Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helgi Hóseasson og himnafeðgarnir

Þessari mynd náði ljósmyndarinn Gunnar V. Andrésson af hinum fræga atburði

Í tilefni þess að heimildarmyndin um Helga Hóseasson, Mótmælandi Íslands, hefur verið frumsýnd birtist hér á Vantrú í heild sinni viðtal sem tekið var við hann árið 1997.

Það var blaðamaðurinn Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir sem tók viðtalið fyrir Mannlíf. Þegar það birtist þar hafði ritstjórinn sleppt heilu bálkunum úr því bæði Þórunni og Helga til sárrar raunar. Helgi hafði það m.a.s. að orði að framin hefðu verið skemmdarverk á viðtalinu.

Það eru löngu orðið tímabært að viðtalið fái að njóta sín í heild sinni. Hafðu þakkir frá okkur á ritstjórn Vantrúar, Þórunn, fyrir að leyfa okkur að birta þetta.


Ég hef réttlætismál að reka

Maður slettir skyri á ráðamenn þjóðarinnar við þingsetningu. Þessi fyrirsögn kemur eflaust kunnuglega fyrir sjónir, slíka athygli vakti þetta uppátæki Helga Hóseassonar fyrir réttum 25 árum. Hitt muna færri, fyrir hverju Helgi var — og er — að berjast. Hann vill fá ógiltan skírnarsáttmála sinn sem gerður var fyrir hönd hans ómálga barns, enda afneitar hann kristnum trúarsetningum. Þessari kröfu hafna enn bæði ríki og kirkja. Enn má sjá Helga bregða fyrir á götum og torgum Reykjavíkur með mótmælaskilti sin. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir kom að máli við Helga og hitti fyrir heilsteyptan og góðviljaðan mann með sterka réttlætiskennd. Baráttu hans er fráleitt lokið.

Helgi Hóseasson er fæddur árið 1919 í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Foreldrar hans voru Ingibjörg Bessadóttir og Hóseas Björnsson bóndi og trésmíðameistari. Helgi er næstelstur fjögurra systkina.

Á fyrsta ári var Helgi skírður einsog algengt er og síðan fermdur þrettán vetra. Ekki þætti það í frásögur færandi, nema vegna þess að strax á unga aldri komst Helgi að því að hann gæti ekki fellt sig við kennisetningar kristninnar og vildi raunar ekki láta orða sig við þær að neinu leyti. Honum var þá bent á að hann gæti sagt sig úr þjóðkirkjunni. Helgi vildi gera betur og láta rifta skírnarsáttmálanum, en var fljótlega tjáð að það væri ekki mögulegt. Sá sem er skírður til samfélags við heilaga þrenningu á þaðan ekki afturkvæmt: Við það vildi hann ekki una og hóf því baráttu sína sem hefur staðið sleitulaust síðan

Helgi fluttist til Reykjavíkur laust eftir 1940 og hóf þá að tala við ráðamenn og presta í því skyni að koma málefni sínu áleiðis og fá skírnarsáttmálanum rift. Hvarvetna rak hann sig á veggi. Í biskupstíð herra Sigurbjörns Einarssonar bar hann málefni sitt undir hann, en biskupinn neitaði að aðhafast nokkuð. Þá fór Helgi með málið fyrir dómstóla þarsem honum þótti um stjórnarskrár- og mannréttindabrot að ræða. Hæstiréttur vísaði málinu frá. 1964 ákvað Helgi svo að skrifa öllum þingmönnum Íslendinga bréf og biðja þá að sinna sér með sitt baráttumál og raunar áttu bréf til þeirra eftir að verða mörg í áranna rás. Enn var ekkert aðhafst og þegar Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg hafði einnig vísað málinu frá, þá ákvað Helgi að andæfa með öðru móti, eða einsog hann orðar það sjálfur: “Láta lög frumskógarins ráða.”

Hann byrjaði mótmæli sín inni í kirkjum og einnig utan dyra, þar sem hann stóð með kröfuspjöld. Á þessum árum var Helgi margsinnis tekinn höndum og færður í fangageymslur. Það var síðan atburðurinn árið 1972, sem frá greinir hér að ofan, sem var þrautalendingin eftir áratugalanga baráttu. Eftir þær tiltekjur var Helgi tukthúsaður og síðan sendur á Kleppspítala til geðrannsóknar.

En Helgi gafst ekki upp. Hann hefur allar götur síðan haldið skiltum á lofti og situr enn við þann keip að fá skírnarsáttmála sinn ógiltan, og einsog hann segir: “Fá einu opinberu persónuheimild mína í þjóðskrá leiðrétta.”

Helgi hefur ekki einungis endurskoðað það sem kristnum einstaklingum er uppálagt að trúa, heldur notar hann iðulega annað tungutak en við eigum að venjast. Jesú Krist kallar harm Krosslaf og kristna menn Kristlinga. Þingmenn eru þingsetar og lögregluþjónar þrælar, svo dæmi séu tekin.

Helgi hefur skráð baráttusögu sína í bók sem hann gaf út sjálfur fyrir margt löngu, með aðstoð Birnu Þórðardóttur. Bókin heitir Ríó og rögn þess, en Ríó er skammstöfun sem Helgi notar yfir ríkisvaldið: Ríkisvald íslenskra óþokka. Í bókinni lýsir Helgi samtölum sínum við “mútuþræla ríós” sem flestir eru klerkar eða lögfræðingar. Helgi skrásetur einnig mótmæli sin, sem oftar en ekki enda á lögreglustöðinni.

Ég heimsótti Helga 1. október, en þá var einmitt verið að setja alþingi. Tuttugu og fimm ár síðan Helgi sæmdi ráðamenn skyrinu. Ég var satt að segja hálfsmeyk þegar ég kom að húsinu hans og sá síðskeggjaðan öldunginn standa úti á tröppum. “Úr því að hann afneitar þér, Kristur, hvað gerir hann við ræfil einsog mig,” snéri ég útúr fyrir Vilhjálmi frá Skáholti í huganum. Hvað veit ég nema hann telji mig útsendara ríkisvaldsins og sletti einhverjum fjanda á mig? Þessi ótti minn var með öllu ástæðulaus. Helgi trakteraði mig á maltextrakt og ýmis konar brauðmeti, sneiddi ofan í mig ostinn og skar vínarbrauðið. Kaffi er ekki á boðstólum hjá Helga, og þar er heldur ekki reykt. Hann ákvað strax á unga aldri að afneita öllu eitri, svo sem brennivíni, tóbaki og kaffi. Hann hefur staðið við það.

Um leið og við byrjuðum að tala fannst mér einsog við hefðum þekkst lengi. Hann er ljúfur maður og viðræðugóður, blessunarlega laus við ofstopa eða yfirgang í samræðum. Engan mann hef ég hitt sem orkar betur á mig sem gegnheil manneskja latts við hroka og yfirdrepsskap, manneskja sem. hefur réttlætiskenndina að vopni og þrautseigjuna til þess að láta ekki buga sig. Og ég leyfi mér að efast um geðheilbrigði þeirra sem efast um geðheilbrigði hans.

Ég byrjaði á því að minna Helga á það hvaða dagur væri, fyrsti október og þingsetning í fullum gangi. Hann hleypti hnussi fram úr nefi um leið og hann sagði: “Já verði þeim að góðu, andskotans fígúrunum.” Síðan stóð hann upp og náði í plagg sem hann sýndi mér.

“Hér er ég með yfirlýsingu varðandi skjalafals ríkisvaldsins á mér í þjóðskrá. Þar lýgur það mig játanda Krosslafs gamla á himnum og þeirrar fjölskyldu. Það á enginn að segja til um hvort ég viðurkenni arabíska afturgöngu nema ég sjálfur. Þeir mega viðurkenna það fyrir mér, en ég geri það bara ekki.

Þeir kalla það upprisu sem við Íslendingar köllum afturgöngur. Andskotans djöfull finnst mér það stórmerkilegt! Það stendur í ævisögunni að draugurinn var drepinn uppi á krossi. Svo var hann settur í klettaholu og geymdur bar þrjá sólarhringa þá skutlaði hann steininum úr og arkaði af stað. Þetta köllum við afturgöngu. Þetta kalla þeir upprisu! Menn rísa upp ef menn detta, rísa upp við dogg í rúmi sínu, en svona nokkuð er afturganga.”

Ég bað Helga að segja mér frá fyrstu tilraunum í þá átt að fá skírnarsáttmálann ógiltan.

“Ég hef sennilega verið sextán ára þegar ég talaði fyrst við klerk um þetta. Hann hét Pétur Tyrfingur og var þjónandi klerkur á Djúpavogi. Hann átti að messa á Stöðvarfirði og ég var sendur til þess að fylgja honum áleiðis. Ég ræddi við hann ýmislegt um afturgöngu Krosslafs og galdraverkin. Þegar hann var að reka fólk á fætur, breyta vatni í vín og metta fimm þúsundir af svo til engu — en fékk samt fimm körfur afgangs, það var ekkert annað. Þetta er nú ekki lygilegt?

Presturinn reyndi að malda í móinn. En ég var þá búinn að hugsa um þetta náttúrulega, það er ekkert smáræði sem reynt er að falsa krakka til þess að fallast á. Frá blautu barnsbeini og allt uppí fjórtán ára aldur — og alla leið eftir það til grafar. Það er enginn smáræðis áróður! Eru ekki um þrjú hundruð prestar á Íslandi sem standa í því að ljúga þessari heimsku í fólk?

Ég sagði honum að það væri aldeilis furðulegt að reyna að koma krökkum til þess að trúa því að Krosslafur hafi gengið aftur eftir þrjá sólarhringa inní klettaholu. Draugsi var orðinn svangur, fór á vit stráka sinna og sagði við þá: “Hafið þið nokkuð hér til matar?” Þeir höfðu stykki af steiktum fiski og nokkuð af hunangsköku, sem hann át og skaust svo upp til himna með skítogöllusaman.

Ég fór að segja við Pétur að hann ætti að ónýta fyrir mig skírnarsáttmálann. Ég hefði verið látinn gera hann svotil blautur úr móður minni, og svo aftur þrettán vetra. En hann var nú aldeilis ekki á þeim buxunum og sagði að við þyrftum að ræða þetta betur. Hann var ósköp vinsamlegur karl þessi Pétur og fórst síðar í bílslysi. En heiðindóminn leist honum ekkert á.”

Myndirðu orða það þannig, að þú sért heiðinn?

“Ég reyni að nota glóruna. Ég trúi ekki því sem ég get ekki fellt mig við eða skilið. Ég leitast við að viðurkenna takmörk mín og fer ekki að búa til skáldskaparrauðgraut í það bil sem ég ekki skil í tilverunni. Trú er forkastanlegt hugtak; ég leitast við að mynda mér skoðun á hverju og einu og haga mér samkvæmt henni.”

Trúirðu á framhaldslíf?

“Ég hef enga rökstudda ástæðu til þess að trúa að það sé líf eftir dauðann. Ég er þó enginn fræðimaður, heldur smiður og ég hef haft hamar og sög í höndunum í gegnum árin, en ekki bækur. Ég hef fylgst með almennum málum, ekkert verr heldur en hver annar og smávegis lesið bækur. Til dæmis hann Þórberg Þórðarson. Andskoti er hann nú skemmtilegur!”

Kristlingarnir og kærleikurinn

En hvaða álit hefurðu á Jesú Kristi og því sem hann kenndi?

“Það er nú logið á skemmri leið en frá Golgata að Galtalæk, einsog kerlingin sagði. Þannig að ég tek nú bara mátulega trúanlegar históríumar þarna austan af Miðjarðarhafsbotnum, því að Semítarnir hafa verið að semja þessa Biblíu svokölluðu í mörg hundruð ár.”

Finnst þér hún ekki skemmtileg?

“Það er nú líkast til. Ég hef lesið Eitt þúsund og eina nótt líka. Þær gerast á sömu svæðum og eru mjög svipaðar, ógurlegir loftandar og galdrarar útum allt. Fólk ætti bara að bera þær saman.”

Það kemur nú eitthvað gott út úr Biblíusögunum, finnst þér það ekki?

“Já, það var helvíti gott þegar hann var að reka steindauða skrokkana á fætur til dæmis. Jörðin skalf, björgin klofnuðu, grafirnar opnuðust og margir dauðir risu upp. Langlegnir draugarnir örgluðust á lappir og komu stökkvandi niður hlíðarnar. Þetta er nú speki!”

Ég er að tala um kærleiksboðskapinn.

“Kærleiksboðskapinn! Kærleiksboðskapur kristninnar lýsir sér á áþreifanlegan hátt í framferði okkar bleika kynstofns. Því við erum bleik, alls ekki hvít. Þessi bleiki kynstofn hefur fundið upp og framkvæmt tvær heimsstyrjaldir í mínu lífi. Framið glæpaverk á heimsmælikvarða fyrir þá fyrri, milli þeirra tveggja og eftir þá seinni. Bleiki kynstofninn er eini kynstofninn á þessari Jörð sem er kristinn sem kynstofn. Það er enginn heill kynstofn kristinn nema sá bleiki. Og kærleiksboðskapurinn hans Krosslafs…”

Hann hefur bara ekki komist til skila.

“Ekki komist til skila! Það þykir mér bara andskoti skrítið því draugurinn er almáttugur og algóður og alvitur. Því skyldi hann ekki komast til skila? Ekki hefðir þú heiminn einsog hann er ef þú værir almáttug. Hvaða mat étur það fyrir Krosslafi þó hann tryggi það að þessir lærisveinar hans fari eftir því sem hann segir?”

Ég trúi því að Jesús hafi verið til og mér fannst margt gáfulegt sem hann sagði. Ég er þó ekkert viss um að allar sögurnar í Biblíunni séu sannar.

“Þú verður að taka þessu einsog það kemur fyrir af skepnunni, það þýðir ekki vera að vinsa innan úr þessu. Það gæti verið að hann hafi verið til og sagt margt gáfulegt, en það gæti líka verið haugalygi. Og það þarf ekkert að leita eftir kærleika hjá Krosslafi eða Kristlingum. Kærleikur finnst hjá öllum mönnum.”

Sigurbjörn biskup kærður

Hvenær byrjaðirðu baráttu þína af fullri alvöru?

“Mér var full alvara strax. Þegar ég kom til Reykjavíkur 1943 þá fór ég að tala við þessa helvítis falsara suma. Og þegar mótmæli mín stóðu sem hæst ræddi ég við Sigurbjörn biskup, Árelíus Níelsson og Jakob Jónsson. Þeir gátu ekki rift samningnum. Þeir gátu gert samning fyrir hönd ómálga barns, en þeir gátu ekki ónýtt hann fyrir fullorðinn og forráða þegn.

Ég beinlínis heimtaði það af Sigurbirni að hann eyðilegði sáttmálann, en hann kvað það ómögulegt. Hann sagði að enginn gæti efast um tilvist Guðs að athuguðu máli þegar ég sagði honum að ég tryði ekki þessum ósköpum. Að skírnarsáttmálinn hefði verið gerður á varanlegan hátt milli mín og Guðs og hann væri ekki hægt að ónýta. Ég ákvað því að kæra biskupinn.”

Pétur Þorsteinsson lögfræðingur aðstoðaði Helga við málssóknina á hendur biskupnum. Hann var Helga sammála um það að réttur hans til sjálfsákvörðunar væri augljós, stjórnarskráin styddi hans mál og það gerðu íslensk lög og Evrópuráðssamningurinn líka.

En Hákon Guðmundsson yfirborgardómari var ekki á sama máli. Hann sagði alla hugsandi menn líta á skírnarsáttmála sem hégilju, enda þeir aðilar á himnum, sem að honum stæðu, í meira lagi þokukenndir. Hann skammaði Helga fyrir að leggja biskupinn í einelti vegna svo nauðaómerkilegs máls sem samband hans og Guðs væri. “Nægir yður ekki að vita léttvægi skírnarsáttmálans með sjálfum yður, en láta Sigurbjörn karlinn eiga sig?” skráir Helgi eftir honum í Ríó og rögn þess. Og Hákon bókaði: “Einsog efni þessarar stefnu er háttað, verður hún eigi gefin út.”

“Ég gaf þá stefnuna út sjálfur,” segir Helgi, “en biskup kom ekki á sáttafund sem haldinn var og Hæstiréttur vísaði málinu frá með þeim orðum að “lög og landsréttur tækju ekki til sakarefnisins”. Sigurður Líndal var þá ritari hæstaréttar og hann sagði að það væri fullkomin lögleysa að taka mál mitt ekki til greina. En enginn beitti sér fyrir því að leiðrétta það fyrir mig. Pétur lögfræðingur gafst upp og vildi engin meiri afskipti hafa af málinu frekar en aðrir löglærðir. Nokkrir lögfræðingar buðu mér þó ráðleggingar gegn því að ég héldi nöfnum þeirra leyndum. Slíkur var þrýstingurinn á að ríkisvaldið veitti kirkjunni þá vernd sem það lofar í stjórnarskrá.”

Líkami Krists og blóð hans

Eftir að biskupinn hafði hunsað sáttafund og málinu hafði verið vísað frá, þá ónýtti Helgi sjálfur skírnarsáttmála sinn á táknrænan hátt í Dómkirkjunni 16. október 1966. Sigurbjörn hafði sagt að málið yrði hann að eiga við Drottin sjálfan, jafnvel þó að Helgi lýsti því ítrekað yfir að hann tryði ekki á Drottin. Helgi ákvað því að fara á slóðir kristinna og fór í Dómkirkjuna við altarisgöngu. Svo segir Helgi frá ónýtingu sáttmálans í bók sinni Ríó og rögn þess:

[Sr. Jón Auðunsson] tók eitt kjötstykkið milli þumals síns og sleikis og stakk því upp í efra op meltingarfæranna á mér, og þann veg handlangaði hann, með berum höndunum, slátrið af Ésú að munni þess næsta, og rak það upp í hann. Ég dró minn skerf strax útúr mér og lét hann koma í lófa minn.

Blóðið úr skrokki Ésú bar Jón fram í stampi stórum og steypti úr honum í aðra minni, sem hvur fékk í hönd, til að hann drykki ofan í sig blóðið; mannaátshættir og brennivínsbrúkun berstrípuðust þarna. En ég fór með blóðstampinn og kjötstykkið fram á upphækkaða pallskörina og sýndi viðstöddum vitnum hvort tveggja; frammi fyrir augliti áhorfenda tók ég úr vasa mínum sorppoka úr glæru plasti, merktan sem slíkan, tók opið sundur, og lét kjötið af arabanum falla ofan í hann; bar á ofan dembdi ég dreyranum úr stampinum. Til þess að aldagamall óþverrinn ekki seytlaði útúr sorppokanum, tók ég opið á honum saman og knýtti kyrfilega fyrir það með sterkum spottaenda. Frammi fyrir fólkinu flutti ég ávarp.

Helgi lýsti því yfir að allir kirkjugestir væru vottar að því að hann ónýtti þar með sáttmála þann sem hann hefði verið látinn gera reifabarn. Í kirkjunni varð uppi fótur og fit, en Helgi yfirgaf svæðið þegar hann hafði lokið við að mæla fram yfirlýsingu sína.

Helgi heldur áfram: “Klemenz Tryggvason hagstofustjóri neitaði að skrá ónýtingu sáttmálans í þjóðskrána. Hann sagði að þetta mál væri þjóðskránni óviðkomandi og það væri ekki til form fyrir slíkri skráningu. Allavega eru nú undanbrögðin! Þegar hann neitaði, þá skrifaði ég öllum þingsetunum aftur og bað þá að hlutast til um það að þessi ógilding mín yrði skráð í þjóðskrá. Þeir önsuðu mér tveir, Bjarni Benediktsson og Lúðvík Jósepsson, til þess að segja mér að þeir gætu ekkert að gert.”

Þeir sletta skyrinu sem eiga það

“Heldur en að gera ekkert við þessi helvíti, þá sæmdi ég þá skyrinu.”

Af hverju skyr?

“Heldurðu að það hefði verið betra að hafa það málningu? Nei, svo heimskur var ég ekki, í henni eru allskonar þynnar sem hefðu getað eyðilagt í þeim glyrnurnar. Og þeir sletta skyrinu sem eiga það.”

Náðirðu að sletta almennilega á þá?

“Jú, það kom eitthvað á þá. Ég hafði gúmmíhanska á annarri hendinni sem ég hafði límt íhvolfa gúmmípiötlu í lófann á, svo ég ætti auðveldara með að ausa úr dallinum.”

Í öldinni okkar er sagt frá þessum atburði undir fyrirsögninni “Jós skyrblöndu yfir forseta, biskup, ráðherra og þingmenn við þingsetningu.” Þar er atburðunum lýst, svo og viðbrögðum lögreglumanna sem stóðu heiðursvörð við athöfnina “með tvo fingur hægri handar við húfuskyggni.”

Heiðursvörðurinn stóð í fyrstu sem stjarfur með hönd á húfu meðan Helgi hljóp meðfram fylkingunni og jós á hana. Loks var einsog hnútur raknaði og einn lögregluþjónanna hljóp fram, og á eftir fylgdu fleiri. Hrópaði þá fyrirliði lögreglunnar: “Grípið manninn.” Var það gert. Féll Helgi í götuna og missti dallinn, en úr honum helltust leifarnar á strætið.

Fréttaritari hefur sýnilega haft nokkurn áhuga á því hvernig mjólkurafurðirnar sómdu sér á svörtum viðhafnarklæðum, og hvernig æðstu embættismenn þjóðarinnar báru sig:

Föt margra þingmanna voru illa leikin, er menn komu í þinghúsið, því að allir þeir sem fremstir fóru höfðu fengið eitthvað á sig úr dalli Helga. Gilti það jafnt um forsetahjónin, biskup, prest, þingforseta, ráðherra og þingmenn. Varð nokkur töf á þingsetningu, því flestum varð fyrst fyrir að verka sig til bráðabirgða. Engin tök voru á að af má allar slettur, og varð við svo búið að sitja. Aldursforseti þingsins, Hannibal Valdimarsson, var meðal þeirra, sem verst höfðu orðið úti. Leyndi það sér ekki, er hann tók við fundarstjórn að lokinni setningarræðu forseta. En sjálf fór þingsetningin fram með hefðbundnum hætti.

Þegar ég spyr Helga að því hvernig upplitið hafi verið á liðinu, þá segist hann hafa séð lítið af því.

“Þeir lögðust ofaná mig tveir í götunni og keyrðu handleggi mína uppundir hnakka til þess að geta handjárnaði mig. Svo báru þeir mig handjárnaðan svona, tveir héldu undir handleggina og einn undir fæturna. Þannig báru þeir mig inn á Hótel Borg, hvað sem það átti nú að þýða. Þeir voru andstuttir og það var fát á þessum helvítum.

Ég er ekkert að halda því fram að þetta hafi verið rétt eða hið eina rétta í stöðunni. En ég spyr þá sem eru að fetta fingur útí gerðir mínar: Hvað átti ég að gera? Átti ég bara að segja já og amen við því þegar réttur var á mér brotinn? Ég var settur í tukthúsið náttúrlega og Þórður Björnsson þáverandi ríkissaksóknari heimtaði geðrannsókn, því hann gat ekki náð sér niðrá mér með öðrum hætti. Hann gat ekki sektað mig vegna þess að ég hafði afsalað mér eignum mínum til konu minnar og þótt þeir hefðu viljað láta mig taka refsingu í tukthúsi hafa þeir líklega ekki nennt að vera að neyða mat oní mig. Ég át ekki og talaði ekki við þessi helvíti. Þegar þeir hafa svipt mig forræði þá skulu þeir sjá fyrir slíku. Þeir vilja til dæmis láta mig ganga fyrir sig, einsog nú í sumar þegar þeir handtóku mig. Þá heimtuðu þeir að ég gengi! Náttúrlega settist ég í götuna og neitaði því.

Þeim er það ekki nóg að það liggi ljóst fyrir hvað mér hefur orðið á í messunni. Þeir þurfa að handtaka mig og auðmýkja, draga mig eftir götu og gangstétt, yfir þröskulda og inn í þrælastöðina.”

Í greipum Greips

Samkvæmt 73. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands eru allir menn frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar og tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Ennfremur segir í 67. grein að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á því að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Eftir að Helgi hafði haft í frammi andóf í kirkjum og við þær á árunum 1966 og þar á eftir var hann margoft tekinn af lögreglu og færður í fangageymslur, jafnvel þótt hann bæri aðeins spjald, þögult tákn, utan við kirkju eða Hæstarétt. Þegar Helgi bar fram kröfu sína um formlega ákæru á hendur sér og afrit af kæru og handtökuskipun, var fátt um svör laganna varða. Einn daginn sagði varðstjórinn að lögreglustjórinn hefði sjálfur kært hann, og bar á eftir endurnýjað fyrirskipun sína um að svipta Helga frelsi hvenær sem færi gæfist. Við grípum niðrí frásögn Helga þar sem hann hefur verið færður fyrir Greip Kristjánsson varðstjóra eftir að hafa staðið mótmælastöðu við kirkju í Laugarnesi.

“Látið þið hann í klefann”, kallaði Greipur umsvifalaust. Og í klefann var ég keyrður, og látinn dúsa þar.

Greipur kallaði mig úr fángaklefanum, víst til að yfirheyra mig… Ég spurði Greip hvenær handtökukrafan kom. Eftir nokkurt þóf, sagði hann, tíu fimmtán.

Hver heimtaði mig handtekinn? Það veit ég ekki, sagði Greipur. Viltu vera svo vinsamlegur að kynna þér það fyrir mig?

Það get ég ekki sagði Greipur, það hefur ekki verið bókað; líklega hefur það verið kyrkuvörðurinn.

Ég vil vita, hver heimtaði handtökuna og fá hann yfirheyrðan um handtökukröfuna. Það er ekki hægt að vita það, það er ómögulegt, sagði Greipur.

Ég kvað það vítavert fimbulfamb af lögreglustjóranum, gagnvart mér, að hver stauli gæti heimtað mig tekinn höndum, og sendimenn hans hlypu dómgreindarlaust, til að gera mig að fánga, og án þess að láta handtökuheimtandann gera grein fyrir handtökukröfunni og svo stendur lögreglustjórinn og málpípur hans uppi, einsog glópar, þegar fánginn spyr: Fyrir hvað er ég tekinn til fánga?

Hver heimtar mig sviptan frelsi frá að tjá mig?

Svo spurði ég Greip, hvernveg hann gæti látið handtaka mig og halda mér sem fánga, án þess að vita kæru á hendur mér?

Ja, — ákæran er líklega sú, að þú værir að trufla fólk við trúariðkanir; annars veit ég það ekki; varstu inni í kyrkunni?

Ég stóð utan dura; og hvernveg get ég tjáð mig með friðsamlegra móti, en að standa til hliðar við gángveg með borða?

Það er skammt, að gánga frá dyrum kyrku og inní hana, og það hefir þú gert, sagði Greipur. Það má ég gera og það á ég að gera, samkvæmt skráningu ríkisvaldsins á mér í þjóðskrá; með hæstaréttardómum gerir ríkisvaldið mér skylt að viðurkenna himnablæti sín, þakka þeim, vegsama þau, þjóna þeim og hlýða; hvernveg getur þá sama ríkisvald líka bannað mér aðgáng að kyrkum, sem vængablæti þess eru í, dögum oftar?

Ég veit varla, nema við ættum að láta þig afskiptalausan og láta þetta sem vind um eyru þjóta; annars býst ég við, að þú sért smá klikkaður.

Já, náttúrlega er ég klikkaður, að viðurkenna ekki sem hjálpræði og almáttugan hamingjugjafa, sex útlima, fiðrað, úldið og afturgeingið galdrastóð á Himnum; það er nú líklegt, sagði ég. Annars er það undarlegur háttur á yfirheyrslu að berja mig dylgjum um geðbilun og fólska af lögreglustjóra að láta handbendi sitt brúka slíkan dónaskap við mig fánga.

Þú verður tekinn úr umferð, sagði Greipur, og bætti svo við: Ég er ekkert að halda þér hér; þú mátt fara. En þú mátt ekki fara að kyrkum fyrir klukkan tólf, þángað til er ég á vakt, eftir það er mér Andskotans sama!

Meðan dómarar ríkisvaldsins og ráðherrar þess hegða sér einsog hverjir aðrir þursar gagnvart mér, læt ég eingan, og ekki þá, sega mér fyrir verkum í því, sem ég get ráðið sjálfur, og þeim er ofviða að ráða fyrir mér í, sagði ég.

Greipur bauð mér ítrekað akstur á kostnað skattborgara í Reykjavík.

Hér vantar kommúnistaflokk

“Ho Chi Ming sagði að menn ættu að byrja á því að gera hreint fyrir sínum persónulegu dyrum áður en þeir færu áð skipta sér af högum annarra manna, til dæmis hinumegin á jörðinni. Ég var í Svíaríki um það leyti sem Kanarnir voru að drepa Víetnamana. Þar sá ég vel skipulagðar kröfugöngur til mótmæla við þau glæpaverk. Ho Chi Ming sagði við þessa náunga þarna í Svíaríkinu að hann væri þeim þakklátur fyrir hugulsemina og afstöðu þeirra til glæpaverka Bandaríkjastjórnar, en það væri þó heppilegast fyrir þá að byrja á sinni eigin persónu og gera hreint fyrir sínum dyrum áður en þeir færu að teygja sig hinumegin á hnöttinn.

Þetta skilja ekki lýðræðissinnar sannkristnir hér á Íslandi. Hvorki heyrist stuna né hósti, ekki vandlæting eða hneykslun á glæpaverkum Engla á Írlandi. Þó að þeir hafi mörg hundruð eða þúsundir hermanna þar, og handtaki, tukthúsi, pyndi — samkvæmt fullyrðingum Amnesty International — og drepi Íra, frændur okkar.

Engin vandlæting kemur nokkru sinni fram hér í sjónvarpi, útvarpi eða blöðum. Þeir eru að hneykslast á glæpaverkum hinumegin á hnettinum, en koma ekki auga á það sem gerist hér á næstu strönd.”

Það væri kannski æskilegast að byrja á Íslandi?

“Já, til dæmis það. Hér eru stjórnvöld að ræna heilu þjóðfélagshópana lífsviðurværi sínu á meðan þau benda á búðaþjófa og eiturlyfjaneytendur sem mesta vandann. Fólk áttar sig ekki á því að þeir byrja flestir á því að reykja og drekka brennivín. Og hverjir eru það sem ota því að fólki? Engir aðrir en ríkisvaldið. Þess vegna hef ég oft haft orð á því við marga að það þyrfti svona átta manna hópur að vera að þvælast þarna hjá þinghúsinu, taka einn útúr hópnum þegar þingsetarnir eru að ganga þarna og halda að þeir séu frjálsir og hafi rétt til þess að fetta sig við þinghúsið. Taka einn og hafa hann innan í hópnum, rása síðan með hann nokkra hringi í kringum styttuna af Jóni Sigurðssyni og tala við hann í fullri meiningu um glæpaverk þingsetanna.”

Heldurðu að löggurnar kæmu ekki bara babú?

“Jú, en það er visst andóf, eða hvað skal háttvirtur kjósandi gera? Þetta rusl er kosið á þing trekk í trekk.”

Þú trúir á þessi þöglu mótmæli. Að standa á víðavangi með skilti. Hverju kemurðu til leiðar með því?

“Ég geri hreint fyrir mínum persónulegu dyrum, fyrst og fremst. Einsog Ho Chi Ming ráðlagði, það er grundvallaratriði fyrir mig.”

Kýst þú eitthvað?

“Ég hef kosið Kvennalistann. Þó ég hafi svosem ekki ástæðu til þess að gera greinarmun á skít og kúk, hef ég kosið Kvennalistann þrátt fyrir að þær séu mjög svipaðar í afstöðu sinni til utanríkismála, trúmála svokallaðra, efnahagsmála og húsnæðismála. Konur eru kúgaður hópur í þjóðfélaginu og af því kýs ég þær. En hvað er hægt að gera við svona menn einsog konur? Þær kjósa kvalara sína á þing. Hverjir ætli það séu sem hafa haldið konum utangátta frá málefnum undanfarin árhundruð? Og hvenær fengu konur kosningarétt? Það var einsog þær þyrftu að hafa pundsbita til þess að fá kosningarétt!”

Og svo segja þeir að við séum búin að ná jafnrétti.

“Nei, það er sko langt í land ennþá. Konur sem vinna sömu störf og karlar hafa lægra kaup, bara afþví þær vantar pundsbita eða hvað? Ég veit það ekki. En konurnar kjósa þessa andskota. Ekki kjósa konurnar konurnar.

Nei, ég hef kosið þær síðan þessi forsetaónefna var formaður alþýðubandalagsíhaldsins og gerði það einsog hann gat persónulega að öðrum Framsóknarflokki. Það er enginn eðlismunur á þessum stjórnmálaklíkum hérna. Ég er verulega óánægður með stjórnmálaþróunina í landinu. Ég kaus Sósíalistaflokkinn, en svo var honum breytt í Alþýðubandalag og ég fylgdist ekki með þangað. Þá breyttist allur tónn í þessu baráttulífi sem var milli 1940 og 1950 þegar Jón Rafnsson var formaður Alþýðusambandsins og Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason þingsetar. Ég hef ekki verið flokksbundinn síðan

Sósíalistaflokki var breytt í alþýðubandalagsíhald. Og nú ætla þessir svokölluðu vinstri flokkar að fara að búa til einn flokk úr fjórum. Búa til annan Framsóknarflokk, eða hvaða óskapnaður heldurðu að verði úr þessu?”

Hvað er til ráða?

“Hér þarf að stofna formlegan og starfandi kommúnistaflokk. Ég hef talað um það við ýmsa, til dæmis hana Birnu [Þórðardóttur] vin minn. Hún er ágætur náungi, hún Birna, en ég hef heyrt utan af mér að hún sé orðin lýðræðissinni, getur það verið? Hún var seig við að berjast við helvítis þrælana á sínum tíma. Hún hafði eitt sinn támjóan skó á fæti og sprengdi pung á einum þeirra, eftir því sem mér var sagt.

Já, ég vil vera kommúnisti og ég vil að það sé stofnaður almennilegur kommúnistaflokkur hér á Íslandi, gegn hinum “sannkristnu lýðræðissinnum” sem ráða hér lögum og lofum. Þessi sameining vinstri flokkanna er bara byrjunin, það á að reyna að teyma háttvirtan almenning í eina klíku. Einhverjir þurfa að rísa gegn þessu, en það er einsog andófsraddir fái hér engan hljómgrunn.”

En hefurðu alltaf komið kurteislega fram einsog þú lýsir í bókinni þinni? Hefurðu aldrei misst stjórn á þér og kýlt einhvern?

“Kýlt? Nei, ég hef að minnsta kosti aldrei fengið neina kæru á mig fyrir það. En þegar mér tókst ekki að sansa þingsetana til þess að sinna mér með mitt málefni, þá sagði ég að þaðan í frá léti ég lög frumskógarins ráða. Ég hef slett tjöru og málningu á þinghúsið og gamla tukthúsið við Lækjartorg. Ég hef tvisvar sinnum slett brúnu efni skyldu tjöru, corroid creosot held ég að það heiti, á tukthúsið.”

Og hvað gerðu þeir við því?

“Þeir settu mig í tukthúsið, einsog þeir hafa gert oftar en ég hef tölu á. Þeir eru líka mikið fyrir að fara með mig á þrælastöðina. Þræla kallaði Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi svokallaða lögregluþjóna. Fyrst Hafnarstúdentar leyfa sér að kalla lögregluþjóna þræla, þá geri ég það líka.”

Hver er ekki geðveikur?

En hefurðu verið lengur í tukthúsi heldur en nokkra klukkutíma?

“Jú, ég var nokkra daga þegar ég sletti skyrinu. Þá talaði ég ekkert við þá og át ekki hjá þeim heldur. Þaðan var ég fluttur á Klepp og fastaði einnig bar. En ég talaði þó við læknana og þeir tóku af mér mikla geðskýrslu. Þeir spurðu margs og ég man sérstaklega eftir því að þeir spurðu mig hvað forsetinn héti. Ég sagði þeim að hann héti Kristján Þórarinsson.”

Hvað segirðu við fólk sem heldur að þú sért geðveikur?

“Segi? Ég segi rift allan andskotann við menn. Ég er ekkert að halda því fram að ég sé ekki geðveikur. Hver er ekki geðveikur? Ég hef enga minnimáttarkennd gagnvart því. Þeir ættu þó að gá að sjálfum sér þessir andskotar sem eru að dæma mann geðveikan.”

Til fróðleiks fylgja hér tvö brot úr “Álitsgerð á geðheilbrigði Helga Hóseassonar” sem skrifuð er af Ólafi Grímssyni, þáverandi lækni á Kleppi.

Ekki verður annað greint en að Helgi sé allvel áttaður í tíma og umhverfi sínu almennt. Það kom ekki fram neitt sem benti til þess að hann væri eða hefði verið haldinn ofskynjunum. Helgi er einsog áður hefur verið vikið að mjög rígbundinn við skoðanir sínar og hefur sýnilega mjög fastmótað hugmyndakerfi, hvers kjarni er að hann upplifir sem næst öll afskipti opinberra aðila, í sambandi við hans sérstaka baráttumál, sem einskonar ofsóknir gagnvart sér persónulega. Innsýn hans í viðhorf þeirra aðila, er hann telur sig eiga í baráttu við, virðist vera ákaflega takmörkuð og segja má að hann eigi mjög erfitt eða sé vart mögulegt að líta á málið nema frá einni hlið þ.e. í samræmi við hans takmarkaða hugmyndakerfi.

[…]

Helgi sýnist haldinn verulegum geðrænum truflunum, sem virðast gamalgrónar. Allar líkur benda til þess að orsaka athæfis hans megi leita í geðklofa, sem hefur þróazt í langan tíma, án þess að ná yfirhöndinni nema á afmörkuðum sviðum og við ákveðnar aðstæður. Sjúkdómurinn lýsir sér fyrst og fremst í grillum á trúarlegu sviði og óraunhæfum viðhorfum til lífsins.

Greind hans mælist nú í meðallagi, en ljóst er, að getan er töluvert hærri, og draga geðrænar truflanir verulega úr starfshæfni greindarinnar. Raunveruleikaskynjun er yfirleitt góð, en vegna ósveigjanleika og dómgreindarbrests, slitna raunveruleikatengsl á stundum, og tekur þá Helgi hugmyndir sínar um heiminn fram yfir aðstæður einsog þær eru.

Diagnosis: Paranoia querulans Personalitas paranoides.

Helgi heldur áfram: “Skýrslan var gerð fyrir Þórð Björnsson ríkissaksóknara. Hann gat ekki náð sér niðri á mér öðruvísi heldur en að auðmýkja mig og smána með tukthúsi og geðspítala. Ég man ekki hvað ég var lengi á Kleppspítalanum, en þaðan var ég sendur á Landspítalann þar sem Páll Gíslason læknir skar í gyllinæð sem ég þjáðist af. Þegar hann hafði tekið saumana úr sagði hann að ég mætti fara heim, og ég tók vitaskuld hatt minn og staf og fór heim. En hann fékk bágt fyrir að senda mig ekki á Klepp aftur. Ég sagðist vel geta komið upp á Klepp, þetta væri nú í næstu götu og ég gæti komið í heimsókn, sem ég og gerði.

Ég er ekkert að halda því fram að ég sé ekki gallaður á geðinu. Ég hef enga minnimáttarkennd gagnvart slíku. Það er líka leiðinlegur ósiður að hafa horn í síðu þess fólks sem þarf að sækja á geðveikrahæli. Það gerir enginn að gamni sínu.”

Telur þú þig hafa þurft þess með?

“Nei, ég er nú svo forhertur að ég hef ekki talið mig þurfa þess. En aftur var ég settur á Klepp til sálarrannsókna nokkru seinna. Jakob Jónasson var þá látinn sálgreina mig, hann var besti karl og hafði plagg Ólafs Grímssonar til hliðsjónar við sína rannsókn. Ég bað hann að lána mér plaggið: “Jú, það er nú víst ekkert hér sem þú mátt ekki sjá,” sagði hann og lánaði mér skýrsluna. Ég fór strax með hana heim og fjölritaði hana.

Fljótlega var hringt og sagt að ég yrði að skila skýrslunni strax, hún mætti ekki fara út af spítalanum. Þeir höfðu nefnilega áður neitað mér um að fá að sjá hana, enda var hún ekki búin til fyrir mig, heldur bara til þess að sakadómari gæti dylgjað um geðveiki mína í útvarpi og blöðum. Hann sagði að geðskýrslan “gæfi ekki tilefni til þess að ég yrði sóttur til saka.” Ég hef nú margt glæpaverkið framið síðan, og þó held ég að ég hafi hreint sakavottorð.”

Nú ert þú búinn að standa í baráttu í tugi ára. Hefur þetta aldrei lagst þannig á þig að þú hafi orðið þunglyndur vegna alls þessa?

“Ég er ekkert að hæla geðslagi mínu, en ég tel mig hafa réttlætismál að reka. Og ég hef reynt ýmislegt til þess að koma hreyfingu á þetta mál. Til dæmis gaf ég út Jesúrímur Tryggva Magnússonar í trássi við bönn ættingja hans og Unndórslof Kristjáns forseta, en það eru klámvísur sem hann orti á unga aldri, um Unndór nokkurn Jónsson, mikinn reiðhrók. Ég skrifaði til Kristjáns og spurði hann leyfis, hann ansaði mér ekki en bað Einar Braga að skila því til mín að það væri óæskilegt að fjölrita þær vegna fjölskyldu Unndórs. Ég gerði það samt, því mér fannst að fólk ætti rétt á því að lesa skáldskap þjóðhöfðingja síns. Ég sendi honum þrjú eintök, og vonaðist til þess að hann kærði mig fyrir ritstuld og það vekti athygli á mínu málefni, en mér varð ekki að þeirri ósk.”

Hver maður á að fá að hafa sína trú…

En hvað segir fjölskylda þín við þessum látum í þér? Ég veit að Kristinn bróðir þinn er prestur, en hvað með Jóhönnu eiginkonu þína, er hún kristin?

“Jóhanna félagi minn er dauðhrædd við þá í efra. Hún er svo trúuð að það kemur ekki til greina að hún fari í Helvíti. Ég var svosem ekki að hlýða henni neitt yfir trúarskoðanir þegar við vorum að semja, enda sjálfsagt að hver maður fái óáreittur að hafa sína trú, en hinsvegar setti ég henni þau skilyrði að hún notaði ekki brennivín eða tóbak. Hún reykti þegar við kynntumst, en tók mig framyfir tóbakið.”

Ræðið þið hjónin trúmál?

“Ég læt stundum til mín heyra, en hún þegir allt fram af sér og heldur sínu striki. Hlustar til dæmis alltaf á orð kvöldsins.”

En hvernig er sambandi ykkar bræðra háttað?

“Presturinn hefur ekki heimsótt mig í mörg ár, bara vegna afstöðu minnar til himnadrauganna.”

Hann kærði þig til sýslumannsins í Suður-Múlasýslu árið 1982 og bar þér á brýn að þú hefðir kveikt í Heydalakirkju í Breiðdal, þar sem hann var þjónandi klerkur, með þeim afleiðingum að kirkjan brann til grunna. Kveiktirðu í kirkjunni?

“Ég hef aldrei játað það á mig, og raunar ekki neitað því heldur. Það skyldi þó ekki vera að Himnafeðgar hafi sent eldingu niður í kirkjuskriflið, annað eins hafa þeir nú gert sér til dundurs.”

En hvað sögðu foreldrar þínir heitnir við baráttu þinni? Nú hafa þau reynt að innræta þér guðsótta og góða siði.

“Þeir voru náttúrlega vön þessum andskota, það voru jú þau sem létu mig gera samninginn og ég las þeim pistilinn öðru hvoru. Þó töluðum við aldrei af neinni hörku um þessi mál og þau leituðust aldrei við að fordæma mig fyrir mínar tiltekjur.”

Til Himna líkt og skrugga skaust…

Þú ert mikið í að semja vísur um Drottin og Jesú Krist. Sumir segðu að efni vísna þinna væri argasta guðlast. En hvers vegna nýtirðu þér guðlast í mótmælum þínum? Ég nefni sem dæmi vísu eftir þig bar sem þú segir frá himnaför Frelsarans með vægast sagt óvenjulegum orðum.

Ésú hold við láð varð laust,
lagúldinn í framan
til himna líkt og skrugga skaust
með skítogöllusaman.

“Það segir sig sjálft að það hefur verið farið að slá í drauginn í fjörutíu stiga hita þarna á Miðjarðarhafsbotnunum. Hann hefur verið úldinn, ég er ekki að búa neitt til. Og hann var nýbúinn að éta stykki af steiktum fiski og nokkuð af hunangsköku, hann hefur væntanlega farið með skítogöllusaman.”

En með þessu ofurraunsæi, ertu þá ekki að reyna að hreyfa við fólki?

“Jú, ég er að reyna að hreyfa við þessum andskotum sem sitja yfir mínum rétti gagnvart því að fá skráð í þjóðskrá að ég sé búinn að ónýta skírnarsáttmálann. Það er svívirðing við mig sem hugsandi skepnu að það sé skráð í einu persónuheimild mína að ég viðurkenni þessi andskotans ósköp.”

Ferðu inní kirkjur?

“Nei, og ég fæ ekki að standa fyrir utan þær heldur. Þegar Einar Olgeirsson dó og það var lesið yfir honum hérna niðurfrá, þá stóð ég með spjald á gangstéttinni á móti kirkjuskriflisdyrunum Ég vildi gjarnan vera í námunda við Einar af því að hann var ágætur maður, en heldurðu að þrælarnir komi ekki og troði mér inní þrælabíl og aki mér niðrá þrælastöð?

Ég hef ekki frið til þess að ganga um með spjald. Ég má ekki tjá mig með þöglu tákni á almannafæri. Hvað eru mannréttindi ef maður má ekki tjá sig? Nei, hér er sko ekki tjáningarfrelsi af neinu tagi.”

En þegar þú kveður þetta líf, verðurðu þá ekki borinn í guðshús og þér holað niður í vígðri mold einsog öllum öðrum?

“Fyrir mörgum árum skrifaði ég niður hvað ég vil láta gera við mig dauðan. Ég lakkaði það bréf og festi það í lokið á koffortinu mínu. Svo skrifaði ég sjö mönnum, kunningjum mínum og ættingjum, og bað þá að kíkja á kistulokið þegar ég væri dauður. Enginn þeirra ansaði mér, svo ég geri ekki ráð fyrir að þeir ætli að sinna mér nokkuð með það.”

Að lokum

Ertu bitur gamall maður?

“Já, það er ég. Hver getur verið glaður á þessari djöfuls Jörð?”

Ertu ekki enn búinn að sætta þig við það að þú færð í rauninni engu ráðið?

“Það er af og frá. En það eru fleiri málefni sem óhjákvæmilega stríða á mann. Í heiminum eru tveir af hverjum þremur fyrir neðan hungurmörk. Mæður í Kóreu eru farnar að éta börn sín, slíkt er hungrið. Hvers vegna gerir Krosslafur ekkert í þessu? Hvers vegna sendir hann ekki manna niður til þeirra? Þetta á að vera svo helvíti gott í sér! Hvernig getur hann horft uppá þetta? Hann situr bara uppá himnum og hlær í skeggið.”

En heldurðu að við förum eitthvað að lagast, Helgi? Að mannkynið fari að átta sig?

“Nei, ég hef sannarlega enga ástæðu til þess að ætla það og geri mér alls engar grillur þar að lútandi.”

Ritstjórn 24.10.2003
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Klassík , Kristindómurinn , Rökin gegn guði )

Viðbrögð


ægir kjartansson - 30/10/03 23:53 #

vill koma að ,virkilegu takklæti fyrir viðtalið og birtinguna-sterkt stuff


Drengur - 03/11/03 16:18 #

Þetta er mjög áhugaverð lesning. Hvernig væri nú að hjálpa kallinum svolítið.


Vigdís Hlíf - 08/11/03 11:34 #

þessi maður er töffari!


Torfi Stefánsson - 11/11/03 08:02 #

Já, þetta er frábært viðtal og ótrúleg saga. Ég sem "vígður" maður verð að lýsa furðu minni á skilningsleysi og harðneskju kirkjunnar gagnvart Helga. Hún virðist alls ekki geta tekist á við "afvíkjandi" hegðun. Merkilegt þar sem "Krosslafur" lagði einmitt áherslu á að "finna" týndu sauðina. En merkilegust eru þó mannréttindabrotin á karlinum. Bjuggjum við ekki við réttarríki á þessum tíma? Ja, svei! Hvernig er svo heimildarmyndin. Ég býr erlendis svo ég á ekki kost á að sjá hana...


Flosi - 19/02/04 04:28 #

Skemmtilegt viðtal. Nú er maðurinn orðinn ansi aldraður og leiðinlegt til þess að hugsa að hann geti ekki unnið sigur í sinni baráttu áður en hann hverfur úr þessu lífi.


Þórður B. Sigurðsson - 17/04/04 23:35 #

Helgi Hóseason er góður maður sem kerfið hefur farið illa með. Ráðamenn þjóðarinnar á tuttugustu öld mega skammast sín fyrir að láta ekki undan ósk Helga. Ég trúi því að Helga og baráttu hans verði minnst um ókomna tíð, hann er kominn á spjöld Íslandssögunnar og eflaust munu sagnfræðingar framtíðarinnar taka mál hans sem dæmi um hve kerfið var ófullkomið fyrr á öldum; fólkið til fyrir kerfið en ekki kerfið til fyrir fólkið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.