Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Páll postuli og Dauðahafshandritin

Uppstigning Krists

3. Hluti: Var Jesús til?

Í síðustu grein var fjallað um að guðspjöllin sjálf og frásagnir þeirra hafa leitt marga fræðimenn til að efast um að nokkuð sé yfirhöfuð hægt að segja um hinn „sögulega“ Jesú, og jafnvel, að slíkur Jesú hafi aldrei verið til. Guðspjöllin ein og sér nægja í raun til að sá þeim fræjum efasemda sem aðrar heimildir ná ekki að uppræta.

En það eru Pálsbréfin sem, að margra mati, slá botninn úr þeirri fullyrðingu að Jesú hafi í raun verið til. Við skulum skoða þetta nánar, og einnig líta til annarra merkilegra heimilda frá fyrstu öld, Dauðahafshandritanna.

Gunnar Jóhannsson prestur og guðfræðingur fullyrti í grein sinni í Stundinni að engir “ábyrgir” sagnfræðingar efuðust um tilvist Jesú. Það má vera rétt miðað við hans skilning á því hverjir teljist “ábyrgir” sagnfræðingar, en þeir finnast, “alvöru” fræðimenn á þessu sviði sem efast um tilvist Jesú, og þeim fer fjölgandi.

Páll postuli

Ein sterkasta vísbendingin um ekki-tilvist Jesú er að finna í Pálsbréfum, elsta hluta Nýja Testamentisins og þau rit sem eru skrifuð næst atburðum í tíma. Ekki eru öll 13 Pálsbréf í Nýja Testamentinu með réttu eignuð Páli, sum eru greinilega seinni tíma skrif, en almennt eru fræðimenn sammála um að Páll hafi sjálfur skrifað, í röð eftir ritunartíma: Fyrra Þessalóníkubréf, Galatabréfið, Fyrra og Seinna Korintubréf, Filippíbréfið, Fílemonsbréfið og Rómverjabréfið. Þessi sjö bréf eru almennt talin rituð á árunum 50 til 57.

Pétur og Páll
Þeir Pétur og Páll ræða málin. Jusepe de Ripera, 1616.

Páll er samtímamaður þeirra sem, samkvæmt viðteknum skoðunum, höfðu persónulega upplifað Jesú, kraftaverkin, krossfestinguna og upprisuna – en sér hvergi ástæðu til að nefna að hafa hitt nokkurn sem var vitni að þessum atburðum.

Hans trú byggist á uppljómun, vitrun, og er öll sótt í persónuleg tengsl hans við „yfirskilvitlegan“ Krist. Á grundvelli þessarar trúarsannfæringar sinnar tekur hann að sér að skrifast á við söfnuði víðs vegar um Rómarveldi þar sem hann skýrir og ver í löngu máli kristna trú og eigin trúarskoðanir.

Lesendur Pálsbréfa hafa löngum furðað sig á af hverju Páll sér hvergi ástæðu til að vitna til orða Jesú máli sínu til stuðnings og eru þó ærin tilefnin. Páll er virkur trúboði, hann setur söfnuðum línurnar og reynir að veita þeim dýpri skilning á trúnni. Einhvern veginn finnst manni að Páll gæti vitnað til orða og verka Jesú máli sínu til stuðnings, þó ekki nema einu sinni. En nei, persónan Jesú, maðurinn sem átti að hafa gengið götur Palestínu, sem átti að hafa verið dæmdur til dauða af Pontíusi Pílatusi – er hvergi að finna í ritum Páls.

Páll nefnir vissulega Jesú Krist á nafn ítrekað, í Rómverjabréfinu einu er Krist að finna minnst 30 sinnum. Þar er líka að finna einn af örfáum stöðum þar sem virðist vitnað til atburða í lífi Krists,

Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi. (6:3-4)

Svipuð brot af einhverju sem gæti líkst frásögn af raunverulegum Jesú má finna annars staðar hjá Páli, en þau eru fá. Í Galatabréfinu segir Páll

En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli (4:4),

í Rómverjabréfi má finna

Sem maður er hann fæddur af kyni Davíðs en heilagur andi hans auglýsti með krafti að hann er sonur Guðs þegar hann reis upp frá dauðum (1:3-4)

Fyrra Korintubréf hefur einnig að geyma eftirfarandi:

Því ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: ‚Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.’ Sömuleiðis tók hann bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ‚Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu. (11:23-25)

Í sama bréfi, Fyrra Kornintubréfi, finnum við:

Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði. (15: 3-8)

Jesú birtist Páli.
Jesú birtist Páli eftir Bartolomé Esteban Murillo 1780.

Sumum þætti þetta nóg staðfesting á að Páll er að tala um raunverulega atburði. En athugum nánar: Páll segist hafa „meðtekið frá Drottni“ þessar frásagnir og að þær séu „samkvæmt ritningunum“. Það er einnig athyglisvert að þegar Jesú birtist Kefasi, og þeim tólf, og 500 bræðrum, svo Jakobi og postulunum öllum, að þessar birtingar eru hjá Páli jafngildar því þegar Jesú birtist honum sjálfum – og sú „birting“ var auðvitað einhvers konar andleg uppljómun, en ekki veraldlegur hittingur.

Engu að síður er ljóst að Páll telur Jesú hafa verið tekinn af lífi „í jarðneskum líkama“ (Kólosseubréf, 1:22), og dauði og upprisa Jesú Krists er algjört grundvallaratriði í trúarkenningum Páls, sá atburður sem allt annað sprettur af. Samt virðist Páll eiga erfitt með að útskýra í hverju upprisan felist – samkvæmt honum er það ekki „jarðneskur“ líkami sem rís upp frá dauðum heldur „andlegur líkami“ (Fyrra Kórintubréf, 15:44).

Fyrir utan Jesú Krist verður Páli tíðrætt um einhverjar furðuverur, „archon“ á grísku, sem t.d. gnostíkar töldu vera einhvers konar hálfguði, fulltrúar gerfiguðsins sem skapaði jörðina – illir andar er kannski nálæg þýðing, en í þýðingu Íslenska Biblíufélagsins eru þessi fyrirbæri nefnd ýmsum nöfnum, t.d. í 2. kafla Kólossubréfs, „heimsvættir“ kemur fyrir víða, t.d. „Fyrst þið dóuð með Kristi og eruð laus undan valdi heimsvættanna“ (20), „tignirnar og völdin“ (15). Einnig í öðrum kafla Efesusbréfs, „valdhafans í loftinu” (2) (NB: Efesusbréfið er skv. fræðimönnum trúlega falsað og skrifað nokkru eftir dauða Páls).

Þessir „arkónar“ voru hluti af heimsmynd fornaldar, orðið virðist merkja bæði „upphafsmenn“ og „valdhafar“ og voru hluti af því sem menn töldu vera hinn jarðneska heim, en þó ofar mannkyni og ósýnilegir. Arkónar stjórnuðu hinni jarðnesku tilveru, en handan hennar var hin himneska tilvera, fjarri mannkyni, heimkynni Guðs.

Gyðingar deildu þessari heimsmynd eins og sjá má t.d. af Fyrri Enoksbók (trúlega rituð um 300 f.o.t., og ekki hluti af Biblíunni) þar sem stendur, lauslega þýtt:

Þá var Mannssyninum gefið nafn í viðurvist hinnar Æðstu heimsvættar, fyrir upphaf tímans; jafnvel fyrir sköpun sólar og tungls, fyrir sköpun stjarnanna, var honum gefið nafn í viðurvist hinnar Æðstu heimsvættar. Hann mun verða stoð hinna réttlátu. Hann er ljós þeirra sem ekki eru gyðingar, og hann mun verða von þeirra sem þjást í hjarta sínu. Þeirra vegna gerðist hann hinn útvaldi; Hann var dulinn í nærveru hinnar Æðstu heimsvættar á undan sköpun heimsins, og til eilífðar. Og hann hefur opinberað visku hinnar Æðstu heimsvættar hinum réttlátu og hinum heilögu (1 Enoch 48:1-7)

og einnig:

Því Mannssonurinn var falinn frá upphafi, og hinn Æðsti varðveitti hann í krafti sínum; því næst birti hann Mannssoninn hinum heilögu og hinum útvöldu (1 Enoch 62:7-8)

Samkvæmt Páli eru það þessar vættir sem drápu Jesú, skv. Fyrra Kórintubréfi 2:8, þar sem Páll ræðir um hina „leyndu speki“ Guðs,

Enginn af höfðingjum þessa heims þekkti hana. Hefðu þeir þekkt hana hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.

Krossfestingin er því ekki atburður „í raunveruleikanum“ heldur eitthvað sem gerist meðal „heimsvættanna“, hinna yfirnáttúrulegu „valdhafa í loftinu“, það sem Páll nefnir „archon“.

Páll finnur Jesú, messías, í ritningunum og allir þeir atburðir sem hann virðist vísa til má skýra með tilvísun til ritninganna. Það að þessi messías skuli bera eiginnafnið Jesú er einnig grundvallað í gyðinglegum hefðum, Jesú er gríska útgáfa nafnsins Jósúa (“Yahweh frelsar”), þess sem leiddi gyðinga til fyrirheitna landsins. Messías gat varla heitið annað!

Sú grein gyðingdóms sem Páll tilheyrir virðist því trúa á tilvist, dauða og upprisu guðlegrar veru sem hafi tekið sér bólfestu í „jarðneskum“ líkama, stigið niður til hinnar „jarðnesku“tilveru, niður til heimsvættanna, arkónanna. Alla þessa sögu finnur Páll með því að plægja ritningarnar eftir spádómum um Mannssoninn, hinn guðlega frelsara.

Í raun er það eina leiðin til að skilja boðskap Páls til fulls: Hann áleit aldrei að Jesú hafi verið söguleg persóna í okkar skilningi, heldur í trúarlegum skilningi, handanheims í okkar huga en í þeim hluta hins jarðneska heims þar sem arkónarnir héldu sig í huga Páls.

Dauðahafshandritin

Hið mikla safn handrita og handritsbrota sem fannst í hellum við Dauðahafið um miðja síðustu öld hefur alltaf vakið umtal og jafnvel deilur. Uppruni þeirra er umdeildur, „opinbera“ skýringin er að handritin séu bókasafn sértrúarsafnaðar sem hafði aðsetur í klettavirkinu Qumran rétt hjá þar sem handritin fundust.

Rústirnar við Qumran
Rústirnar við Qumran. Þegar dauðahafshandritin fundust þarna rétt hjá spratt mjög fljótt upp sú hugmynd að trúflokkur Essena, sem Jósefus segir hafa búið við Dauðahafið, hafi átt aðsetur þarna og falið bókasafn sitt í hellum við innrás Rómverja. Nýlegar fornleifarannsóknir benda þó frekar til að þarna hafi átt sér stað leirkerasmíð.

Aðrir umdeildari fræðimenn hafa sett fram þá gagnrýni að handritin séu of mörg, rituð af allt of mörgum mismunandi einstaklingum (engin tvö handrit bera sömu rithönd), til að geta tilheyrt einum litlum sértrúarsöfnuði. Innihald ritanna er einnig þess eðlis að það er erfitt að fella þau undir einn slíkan söfnuð – að minnsta kosti tveir trúarhópar með ólíka guðfræði virðast standa að baki.

Hvað svo sem þessum deilum líður þá er það hin óvænta innsýn inn í hugarheim gyðinglegra sértrúarsafnaða á fyrstu öld sem þessi handrit gefa sem skiptir máli. Þrátt fyrir ýmsar vangaveltur hefur ekki tekist að bendla neitt af innihaldi handritanna við frumkristni. En handritin sýna hversu mikil trúarleg gerjun átti sér stað á tveggja alda tímabili fram að eyðingu musterisins. Á meðan Fíló frá Alexandríu er nokkurs konar fulltrúi hinnar fræðilegu nálgunar eru Dauðahafshandritin fulltrúi hinnar róttæku, heittrúuðu nálgunar – og bæði Fíló og höfundar Dauðahafshandritanna nálgast gyðingatrú út frá þeirri hugsun að henni þurfi að breyta.

Meðal Dauðahafshandritanna má finna mörg dæmi þar sem kaflar úr Gamla Testamentinu eru lesnir og „skýrðir“, hin dýpri merking þeirra dregin fram, spádómar og leyndur boðskapur sem auðvitað var í samræmi við trú þess sértrúarsafnaðar sem að verkinu stóð. Hér er greinileg fyrirmynd að því hvernig Pálsbréfin og Guðspjöllin voru spunnin saman úr ritningarstöðum, túlkunum á þeim og spádómum sem menn þóttust þar finna.

Koparrullan
Eitt áhugaverðasta handritið sem fanst við Qumran er koparrullan svokallaða. Slíkt handrit er bæði dýrt og erfitt í framleiðslu en innihaldið er enn merkilegra: Löng upptalning verðmæta úr Musterinu og hvar þau voru grafin í jörð. Svo virðist sem kopar hafi verið notaður til að tryggja betri endingartíma. Fjölmargir hafa reynt að finna þessa fjársóði eftir lýsingum rullunnar en engum tekist svo vitað sé, en til mikils er að vinna, ein staðsetningin geymir samkvæmt lýsingu 870 þúsund únsur gulls eða rúmlega 100 milljarðar króna.

Hvorki Fíló né Dauðahafshandritin passa inn í þá algengu ímynd að á tímum Jesú hafi verið einhver algild og vel skilgreind gyðingatrú sem Jesú hafi brotið sig frá eða reynt að umbæta. Gyðingatrú þess tíma virðist hafa verið margbrotinn suðupottur þar sem gamlar hefðir og rit voru stokkuð upp, hinn bókstaflegi texti ekki lengur marktækur, heldur var leitast við að finna dýpri merkingar, tengsl við gríska heimspeki, eða dulda spádóma.

Dauðahafshandritin gefa okkur innsýn í heim þar sem Jesú-laus Kristni gat vel orðið til, í hrærigraut Lógos-Sófía kenninga grískra heimspekinga, endurtúlkunar ritninganna og spádómaleitar þar, og átaka milli ólíkra trúarhópa um boðskap og arfleifð gyðingdóms.

Var Jesú þá ekki til?

Hér hef ég rakið hversu haldlitlar heimildir Guðspjöllin eru, og hinn æpandi skort á öðrum heimildum frá fyrstu öld, og bent á hina furðulegu næstum því þögn Páls. Kannski leynist einhver Jesú bak við þögnina og skáldskapinn – flestum þykir það eflaust sennilegra en hitt, að hann hafi aldrei verið til, jafnvel þótt heimildum sé ábótavant.

Ég hef einnig rakið hvernig Kristur Jesú hjá Páli gæti hugsanlega talist einhvers konar yfirnáttúrulegt fyrirbæri, einhvers konar Lógos Guðs sem hafi í raun verið drepinn, og hafi í raun og veru lifnað til lífsins aftur, en þó ekki í því sem við köllum „raunheima“ heldur á einhverju tilverustigi sem Páll og samtímamenn hans töldu ekki síður raunverulegt, milli hins jarðneska og himneska.

Guðfræði Páls má sjá sem guðfræði byggða á textarýni. Páll finnur Jesú Krist í ritningunum, hann finnur dauða hans og upprisu í spádómsorðum ritningarinnar. Grísk-platónskar hugmyndir Fílós ásamt rittúlkunarhefðum Dauðahafshandritanna sýna okkur hvernig slíkur hugmyndaheimur getur orðið til.

Getur verið að Páll þekki engan „raunverulegan“ Jesú Krist sem hafi verið krossfestur í Palestínu 20 árum áður? Enduróm slíks má finna í trúarjátningunni sem á uppruna sinn á 4. öld þegar kirkjan reyndi að samræma trúna, gera hana Kaþólska. Trúarjátningin tekur á þeim grundvallaratriðum trúarinnar sem hægt er deila um. Hvers vegna þarf þá að taka fram að Jesú hafi verið „krossfestur á tímum Pontíusar Pílatusar“ – ef ekki voru einhverjir Kristnir sem efuðust um það?

Tilgangur þessa greina er ekki að reyna að afsanna tilvist Jesú (enda mun það seint takast), heldur að benda á að það er réttmætt að efast um tilvist hans. Heimildirnar eru langt í frá eins öruggar og guðfræðingar vilja stundum halda fram, og aðrar skýringar á uppruna Kristni má vel finna ef að er gáð.

Brynjólfur Þorvarðarson 07.05.2018
Flokkað undir: ( Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 07/05/18 13:12 #

Ég tek undir lokaorð greinarinnar: "það er réttmætt að efast um tilvist hans." Ég hallast að því frekar en hitt að hinn sögulegi Jesús hafi verið til ... en það er fullkomlega réttmætanlegt að efast, því við höfum alveg rosalega fátt sem bendir til tilvistar hans, og hafi hann verið til, þá vitum við nánast ekki neitt um hann.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/05/18 18:34 #

Ég hef einmitt lengi efast um að Jesús hafi raunverulega verið til en fundist umræðan alltaf vera á þann veg að það væri óumdeilt meðal fræðimanna á þessu sviði að einhver persóna, sem Jesús Biblíunnar er byggður á, hefði ráfað um og prédikað.

Sá ætti auðvitað fátt skylt með Biblíu-Jesús.

En ég ætlast semsagt að leyfa mér að halda áfram að efast dálítið!


joi - 07/05/18 20:48 #

margir villja meina að sem slíkur hafi einn jesus sem pretikaði á þessum tima í raun aldrei verið til, hedur að sá jesus sem fjallað er í nyja testamentinu sé í raun samanfafn sagna af fjórum til fim mismunandi mönnum sem ruglast sama og íkjast í mannana máli þar til guðsspjöllin voru skrifuð, og sá sem páll er að skrifa um sé í raun einn af þeim.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?