Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kennsla og trúboð er ekki sami hlutur

Það er vægast sagt ótrúlegt að horfa upp á málflutning trúmanna í allri þessari umræðu um trúboð í skólum. Það er eins og flestir þeirra vilji ekki skilja að annars vegar er verið að tala um kennslu í kristnum fræðum, hinsvegar um beinhart trúboð.

Því eru helstu rök þessa fólks að gera okkur trúleysingjum það upp að vilja ekki að kristin fræði séu kennd innan veggja skólanna. En það er auðvitað alrangt.

Jón Gnarr á athyglisverðan pistil um þetta í Fréttablaðinu í gær. Strax í byrjun hans kemur í ljós misskilningurinn, eða öllu heldur djúpstætt skilningsleysið:

Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um kristin fræði í skólum. Margir eru heitir út af kristinfræðinni og vilja að henni verði hætt.

Og svo er afgangurinn af greininni bara nánari útfærsla á þessum röngu forsendum.

Nei, Jón, nei! Það er trúboð innan veggja skólans sem margir eru heitir út af. Ég held að varla amist nokkur trúleysingi við því að kennt sé um kristindóm, svo lengi sem það er undir merkjum fræðslu en ekki trúarinnrætingar. Sjálfur er ég fylgjandi því að meira verði kennt í þeim efnum en gert er. Ég vil að allt þetta ljóta og siðlausa sem stendur í Biblíunni sé kennt líka og bent á að þannig viljum við ekki haga okkur í dag. Við viljum ekki að fólk sé grýtt fyrir að safna eldiviði á hvíldardögum, að samkynhneigðir séu úthrópaðir, að konur eigi að þegja á samkundum og þar fram eftir götum. Einnig vil ég að blóðug saga kirkjunnar verði ekki falin fyrir börnunum og hjúpuð þeirri sykursætu góðsemi og umburðarlyndi sem kirkjan gefur sig út fyrir nú á tímum.

Í bloggi sínu í gær veltir Óli Gneisti því fyrir sér hvort verið geti að trúmenn beiti þessari hugsanavillu kerfisbundið til að eiga auðveldara með að rökstyðja mál sitt. Það er svo miklu þægilegra að gera mönnum upp vonda skoðun og ráðast svo bara á hana í stað þess að viðurkenna að andstæðingurinn hafi kannski rétt fyrir sér.

En því er ekki til að dreifa hjá Jóni Gnarr. Það sést best á þessu hér:

Ég held að þeir sem mótmæla því hæst að börnum séu kennd kristin fræði eigi fæstir börn. Kristin fræði gera nefnilega börnum bara gott. Það er gott að biðja og syngja Jesú bróðir besti. Manni líður vel á eftir. Og hver vill ekki að börnum sínum líði vel?

Flokkast það, Jón Gnarr, undir kennslu í kristnum fræðum að láta börn biðja og syngja Jesú bróðir besti? Maðurinn sér greinilega ekki nokkurn mun á kennslu og trúboði.

Að lokum: Siðfræði eru góð fræði. Í grunninn fjalla þau helst um að mönnum og samfélagi farnist best ef menn haldi aftur af þeim gjörðum sem bitna á samfélaginu En kannski er þetta eitthvað sem Jón og aðrir kristnir ofsatrúarmenn vilja ekki heyra. Getur það verið?

Birgir Baldursson 04.03.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Skólinn )

Viðbrögð


Sigurður Hólm Gunnarsson - 04/03/05 10:20 #

Takk fyrir ágæta umræðu um þessi mál á vef ykkar. Má ég benda ykkur (og Jóni Gnarr sem virðist sérstakur aðdáandi www.vantru.net) á samantekt mína á www.skodun.is um umfjöllun fjölmiðla síðustu daga um trúaráróður í skólum. Þar kemur skýrt fram að það er boðunin sem er gagnrýnd. Sjálfur er ég hlynntur öflugri FRÆÐSLU um trú og trúarbrögð í skólum.

Sjá: "Fjölmiðlaumfjöllun um trúboð í skólum dregin saman"


Guðjón - 04/03/05 10:26 #

Sæll, Mér skilst að það sé verið að amast við tvennu trúboði og trúariðkun. Þessi atriði eigi ekkert erindi í grunnskólann. Samkvæmt þessu eigi engin trúariðkun að fara fram í skólanum og ekkert trúboð. Er þetta ekki rétt skilið? Trúboð í skólum er ekki vandamál í mínu huga og trúariðkun er hið besta mál svo lengi sem engin líður fyrir hana. Ég get nefnt dæmi. Þegar dóttir mín var í fyrsta bekk gerðist sá hörmulegi atburður að ungur kennari sem börnum þótti mjög vænt um dó. Af því tilefni kom sókarpresturinn í skólann og ræddi við börnin auk þess sem haldar voru athafnir bæði í skólanum og í sóknarkirkunni. Þó ég sér ekki í þjóðkirkunni þá var ég mjög ánægur með hvernig tekið var á þessu máli m.a. vegna þess sem dóttir mín sagði um málið. Ég tel að mikil meirihluti íslendinga líti með sömu augum á þetta mál. Er það ekki rétt skilið hjá mér að þið lítið svo á að þetta dæmi sé skólabókardæmi um það sem ekki má í grunnskólanum.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 04/03/05 11:11 #

Ég lít svo á að þetta eigi alls ekki heima í skólum.

Ég tel að það sé ekki jákvætt að þjóðkirkjan hafi einokun á sorgarstundum. Það er engin ástæða til að svo sé.

Þegar válegir atburðir gerast finnst mér að kalla eigi til sérfræðinga, t.d. sálfræðinga sem vinna þetta á faglegan máta. Ég tel að alls ekki eigi að nota tækifærið til að selja kristni eins og nú er gert.

Flestir íslendingar þekkja ekkert annað, en hvernig stendur á því? Er það ekki útaf þessari einokun? Og hvaða raunverulega hjálp er í þeim hindurvitnafræðum sem beitt er af kirkjunnar mönnum? Hafa einhverjar rannsóknir sýnt að þetta sé til góðs?


Erik - 04/03/05 11:25 #

Guðjón munurinn er sá að annað er löglegt en hinn ekki. Það er löglegt að fræða börn um trú en að stunda trúboð er það ekki. Það stendur skýrt og greinlega í aðalnámskrá grunnskólanna. Vona að þú sjáir muninn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/03/05 11:36 #

Nú eru menn farnir að tala um þrjá hluti, trúboð, trúariðkun og trúarfræðslu. Af þessu þrennu tel ég að einungis trúarfræðslan eigi erindi í skólana. Athugaðu, Erik, að Guðjón talar um trúarástundun, ekki trúarfræðslu. Honum finnst þessi ástundun besta mál.

Í Frakklandi voru sett lög sem banna nemendum að bera trúartákn, en á sama tíma þvinga íslenskir kennarar börn til að taka þátt í trúarathöfnum einna trúarbragða. Svona erum við mikið barbarískari en menningarþjóðin.


Guðjón - 04/03/05 13:14 #

Erik, ég kenndi einu sinni kristinfræði í grunnskóla og ég hef oft boðað trú. Á þessu er mikill munur. Ég tel hér sé verið að gera úlvalda úr mýflugu. Ég þekki engin raunveruleg dæmi um trúboð í grunnskóla. Ég fór á sínu tíma í gegnum fermingfræðslu án þess án þess að það snert við mér eins og velheppnað trúboð þarf að gera.Mér finnst menn vera ofurviðkvæmir fyrir þessum málum. En auðvita þarf að vera fyrirkomulag þar sem allir eða flestir eru sáttir. Og það fyrirkomulag sem siðmennt vill myndi leiða til þess að mikill meirihluti væri ósáttur, en lítill minnihluti sáttur. Er það gott fyrirkomulag að minnihluti kúgi meirihlutann?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 04/03/05 13:23 #

Ég þekki engin raunveruleg dæmi um trúboð í grunnskóla.
Uh, hvað með þetta?
Og það fyrirkomulag sem siðmennt vill myndi leiða til þess að mikill meirihluti væri ósáttur,
Hvað hefurðu fyrir þér í því?


Guðjón - 04/03/05 14:43 #

Dæmið frá Keflavík tel ég vera um trúariðkun, en ekki trúboð. Það er persónulegt mat mitt að sú hugmynd að einungis megi kenna fræðilega um trúarbrögð í grunnskóla njóti ekki mikils stuðning hér á íslandi. Ég held að flestir líti á það sem sjálfsagðan hlut að þjóðkirkjupresta komi við sögu í skólastarfi þegar við á.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 04/03/05 14:46 #

Dæmið frá Keflavík tel ég vera um trúariðkun, en ekki trúboð.
Hver er munurinn á kúk og skít?


Jón Valur Jensson - 04/03/05 22:49 #

Guðjóni ber að þakka hans málefnalegu innlegg og yfirvegaða framsetningu, lausa við alla kerskni og óviðeigandi skammaryrði. Merkilegt er líka að þegar alvarlegt dauðsfall hefur átt sér stað og allir eru harmi slegnir og prestur frá Þjóðkirkjunni er kallaður til (enda oftast með langa reynslu og þjálfun í því að annast fólk á sorgarstundu – sem er ekki það auðveldasta í heimi), að þá skuli Matti láta sér detta aðra eins vitleysu í hug, að þar sé verið "að nota tækifærið til að selja kristni".

Leiðið ekki þessa umræðu út á slíkar villubrautir, Vantrúarmenn. Talið frekar skipulega um þessi þrjú atriði, sem Birgir nefndi: trúboð, trúariðkun og trúarfræðslu, og gerir skýra grein fyrir afstöðu ykkar til þess, hvernig taka beri á þeim, hverju fyrir sig – með skynsemdar- og sanngirnisrökum. Ég hef á s.k. kjaftæðisvakt ykkar fjallað um hinn stjórnarskrárvarða rétt til trúariðkunar (bæna), sem meirihlutinn hefur ekkert síður en minnihlutinn, og ég tek undir orð Guðjóns hér ofar, sem sögð voru að gefnu tilefni: "Er það gott fyrirkomulag að minnihluti kúgi meirihlutann?"


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/03/05 23:23 #

Hvern er verið kúga Jón Valur? Í augnablikinu er hinn sterki að kúga hinn veika. Ég veit ekki með meirihluta og minnihluta. Mig grunar að það sé ekki stór hluti þjóðarinnar sem vill fá láta stunda þessa trúarinnrætingu sem felst í bænahaldi í opinberum skólum. En er betra þegar meirihlutinn er að kúga minnihlutann? Hefur meirihlutinn ekki einmitt þá siðferðislegu skyldu að forðast slíkt?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 05/03/05 00:00 #

Merkilegt er líka að þegar alvarlegt dauðsfall hefur átt sér stað og allir eru harmi slegnir og prestur frá Þjóðkirkjunni er kallaður til ... skuli Matti láta sér detta aðra eins vitleysu í hug, að þar sé verið "að nota tækifærið til að selja kristni".
Í grein minni, sem ég vísa á hér fyrir ofan, og umræðunni sem fylgdi í kjölfarið er þetta mál rætt nánar. Að sjálfsögðu er þetta hluti af söluferli kristninnar. Kristnir trúmenn eru sannfærðir um að engin önnur leið sé til að höndla sorg en með aðstoð hindurvitna. þessa sannfæringu boða þeir svo við hvert tækifæri. En Jón Valur forðast spurningu mína.
Og hvaða raunverulega hjálp er í þeim hindurvitnafræðum sem beitt er af kirkjunnar mönnum? Hafa einhverjar rannsóknir sýnt að þetta sé til góðs?

Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/05 00:12 #

Ég hef á s.k. kjaftæðisvakt ykkar fjallað um hinn stjórnarskrárvarða rétt til trúariðkunar (bæna),...
Og við höfum (amk geri ég það núna) bent þér á að þið hafið þennan rétt.


Snær - 05/03/05 02:28 #

Ég hef á s.k. kjaftæðisvakt ykkar fjallað um hinn stjórnarskrárvarða rétt til trúariðkunar (bæna),...

Ef bann væri lagt við trúarástundun á skólatíma, væri það ekki svipting réttinda, heldur takmörkun.

Takmörkanir er að finna á öllum réttindum. Það er einungis spurning um hvenær, og þá að hversu miklu leiti, slíkar takmarkanir eru lagðar.

T.d. eru margar takmarkanir gerðar til þess að ekki sé hægt að misnota réttindi til þess að takmarka réttindi annarra, eða þvinga einstaklinga til einhvers sem þeir hafa ekki vilja til.

Í tilviki trúboðs í umhverfi þar sem einstaklingar eru ekki fullkomlega valfrjálsir um það hvort þeir eru þar eða annarsstaðar (hér á ég við skólaskyldu) er fullkomin vissa um að 100% séu með sömu skoðanir, leiðir trúboð til mismununar (fólk sem vill ekki hlusta er tilneitt til þess að taka þátt, hlusta, eða vera afsíðis. Það getur ekki einfaldlega ekki-verið-viðstatt), eineltis (börnin skynja það að viðkomandi sé eitthvað öðruvísi. Hef lent í álíka aðstæðu sjálfur) og jafnvel ástæðulauss hópþrýstings (Enginn vill að sjálfsögðu skera sig of mikið úr, af áðurnefndri ástæðu. Ég sé sjálfur mikið eftir því að hafa gert ýmislegt ósiðferðislegt og/eða gegn öðrum persónugildum mínum vegna hópþrýstings samnema minna).

Ef bænir eru stundaðar, hefur það eftirfarandi afleiðingar:

Hið góða: Réttur til trúariðkunar nýttur víðar en persónulega (eða með öðru fólki en skólafélögum),

Hið vonda: Mismunun, hópþrýsting, einelti, áróður (andstætt við kennslu), missi á trúarlegu hlutleysi í skólakerfinu (ef maður gerir ráð fyrir því að hlutleysi sé að mestu til góðs, sem þú, Jón Valur, virðist ekki vera sammála mér með), og ákveðnu trúarbragði hugsanlega hampað umfram önnur (þá m.a. gegnum hópþrýsting).

Mitt álit: Ef trúariðkun er ekki takmörkuð að þessu litla leiti veldur það alvarlegum brotum á mannréttindum grunnskólanema annarra en þeirra sem iðka kristna lútherska trú.

Er ég búinn að summa þetta nægilega vel upp?


Finnur - 05/03/05 16:12 #

Jón Gnarr lét líka frá sér fara:

"Það er alveg sama hvaðan gott kemur. Ef börnin mín læra um búddisma og hindúisma í skólanum þá er ég alveg sáttur við það. Það er fullt af góðum hlutum í því. Og ég vil frekar að barnið mitt verði hindúi heldur en óhamingjusamur leiðindapúki."

Sumsagt, annað hvort vel ég að verða trúaður maður eða ég fer í gegnum lífið sem "óhamingjusamur leiðindapúki"!? Ekki veit ég hvernig hann fær þessar hugmyndir sínar en hann ætti að hugsa sig betur um áður en hann skrifar svona augljósa vitleysu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/05 17:00 #

Já, ef Jón Gnarr getur haldið því fram að ég sé óhamingjusamur leiðindapúki af því ég trúi ekki á guði, hlýt ég að geta svarað því til að hann sé sjálfur fordómafullur bjáni.

En hann er auðvitað bara að grínast.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.