Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hjálparstarf

Fyrir jólin er alltaf talsverð umræða um hjálparstarf og landsmenn dyggilega minntir á að það megi ekki gleyma þeim sem minna mega sín. Margir leggja sitt af mörkum til hjálparstarfs hvers konar með peningum eða sjálfboðaliðastarfi. Flestir hljóta að hafa velt því fyrir sér hvernig kraftar og fé nýtist sem best en við því er ekkert einhlítt svar þar sem tilgangur og framkvæmd starfsins er mjög mismunandi.

Nokkrar stofnanir sem sinna erlendu hjálparstarfi eru með skrifstofu eða umboðsaðila hérlendis. Sumar eru umfangsmiklar eins og Rauði krossinn og stofnanir Sameinuðu þjóðanna en aðrar eru minni líkt og Hjálparstarf kirkjunnar, ABC og SOS. Stöku sinnum heyrast þær raddir að hluti fjárins sem fer til stóru stofnanna nýtist ekki sem skyldi. Það er ef til vill ekki við öðru að búast hjá aðilum sem hafa mikið umleikis en einnig verður að líta til þess að SÞ og Rauði krossinn hafa slagkraft til þess að ráðast í stór verkefni og neyðaraðstoð sem er ekki á færi lítilla hjálparsamtaka.

Klemma trúleysingjans

Það voru ummæli forsvarsmanna Hjálparstarfs kirkjunnar í vikunni sem urðu kveikjan að því að ég festi þessar hugleiðingar niður á blað. Ég hef sjálfur látið smá upphæð af hendi rakna til ákveðinna verkefna Hjálparstarfsins í Afríku á þessu ári og hef trú á því að það fé hafi nýst vel. Ég hef samt spurt sjálfan mig að því hvernig trúin tengist hjálparstarfinu enda er það ekki í samræmi við lífsskoðanir mínar að styðja við trúboð. Sem dæmi um þetta má nefna að ég hef frekar styrkt SOS-barnaþorpin heldur en ABC-hjálparstarf þar sem síðarnefnda stofnunin byggir á kristilegum grunni. Til þess að koma í veg fyrir allan misskilning þá hefði ég samt engan hug á því að styrkja „hjálparstofnun trúleysingja“ ef hún væri til. Mín skoðun er sú að trú eða trúleysi eigi að hafa sem allra minnst að segja í hjálparstarfi.

Jónas Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, skrifar stuttan pistil í Fréttablaðið þann 13. desember þar sem hann þakkar Borgari Þorsteinssyni ágæta grein um Afríku. Jónas tekur undir að fréttaflutningur af þessari fjölbreytilegu heimsálfu sé allt of einhæfur og neikvæður. Ég tek undir þessi orð en ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að heimsækja Mósambik í tvær vikur en þar bjó fjölskylda mín um tveggja og hálfs árs skeið. Þess má geta að Mósambík er eitt þeirra landa sem njóta aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar.

Jónas fjallar í pistli sínum um að hjálp til sjálfshjálpar sé mikilvæg. Verkefni Hjálparstarfsins þar sem hægt er að gefa fé til þess að grafa brunn eða kaupa húsdýr eru mjög í þeim anda. Svo nefnir Jónas siðareglur alþjóðlegra hjálparstofnanna:

„Flestar ábyrgar alþjóðlegar hjálparstofnanir hafa gengist undir siðareglur sem gilda um allt þeirra hjálparstarf. Í þeim er lögð áhersla á að bera virðingu fyrir því fólki sem er verið að hjálpa, siðum þeirra, venjum og trúarbrögðum.“

Þetta vakti athygli mína þar sem hjálparstarfið er í umsjón þjóðkirkjunnar. Í viðtali sem birtist sunnudaginn 13. desember segir Anna M. Þ. Ólafsdóttir, fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfsins:

Þótt Hjálparstarf kirkjunnar sé stofnað af þjóðkirkjunni og byggi á grunni kristinnar trúar er lútherstrú síður en svo forsenda þess að fólk njóti starfsins. "Trú hefur ekkert að segja um hvort við veitum aðstoð. Hjálparstarfið er stofnað út frá kristnum gildum en við störfum eins og hver önnur mannúðarsamtök og veitum öllum aðstoð. Annað væri í ósamræmi við boðskapinn," segir Anna. Og fólkið setur það ekki fyrir sig enda sama hvaðan gott kemur. Meirihluti íbúa Úganda og Malaví er þó kristinn en í Mósambík eru önnur trúarbrögð ríkjandi.

Anna velkist ekki í vafa um að kristin trú geti gert mörgum lífið bærilegra. "Fólk á þessum slóðum er oft undir ægivaldi anda forfeðranna sem heldur samfélaginu í heljargreip." Hún segir kristniboða hafa upplifað það að bjarga börnum í Eþíópíu þar sem því er trúað að ef tennur barns vaxa fyrst í efri gómi hvíli bölvun á þeim. Og ekki nóg með það heldur á bölvunin að hvíla á öllu þorpinu. Þess vegna er þrýst á foreldrana að bera barnið út. "Þeir segja fólk upplifa mikinn létti við að taka kristna trú og vera laust undan þessu oki. Mér finnst kærleiksboðskapur kristinnar trúar ekki geta verið nema til góðs þótt kirkjan hafi gert ýmislegt misviturt í gegnum aldirnar. En kristniboðið er ekki á okkar könnu."

Hér heldur Anna því fram að kristniboð sé ekki undir hatti Hjálparstarfs kirkjunnar. Þessi ummæli hennar vekja hins vegar upp ýmsar spurningar.

Trúboð í Afríku

Ég myndi vilja taka ummæli forsvarsmanna Hjálparstarfsins trúanleg um að ekki sé lögð stund á trúboð í nafni þess ef ekki kæmu fram eftirfarandi atriði undir liðnum „Eþíópía“ í ársskýrslu Hjálparstarfsins 2005-2006 (bls. 20):

Önnur greiðsla vegna námsstyrks við þrjá karla til prests- og leiðtoganáms úr Suð-Vestur syndódu Mekane Jesus kirkjunni var greidd í lok starfsársins.

500.000 kr. var veitt til kirkjubygginga í landinu

Menn hafa kannski metið stöðuna sem svo í viðamikilli markaðssetningu Hjálparstarfsins að leggja verði áherslu á að þarna sé ekki um trúboð að ræða. Hvað er prestnám og kirkjubygging annað en trúboð? Ég var persónulega svolítið svekktur yfir þessu en ég hefði kannski átt að hafa í huga að Hjálparstarfið er undir Þjóðkirkjunni sem er með einkunnarorðin „biðjandi, boðandi, þjónandi“.

Ummæli Önnu um að kristniboðið sé ekki á „þeirra könnu“ eru ekki heiðarleg þótt áðurgreind atriði í ársskýrslunni komi ekki til. Á myndasíðu Hjálparstarfsins má sjá myndir af biskupsvígslu í Pókot í Kenýa þar sem Sigurður Sigurðarson vígslubiskup vígði innlenda klerka til starfa á vegum kirkjunnar.

Þegar ég dvaldist í Mósambík sá ég nokkrar nýbyggðar moskur sem voru byggðar fyrir fé frá Arabalöndunum. Ég vona að þær hafi ekki verið reistar undir merkjum hjálparstarfs en ég er ekki í aðstöðu til þess að ganga úr skugga um þetta atriði.

Byrði hvíta mannsins

Aðalefni þessarar greinar er gagnrýni á málflutninginn að ekkert trúboð felist í hjálparstarfi kirkjunnar. Því til viðbótar þá gengur annar málflutningur Önnu um bölvun og trúarbrögð innfæddra ekki upp. Hún dásamar trúboð en það er alls ekki Biblíunni að þakka að við vitum að ekki skipti máli þótt tennur vaxi fyrst í efri gómi. Ef við notuðum hana sem rit um líffræði og vísindi ættum við að trúa því að dýr geti talað við vissar aðstæður og að það sé hægt að reka illa anda í svín! Kristið trúboð felst í því að skipta út andatrúarbrögðum innfæddra fyrir tæplega 2000 ára gamla andatrú á Guð, son og heilagan anda með helvíti og hreinsunareld fyrir þá sem breyta rangt eða taka ekki trúna.

Niðurstaðan

Hvað á ég til bragðs að taka sem trúleysingi? Mér finnst gott að það séu margir aðilar sem standi að hjálparstarfi á ólíkum sviðum. Sumir geta boðið neyðaraðstoð til þúsunda sem verða fórnarlömb styrjalda eða náttúruhamfara en aðrar stofnanir vinna að minni verkefnum. Mér líst ennþá mjög vel á verkefni Hjálparstarfsins þar sem hægt er að leggja fram fé til þess að grafa brunna eða til kaupa á húsdýrum en ég veit ekki til þess að aðrir bjóði upp á svipaða aðstoð hér á landi. Ég hef hins vegar ekki áhuga á því að styðja við trúboð og þessi falska markaðssetning mun letja mig frá því að styðja jafnmikið við bakið á Hjálparstarfinu í framtíðinni eins og annars hefði orðið. Það sem er verst er að þessi málflutningur skemmir trúlega ekki bara fyrir þeim heldur líka fyrir hinum sem vilja hjálpa.

Sverrir Guðmundsson 29.12.2006
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Árni Árnason - 29/12/06 09:28 #

Kirkjan hamast við að sverja af sér trúboðið, og gildir þá einu hvort umræðan snýst um Vinaleiðina í íslenskum barnaskólum eða hjálparstarf í fjarlægum löndum. Þeir vita sem er að þessi aðferð þeirra að lauma trúboðinu inn undir yfirskini manngæsku, líknar og hjálpar fellur hugsandi fólki ekki vel í geð. Þeir biðja um framlag í brunn og geit, en nota þau svo í kirkjubyggingar, biblíur og biskupsvígslur.

Ekki alls fyrir löngu sendi ég kirkjunni eftirfarandi fyrirspurn:

Á heimasíðu kirkjunnar undir liðnum hjálparstarf er að finna heilmikla myndasyrpu af vígslu William Lepode / Willjam Lopeda / Willam Lepoda / William Lepoda til biskups. ( hann virðist þó ekki hafa hlotið þá virðingu að farið sé rétt með nafnið hans) Nokkru virðist til kostað, ef marka má skrautklæðin, tilstandið og fjölmenni gesta ofan af Íslandi.

Flokkast útgjöldin við þetta sjónarspil undir hjálparstarf ? Telur kirkjan að almenningur á Íslandi sem gefur fé til hjálparstarfs líti á svona skrautsýningu sem hjálparstarf ?

Ég þarf kannski vart að nefna það að svar hefur ekki borist.


Óskar Rudolf Kettler (ORK) - 29/12/06 09:36 #

Ég vil bara benda á að það er hægt að taka þátt í hjálparstarfi Rauða krossins, hann vinnur ekki undir merkjum trúar.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 29/12/06 09:43 #

Rétt, eins og mörg önnur samtök t.d. SOS, Læknar án landamæra o.s.frv.

Ef ég styrki eitthvað þá styrki ég ekki samtök eða stofnanir sem hugsanlega geta verið með einhverjar trúarlegar forsendur á bakvið sig. Ég einfaldlega treysti þeim ekki, þetta fólk hefur svolítið annann vinkill á hlutina en ég, t.d. hvað telst trúboð og hvað ekki.


Eva - 29/12/06 10:40 #

Við verðum að átta okkur á því að það gegnir engum tilgangi að hrópa lygi, lygi. Kristlingar hafa allt annan skilning á hugtakinu Sannleikur en fólk sem hefur tileinkað sér venjulega siðferðisvitund og þeir skilja ekki alltaf muninn á góðum tilgangi og því að segja satt.

Mér finnst sjálfri nett pirrandi þegar menn rugla saman trúboði og menningarboðun. Oft upplýsa kristniboðar fátækt fólk um hluti sem eru trú alls óviðkomandi og það er í sjálfu sér gott og blessað. En um leið gefa þeir þá alröngu mynd að þekking, mannúð og siðferði eigi sér rætur í trúarritum og það er óþolandi. Á sama hátt fullyrða kristnir menn að hjálparstarf kirkjunnar veiti ekki fé til trúboðs og að jólahald sé sprottið úr kristinni trú. Hvort tveggja er rangt en eymingja fólkið, sem VEIT það, telur sig samt vera að vinna fyrir Sannleikann. Þetta er heilbrigðu fólki óskiljanlegt en svona er þetta.

Reynslan sýnir að það stoðar lítið að útskýra muninn á sannindum og ósannindum fyrir þeim sem telja sig ganga á Gvuðs vegum. Allavega eiga Kristlingar og fíklar það sameiginlegt að það er tilgangslaust að krefjast þess að þeir segi satt. Mér hefur reynst best að líta á virka trú sem fötlun eða fíknsjúkdóm. Eitthvað sem maður getur sjálfum sér til verndar haldið í ákveðinni fjarlægð en ekki læknað nema viðkomandi biðji sjálfur um hjálp í fyllstu einlægni. Kannski er það eina sem við getum gert til sporna gegn undarlegum hugmyndum trúaðra um sannleikann að hundsa þá og auðvitað að kenna börnunum okkar að bera kennsl á einkenni trúhneigðar og halda sig sem lengst frá þeim sem hafa sýkst.


Fannar - 29/12/06 21:26 #

Eþíópía er að mestu kristið land. þar hefur verið kristni í um 2000 ár. Að skipta um guð breytir ekki hjátrúni. Hjálparstarf. Peningar frá fátæku fólki á vesturlöndum til ríkra í þróunarlöndunum. "In the Guardian Weekly (London) Paul Webster claimed that Houphouet-Boigny "was siphoning off French aid funds to amass a personal fortune as high as 6 billions (francs)" (june 17, 1990; p.9) - George B.N. Aytittey, Kemur fram í bók hans Africa Unchained þannig að hjálpar starfið ratar ekki alltaf á réttan stað.


Khomeni - 30/12/06 01:53 #

Ég hef alltaf haft haft blendnar tilfinningar gagnvart kristilegu hjálparstarfi. Fyrst og fremst finnst mér óskapleg hræsni að suða alltaf um peninga fyrir jólin. Það mætti halda að neyðin sé mest í desember í Afríku! Alltaf skal einvert (kristilegt)líkarfélag glenna framan í sjónvarpsáhorfendur barnslíkama sem er ekkert nema skinn og bein þakin í feitum og pattaralegum flugum. Hefur þetta fólk enga sómatilfinningu eiginlega. Það skirrist einskis í því að komast ofan í buddur landsmanna!

Svo er það bara minning úr minni æsku sem kemur alltaf upp þegar hjálparstarf kirkjunnar er að suða um fé. Það var nefnilega haldinn aðalfundur hjálparstofnunar kirkunnar fyrir nokkrum árum á fínasta hóteli í Kaupmannahöfn. Hótel D'anglaterre http://www.remmen.dk/dangleterre/index.htm -Að sjálfsögðu var allri stjórninni boðið og allt uppihald greitt með söfnuarfé hjálparstarfs kirkunnar. -auðvitað. Ég mun aldrei styrka þetta apparat. Ég skoðaði heimasíðunna þeirra (help.is) og sé að það eru 4 starfsmenn sem vinna við þessa meintu aðstoð. Það þarf ekki mikla stærðfræðikunnáttu að sjá að það kostar amk 12 - 15 miljónir á ári að borga þessu fólki kaup á hverju ári. Svo eru það náttúrulega ferðalögin og ráðstefnunarnar. Reksturinn á þessu hjálparstarfi kostar að minnsta kosti 20 - 30 miljónir á ári. Sem er gleðilegt þvi á heimasíðunni er tilkynnt að það hafi náðst að safna 25 miljónum í desember. Það ætti að dekka meirilhutann af föstum kostnaði hjálparstarfs kirkjunnar.

-þetta eru hálfgerð glæpasamtök í mínum huga. Það er miklu betra að greiða í secular samtök á borð við Rauða E


Flosi Þorgeirsson - 02/11/07 11:08 #

Góð og athygliverð grein. Er ég ákvað að gerast heimsforeldri var ég ákveðinn í því að velja samtök sem tengdust trúmálum ekkert og varð SOS fyrir valinu.
Ég var ansi vantrúaður (vísvitandi aulabrandari) á Vantrú í byrjun en er nú farinn að heimsækja síðuna vikulega vegna skemmtilegra, fróðlegra og vel skrifaðra greina. Kann einnig mjög vel að meta hvað meðlimir kappkosta að halda umræðu málefnalegri.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.