat að vera það sem við ættum ekki að gera. Annars eruð þið ekkert skárri en þeir sem þið eru að fordæma. Ef eitthvað er alveg örugglega rétt hjá Jesú þá er það "Dæmið ekki svo þið verðið ekki dæmdir" og "Elskið náungann eins og sjálfa ykkur". Þá verðiði auðvitað að elska sjálfa ykkur og það gera ekki margir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/04/06 03:30 #

Varið ykkur hrokagikkir....Það að gera lítið úr skoðunum og trú annara ætti akkúrat að vera það sem við ættum ekki að gera. Annars eruð þið ekkert skárri en þeir sem þið eru að fordæma.

Yndislegt! Og ertu þá sjálf eitthvað skárri en þeir sem þú fordæmir hér? ;)


Olina - 30/04/06 20:11 #

Nei en ég er samt ekki að fordæma ykkur fyrir að hafa aðrar skoðanir en ég, en að dæma ykkur fyrir að dæma þá sem hafa aðrar skoðanir en þið. Ég myndi hins vegar ekki gera lítið úr þinni trú þó þú tryðir á Mercedes Bens. Ég myndi ekki nota orð eins og "hindurvitni og forheimska". Það er hroki... Ég vil bara benda á að þessi umræða er komin á dáldið lágt plan.
Þess vegna þurfum við stúlkur að láta heyra í okkur og lyfta þessu á örlítið hærra plan. :- ) Enginn hroki í mér, nei, nei.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/04/06 22:46 #

Jú Olina, þú ert að gera þig seka um nákvæmlega það sama og þú sakar okkur um. Það er bara mín skoðun (og það m.a.s. rökstudd) að trúarbrögð séu hindurvitni. Af hverju berð þú ekki virðingu fyrir þeirri skoðun minni, heldur fordæmir mig út frá henni og kallar hrokagikk? Þarf í þínum augum ekki að bera jafn mikla virðingu fyrir skoðunum mínum og trúarskoðunum?

Eða er kannski bara málið að þér finnst þú ekkert þurfa að bera virðingu fyrir skoðunum mínum af því að þannig á það að vera? En áttaðu þig þá á því að það gildir líka um trúarskoðanir manna. Slíkar skoðanir eru ekkert heilagari en aðrar skoðanir, heldur þvert á móti minna virðingarverðar, enda byggja þær alfarið á órökstuddum vaðli sem í versta falli getur verið stórhættulegur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.