Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Innræting þagnarinnar

Í prédikun sem biskup flutti í Áskirkju 6. mars fjallar hann um trúboð og trúariðkun í skólum landsins. Biskup fellur í sömu gryfju og aðrir trúmenn og ruglar sama trúboði og kennslu.

Hávær þrýstihópur hefur haft sig mjög í frammi um að svipta meirihluta íslenskra barna möguleika þess að læra um grundvallar gildi siðmenningar okkar og iðka þá trú sem blessað hefur þessa þjóð og borið uppi í aldanna rás. Í þeirri umræðu hefur iðulega komið fram það sjónarmið að ekki eigi að kenna börnunum trú, heldur gefa þeim kost á að tileinka sér þá trú sem þeim sýnist þá og þegar þau hafi aldur til. En það er ekkert nema innræting - af verstu sort. Það að þegja um trú er innræting gegn trú.

Biskup fer með fleipur, enginn þrýstihópur hefur reynt að svipta meirihluta íslenskra barna möguleika á að læra um grundvallar gildi siðmenningar okkar. En það er rétt hjá biskup, margir eru þeirrar skoðunar að ekki eigi að "kenna trú" í þeirri merkingu að ekki skuli boða trú í skólum.

Ég hnaut um þessa setningu biskups: "En það er ekkert nema innræting - af verstu sort. Það að þegja um trú er innræting gegn trú."

Ég hefur áður gert tilraun til að fjalla um hlutleysi á heimasíðu minni. Það er ljóst að skiptar skoðanir eru um þetta mál, umræður við þessa grein um kristniboð er ágætt dæmi.

Hvað er biskup að segja? Jú, með því að boða ekki kristni í skólum er að hans mati í raun verið að boða "ekki kristni".

Er það virkilega svo að með því að fjalla ekki um ákveðnar kreddur sé í raun verið að innræta gegn þeim? Má ekki halda þveröfugu fram, með því að þegja um umdeildar hugmyndir sé í raun verið að auðvelda útbreiðslu þeirra. Tökum kynþáttafordóma sem dæmi, væri það ekki lóð á vogaskálar rasista ef ekkert væri rætt um kynþáttahatur á gagnrýninn hátt í skólum? Væri ekki verið að auðvelda útbreiðslu hugmyndar með því að gagnrýna hana ekki?

Að mati biskups eru tveir kostir í stöðunni. Jákvæð umfjöllun eða engin. Lítur hann ekki hjá þriðja möguleikanum, gagnrýninni umfjöllun? Er ekki eðlilegt að í skólum landsins sé fjallað á gagnrýninn hátt um kenningar sem stangast á við þá þekkingu sem mannkynið hefur aflað sér síðustu aldir? Er hægt að réttlæta að þagað sé um að persónan Jesús Kristur var sennilega ekki til og örugglega ekki í þeirri mynd sem við þekkjum hann? Er ekki í raun massíft trúboð að ekki skuli fjallað meira um grimmdarverk kirkjunnar í gegnum aldirnar? Má ekki halda því fram að þögnin um hindurvitni kristinnar trúar sé hin raunverlega innræting ef við notum röksemdafærslu biskups?

Ég fullyrði að í kennsluefni grunnskóla í kristnifræði er hvergi fjallað um kristni á gagnrýninn máta. Hvergi er bent á vafasamar fullyrðingar þessara trúarbragða og engin tilraun gerð til að leiðrétta rangfærslur.

Hugsanlega er krafan um að trúboði í skólum sé hætt og tekin upp hlutlaus kennsla um trú og trúarbrögð í staðin of hógvær. Kannski væri eðlilegra og árangursríkara að krefjast þess að tekin sé upp gagnrýnin umfjöllun þar sem miskunnarlaust væri flett ofan af trúarbrögðum, sýnt með rökum að fullyrðingar þeirra standast ekki og að þau skreyta sig með stolnum fjöðrum upplýsingarinnar. Þau hafi oft slæmar afleiðingar og eru alls ekki forsenda góðrar breytni.

Kannski biskup myndi þá taka undir kröfur um hlutlausa kennslu í þessum efnum.

Matthías Ásgeirsson 09.03.2005
Flokkað undir: ( Klassík , Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


kristín - 09/03/05 11:13 #

skemmtileg grein. já það er vonandi að gerðar verði breytingar á skólakerfinu okkar eins og þú talar um. gagnrýnin umfjöllun um trúarbrögð. ég var að rifja til baka og fermingarfræðslan sem ég fékk fór fram á skólatíma. auðvitað á hún ekki heima þar.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 09/03/05 12:53 #

Við gætum sett fram kröfur um að tekin yrði upp hvöss og harkaleg gagnrýni (auðvitað sanngjörn samt) á kirkjuna og trúna, og svo fallist á það sem málamiðlun að skólarnir yrðu hlutlausir í trúmálum!

Annars má kannski segja að kennsla í gagnrýninni hugsun jafngildi "innrætingu gegn trú" vegna þess að sá sem hefur tileinkað sér gagnrýna hugsun er ólíklegur til að gleypa við órökstuddum kreddum trúarbragðanna... Í því ljósi er óöryggi biskups skiljanlegt.


Eva - 09/03/05 22:38 #

Einu sinni var ég kennari í unglingabekkjum grunnskólans. Kenndi m.a. trúarbragðafræði. Í einum tímanum impraði ég dálítið á málefnum sem hugsanlega má flokka sem gagnrýni á kirkjuna. Ég sumsé hvatti fermingarbörnin til að velta innihaldi trúarjátningarinnar fyrir sér (túlkaði samt ekkert fyrir þau) og spyrja prestinn út í hugmyndir kirkjunnar um framhaldslíf, dómsdag og afstöðu til samkynhneigðra. Ég fann mig líka knúna til að segja þeim örlítið frá því hvaða álit Lúther hafði á mannkyninu en notaði þó engan veginn jafn gróft orðfar og hann sjálfur enda er það ekki við hæfi barna. Lengra gekk mín gagnrýni nú ekki en sum barnanna urðu hálf miður sín. Ekki af því að trúarkennd þeirra hefði verið særð heldur var greinilegt að þau töldu að ég væri að brjóta af mér með því að segja þeim þetta. Ein stelpan spurði mig hvort ég mætti tala um kristna trú fyrst ég væri ekki kristin, hvort það væri ekki "svona eins og pólitískur áróður". Ég var nóta bene að kenna trúarbragðafræði.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 10/03/05 11:50 #

Hver ætli viðbrögðin yrðu ef ég væri að kenna um kristni og segði við krakkana, þetta er bara rugl :-)

Held að margir foreldrar myndu fá taugaáfall.

Ég man eftir einum trúlausum kennara í Garðaskóla. Sá kenndi mér líffræði og minntist aldrei á trúarbrögð, það þurfti að tosa það upp úr honum að hann væri ekki trúaður. Þetta er eina manneskjan sem ég man eftir að hafi verið trúlaus. Eflaust voru það fleiri en þeir fóru þá leynt með það.

Fyrsta takmarkið ætti kannski að vera að ná trúleysingjunum út úr skápnum. Þetta er efni í pistil :-)


Snær - 10/03/05 12:27 #

Ein stelpan spurði mig hvort ég mætti tala um kristna trú fyrst ég væri ekki kristin, hvort það væri ekki "svona eins og pólitískur áróður".

Allt annað en hlutleysi í þessum málum jaðrar við áróður, en ef þú boðaðir þeim ekki annað en að hugsa (gagngrýnið?) um málið, get ég ekki séð að þú hafir sýnt nokkuð annað en hlutleysi, jafnvel þó þú hafir uppfrætt þau um hliðar málsins sem ekki eru í námsskrá. Bara svo lengi sem satt er sagt frá, og ekki einblínt á þætti út fyrir námskrá.

Annars hef ég haft nokkra kennara sem hafa getað rætt hlutlaust um trúarbrögð þrátt fyrir að hafa skoðanir ýmist með eða á móti þeim, þegar slíkt hefur borið á góma, en var ekki svo heppinn að hafa slíkan kennara í kristinfræðikennslu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.