Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ráð gegn kvefi

Í Fréttablaðinu fimmtudaginn 26. október síðastliðinn birtist frétt undir fyrirsögninni „Stríðið gegn kvefinu“. Viðmælendur blaðamanns voru þrír: Benedikta Jónsdóttir í heilsubúðinni Maður lifandi, Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir (Jurtaapótekið) og Jóna Björk Elmarsdóttir lyfjafræðingur í Rimaapóteki.

Þessi umfjöllun er að mörgu leyti dæmigerð fyrir vettlingatök fjölmiðla hérlendis þegar kemur að umfjöllun um heilsu fólks sem er ein dýrmætasta eign hvers einstaklings. Í stað þess að koma fram með einhverjar raunhæfar lausnir er talað við sjálfskipaða sérfræðinga sem hafa það að lifibrauði sínu að selja „lausnir“ við alls konar kvillum og sjúkdómum. Þeir bjóða iðulega upp á „virk efni“ og aðferðir sem þó hafa engar aukaverkanir (ólýkt lyfjum)! Inni á milli eru svo einstaklingar sem taka ekkert fyrir þjónustu sína og eru því ekki bara að selja töfralausnir heldur einnig „góðmennsku“; góðmennsku sem getur gert fólk afhuga þrautreyndum aðferðum í læknisfræði sem sýnt hefur verið fram á að geti gert gagn.

Þegar umfjöllunarefnið er kvef kynni einhvern að ráma í barnaskólalærdóminn um að það sé ekki til nein lækning við kvefi. Trúlega væri skynsamleg nálgun að byrja á því að slá á þráðinn til háls-, nef- og eyrnalæknis (eða heimilislæknis) eða hefja fróðleiksöflun á þokkalega áreiðanlegum vefsvæðum eins og Vísindavefnum eða Doktor.is.

Blaðamaður virðist hins vegar ekki velta þessu mikið fyrir sér heldur vindur sér strax í framreiðslu „heilræða“ frá fyrstu tveimur viðmælendum sínum.

Benedikta í Maður lifandi er með ýmsar vörur til þess að verjast kvef- og flensuplágunni. Nálgun hennar er líklega nokkuð óvanaleg frá sjónarhóli læknisfræðinnar:

„Af því að öll vandamál byrja í þörmunum er gott að taka Asidófílus-hylki reglulega. ... Svo er gott að fá sér teskeið af hrárri kókosfitu og matskeið af hörfræjaolíu sem er rík af Ómega 3, 6, og 9 fitusýrum. Með þessu ná kvefbakteríurnar ekki fótfestu í líkamanum og renna út.“

Benedikta segir svo að fjölmargar rannsóknir bendi til þess að hvítlaukur, C-vítamín og íslenska hvannarótin virki vel á kvefið, séu bakteríudrepandi. Loks minnist hún á hómópatalyf sem hún segir

„djúpvirk, algerlega skaðlaus og án aukaverkana.“

Þarna kennir ýmissa grasa! Stutt könnun á vefnum gæti þó klingt einhverjum viðvörunarbjöllum því ef flett er upp orðinu „kvef“ á Vísindavef Háskóla Íslands kemur upp svar við spurningunni „Af hverju fær maður kvef?“. Þar segir m.a.

„Kvef er hvimleiður en tiltölulega meinlaus veirusjúkdómur.“

Svarið á Vísindavefnum vísar í aðeins lengri úttekt um kvef á Doktor.is:

Hver er meðferðin?

Ekki eru enn á markaði lyf sem læknað geta kvef og ekki eru líkur á að takist að framleiða bóluefni gegn kvefi í nánustu framtíð. Því byggist meðferð við kvefi á fyrirbyggjandi aðgerðum og að minnka einkenni og þeim óþægindum sem þau valda.“

Kolbrún Björnsdóttir hjá Jurtaapótekinu hefur líkt og Benedikta ráð undir rifi hverju og býður upp á jurtablönduna Mími gegn kvefi og flensu:

„Þegar fólk finnur að það er að verða veikt á það að byrja að taka þetta. Margir eru rosalega hissa á því hvað þetta virkar vel því fólk er vant alls konar dóti sem á að virka en gerir það ekki“,

segir Kolbrún kokhraust. Hún hefur reyndar áður komið við sögu Kjaftæðisvaktarinnar en í það skiptið mælti hún með töfrablöndunni Kveðrungi í stað sýklalyfja.

Nálgun Jónu Bjarkar, lyfjafræðings hjá Rimaapóteki, er hins vegar af allt öðrum toga en hjá Benediktu og Kolbrúnu:

„Það er ekkert lyfjafræðilega sannað sem á að verka gegn kvefi. Ég held að sá sem fyndi endanlega lækningu yrði nú aldeilis ríkur.“

Ég held að þetta segi allt sem segja þarf um kvefið en eftir stendur spurningin: Af hverju viðhafa fjölmiðlamenn svona slæm vinnubrögð sí og æ?

Sverrir Guðmundsson 27.10.2006
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Khomeni - 27/10/06 08:59 #

Flott samantekt. Ég nánast missti þvag við lestur tilvitnaninnar í Benediktu:

„Af því að öll vandamál byrja í þörmunum er gott að taka Asidófílus-hylki reglulega. ... Svo er gott að fá sér teskeið af hrárri kókosfitu og matskeið af hörfræjaolíu sem er rík af Ómega 3, 6, og 9 fitusýrum. Með þessu ná kvefbakteríurnar ekki fótfestu í líkamanum og renna út.“

Hún sér sennilega fyrir sér að ef maginn er þakinn sleipiefni (kókosfitu og hörfræaolíu) þá ná "kvef bakteríurnar" ekki fótfestu og renna barasta niður í klósettið...!!

Hún talar líka um "kvefbakteríur...". Svoleiðis er ekki til, enda væri hægt að taka penicilín við kvefi. Kvef er af völdum VEIRA!

Ég heyrði einu sinni að veirur sem valda kvefi eru svo margar og mismunandi að útiliokað sé að fá ónæmi gegn þeim öllum þvi um leið og líkaminn er búin að vinna á einni gerð veiru, eru uþb 3000 veirutegundir sem bíða eftir því að herja á oss.

Þetta hörfræahyski ætti að skammast sín að selja fólki gangsleysislyf og von um bata. það er ljótt að gera út á veikt fólk. Það er siðlaust.


Arnold Björnsson - 27/10/06 09:07 #

Af því að öll vandamál byrja í þörmunum er gott að taka...

Þetta er mér mikil opinberun. Ég sé líf mitt nú í alveg nýju ljósi.


Arnold Björnsson - 27/10/06 09:10 #

Næst þegar vandi steðjar að er rétt að fara í ristilspeglun og í framhaldi af því meta hvað best er að gera í stöðunni :-)


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 27/10/06 10:05 #

Khomeni hefur rétt fyrir sér með kvefbakteríurnar, slíkt er ekki til. Annars held ég að þessir kuklarar hafi ekki hugmynd um hver sé munurinn á veiru og bakteríu, lausnir þeirra eru svo heildrænar og djúpvirkar að þær virka á allt!


Helgi Briem - 27/10/06 10:28 #

Það eru til tvö ráð gegn kvefi.

1) Taka stóra skammta af C-vítamíni, acidophilus, sólhatti, Kveðrungi, kókosolíu, hörfræjaolíu, hvítlauk og hvannarót og leggjast svo í rúmið með góða bók eða DVD disk. Þá læknast kvefið á uþb 7 dögum.

2) Gera ekki neitt og halda sínu striki, etv með pakka af snýtubréfum í vasanum. Þá læknast kvefið af sjálfu sér á uþb 1 viku.


Svanur Sigurbjörnsson - 27/10/06 13:23 #

Takk fyrir skemmtilega grein Sverrir. Það er sorglegt að blaðmenn haldi að græðarar séu raunverulegur valkostur og fái þá til ráðgjafar þegar fjalla á um heilsufarsleg málefni í blöðum. Stanslaus kynning á bullinu virkar greinilega og hver manneskjan á fætur annarri verður fórnarlamb hinna endurhönnuðu nýju fata keisarans.
Í Mbl í dag er auglýsing um PENZIM sem Jón Bragi lífefnafræðingur hefur "rannsakað" og markaðssett hérlendis. Upptalningin á því sem þetta undrameðal á að gera er í kuklstíl og því sér maður fljótt að einhver maðkur er í mysunni. Hefur einhver skoðað þessi Pensím mál?


Snaevar - 27/10/06 15:19 #

Ég er nú nær því alltaf sammála því sem skrifað er á vantrú, og tek heilshugar undir alla gagnrýni á kuklara, hómopata og flesta grasalækna og aðra sem hafa almenning að féþúfu. En því má ekki gleyma að flest lyf sem seld eru gegn lyfseðli hafa uppruna sinn í náttúrunni, það er að segja virk lyfjaefni í pillum eru oft eftirmynd náttúrulegra efna úr plöntum og dýrum. Vissulega er ekki til lyf gegn kvefi, en það eru til efni sem örva ónæmiskerfið og þannig kannski minnka áhrif kvefs? T.d. er rétt fæði, sem inniheldur omega-3-6 fitusýrur mikilvægt fyrir ónæmiskerfið, sem og heilbrigð bakteríuflóra í þörmum. En ég tek undir gagnrýni á að þetta sé selt sem einhver undralyf. Ég hef sjálfur rannsakað efnafræði ýmissa íslenskra jurta og get staðfest að m.a. ætihvönn inniheldur ýmis virk efni. Bæði bakteriu og veirudrepandi. Því miður hefur ekki verið hægt að framkvæma klíniska rannsókn á virkni þeirra í mönnum enda kostar það miljónir og áhrifin sennilega takmörkuð. Auk þess hafa þau örugglega aukaverkanir likt og önnur virk efni. Svipaða sögu má segja af Penzim, sem prófessor Jón Bragi Bjarnason hefur rannsakað ýtarlega. Það inniheldur virk enzým, en hvort það hafi þau læknisfræðilegu áhrif sem er notendur segja frá er ekki hægt að staðfesta nema med viðamiklum klínískum rannsóknum. Kveðja Snævar Sigurðsson,


óðinsmær - 27/10/06 15:29 #

mér finnst stórt stökk á milli þess að vera grasalæknir og að vera hómópati, það er álíka mikið og milli þess að vera skurðlæknir og grasalæknir...

fín grein, það skemmtilegasta á vantrú er kjaftæðisvaktin ;)


Svanur Sigurbjörnsson - 27/10/06 16:45 #

Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvað sé hæft í því þegar sagt er að "flest lyf dagsins í dag eru upprunin úr náttúrunni"!

Ég er ekki viss um að svo sé en ég þekki ekki nógu vel sögu lyfjagerðar þó að ég sé vel að mér í klínískri lyfjafræði. Vissulega var mikið af lyfjum í bernsku lyfjafræðinnar sem komu úr náttúrulegum fyrirmyndum en eftir því sem þekking á lífefnafræði og lífeðlisfræði jókst fóru menn að mynda lyf með hreinu nýmyndunarferli eða hjálp erfðabreyttra örvera. Þá var upprunalegu náttúrulyfunum oft breytt efnafræðilega til að fá fram hagkvæma eiginleika eins og lengri verkun eða fækkun aukaverkana.

Það er oft langur vegur frá því að finna verkun á náttúrulegu efni í tilraunaglasi yfir að geta notað það sem lyf. Stundum er virknin svo lítil per milligram að það þyrfti 1 kg töflu til að fá nothæfan skammt (ímyndið ykkur stærðina) eða sértækni vantar þannig að of miklar aukaverkanir kæmu fram í náttúrulegu formi. Það er nefnilega alls ekki samnefnari með "náttúrulegu" og heilbrigðu. Takið sem dæmi náttúrulegt curare - fórnarlambið er dautt inn 5 mínútna.

"Styrkir ónæmiskerfið" er einn frasinn. Það þarf að fylgja sögunni hvað sé átt við. Manneskja sem er almennt vel nærð styrkir ekki ónæmiskerfið með því að taka tífalda C-vítamín skammta. (það var hrakið að C-vítamín hjálpaði í kvefi) Líkaminn þarfnast ákveðinna nauðsynlegra vítamína og steinefna og skortur leiðir til vandamála. Flestir þessir "immune boosters" eru kjaftæði. Hins vegar er hægt að gera ýmislegt til að skemma frumur líkamans eins og t.d. reykingar og títt át á brenndu kjöti. Þá er ekki víst að krabbameinsvarnandi ónæmisfrumur (T-killer cells) hafi við til að losa líkamann við skemmdu frumurnar.

Eini immune boosterinn sem hefur virkað í sumum tilvikum sýkinga eins og t.d. lifrarbólgu C eða B, er frumuboðefnið og bólguvakinn interferon. Það er nýmyndað og því ekki úr náttúruafurð - sem sagt alveg stórhættulegt ;-) Nei, grínlaust þá er meðferð með interferoni mjög erfið en skilar í sumum tilvikum lækningu.

Læt þetta duga.


Ratatoskur - 27/10/06 17:38 #

Mörg helstu lyf í gegnum tíðina hafa vissulega komið úr plöntum. Því má hins vegar ekki gleyma (ekki gagnrýni á þig Snævar) að virknin kemur alltaf frá velskilgreindu efni sem annað hvort er einangrað frá plöntunni með aðferðum eða nýsmíðað á tilraunastofu eftir að bygging efnisins hefur verið greind. Það væri afskaplega heimskulegt að láta hjartveikan mann fá jurtamixtúru af Digitalis plöntunni þegar búið er að einangra virka efnið digoxin úr því, mæla hæfilegan skammt og láta það á töfluform sem er nú selt sem hjartalyf. Svo ég tali ekki nú um að meirihluti plöntunnar inniheldur baneitruð efni.

Mergur málsins er að vísindamenn eru þeir sem eiga að rannsaka virkni plantnanna og komast að því hvað sé þarna til staðar og hvort það geti gert mönnum eitthvað gott. Ég er alfarið á móti illa skilgreindum jurtamixtúrum sem seldar eru af jurtalæknum og slíku. Mikið af efnum plantnanna getur einfaldlega verið eitur. Önnur efni geta haft virkni en eru einfaldlega í of litlu magni til þess að það taki því að smyrja því á sig auk þess sem maður fær öll önnur efnin líka. Auk þess sem maður sér aldrei nein vísindaleg rök fyrir því af hverju jurtamixtúra tiltekinnar plöntu ætti endilega að hafa tilætluð áhrif.

Ég þekki Jón Braga Bjarnason aðeins, verið í tímum hjá honum og spjallað við hann. Hann er prófessor í lífefnafræði og hefur gefið út vísindagreinar sem tengjast ensímunum sem eru í Penzim. Þau áhrif sem Penzim hefur, er hægt að skýra efnafræðilega. Það er svo annað mál, hvort áhrifin séu svona fjölbreytt og jafn góð eins og auglýst er, en þegar menn fara í bissness ýkja menn sjálfsagt mikið.

Góð grein.


Ratatoskur - 27/10/06 19:57 #

Byrjaði aðeins að lesa mig til. Fann grein í Science frá því í fyrra sem fjallar um náttúruleg efni í lyfjaiðnaðinum. http://www.sciencemag.org/cgi/content/full/310/5747/451

Sennilega er lokað á greinina nema menn séu með háskólaaðgang einhvers staðar.

Í upphafi greinar kemur fram: "Around half of the drugs currently in clinical use are of natural product origin. Despite this statistic, pharmaceutical companies have embraced the era of combinatorial chemistry, neglecting the development of natural products as potential drug candidates in favor of high-throughput synthesis of large compound libraries."

Ástæðan er einmitt sú að erfitt er að einangra efnið úr plöntunum auk þess sem að svo lítið er af efninu í plöntunum til að byrja með að gríðarlegt magn af plöntunni þyrfti til þess þannig að oft er það ekki raunhæfur möguleiki.

Hinn möguleikinn er að smíða efnið en það er oft enn erfiðara þar sem efnið er gríðarlega flókið. Derek Lowe efnafræðingur lýsir þessu vandamáli vel á blogginu sínu: http://pipeline.corante.com/archives/2006/05/08/anaturalwonderdrugnow_what.php

Hér er svo önnur klausa úr Science greininni sem lýsir því af hverju efni plantnanna séu yfirhöfuð góðir lyfja-kandídatar:

"Why do natural products possess such extraordinary specificity and potency compared to artificially designed molecules? The answer lies in evolutionary selection--nature's own high-throughput screening process for the optimization of biologically active compounds. Natural products tend to possess well-defined three-dimensional structures, embellished with functional groups (providing hydrogen bond acceptor/donors, etc.), which have been fine-tuned into a precise spatial orientation. Additionally, the structures of the biological targets of such natural products (e.g., protein binding sites) are often well conserved among proteins of markedly different genetic sequences (5, 6), such that secondary metabolites that have evolved for a certain purpose and mode of action by a producing organism may exert different, yet equally potent, effects in other settings."

Af þessu má ráða að við eigum að sjálfsögðu að halda áfram að skoða efni úr plöntunum í kringum okkur en það á að gera það á réttan hátt.


Svanur Sigurbjörnsson - 27/10/06 20:42 #

Takk fyrir þetta Ratatoskur - frábær innlegg hjá þér!

Það er hjálplegt að fá þessa hlutfallstölu. Réttast er því líklega að segja að upphaflega hafi flest lyf verið einangruð úr lífríkinu en hin síðari ár sé um helmingur lyfja nýmynduð með lífefnafræðilegri hönnun og tækni. Athyglisvert að fræðilega sé líklegast að árangur fáist með því að finna lyfjasameindir í náttúrinni.
Takk


Khome - 28/10/06 01:57 #

Þetta er alveg kostulegt. Benedikta er orði algert uppáhald hjá mér. Þetta segir hún m.a

"Það er stöðugt stríð í þörmunum og Asidófílus eru góðu hermennirnir í því stríði. Ýmsar tegundir eru í boði á verðbilinu 1.000-2.000 krónur. Svo er gott að fá sér teskeið af hrárri kókosfitu (einn lítri á 2.749 krónur) og matskeið af hörfræjaolíu, sem er rík af Ómega 3, 6 og 9 fitusýrum (823 krónur fyrir 250 ml flösku). Með þessu ná kvefbakteríurnar ekki fótfestu í líkamanum og renna út."

...stöðugt stríð í þörmunum. Hugsið ykkur að það sé styrjaldarástand í þrömum vorum. Sprengjur, Napalm og Metangas. Hryllilegur staður þarmafell 39.
Þessi Benedikta er frábært dæmi um á hvaða vitsmunastigi þetta hörfræahyski er á. Lýgur og selur og lýgur og lýgur. Lýgur meira en það mígur. Ömurlegt fólk. hefur engan súbstans. Myndi selja krabbameinsskjúkri móður sinni ristaða hörfrækjarna á dánarstundinni. þetta pakk ætti að skammast sín. ....En þá þyrfti það reyndar siðferðirvitund....sem er ekki til staðar.


Guðmundur D. Haraldsson - 31/10/06 17:00 #

Byrja mígrenivandamál þá líka í þörmunum? En Alzheimer? Já, og Korsakoff líka!


Árni Árnason - 01/11/06 00:20 #

Úr því verið er að ræða skottulækningar, langar mig að gefa ykkur gott ráð.

Ef þið þjáist af ólgu í maga eða ógleði, og eigið erfitt með að kasta upp, farið þá inn á vefinn kirkja.is, smellið á hjálparstarf og skoðið myndasyrpu af biskupsvígslu í Kenía. ( Hjálparstarf - my ass ) Þar er innfæddur kominn í bleikan silkiskrúða með biskupsmítur á höfði og lítur satt að segja út eins og dragdrottning sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Hann er þó svo lítilssigldur í augum kirkjuskrípisins að þeir virða hann ekki einu sinni þess að fara rétt með nafnið hans. Hann heitir í myndatextum ýmist Willjam Lopeda, William Lepode,Willam Lepoda eða William Lepoda.

Það er algert aukaatriði hvað blessaður maðurinn heitir, enda orðinn besti vinur Aðal, sem fær náðarsamlegast að stilka um í forinni í silkiklæðum eins og velgjörðarmenn hans, prelátar ofan af Íslandi, sem hann lítur upp til barnslegum augum.

Hafið fötu til taks.


Vigdís - 25/01/07 12:02 #

Jahá..ef kvefbakteríur (vissi ekki að kvef orsakaðist af bakteríum en það sannar bara hvað ég veit lítið) festast ekki í þörmunum með þessum skemmtilega dýru efnum - hvað hafa þær gert áður en þær koma þangað? í fáfræði minni taldi ég að þarmarnir væru endastöð...ekki byrjunarreitur?


pilli - 29/02/08 11:24 #

Ég held kuklarar séu að gera þetta að einlægni en sú einlægni blandast saman við naíva hugmyndir um að allt sem kemur frá náttúrunni sé yndislegt og lækni menn. kuklarar vilja líta fram hjá öllu sem heitir vísindalegar rannsóknir

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.