Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Óheiðarleiki ofsatrúarinnar

Ég fjasaði nýverið nokkrar lotur við trúmann sem hamraði alltaf á sömu tveimur atriðunum og sagði lítið annað. Kauði klifar annarsvegar á að trúleysi sé trú, því menn trúi að þeirra tegund upplýsingaöflunar sé sú eina áreiðanlega (yfirleitt efnishyggja/vísindahyggja) og hinsvegar á að vegna þess að ekkert geti verið fullkomlega hlutlægt vitað, sé allt svo afstætt og geggjað að það sé engin leið að afskrifa kristni. Forsendur hans eru þess utan að hann telur sig kristinnar trúar og trúir í einhverjum skilningi á fórnardauða og upprisu Jesú Krists.

Á þessum forsendum bölsótast þessi aðili stöðugt út í trúleysingja og þykir við voðalega hrokafullir að kalla afstöðu okkar eitthvað annað en trú og fyrir að efast um tilvist guðs/guða. Fallist viðmælendur hans á að í heimspekilegum skilningi megi segja að það sé sannleikskorn í þessu hjá honum, fagnar kauði ákaft og þykist undir dulnefni sínu hafa fært umræðunni viskuperlu fyrir aðra til að stara á í andakt.

Þetta væri í sjálfu sér hið besta mál ef sami aðili væri ekki að sama skapi alveg svívirðilega óheiðarlegur í samskiptum, eins og er svo algengt með ofsatrúarfólk*. Umræddur óheiðarleiki felst yfirleitt í að notast við einar forsendur þegar þær henta trúarafstöðunni, en hafna þeim þegar þær henta ekki og láta síðan eins og niðurstaðan sem byggir á svo mótsagnarkenndum rökum sé dæmi um hvað viðkomandi sé víðsýnn og laus við höft efnishyggjunnar.

Við getum öll sett okkur inn í hugmyndina um að allt sé svo afstætt og þekkingarleitin svo mikill grautur að allar hugmyndir séu jafnar að gæðum. En ef við gefum okkur að það séu réttar forsendur, er umræðan náttúrulega á enda og allir geta hætt að tjá sig um sannleiksgildi hluta og bara farið að dóla sér í tilverunni - sem er kannski ágætt.

Staðreyndin er náttúrulega engu að síður sú að hugmyndir eru ekki allar jafnar og að afstaða okkar til þekkingar hefur ríkuleg áhrif á tilveru okkar, allavega þá tilveru okkar sem við höfum einhverjar upplýsingar um - þá efnislegu. Menn geta síðan fantaserað eins og þeir vilja um að efnisleg tilvist okkar sé aðeins brot af raunverulegri tilvist okkar og jafnvel sú sem er minnst raunveruleg, eins og er svo vinsælt að halda fram í austurlenskri heimspeki.

Það er hinsvegar svo, að jafnvel þó að hinn efnislega skynjun okkar á tilvistinni sé ekki nema 0,001% af raunverulegri tilvist okkar, þá er það 0,001% samt eini þáttur þeirrar tilveru sem við höfum getuna til að prófa, endurtaka og sannreyna hluti í. Þannig að innan þess kerfis, ef kalla má, er þó til leið til að vega og meta sannleiksgildi hugmyndar, hvort sem kerfið kann að vera blekking eða ekki.

Innan kerfisins, sem við skulum hér eftir kalla efnishyggju - án þess þó að leggja eigi í það hugtak einhverja útilokun á öðrum hlutum - er hægt að koma sér upp þekkingu sem skilgreina má þannig að hlutir sem þykja líklegir miðað við endurteknar prófanir og reynslu af efnisheiminum, teljist sæmilega örugg og líkleg þekking á meðan hlutir sem illa gengur að prófa og staðfesta teljast óstaðfestar hugmyndir. Þannig er þekking yfirleitt fall af líkindum, mikil líkindi eru þekking en lítil líkindi köllum við frekar hugmyndir en þekkingu.

Ég veit það til dæmis af reynslu, að ef ég legg hönd mína á heita eldavélarhellu mun ég brenna mig, finna til sársauka og sjá breytingar á húðinni. Ég veit það auk þess af samskiptum við annað fólk og af lestri bóka og af frétta- og kvikmyndaglápi** að þetta er nokkuð sem allir sem þekkja til eldavélarhella eru sammála um að sé tilfellið. Þetta er hugmynd hvers líkindi eru mikil og við köllum hana því þekkingu. Margt annað hugsa ég og dettur í hug, en það að ég muni vinna í Lottó í næstu viku er til dæmis skemmtileg hugmynd, en afar ólíkleg hugmynd, og því ekki þekking.

Guðir eru eins og lottóvinningar frá efnishyggjunni séð. Milljónir manna vilja vinna í happadrætti, hvort sem það er Lottó lífsins í formi peninga eða Lottó dauðans í formi trúarbragða og himnaríkis. Það að milljónir manna trúi, óski og vilji er því þekking, en það sem þeir trúa, óska og vilja eru hugmyndir.

Nú kemur óheiðarleiki ofsatrúarmannsins til sögunnar. Allir sem lifa og hrærast í henni veröld vita að þessu er svona háttað með þekkinguna, það finnum við þegar við borðum morgunmatinn okkar, flettum blöðunum, keyrum bíl og hlustum á útvarp. Frá líkamlegri tilvistinni séð er þekking háð líkindum, því við aðgreinum dagdrauma og veruleika og gerum okkur grein fyrir að við erum t.d. ekki með vængi og getum ekki flogið, því annars myndum við öll sem eitt hoppa fram af brúninni á bjarginu við Dyrhóley til að svífa með mávunum.

En ofsatrúarmaðurinn vill ekki kannast við að þessi atriði hafi neitt að segja fyrir hugmyndir hans um yfirnáttúru, guði og jafnvel veraldleg kraftaverk. Hann vill að einhver önnur lögmál gildi um hans eigin hugmyndir en gilda fyrir allar aðrar hugmyndir, hann vill fá að kalla trú sína líklega, á sama tíma og hann vill hafna hugtakinu og hann vill jafnvel fá að kalla trú sína þekkingu, á sama tíma og hann vill heldur ekki kannast við eðli þess orðs.

Þegar trúleysinginn segir tilvist guða ólíklega gerir hann það á þeim forsendum að orðin vitneskja og þekking hafi einhverja merkingu. Miðað við það sem við vitum um hlutina í hefðbundinni merkingu eru guðir ólíklegir til að finnast, t.d. vegna þess að um margar slíkar ólíkar hugmyndir hafa verið skrifaðar óteljandi bækur og flestar/allar skilgreinum við þær sem skáldskap og fantasíur.

En svo ég dragi þetta nú aðeins saman, þá tölum við annaðhvort um að við vitum einhverja hluti, eða enga. Ef við vitum enga hluti er engin umræða nauðsynleg eða möguleg, allt er jafn satt og logið. En ef við vitum eitthvað, þá er það af því að við höfum hugmyndir sem eru misstaðfestar og eina kerfið sem býður upp á að staðfesta hluti, svo við getum skilið og talað um, er hin efnislega tilvera.

Botnlaus óheiðarleiki ofsatrúmannsins er fólginn í því að tala á veraldlegum nótum um líkindi upprisunnar, bæna, kraftaverka og þess að Jesús hafi verið til og fleira í þeim dúr, en vilja á sama tíma ekki kannast við að orðin líkindi og þekking hafi neina merkingu eða vægi þegar að því kemur að tala um tilvist guðs, því öll þekking sé svo afstæð að ekkert sé vitað - sem eins og áður segir myndi fyrirgera allri umræðunni, ekki bara hluta hennar.

Á sama hátt er það óheiðarlegt að kalla það trú að bera ákveðið traust til efnishyggjunnar umfram önnur kerfi, þegar sú trú byggir að minnsta kosti á hugmyndinni um að þekking sé möguleg, en guðstrúin ofsatrúarmannsins gerir það ekki - nema þegar annað hentar hinum trúaða og sú hentistefna fyrirgerir málstað hans.

Það er því bara ein leið út úr þessum graut trúarmannsins. Að gefast upp á algjörri afstæðishyggjunni og viðurkenna að frá veraldlegum bæjardyrum séð megi færa rök fyrir því að trúin á guð sé ólíklegri hugmynd en margar aðrar, eða reyna að öðrum kosti alls ekki að eiga samtalið, því í algjörri afstæðishyggju er ekkert samtal mögulegt.


*ofsatrúnaður skilgreindur sem að leggja að jöfnu trú á líklega og ólíklega hluti.

**ekki er átt við að skoðun fjöldans tryggi sannleiksgildið, heldur að ljóst þyki að ganga megi hús í hús og staðfesta þessa hluti með fólki.

Kristinn Theódórsson 30.04.2010
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/10 09:18 #

Hva! Þetta er bara ágætt hjá mér. Nú hlýt ég að vera búinn apð bjarga heiminum. Eftir þessa birtingu hljóta öll trúarbrögð heims að liðast í sundur og hverfa inn í sögubækurnar sem skopleg og forneskjuleg sérlunda.

;-)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/04/10 10:05 #

Séra Gunnar Jóhannesson hefur sýnt fram á að þessi rök þín ganga ekki upp:

Sé Guð ekki til þá veit ég ekki hvaða von, tilgang, merkingu eða gildi má finna í lífinu yfirleitt þegar allt kemur til alls. Allt er þá einfaldlega eins og það er og hefur ekkert að gera með það sem okkur finnst að eigi að vera.

Auðvitað hlýtur allt að vera eins og honum finnst að það eigi að vera, ekki eins og það er.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 30/04/10 10:19 #

Já, skrambinn, er sr. Gunnar alveg búinn að tjóðra mig svona!

Þetta er gríðarlega djúpt hjá honum. Allt er þá einfaldlega eins og það er... Bömmer.

En ekki hvað?! Voðaleg geta menn bullað.

:-)


Oddur - 30/04/10 12:22 #

Ég vil ímynda mér betri heim:

Imagine there's no heaven, it's easy if you try No hell below us, above us only sky Imagine all the people Living for today

Imagine there's no countries, it isn't hard to do No need to kill or die for and no religions too Imagine all the people Living life in peace (John Lennon)

Ég held að hann hafi fundið leiðina, en það eru nokkrir þröskuldar á leiðinni.


BjornG - 30/04/10 14:39 #

Heh, trúleysi er bara höfnun á guði eða guðum, það er allt og sumt, þó eitthvað sé ekki vitað er óþarfi að segja guð í staðinn, það var satt og rétt að t.d jörðin var flöt fyrir einhverjum hundruðum árum, en við vitum betur í dag, þótt það sé ekki vitað í dag þýðir ekki að það sé óvitanlegt á einhverju skeiði, fínt grein, ég hef spjallað við einhverja ofsatrúarmenn á netinu, flestir neita að hlusta á rök og halda að þeir séu 100% rétt og satt það sem þeir segja, stinga puttunum í eyrun og söngla ég heyri ekki!


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 02/05/10 13:51 #

Já, mjög góð grein..

En mér dettur eitt í hug varðandi tilvitnunina í Gunnar, svarið er svo sem augljóst þó guð sé ekki til. En hefur einhver spurt Gunnar hvaða tilgang lífið hafi þó guð væri til?


Ólafur Th Ólafsson - 04/05/10 01:17 #

Árið 1978 kom út hjá Máli og menningu bókin Félagi Jesús, eftir Sven Wernström. Í upphafi bókarinnar segir höfundurinn: "Þar sem margir aðrir hafa tekið sér fyrir hendur að færa í letur frásagnir um smiðinn Jesú og hinn einkennilega feril hans frá friðsælu lífi í Nasaret að smánarlegum dauðadómi í Jerúsalem, þá réð ég það líka af, eftir að hafa rannsakað allt allkostgæfilega, að rita um þetta til þess að börn vor verði fær um að ganga úr skugga um áreiðanleik þeirra frásagna, sem enginn kemst undan að hljóta fræðslu í." Tilvitnun lýkur. Það kemur greinilega fram að Jesú þessi var ekkert annað en herstöðvaandstæðingur sem barðist gegn rómverska setuliðinu! Bókin sú arna fæst áreiðanlega lánuð í bókasöfnunum. Ég mæli með henni.


Kristinn - 04/05/10 11:25 #

Auðvitað var Jesús bara einhver klár hugsuður, rétt eins og búdda og margir aðrir áhrifamenn. Og auðvitað má nálgast sömu líðan og tilfinningu fyrir mikilvægi hlutanna með því að demba sér í fleiri mót en hinar ýmsu útgáfur af kristni, íslam eða annað.

Að hengja sig í að eitthvað eitt af þessu sé beintengdara en hitt við skapara heimsins er svo fjarstæðukennt að það nær engir átt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.