Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Á kannski að virða skoðanir annarra?

Við sem skrifum á þennan vef erum dugleg að vitna í fleyg orð Páls Skúlasonar úr inngangi hans að bókinni Siðfræði. Þar færir hann nefnilega fín rök fyrir því að við eigum ekki að virða skoðanir fólks ef við erum sannfærð um það að þær séu rangar og jafnvel hættulegar. Skoðanir manna eru ekkert einkamál þeirra. Með því að benda þeim á rangindi þess sem þeir halda fram leitast maður við að leiðbeina þeim frá villu síns vegar og hjálpa þeim á vegferð sinni. Þannig sýnir maður samborgurum sínum einmitt umhyggju og virðingu.

En er þessi skoðun Páls rétt? Eftir að hafa haldið úti þessum vef í vel á annað ár verð ég að segja að stundum spyr ég mig að því. Helsta orsökin fyrir þessum efasemdum er einfaldlega sú að fólkið sem maður er að reyna að eiga orðastað við, trúmennirnir þjóðkirkjuþjónarnir, hlusta oftast ekki á rökin manns. Þvermóðskan og sjálfbirgingshátturinn er með þeim hætti að útilokað er að þetta fólk falli frá uppáhaldsbábiljum sínum þótt búið sé að sýna því fram á með skotheldum rökum að órökstuddar skoðanir þess eru rangar, hættulegar og afar ógeðfelldar. Það þverskallast um leið við að hrekja gagnrýni manns og sýna fram á gildi skoðanna sinna, en lætur sér endalaust sárna og afgreiðir mann sem óalandi og óferjandi götustrák sem engum orðum er eyðandi á.

Ég tel okkur hér hafa tekist með ágætum hætti að sýna fram á að við eigum ekki að leyfa fólki að hafa skoðanir sínar út af fyrir sig. Sjáið bara hvernig sköpunarhyggjan tröllríður bandarísku samfélagi, hvernig ranghugmynd sem fær næði til að grassera brýst að lokum út í yfirgangi og tilskipunum um ásókn í fávisku.

En ef ekki er hlustað á rök manns, er þá ekki það næst besta í stöðunni bara að virða skoðanir annarra, til að valda ekki sárindum og leiðindum? Vera bara kammó við Vottann, þótt hann vilji frekar drepa barn sitt en leyfa blóðgjöf og leita bara til prests með vandamál sín, þótt sá hafi mestan áhuga á að brjóta niður reisn manna með því að svínbeygja fólk undir alvald guðsins síns? Myndi þetta ekki bara stuðla að friðvænlegri heimi, stuðla að því að fjölskyldulíf, þar sem ólíkar lífsskoðanir þrífast, haldi áfram að vera friðvænlegt og menn haldi skoðunum sínum bara fyrir sjálfa sig?

Þessi taktík til harmoníu í samfélaginu myndi kannski ganga upp ef og aðeins ef allir þátttakendur þess færu eftir þessu. Það myndi þá þýða að hinir trúuðu yrðu að hætta að troða sjúkum skoðunum sínum upp á alla í kringum sig. Prestar þyrftu að hætta að heimsækja leikskóla, trúboði yrði skilyrðislaust hætt í skólum, trúarítroðsla mætti ekki eiga sér stað í sumarbúðum, við skólasetningar, alþingissetningar, við vígslu húsa eða nokkrar þær athafnir sem ekki fara beinlínis fram innan tiltekins trúarhóps. Væri einhver möguleiki á því að fólk mismunandi trúarskoðana sé samankomið, þætti út í hött að halda á lofti einni lífsskoðun á kostnað annarra.

Íslenska Þjóðkirkjan hvetur sífellt til umburðarlyndis og þess að skoðanir manna séu virtar. Sér í lagi hefur ákallið um virðingu fyrir skoðunum færst í aukana eftir að trúin sem hún boðar hefur fengið meiri málefnalega gagnrýni og starfsmenn hennar eiga erfiðara með að verja bullið. En stofnun sem kallar eftir slíkri virðingu ætti sjálf að hafa frumkvæðið og sjá sóma sinn í því að hætta að ergja foreldra leikskólabarna með trúarítroðslu, sjá til þess að bænahald sé ekki stundað í skólum og síðast en ekki síst að trúleysingjar þurfi ekki nauðugir að styðja við bakið á heimsendakölti með skattfé sínu.

Ef menn vilja virðingu fyrir skoðunum annarra skal kirkjan aðskilja sig frá ríkinu og hætta að útvarpa messum, orði kvöldsins og morgunbæn. Hún skal vera álíka hlédræg þjónustustofnun og næsti endurskoðandi, auglýsa messur í fjölmiðlum og hafa símanúmer í símaskránni. Allt annað er hræsni og vanvirðing við skoðanir annarra.

En þetta er engin lausn, vandinn liggur annars staðar.

Maður sýnir ekki skoðunum annarra virðingu með því að gagnrýna þær ekki en halda fram sínum eigin sem sannleikur væri um leið. Þar liggur vandinn, kirkjunnar menn sýna ekki skoðunum trúleysingja og annarra vanvirðingu með því að gagnrýna þær, heldur boða þeir sínar eigin skoðanir sem heilagan sannleik og tekst með því að gera allar aðrar lífsskoðanir tortryggilegar. Þeir hljóta að afskrifa þær sem rangfærslur. Þarna er ekki verið að virða skoðanir, enda er rugl að ætla að reyna slíkt.

Með því að rökstyðja ekki hvað er rangt við trúleysi, hindúisma eða taóisma verður vanvirðingin sem kirkjan sýnir þessum skoðunum óheiðarleg. Ef þjónar hennar myndu byrja á að hrekja aðrar lífsskoðanir áður en þeir halda sínum eigin fram myndu þeir sýna skoðunum annarrra heiðarlega vanvirðingu.

Til að samfélagið haldist heilbrigt og sé í framþróun þurfa frjáls skoðanaskipti að geta átt sér stað. Það verður að vera hægt að gagnrýna og hrekja fáránlegar skoðanir og kynna mönnum í stað þeirra það sem maður telur vera heilbrigð lífsviðhorf. En til að sú samræða geti átt sér stað þurfa þeir sem gagnrýndir eru að svara fyrir sig og gagnrýna skoðanir hinna á móti.

Taka þátt.

Og allt þarf þetta fólk líka að hafa jafnan aðgang að eyrum fólksins. Það gengur ekki að kristni fái að vaða uppi í fjölmiðlum landsins endalaust með einhliða boðunaráreiti, en dagskrár- og ritstjórar vegri sér við að hleypa trúleysi og efahyggju í loftið eða á síður sínar.

Í raun er það alveg fáránlegt að sú staða sé á annð borð uppi, á 21. öldinni, að efahyggja, sem gengur út á skynsemi og gagnrýna hugsun, fái ekki inni á sama tíma og óskhyggju og forneskjulegum hindurvitnum er hampað í hvívetna.

Ég sakna þess að sjá ekki fulltrúa Þjóðkirkjunnar taka til máls hér. Halda mætti að það séu samantekin ráð þeirra að þegja þennan vef í hel. Ekki það að það muni takast, eða táknar þessi þögn kannski bara samþykki þeirra?

Eða skortir þá kannski mótrökin?

Birgir Baldursson 25.05.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 25/05/05 14:55 #

Góður Biggi. Sammála hverju orði.

Mikið skortir á vitsmunalegan heiðarleika trúmanna því trúleysi ruggar þeim bát að þeir geti eytt lífinu á því kósí rósrauða skýi að einhver stóri pabbi sé að passa uppá alla fram að dauðanum og þá hitti maður ömmu og afa og pabba og mömmu og allt verði aftur gott. Ég er sannfærður um að ótti við dauðann er rót að trúarsannfæringu/von flestra nútímamanna sem tileinka sér rökhyggju og raunsæi á öllum sviðum lífsins nema þessu eina. Af eigin reynslu þekki ég sársaukann sem því fylgir að sætta sig við að eftir dauðann bíði eilíf gleymska og það er stór biti fyrir flesta að fella heimsmynd sína af stalli. Þess vegna erum við trúlausir svona "vondir" í augum trúmanna. Við bara erum að skemma allt partíið.

Að hitta gagnrýnandi trúleysingja er fyrir trúmanninn eins og alka sem lendir í viðtali við ráðgjafa hjá SÁÁ, sumsé það er ekkert gaman að heyra að maður sé í tómu rugli og þá er nú auðveldara bara að gefa skít í raunveruleikann og fá sér einn kaldann hikk ......... :o)


jeremía - 25/05/05 17:23 #

Þessi grein er í mótsögn við sjálfa sig. Annars vegar er sú skoðun sett fram að ekki eigi að virða trú/skoðun annara "ef hún sé röng og hættuleg" en svo er restin af greininni kvörtun um að skoðun/trú ykkar sé ekki virt. Virðing fyrir trú annara (trúleysi er trú) virkar á báða vegu, ekki satt?
Í öðru lagi hafur enginn afsannað trú á Krist, þannig að fullyrðingar um skotheld rök o.s.f. eru túlkun ykkar á þeim. Í þriðja lagi er þessi trú ykkar á rökræður ofmetin. Rökræður sanna ekkert. Það er hægt að snúa út úr endalaust og koma með allskonar rök með og á móti en sá hefur ekki endilega rétt fyrir sér sem er orðsnjallari.


Ásgeir - 25/05/05 18:47 #

Rökleysa sannar heldur ekki neitt...


Ásgeir - 25/05/05 18:49 #

Rökleysa sannar heldur ekki neitt...


Þorsteinn - 25/05/05 20:03 #

Þrjár athugasemdir við svar Jeremía:

  1. Það er hægt að snúa út úr endalaust og koma með allskonar rök með og á móti en sá hefur ekki endilega rétt fyrir sér sem er orðsnjallari.

Eitthvað er hann að slá saman rökræðu annars vegar og ræðukeppni hins vegar. Í rökræðu ("alvöru" rökræðu) er ekki snúið útúr, og stíll skiptir litlu sem engu máli.

  1. Í öðru lagi hafur enginn afsannað trú á Krist

Hefur einhver einusinni reynt að afsanna trú á Krist? Það væri geðveiki að reyna. Menn gætu allt eins reynt að afsanna notkun hvítra klæða sem sorgarklæða, já eða bara afsanna notkun hvítra fata yfirleitt.

  1. Þessi grein er í mótsögn við sjálfa sig. Annars vegar er sú skoðun sett fram að ekki eigi að virða trú/skoðun annara "ef hún sé röng og hættuleg" en svo er restin af greininni kvörtun um að skoðun/trú ykkar sé ekki virt. Virðing fyrir trú annara (trúleysi er trú) virkar á báða vegu, ekki satt?

Í greininni er settur fram skýr munur á heiðarlegri og óheiðarlegri virðingu:

Með því að rökstyðja ekki hvað er rangt við trúleysi, hindúisma eða taóisma verður vanvirðingin sem kirkjan sýnir þessum skoðunum óheiðarleg. Ef þjónar hennar myndu byrja á að hrekja aðrar lífsskoðanir áður en þeir halda sínum eigin fram myndu þeir sýna skoðunum annarrra heiðarlega vanvirðingu.

jeremía - 25/05/05 20:53 #

Í fyrstu athugasemdinni er sagt að í rökræðum sé ekki snúið út úr. Þetta hlýtur að vera svokölluð "skotarökvilla", því ég hef verið öðru hverju í rökræðum um trúmál á spjallþráðum í nokkkur ár og hef oft séð útúrsnúning, ekki síst hjá fanatískum trúleysingjum. Hann er líka algengur hér. Ekki þarf heldur að leita langt því í næstu athugasemd kemur einmitt útúrsnúningur um hvít föt. Ég var að bregðast við fullyrðingum Birgis um "skotheld rök" og þá kemur eitthvað bull um að afsanna notkun hvítra fata.


Þorsteinn - 25/05/05 21:20 #

Enginn útúrsnúningur, en kannske misskilningur af minni hálfu.

Þú segir að enginn hafi afsannað trú á krist. Nú tala ég íslensku, og á íslensku þýðir þessi setning, að enginn hafi afsannað að fólk trúi á krist, eða með öðru orðalagi, að enginn hafi afsannað að fólk hafi trú á krist.

Og að reyna að afsanna það er á svipuðu stigi og að ætla að afsanna að fólk gangi í hvítum fötum.

Varstu kannske að meina eitthvað allt annað, þegar þú sagðir að enginn hefði afsannað trú á krist? Hvað þá?

Segjum svo að fyrsta atriðið sé í raun skotarökvilla ("engir alvöru..."). Ég skal gefa þér það eftir, svona rökræðunnar vegna. Ég skal þess vegna orða þetta öðruvísi: Rökræður ættu ekki að innihalda útúrsnúninga, vegna þess að rökræður snúast ekki um að sýna fram á að maður hafi rétt fyrir sér; markmið rökræðna er að komast að sannri niðurstöðu. Umræða sem hefur annað markmið getur vel haft mörg sameiginleg einkenni með rökræðu, en hún er ekki rökræða.

Og vel að merkja, "skotarökvillan" er ekki alltaf rökvilla. Ekki frekar en "fótfesturökvillan" sé alltaf rökvilla.


jeremía - 25/05/05 21:43 #

Ég var að meina að afsanna trú á Krist, þ.e. að Kristur hafi verið Guð, sbr. það sem Birgir sagði: "...þótt búið sé að sýna því fram á með skotheldum rökum að órökstuddar skoðanir þess eru rangar, hættulegar..."


Jón Valur Jensson - 25/05/05 22:24 #

Mikið er Birgir í háum söðli í þessari grein og við trúmennirnir auvirðilegir. Menn eiga ekki að gefa sjálfum sér svona vitnisburði eða alhæfa svona um andmælendur sína. Ég veit t.d. ekki til þess að ég og ýmsir aðrir trúmenn, sem hér hafa talað og ég hef í huga, hafi látið "sér endalaust sárna" eða að við afgreiðum hann Birgi "sem óalandi og óferjandi götustrák sem engum orðum er eyðandi á". Við höfum þvert á móti tekið við hann marga góða snerruna og einmitt VIRT hann (sbr. orð Páls Skúlas.) með því, ekki aðeins virt hann viðlits, heldur sem tækan í rökræðuna og stundum býsna sleipan á því svellinu.

Birgir hefur oft gert betur en þetta og oft virt OKKUR líka vel hæfa eða verðuga andstæðinga í rökræðuglímunni, hversu lítið álit sem hann virðist hafa á okkur í þessari grein hér ofar. Já, vonandi höfum við ÖLL gagn af þessum rökræðum – ég fyrir mína parta þykist t.d. ekki bara reyna að vera veitandi á stundum, heldur upplifi mig líka sem þiggjanda. – Og nú er ég enn að reyna að rifja upp orð, sem Tómas Aquinas mælti og voru á bók á ensku með efni frá honum: "We should love them both, those who [agree with us in the faith and those who object to us with arguments against the faith, because ...]". Þetta innan hornklofans er hluti efnisins, eins og mig rámar í það innihaldslega séð. Ég þarf að grafa upp hinn authentíska texta, Thómas er oftast mjög lærdómsríkur ...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/05/05 23:51 #

Mikið er Birgir í háum söðli í þessari grein...

Ad hominem.

Ég veit t.d. ekki til þess að ég og ýmsir aðrir trúmenn, sem hér hafa talað og ég hef í huga, hafi látið "sér endalaust sárna" eða að við afgreiðum hann Birgi "sem óalandi og óferjandi götustrák sem engum orðum er eyðandi á"

Þessum orðum er reyndar beint til Þjóðkirkjumanna, en ég sé það núna að það kemur ekki fram fyrr en seinna í greininni. Biðst velvirðingar á því.

Þessi grein á ekki við um þig, Jón Valur. Ég er harðánægður með hvað þú ert duglegur að ræða við okkur og í raun málefnalegur, þótt oft sértu ærið langorður og haldir fókusnum oft á einhverju sem er út fyrir efnið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 00:00 #

...en svo er restin af greininni kvörtun um að skoðun/trú ykkar sé ekki virt.

Rangt. Greinin er kvörtun yfir því að skoðun okkar á trú Þjóðkirkjufólks er ekki gagnrýnd af því fólki (lengur) heldur bara þagað. Það er algert virðingarleysi við okkur (frekar en skoðun okkar) að svara ekki gagnrýni okkar með mótrökum en halda samt áfram að boða trúna eins og sannleik. Boðunin er í raun ekki verjandi fyrr en búið er að hrekja gagnrýni okkar.

Hvernig getur trúleysi verið trú?


Már - 26/05/05 09:01 #

"Skoðun okkar á trú Þjóðkirkjufólks er ekki gagnrýnd af því fólki (lengur) heldur bara þagað. Það er algert virðingarleysi við okkur."

Þeir leituðu kannski á náðir eigin sagnaarfs.

Púki, fjósbiti, ... ?

:-)


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 16:18 #

Þessi þögn verður en fyndnari þegar maður veltir því fyrir sér að klerkar Þjóðkirkjunnar eru alltaf að kvarta yfir því hve lítið fari fyrir trúmálaumræðum.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 26/05/05 17:52 #

Það sem talsmenn Þjóðkirkjunnar eiga við er að auka þarf vægi kristinnar trúar í þjóðfélaginu að þeirra mati. Semsagt þeir vilja meiri pening í trúboð í leikskólum og þess háttar. Þeir vilja ekki ræða beint um trúmál enda koma þeir illa út úr slíkum umræðum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.