Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Morgunblaðið hjálpar til við sölu kjaftæðis

Hinn vafasami doktorÍslenskir blaðamenn þjást af skelfilegu metnaðarleysi þegar kemur að umfjöllun um gervivísindi. Það er eins og þeim detti ekki í hug að efast um undarlegar fullyrðingar sem hinir og þessir furðufuglar koma með. Gott dæmi um þessa fáránlegu starfshætti er að finna í Morgunblaðinu þann 12. ágúst. Þar fjallar Kristín Heiða Kristinsdóttir um "hvítufræði" og Leonard Mehlmauer sem er "sérfræðingur" í þessum "fræðum". Það er eiginlega ekki hægt að fjalla um þetta án þess að ofnota gæsalappir.

"Hvítufræði" er kjaftæði, einfaldlega. Þessi "fræði" eru nátengd (eiginlega litli bróðir) "lithimnulestri" sem er einnig kjaftæði. Það eru nákvæmlega engin vísindi á bak við þetta. Þetta er ekki byggt á traustum grundvelli rannsókna. Þetta er einfaldlega nýaldarkukl dulbúið sem vísindi. Það er ekki hægt að fá upplýsingar um alhliða ástand manneskju með því að skoða hvítuna í augum hennar.

Ef maður skoðar Leonard Mehlmauer aðeins þá kemur nokkuð áhugavert í ljós. Á heimasíðu samtaka hans er því haldið fram að Mehlmauer sé doktor. Sé sú staðhæfing skoðuð aðeins þá kemur í ljós að doktorsgráða hans er frá Bernadean University. Sá háskóli er beinlínis svikamylla þar sem maður getur reddað sér gráðu án þess að þurfa að vinna fyrir henni. Gæti verið að Mehlmauer sé hugsanlega vafasamur karakter? Reyndar hélt hann "doktorsgráðu" sinni ekki á lofti í spjalli sínu við Morgunblaðið, hugsanlega bjóst hann við að blaðamaðurinn myndi vinna heimavinnu sína (hann hefði ekki þurft að hafa áhyggjur). Leonard virðist einnig vera fylgismaður þessa undarlega náunga sem mér sýnist að sé einhvers konar guð í mannslíki.

Hvað er gert við blaðamenn sem standa sig svona illa í starfinu? Er ekki hægt að reka þetta fólk? Það er ekki að vinna vinnuna sína. Morgunblaðið þykist vera fréttamiðill sem veitir fólki traustar upplýsingar um heiminn en í þessu tilfelli þá bregst blaðið algerlega hlutverki sínu. Þeir sem lásu þessa grein í Morgunblaðinu eru í dag verr upplýstir heldur en þeir voru fyrir (nema þeir sem sáu í gegnum ruglið). Morgunblaðið er að stuðla að fáfræði.

En hvað er Leonard Mehlmauer, hinn vafasami doktor, að gera á Íslandi? Hann er að útbreiða boðskapinn. Hann er að kenna fólki að lesa hvítur. Ekki var minnst á hvað það kostar mikið að læra "fræðin" í Morgunblaðinu en samkvæmt heimasíðu Mehlmauer þá kostar þriggja daga námskeið um 350 dollara sem er rúmlega 20.000 krónur. Það er undarlegt að fólk skuli leggja á sig hinn langa veg læknanámsins þegar þetta stendur til boða. Það er reyndar svo að maður getur víst ekki lært allt um hvítufræði á þremur dögum, til þess þarf að fara á níu daga námskeiðið. Fær Morgunblaðið eitthvað borgað fyrir að stunda svona auglýsingastarfssemi? Eða er umfjöllun um kjaftæði ókeypis?

Útbreiðsla gervivísinda, sérstaklega skottulækninga, er raunverulegt vandamál sem íslenskir blaðamenn þurfa að takast á við. Skottulækningar eru of oft álitnar meinlausar, gjarnan er spurt "hvern skaðar þetta?". Svarið ætti að vera augljóst. Í besta falli tapar fólk bara peningum sem er nú nógu slæmt. Í tilfelli "hvítufræðinnar" (og "lithimnulesturs") hefur það komið fyrir að heilbrigt fólk sé greint með sjúkdóm þegar ekkert amar að. Það versta er hins vegar þegar sjúkt fólk fær ranga greiningu á eðli veikinda sinna. Í raun getur þetta verið lífsspursmál og er ábyrgð fjölmiðla því mikil.

Óli Gneisti Sóleyjarson 13.08.2005
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 13/08/05 03:43 #

Ætli þessi mæti maður hafi þá fengið sína doktorsgráðu eftir níu daga námskeiðið?

(Eða ætli hann hafi bara stungið tuttugu dollara seðli í sjálfsala?)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 13/08/05 03:47 #

...og þessi Adi Da kallar sig "The Promised God-Man" - ætli Ruben Bolling gæti farið í mál við hann vegna höfundarréttar? (Sjá hér til skýringar.)


hildigunnur - 13/08/05 10:59 #

það var líka eitthvað um þetta í Fréttablaðinu. Ótrúlegt kjaftæði


Óli Gneisti Sóleyjarson (meðlimur í Vantrú) - 13/08/05 11:14 #

Fréttablaðið sleppur af því að þeir eru hættir að senda mér blaðið, bölvaðir.


annawyrd - 13/08/05 15:09 #

þetta er skammarlegt. fólk tapar alveg virðingunni af að taka þátt í svona (peningunum, skynseminni...) Það er ekki alveg ásættanlegt að svona sé starfi blaðamanna vaxið, þegar augljósir skottulækninga karakterar mæta á svæðið.


Rakel - 23/09/05 23:26 #

Ég hef ekki mikinn áhuga á að vita úr hvaða kornfleks pakka þessi maður fékk sína doktorsgráðu, hinsvegar væri áhugavert að komast að því hjá hvaða menntastofnun þessi blaðamaður stundaði nám? Getur verið að hann/hún hafi óvart misst af öllum þeim tímum þegar fjallað var um tilvitnanir?

Hefur einhver krafist þess að blaðamaðurinn styðji mál sitt? Það væri gaman að sjá hvernig hann svaraði því.


Stefán - 10/11/05 08:19 #

Þið eruð ekkert smá þröngsýnir á allt sem þið eruð að kalla kjaftæði, kallast varla kjaftæði þar sem þetta hefur breytt lífi mínu og ef ég hefði ekki kynnst þessu væri ég mjög veikur maður í dag!!

Þið ættuð að skammast ykkar allir 3 sem nokkurn tíma skrifa einhverjar athugasemdir við bullið í ykkur.. leyfið fólkinu að velja og þeim að dæma sem hafa prufað það sem þið viliðkalla skottulæknigar, vestræn læknafræði er kjaftæði, hvað er læknir annað en manneskja bakvið borðið sem kann ekki að skrifa en klórar sig framúr því með illa skrifuðum lyfseðlum sem gera ekkert annað en að deyfa eða hylja einkennin!!

Vkv stefán


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/11/05 09:57 #

Þið eruð ekkert smá þröngsýnir á allt sem þið eruð að kalla kjaftæði,

Við erum afar þröngsýnir á allt órökstutt kjaftæði. Einnig afar þröngsýnir gagnvart fólki sem græðir á því að selja fársjúku fólki kjaftæði.

.. leyfið fólkinu að velja og þeim að dæma sem hafa prufað það sem þið viliðkalla skottulæknigar,

Gagnsemisrökvillan

hvað er læknir annað en manneskja bakvið borðið sem kann ekki að skrifa en klórar sig framúr því með illa skrifuðum lyfseðlum sem gera ekkert annað en að deyfa eða hylja einkennin!!

Tja, stundum er læknir það. Stundum er læknir manneskja sem beitir aðferðum sem hafa reynst vel til að lækna sjúkdóma sem annars hefði dregið sjúklinginn til dauða.

Annars er læknir manneskja sem hefur próf í læknisfræði og leyfi til að stunda lækningar.

Af hverju notar þú nafnið Stefán hér en Kolbeinn þarna?


Pó - 10/11/05 11:42 #

Hafiði lesið um DNA heilun? hehe... hnignun samfélagsins er alger...

Ég kenni grunnskólakerfinu um... það virðist hafa gleymst að kenna heilbrigða hugsun.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.