Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hálfvitar

Mynd af The Three Stooges

Ein leiðinlegasta og lífseigasta mýtan um Vantrú er að við höldum að fólk sem trúir séu hálfvitar og köllum trúmenn slíkum nöfnum.

Ekki misskilja, fjölmargir trúmenn eru hálfvitar. Ótal trúleysingjar eru það líka. Svo við einföldum dæmið: Margir eru hálfvitar.

Hér á Vantrú hefur því aldrei verið haldið fram að þeir sem trúa á hindurvitni - hvort sem um er að ræða kristni, íslam, heilun, smáskammtalækningar, miðla eða annað í þeim dúr - séu hálfvitar. Það er einfaldlega ekki okkar skoðun. Ein elsta greinin á Vantrú heitir Þið eruð ekki fífl og þar kom fram að :

Þó við séum ósammála fólki þá þýðir það ekki að við höldum að það sé heimskt, við lifum ekki í svo einföldum svarthvítum heimi.

Nýjasta hálfvita-útspilið kemur frá Morgunblaðinu. Í grein á miðopnu sakar blaðamaðurinn Gunnar Dofri Ólafsson Vantrú um vænisýki og útskýrir í kjölfarið af hverju hann eigi ekki samleið með Vantrú þrátt fyrir að vera trúleysingi.

Þegar sonur minn eða dóttir ... spyrja: »Pabbi, er guð til?« þá væri hvorttveggja rangt að segja: »Já, hann er til og þú ferð beint til helvítis þegar þú deyrð ef þú trúir því ekki skilyrðislaust« og: »Nei, hann er ekki til og ef þú trúir því ertu hálfviti eins og allir hinir sem trúa því.«

Báðir þessir foreldrar eru augljóslega hálfvitar en þarna er enn og aftur verið að stilla Vantrú upp sem speglun á öfgatrú. Vandinn er að þetta á ekkert skylt við málflutning Vantrúar.

Kæru “aðdáendur” Vantrúar. Viljið þið vinsamlegast hætta þessu. Ekki halda því fram að á Vantrú sé sífellt verið að kalla alla trúmenn fífl, fávita, lygara eða hálfvita. Jú jú, það er rétt, það hefur gerst að einhverjir einstaklingar hafa verið kallaðir illum nöfnum hér á Vantrú en ég fullyrði að það hefur einungis gerst af ærnu tilefni. Við notum ekki svona orðbragð af neinni léttúð og við tölum ekki þannig um trúað fólk almennt.

Matthías Ásgeirsson 30.12.2013
Flokkað undir: ( Vantrú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/12/13 12:09 #

Svo ég vitni áfram í (ímyndað?) samtal blaðamanns við börn sín, þá svarar hógværi trúleysinginn sem á ekki samleið með Vantrú spurningunni svona:

»Veistu, þú ert greinilega bara frekar klárt ímyndað barn fyrst þú spyrð svona. Ég verð eiginlega að játa að ég bara veit það ekki. Ég held að guð sé ekki til, en svo er líka til margt fólk sem heldur að hann sé til. Hvað heldur þú?«

Þetta er svosem ágætt svar en ég set samt spurningamerki við það! Af hverju þurfa trúleysingjar að vera hlutlausir þegar kemur að þessari spurningu til að teljast hógværir? Nú hefur hugsanlega dunið áróður á þessu barna frá hinni áttinni, t.d. í leik- eða grunnskólanum eða í kirkjuferðinni, a.m.k. á það við um mörg börn.

Hvað er að því að segja: "Nei, Guð er ekki til. Það er ekkert sem bendir til þess"? Er það eitthvað hrikalega öfgafullt?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 30/12/13 12:45 #

Það er alltaf vel þess virði að skoða svona í samhengi við kynþáttafordóma, ef barnið spyr hvort hvítir séu æðri kynstofn þá er ekkert sérstaklega skynsamlegt að svara.

»Veistu, þú ert greinilega bara frekar klárt ímyndað barn fyrst þú spyrð svona. Ég verð eiginlega að játa að ég bara veit það ekki. Ég held að hvítir einstaklingar sé ekki óæðri, en svo er líka til margt fólk sem heldur að svo sé. Hvað heldur þú?«

Það er ekkert að því að segja

Nei, hvítt fólk er ekki æðri kynstofn. Það er ekkert sem bendir til þess

Pétur - 30/12/13 14:38 #

Ég get vel skilið afstöðu ykkar að vilja halda fram ykkar lífsskoðun að barni ykkar. Það er ekki öfgafullt að mínu mati. En er spurningin "hvað heldur þú" ekki eitthvað sem þóknast barninu betur. Gefur það ekki barninu dýpri skilning á samfélag okkar ef við segjum þeim frá öllu því sem mun verða á vegi þeirra í lífinu og leyfum þeim að mynda sér skoðun út frá eigin reynslu og þekkingu.

Ef við gefum okkur að börnin séu tvö frá sitt hvorri fjölskyldunni. Önnur er trúuð en hin trúlaus. Trúalausa fjölskyldan segir að Guð sé ekki til og trúaða fjölskyldan segir að Guð sé til. Báðir foreldrar taka afstöðu með sinni lífsskoðun sem er eðlilegast en hér er ekki gert ráð fyrir að barnið hafi skoðun eða geti komist að eigin niðurstöðu. það á að fylgja skoðun foreldranna. Báðir aðilar nota sína þekkingu og reynslu til þess að réttlæta þessa nálgun og hún er í sjálfum sér alveg réttlætanleg upp að vissu marki. En ef við gefum ekki barninu svigrúm til þess að ákveða hvaða leið það vill fara í lífinu, þá erum við ekki lengur að leiðbeina að mínu mati. Við erum að þröngva okkar lífsskoðunum upp á þau.

Seinna meir hittast þessi börn þegar þau eru orðin fullorðin og lífsskoðannir þeirra rekast á. Þau eiga erfitt með að skilja hvort annað, því að foreldrar þeirra eru búin að sannfæra þau um að "sannleikur" þeirra sé hinn eini sanni. Það er því lítið um gagnkvæman virðingu fyrir lífsskoðun hvors annarrs og samræður snúast mest um að reyna að hafa rétt fyrir sér frekar en að leysa ágreining þeirra.

Væri ekki betra að leiðbeina börnum okkar þannig að þau fá sem mestar upplýsingar um þær lífsskoðanir sem eru til og taki síðan ákvörðun hvaða leið þau vilja fara út frá eigin þekkingu og reynslu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/12/13 14:47 #

Jú Pétur, þetta er nú eiginlega kjarninn í því sem Vantrú hefur verið að segja undanfarin ár. Þess vegna berjumst við t.d. gegn trúboði í leik- og grunnskólum, ekki fyrir boðun trúleysis á sama vettvangi.

Það er t.d. voðalega lítið "hvað heldur þú" í gangi í kirkjuheimsóknum leik- og grunnskólabarna um jólin. Miklu meira svona "Jesús fæddist á jólunum og nú skulum við tala við Gvuð". Það sama má reyndar því miður segja um trúarbragða- og kristinfræði í barnaskólum landsins.

Og þegar raunveruleikinn er þannig í hinu opinbera rými, þá hlýtur maður að spyrja. Ef ein hliðin stundar stífa boðun en hin veigrar sér við allt slíkt og iðkar hlutleysi, er þá ekki verulegt ójafnvægi í gangi?

En þetta var nú samt útúrdúr frá aðalatriði greinarinnar, sem er sá að við erum ekki þeirrar skoðunar að allir trúmenn séu hálfvitar.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?