Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lægri blóðþrýsting en hverjir?

Í síðustu viku birtist stutt umfjöllun um rannsókn á blóðþrýstingi kirkjurækins fólks í Noregi á vef Þjóðkirkjunnar undir yfirskriftinni "Lækkar messan blóðþrýsting?". Smugan tók málið til umfjöllunar og ræddi við Óla Gneista, meðlim Vantrúar, um málið.

Ögn um rannsóknina

Þessi rannsókn er athyglisverð. Notast var við gögn úr eldri rannsókn þar sem almennir lífeðlisfræðilegir þættir voru skoðaðir. Gögnin voru athuguð með tilliti til kirkjusóknar og blóðþrýstings til að kanna hvort eitthvað samband væri á milli þessa þátta.

Úrtak rannsóknarinnar var frekar stórt, um 36 þúsund einstaklingar. Af þeim 3.6% einstaklinga sem sóttu kirkju oftar en þrisvar á mánuði fannst tölfræðilega marktæk lækkun blóðþrýstings miðað við hópinn í heild. Blóðþrýstingur var lægri eftir því sem fólk var kirkjuræknara. Þó var munurinn ekki mikill eða mest um 2 mmHg.

Aðgangur að greininni er lokaður fyrir almenning nema gegn gjaldi og því er erfitt að meta aðferðafræði hennar. Ef við gefum okkur að niðurstöðurnar standist rýni - með þeim fyrirvara að greinin er óaðgengileg og því ekki hægt að meta hana - þá segir hún okkur að íbúar Norður-Noregs sem stunda kirkju upplifa að meðaltali örlitla lækkun á blóðþrýstingi. Hins vegar má velta því fyrir sér hvað þessar niðurstöður segja okkur í raun og veru.

Að tilheyra samfélagi

Það hefur löngum verið vitað að það eru tengsl á milli heilsu fólks og þess hvort það tilheyri hópum sem það samsamar sig við; það eru sterk tengsl á milli samfélagsvitundar og heilsu. Þess vegna ættu niðurstöður rannsóknarinnar ekki að koma á óvart. Þeir sem sækja kirkju oft á mánuði upplifa sig sem hluta af söfnuðinum, hluta af hópi með sameiginleg lífsgildi og áhugamál. Í þessu samhengi má benda á kanadíska rannsókn sem gerð var fyrir tveimur árum þar sem í ljós kom að mun sterkari tengsl er á milli heilsu og almennrar samfélagsvitundar fólks en mældist nokkurn tíman á milli trúar og heilsu.

Út frá þessu má álykta að norsku vísindamennirnir hefðu mátt spyrja annarrar og mun áhugaverðari spurningar: Er blóðþrýstingur þeirra sem mæta reglulega í kirkju lægri en þeirra sem tilheyra annars konar hópum sem hittast reglulega og hafa svipað gildismat? Það væri ekki ólíklegt að fólk í skák-, bóka- eða saumaklúbbum sem hittast oft í mánuði til að ræða sameiginlega afstöðu sína til ýmissa mála upplifðu sömu jákvæðu áhrif á heilsu sína og þeir sem stunduðu kirkjusókn.

Þessi norska rannsókn er ekki ein sinnar tegundar. Það er til ofgnótt rannsókna sem fást við sama eða svipað viðfangsefni og niðurstöðurnar virðast jafnmismunandi og rannsóknirnar eru margar. Tengslin eru ekki sterkari en svo milli kirkjusóknar og heilsu að minnstu breytingar á framkvæmd rannsókna breyta niðurstöðunni. Því þykir ekki sýnt fram á að trú eða það að vera trúaður valdi lækkuðum blóðþrýstingi í sjálfu sér, heldur er það sennilega félagsástundunin sem fæst við safnaðarstarfið sem veldur þessari lækkun.

Heilsa og hamingja

Þar að auki eru áhrif kirkjusóknar á blóðþrýsting það óveruleg að það hefur mun meiri áhrif að fara út að spássera. Það er nefnilega hægt að ná fram svipuðum ef ekki meiri áhrifum á blóðþrýsting með því að fara reglulega í 15 til 20 mínútna göngutúr.

Til gamans má geta að Lýðheilsustofa gerir reglulega kannanir á hamingju Íslendinga, þar sem teknir eru saman þættir eins og líkamleg og andleg heilsa og upplifun einstaklinga af sjálfum sér og sínu lífi. Samkvæmt þessum rannsóknum mælast Íslendingar sífellt meðal hamingjusömustu þjóða heims. Ein túlkun vísindamanna Lýðheilsustofu á niðurstöðunum er sú að á Íslandi sé samfélagsnetið þétt og fólk hefur sterka samfélagskennd. Þessi samfélagskennd hefur svo aftur sterk áhrif á heilsufar fólks. Ekki þarf kirkjurækni til.

Erna Magnúsdóttir 13.01.2012
Flokkað undir: ( Efahyggja , Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Steindór J. Erlingsson - 14/01/12 03:10 #

Tom Rees bloggar um norsku rannsóknina í nýjustu færslunni sinni. Hann bendir einmitt á að þó kirkjusókn tengist betri heilsu eigi það ekki við trúna sem slíka.

Hann fjallar einnig um aðra rannsókn sem er enn athyglisverðari. Hér er um að ræða bandaríska rannsókn sem sýnir að tengslin milli bættrar heilsu og kirkjusóknar eigi einungis við hjá þeim sem eru með litla menntun. Hjá þeim sem eru vel menntaðir snýst þetta við.

Overall, because there are more ill-educated people than educated ones, religious attendance has a beneficial effect. But the benefit really accrues to the ill-educated. For the educated, religion (at least, the kind of religion widely practised in the USA) might actually be harmful.

Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 14/01/12 11:40 #

Svo er 2mmHg lækkun á blóðþrýstingi ekki-niðurstaða í sjálfu sér.

Þó að hægt sé finna tölfræðilega marktækan mun í svo stóru úrtaki þá er ekki þar með sagt að munurinn hafi eitthverja raunverulega þýðingu.


Carlos - 15/01/12 10:00 #

Gaman að þessari grein, Erna. Mér finnst þú gera ágætlega grein fyrir samantekt þess sem um er fjallað en gerir ein reginmistök.

"Aðgangur að greininni er lokaður fyrir almenning nema gegn gjaldi og því er erfitt að meta aðferðafræði hennar. Ef við gefum okkur að niðurstöðurnar standist rýni - með þeim fyrirvara að greinin er óaðgengileg og því ekki hægt að meta hana ..."

Þegar fólk fjallar um vísindagreinar, á það að lesa þær, þótt þær kosti peninga (eða tala við einhvern, sem hefur aðgang að henni, t.d. starfsmann háskólasjúkrahúss).


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 15/01/12 10:08 #

Það gildir þá væntanlega líka um alla trúmennina sem hafa hampað þessum niðurstöðum, t.d. biskupinn?


Erna Magnúsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 15/01/12 10:35 #

Carlos: það er auðvelt fyrir þig að fara fram á það. Hins vegar gerir þú sjálfur reginmistök í að lesa ekki almennilega það sem ég skrifaði: Ég ákvað að gagnrýna greinina sjálfa og niðurstöðurnar ekki efnislega, út af því að ég hef ekki aðgang. Þess vegna gaf ég mér að niðurstöðurnar stæðust gagnrýni og fjallaði um málið út frá því.

Ég vinn sjálf við einn virtasta háskóla í heiminum og við erum með einn besta aðgang sem um getur að vísinda- og læknagreinum en vísindatímarit eins og þetta sem þessi grein birtist í er það lágt skrifað að það þykir ekki taka því að borga fyrir það. Ég hafði líka samband við vini mína sem starfa sem vísindamenn við nokkrar vísinda stofnanir í heiminum og það hefur enginn þeirra aðgang að henni.

Hins vegar er ég með aðgang að kanadísku rannsókninni sem ég vísaði í og las þá grein.

Í fullkomnum heimi væri aðgangur opinn fyrir almenning að öllum birtum vísindaniðurstöðum, en staðan er ekki þannig í dag. Ég vona að þú erfir það ekki við mig að borga ekki 4000 krónur fyrir aðgang að grein sem ég gagnrýndi ekki einu sinni efnislega.


Carlos - 15/01/12 11:20 #

Gott mál, Erna, I stand corrected. Ég rata sjálfur ekki um vísindagreinar og tímarit og vissi ekki að þessi útgefandi er "substandart".


Carlos - 15/01/12 11:23 #

Ásgeir, ef einhverjir trúmenn og biskupinn hampa vafasömum vísindum, þurfa þá gagrýnendur (þú) að lúta jafnlágt?


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 15/01/12 13:05 #

Í fyrsta lagi er ekki lotið jafn lágt. Þessi grein er miklu betri en allt sem trúmenn hafa látið frá sér fara um þessa grein, það hefur verið gjörsamlega gagnrýnislaust.

Í öðru lagi var punkturinn minn ekki um það. Punkturinn minn var að það þykir einhvern veginn ekki við hæfi að segja við þá að þeir hafi ekki lesið greinina, en trúa henni þó eins og nýju neti.


Carlos - 15/01/12 14:16 #

Mér fannst þessi grein rísa hærra en margt sem ég hef lesið hér, Ásgeir, gera betur en t.d. gert var á kirkjan.is, sem eins og þú segir sagði frá henni gagnrýnislaust.

Skil ekki lið tvö hjá þér, Ásgeir.

Punktur minn hinsvegar er sá, að þótt andstæðingurinn leggist lágt afsakar það ekki léleg vinnubrögð þegar maður tekst á við hann (enduróma hér umræðu við nokkra félaga annars staðar).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.