Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dugandi ráð frá móður náttúru

Þetta er yfirskrift viðtals við Kolbrúnu Björnsdóttur grasalækni í Fréttablaðinu í gær.

Þar segir Kolbrún m.a.:

„Ólífulauf má nota í stærri skömmtum þegar komið er að þeim tímapunkti að menn sjá enga aðra leið en sýklalyf. Þá er tekinn þrefaldur skammtur í tíu daga samfleytt og fengin nákvæmlega sama virkni og með sýklalyfjum.“

Síðar í viðtalinu heldur hún áfram:

„Fólk kemur aftur og aftur til að ná sér í Kveðrung því það er svo margt sem á að duga gegn kvefi en gerir það ekki. Fólk er því hissa að finna loks lausn sem dugar strax.“

Af hverju er ólíklegt að við sem stöndum að þessari síðu myndum skella okkur á „einn þrefaldan af ólífublöðum“ í stað þess að taka inn sýklalyf sem geta haft aukaverkanir í för með sér? Jú, vegna þess að við teljum líklegra að sýklalyfin vinni bug á vandanum. Flestir þekkja dæmi þess að þau hafi unnið hratt og vel á meinsemdum en minni sögum fer af árangri ólífublaðanna.

Hvað er það þá sem er svona pirrandi við þetta allt saman? Kannski er það stútfullt nef og allar kvefpestirnar sem bíða þess að herja á mann? Eða þá þessi hópur fólks sem hampar sannkölluðum töfralausnum sem virka jafnvel (eða betur) en vísindin sem þeir keppast við að tortryggja (samanber ummæli Kolbrúnar „...að menn sjá enga aðra leið en sýklalyf“). Að slengja fram svona staðhæfingum um lækningar sýkla- og veirusýkinga er grafalvarlegt.

Jæja, kannski er málið að hætta að agnúast út í þetta lið. Ná sér frekar í Kveðrung og losa sig við kvefið hratt og örugglega.

Sverrir Guðmundsson 01.02.2006
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/02/06 14:54 #

Er þessi manneskja ekki kominn ansi nálægt því að brjóta lög með því að halda því fram að hún geti læknað kvef og selja þá þjónustu?

  • Hún má ekki stunda lækningar.
  • Hún má ekki auglýsa með blekkjandi hætti

Ætli hún geti sannað þessar fullyrðingar sínar? Ég efast um það, ætli við verðum ekki að treysta á vitnisburð og orðróm.


Sævar Helgi - 01/02/06 15:47 #

Ég fékk einu sinni að heyra það frá lækni að ekki væri til nein lækning við kvefi. Sá sem fyndi upp á lækningu fengi nánast umsvifalaust Nóbelsverðlaunin í læknisfræði.

Skyldu Nóbelsverðlaunin ekkert freista þessa fólks? Ef því er illa við að fá milljón dollara fyrir afrek sitt getur það alltaf gefið verðlaunaféð góðgerðarsamtökum.

Ég veit ekki um nein góðgerðarsamtök sem veitti ekki af milljón dollurum.


eggert - 01/02/06 23:57 #

Vantrú gagnvart Guði. Vantrú gagnvart náttúruvísindum. En engin vantrú gagnvart ykkur sjálfum. Mikil er viska ykkar félagar og gott að þið skuluð hafa höndlað sannleikann fremur en aðrir menn.

Nú skal vissulega hafa varann á og hugsa sinn gang ef manni er boðin einhver töfralausn. Allavegana ástæðulaust að gína við agninu án nokkurar hugsunar.

En hvað er hægt að segja um þá staðreynd að fjöldinn allur af lyfjum er unninn úr jurtum. Nú er vitað að grasalækningar hafa verið stundaðar í gegnum árþúsundin með góðum árangri þó svo vissulega hafi átt sér stað bylting á síðasta árhundraði eða svo. Grasalæknar voru í hávegum hafðir nema kannski á myrkustu miðöldum þegar þeir voru brenndir á báli fyrir galdra. Nú finnst mér afskaplega ólíklegt að eitthvað húmbúkk og hókus pókus lifi af í gegnum árþúsundin ef það er ekki að skila árangi.Sbr. grasalækningar, nálarstungu, yoga etc. Vissulega spretta upp fúskarar og svikarar sem bjóða upp á ný og kröftugri úrræði en þannig er bara mannfólkið.

Það er kannski óþarfi að nota hástemmd lýsingarorð um verkanir þessara náttúrulyfja og að þau lækni allt en það er vissulega staðreynd að þau hafa hjálpað mörgum manninum í gegnum tíðina. Er þá einhver glóra í því að halda því fram að þetta sé einhver miðaldafræði. Vantrú er sérkennilegt orð því hún segir svosem ekkert um það hvort að hinn vantrúaði hafi lagt eitthvað á sig til að kynna sér málin og náð eftir sem áður að halda í vantrúna. Eða hvort hinn sami hafi akkúrat ekkert gert til að kynna sér málin og byggi vantrú sína því á algjörri vanþekkingu og fávisku. Er hægt að tala um vantrú undir svoleiðis kringumstæðum?

Nú veit ég ekki hvort að kveðrung dugar:) En það væri kannski ómaksins vert að prófa það. Þegar ég verð kvefaður.

NB. Takk fyrir ágætis vef þó svo að ég sé ekki sammála öllu sem hér stendur. En það vekur mig þó til umhugsunar.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 00:51 #

Nú finnst mér afskaplega ólíklegt að eitthvað húmbúkk og hókus pókus lifi af í gegnum árþúsundin ef það er ekki að skila árangi.Sbr. grasalækningar, nálarstungu, yoga etc.

Stjörnuspeki?


eggert - 02/02/06 03:09 #

Biðst afsökunar ef fyrsta málsgrein hjá mér hefur flokkast sem ærumeiðing eða óviðeigandi fyrst hún er yfirstrikuð. Hún var allavegana ekki meint þannig.

Ég held að stjörnuspeki í flestra hugum sé hobbí og dægrastytting fremur en marktæk alvöru vísindi. En vissulega trúa sumir á hana þó svo ég geri það ekki. Hvernig væri annars að fá einhver viðbrögð önnur en út úr snúninga og háð. Er það það besta sem vantrúaðir hafa uppá að bjóða í sínum innleggjum.

Hvernig væri þá að tækla þau atriði sem að ég kem inná í mínu innleggi og leggja þá orð í belg um þau atriði. Hvað með nálarstungu Hjalti? Eru það innantóm gagnslaus náttúruvísindi? Hvað með Yoga. Hefur það ekki verið að skila mörgu fólki marktækum árangri að iðka það. Eða hefur það bara verið að ljúga að mér. Og hvað með grasalækningarnar. Geturðu rökstutt það að þær séu vita gagnslausar og hafi alltaf verið.

Stjörnuspeki what!!!


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 03:35 #

Innleggið mitt var hvorki útúrsnúningur né háð. Þú sagðir að þér fyndist ólíklegt "að eitthvað húmbúkk og hókus pókus lifi af í gegnum árþúsundin ef það er ekki að skila árangi", ég benti þér á stjörnuspeki, sem margir trúa á. Stjörnusoeki er húmbúkk og hefur lifað af í gegnum árþúsundin.

Jóga virkar örugglega, alveg eins og skokk og sund virkar.

Nú er vitað að grasalækningar hafa verið stundaðar í gegnum árþúsundin með góðum árangri...

Hvaðan hefurðu það að það hafi skilað góðum árangri?

Ég veit ekki hvort að nálarstungur eða allar grasalækningar séu "húmbúkk og hókus pókus", en ef maður ætlar að halda því fram að þetta skili einhverjum árangri þá ætti fólk að geta sýnt fram á það með einhverjum rannsóknum. Hefð eru engin rök.

Ég efast til dæmis að þrefaldur skammtur í tíu daga af ólífulaufum hafi "nákvæmlega sömu virkni" og sýklalyf. Ef þessi Kolbrún er bara að fullyrða út í loftið þá finnst mér það vítavert gáleysi. Læknastéttin ætti að vera miklu duglegri í því að þagga niðrí skottulæknum.


Svanur Sigurbjörnsson - 02/02/06 10:38 #

Fullyrðingar Kolbrúnar Björnsdóttur um virkni ólífulaufa eru mjög vafasamar svo vægt sé til orða tekið. Það eru sjálfsagt víða sýklahemjandi efni í jurtum en til þess að fá upp þann styrk til að nota við virkum bakteríusýkingum þarf að nota mjög mikið magn og þarf að staðfesta með "in vitro" rannsóknum, þ.e. prufa lyfhrif jurtar á bakteríur sem ræktaðar eru í ætisdisk. Um tíma var t.d. staðhæft af grasalæknum að trönuberjasafi gæti læknað þvagfærasýkingar. Það sem vísindamönnum tókst að sýna fram á var að efni í safanum minnkuðu möguleika e.coli bakteríunnar á því að festa sig við þvagrásarvegginn og hafði því forvarnargildi. Þessi verkun var alls ekki nóg til þess að lækna sýkingu sem var komin upp.

Hvað er "Kveðrungur"? Það er ekki til neitt lyf við kvefi, hvorki jurtalyf né nýmyndað úr lyfjaversmiðju. Staðhæfing Kolbrúnar er mjög ósennileg nema að í jurtinni séu æðaherpandi efni sem draga úr nefrennsli. Þá er um að ræða meðferð sem minnkar einkenni en læknar ekki. Ætli hún þekki muninn á því?

Svanur Sigurbjörnsson læknir


Andrea - 03/02/06 11:19 #

Ekki ætla ég að leyfa mér að alhæfa nokkuð um það hvort virki betur náttúrulækningar eða hefðbundnar en finnst mér þó ástæða til að rannsaka vel áhrif grasa og annarra náttúrulækninga til að hægt sé að nýta þær upplýsingar sem það gefur í framtíðinni.

Lengi hafa læknavísindin hin hefðbundnu leitað til náttúrunnar til að búa til lyf við hinum og þessum kvillum og sjúkdómum og þar á meðal sýklalyf sem þróuð eru frá myglu.

Einnig ber að mínu mati að líta til þess að mörg hefðbundin og viðurkennd lyf eru skaðleg líkama mannsins og finnst mér því enn meiri ástæða til að þróa og rannska náttúrulækningar.

Ég get ekki fullyrt neitt um það hvort kveðrungur geti hjálpað fólki að losna við kvef, en ég get heldur ekki fullyrt það að hann geri það ekki.

Einhvern veginn hef ég mikla trú á náttúrunni sem brunn alls kyns lausna sem maðurinn er kannski alltof gjarn á að hunsa. Ég hef líka þá trú að líkami mannsins sé í raun ótrúlega fullkomið kerfi sem gengur ótrúlega vel og lengi ef vel er farið með hann en getur líka hrakað og orðið mjög veikur ef illa er farið með hann og í hann sett til dæmis alls kyns aukefni sem eru í matvælum og einnig hefðbundin lyf sem geta gert honum skaða, til dæmis get ég nefnt rítalín, þunglyndislyf og nú er einnig verið að kanna hvort ofnotkun sýklalyfja sé skaðleg ónæmiskerfinu, en oft koma þessi skaðlegu áhrif ekki fram fyrr en eftir að lyfin hafa verið á markaði í áratugi.

Ég lít því svo á að okkur beri að rannsaka vel og vandlega náttúrulækningar og ekki að dissa þær á meðan við höfum ekki meiri vitneskju um þær en raun ber vitni. Rannsóknir á því sviði eru stutt komnar en það þýðir ekki að hægt sé að útiloka að þær hafi læknandi áhrif á líkamann. Það þýðir bara að við þurfum að gera betur í rannsóknum á þessu sviði.

Ótal margar rannsóknir eru til sem sýna fram á virkni næringarefna til dæmis, þ.e. að þegar líkami okkar hefur réttu næringarefnin til að geta starfað rétt verðum við miklu síður veik og þegar okkur skortir næringuna getum við orðið mjög veik á margvíslegan hátt. Hægt er að benda á mörg næringarefni í þessu sambandi. Ekki eru það einungis eitthvað "húmbúkk fólk" sem er að framkvæma slíkar rannsóknir heldur virðist áhugi vísindamanna eins og lækna, næringarfræðinga, lífefna- og líffræðinga og vonandi líka lyfjafræðinga farið vaxandi á síðast liðnum árum og áratugum - sem betur fer.

Ef einhver hér treystir sér til að afsanna virkni grasalækninga eða náttúrulækninga get ég borið virðingu fyrir því... en persónulega er ég alls ekki tilbúin til að dissa þær á meðan svo lítið er vitað um þær. Það sem við vitum í dag er einungis það að okkur skortir frekari rannsóknir, en oft virðist fólk skorta þá auðmýkt að einfaldlega viðurkenna hversu lítið er vitað.

Fyrir áhugasama bendi ég á nokkra vefi:

Harvard School of Public Health. (2004). Vitamins. Sótt 12. mars 2005 af http://www.hsph.harvard.edu/nutritionsource/vitamins.html.

Saggers, B. A. og Teal, A. R. (1997). Biochemical basis of disease. London: The Biochemical Society.

Stoll, A. L., Severus, W. E., Freeman, M. P., Rueter, S., Zboyan, H. A., Diamond, E., Cress, K. K., Marangell, L. B. (1999). Omega 3 fatty acids in bipolar disorder. Archives of General Psychiatry, 56, bls. 407-412.

http://www.hriptc.org/research_studies.html

http://www.hriptc.org/bib_behavior.htm

http://www.medscape.com/home

http://www.sagamedica.com/angelica.htm


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 05/02/06 23:13 #

Ég þakka þér mjög áhugavert innlegg í þessa umræðu, Andrea. Ég get tekið undir sumt sem þú segir en er ósáttur við annað.

Í fyrsta lagi trúi ég því ekki að hér sé nokkur maður sem vill „sanna“ að ein tegund lækninga sé betri en önnur. Um lækningar er það að segja að það er nokkuð sama hvaðan gott kemur og það er engin „keppni“ milli ólíkra aðferða heldur geta þær oft unnið ágætlega saman og svo er misjafnt á milli tilfella hverju er skynsamlegt að beita. Ég legg áherslu á orðið „skynsamlegt“ því í lækningum gildir að bregðast skjótt við og nota aðferðir sem hafa verið prófaðar áður og njóta viðurkenningar fyrir að vera árangursríkar.

Ég er hjartanlega sammála þér um nauðsyn vísindarannsókna á sviði náttúrulækninga og vona rétt eins og þú að þær fari vaxandi.

Áður en ég held áfram vil ég samt benda á að það er ýmislegt bogið við þessa tvíhyggju sem tröllríður fræðunum um óhefðbundnar lækningar. Lyfjagjöf og óhefðbundnum lækningum er oft stillt upp sem andstæðum: Önnur afurðin er þá framleidd í (eiturspúandi) manngerðri verksmiðju en hin úr jurtum sem eru týndar úti í guðsgrænni náttúrunni.

Allt í náttúrunni er gert úr sömu frumefnunum (um 90 talsins), hvort sem það erum við, náttúrulyf eða lyf úr verksmiðju. Það er því villandi málflutningur að tala um að lyf framleidd í verksmiðjum séu andstæður við lækningajurtir (auk þess sem virku efnin eru oft þau sömu eða af svipuðu tagi í báðum tilfellum).

Þá er það önnur grundvallarspurning: Af hverju skyldu menn vinna lyf í verksmiðjum? Jú, einmitt til þess að ná upp styrk af virka efninu í lyfinu sem á að hjálpa sjúklingnum í baráttu við sjúkdóma. Styrkur virka efnisins er oft þúsundfaldur í lyfinu miðað við lækningajurtina og áhrifin margfaldast að sama skapi. Annað sem vert er að hafa í huga að með því að koma virka efninu til sjúklingsins í formi tilbúins lyfs má losna við aukaverkanir sem oft fylgja öðrum óæskilegum efnum í jurtinni. Tilbúin lyf geta þannig dregið úr aukaverkunum!

Víkjum nú að greininni og því í innleggi þínu sem tengist henni:

Ég er sammála þér um mikilvægi þess að stunda rannsóknir áður en menn hrapa að illa ígrunduðum ályktunum. Það var nú einmitt tilefni Kjaftæðisvaktarinnar að þessu sinni að Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir hélt því fram í viðtali að hún gæti gefið fólki lauf sem virkuðu jafnvel og sýklalyf og aðra blöndu sem læknaði kvef.

Gott er ef rétt reynist en hefur hún einhver gögn í höndunum sem styðja þessar staðhæfingar? Hafa birst einhverjar rannsóknarniðurstöður um þessi efni í virtum vísindatímaritum? Ég er hræddur um að svo sé ekki en dreg orð mín til baka ef sýnt er fram á annað. Ef fram er komið lyf við kvefi eða raunverulegur valkostur við sýklalyf þá er það svo stórkostleg uppgötvun að það væri grátlegt og í raun óheiðarlegt gagnvart sjúklingum ef læknar hagnýttu sér hana ekki.

Af hverju benda læknar þá ekki sjúklingum sínum á þessar máttugu lækningaraðferðir? Jú, líklega af því að aðferðir Kolbrúnar eru sannkallaðar skottulækningar.

Í innleggi þínu hér að ofan kemur fram tortryggni gagnvart tilbúnum lyfjum sem er því miður býsna útbreidd. Staðhæfingin „mörg hefðbundin og viðurkennd lyf eru skaðleg líkama mannsins“ er ekki rökstudd með neins konar dæmum. Auðvitað eru virk efni í lyfjunum sem geta valdið líkamanum skaða ef þau eru ekki gefin rétt og sumar lækningaaðferðir hafa miklar aukaverkanir í för með sér (sbr. krabbameinslyf). Þú tiltekur tvö dæmi um lyf sem geta gert líkamanum skaða, ritalín og þunglyndislyf. Það er ekki hægt að líta framhjá því að þunglyndislyf hafa hjálpað mörgum yfir erfiða hjalla og oft á tíðum bjargað mannslífum. Sama má segja um rítalín sem hefur búið mörgum ofvirkum börnum betra líf þar sem það hefur verið gefið þegar við á. Eins og kemur réttilega fram hjá þér þá er það ofnotkun sýklalyfjanna en ekki lyfin sjálf sem eru vandamálið.

Reyndar er það svo að við höfum opinberar eftirlitsstofnanir sem eiga að sjá til þess að skaðleg lyf séu ekki á markaði. Til þess að komast á markað þurfa lyf að fara í gegnum margra ára rannsóknir og einnig ber læknum skylda til þess að tilkynna um aukaverkanir af lyfjum sem ekki er getið í leiðbeiningum. Ef lyf standast ekki væntingar þá eiga þau að vera tekin af markaði. Jafnframt veitir það lyfjafyrirtækjunum aðhald að eiga von á málsóknum ef staðhæfingar þeirra reynast rangar. Sjúklingurinn ætti því öllu jafna að vera öruggur með margreynt og viðurkennt lyf hjá lækni sem búið er að rannsaka gaumgæfilega

Öðru máli gegnir hins vegar um grasalækningar. Þar geta menn slengt fram ótrúlegum staðhæfingum um blöndur sínar og lítið er um eftirlit með aukaverkunum. Þar er það sami maðurinn (grasalæknirinn) sem setur saman blönduna og reynir hana á sjúklingnum. Það er því ekki að búast við mörgum tilkynningum um óæskilegar aukaverkanir úr þeirri áttinni.

Að lokum vil ég undirstrika að hér er ekki verið að meðhöndla neinn „Stóra sannleik“. Óhefðbundnar lækningar og grasalækningar hafa hjálpað mörgum í gegnum tíðina í baráttunni við kvilla og sjúkdóma. Þegar ótrúlegum staðhæfingum er hins vegar slengt fram eins og viðurkenndum staðreyndum á ábyrgðarlausan og varasaman hátt (eins og Kolbrún gerði í viðtalinu) þá ætti að klingja viðvörunarbjöllum hjá öllu skynsemdarfólki. Ef hún er að vekja falsvonir hjá sjúklingum sínum og lofa einhverju sem náttúrulyf hennar standa ekki undir þá er það grafalvarlegt mál og getur hindrað fólk í því að fá lækningu gegn alvarlegum sjúkdómum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.