Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Pínlegar biblíutúlkanir presta

Mynd af efni dæmisögunnar

Síðustu helgi þurftu prestar Þjóðkirkjunnar að predika um eina af dæmisögum Jesú sem fjallar um helvíti og heimsendi. Í staðinn fyrir að fordæma einfaldlega dæmisöguna, eða segjast vera ósammála henni, reyndu prestarnir að bjarga henni með öllum tiltækum ráðum.

Dæmisagan

Í mjög stuttu máli þá heldur konungur brúðkaupsveislu. Einn gestur er ekki rétt klæddur og konungurinn skipar þjónum sínum að binda hann og henda í "ystu myrkur" þar sem verður "grátur og gnístran tanna."

Hér er hægt að lesa dæmisöguna og svo er hægt að skoða hana í Legóbiblíunni.

Merking dæmisögunnar

Ef maður hefur lesið Matteusarguðspjall er augljóst hvað Jesús er að tala um: Hann er að tala um að guð muni láta engla sína kasta fólki í helvíti við heimsendi.

Annars staðar í guðspjallinu segir Jesús þetta berum orðum:

Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:49-50)

Þarna eru englar guðs að refsa fólki með því að kasta því á stað þar sem verður grátur og gnístran tanna.

Þegar Jesús segir dæmisögu þar sem konungur lætur þjóna sína refsa fólki með því að kasta því á stað þar sem verður grátur og gnístran tanna ætti tengingin að vera flestum augljós.

Þetta er ekki eina dæmisaga Jesú sem endar svona. Nokkrum köflum síðar segir Jesú dæmisögu af þrælaeiganda sem kemur heim og umbunar eða refsar þrælunum sínum. Óhlýðnu þrælana sendir hann í "ystu myrkur" þar sem verður "grátur og gnístran tanna".

Matteusarguðspjall er fullt af svona tali tengdu helvíti og heimsendi, þannig að það er alveg ljóst til hvers Jesú er að vísa í dæmisögunni.

Prestarnir rembast við að afneita þessu, af því að þeim mislíka þessar hugmyndir, eins og við flest.

Jesús í gestaklæðum

Presturinn Arna Ýrr Sigurðardóttir byrjar predikun sína á að hneykslast á framferði konungsins:

Úff! Þetta er nú meiri textinn! Þetta er með því ofbeldisfyllra sem Jesús segir, og ef Guð er svona eins og konungurinn í sögunni, viljum við þá trúa á þannig Guð? Er Guð virkilega bara eins og einhver fornkóngur í mið-austurlöndum, sem refsar þegnum sínum með harðri hendi fyrir mótþróa?

Lausn hennar á þessu vandamáli er að reyna að samsama guð ekki við "valdamesta karlinn í dæmisögum Jesú". Hún stingur upp á því að gesturinn sem konungurinn refsar sé Jesús. Konungurinn er "samfélag sem byggir á ofbeldi og kúgun" og beitir Jesú ofbeldi, af því að hann vill ekki taka þátt í þessu.

Þessi túlkun byggir klárlega á illri nauðsyn. Arna Ýrr vill ekki trúa á guð sem hegðar sér eins og konungurinn í sögunni og þess vegna þarf hún að finna einhverja aðra túlkun en þá sem er augljóslega rétt.

Jesús meinti þetta alls ekki!

Presturinn Skúli S. Ólafsson reynir að bjarga sögunni svona:

Er þessi grimmi gestgjafi í sögunni, sjálft almættið? Er sögunni sjálfri ætlað að lýsa á harmrænan hátt siðum og samfélagi sem komið er langt út fyrir sinn ramma? Dæmisagan varpar fram þeirri spurningu hvort Guð bregðist við eins og konungurinn í sögunni, en hún svarar henni ekki.

Hvaðan Skúli fær þá hugmynd að Jesús sé bara að varpa fram spurningu í þessari dæmisögu veit ég ekki. Ég þori að veðja að Skúli nálgast ekki dæmisögur sem birta guðinn hans í jákvæðu ljósi á sama hátt.

Auðvitað er Jesús að segja að guð hegði sér á svipaðan hátt og konungurinn, hann segir það meira að segja oft og mörgum sinnum berum orðum annars staðar í guðspjallinu.

Óskeikuli leiðtoginn

Þessi dæmisaga, eins og stór hluti Matteusarguðspjalls, boðar hugmyndir sem prestunum líkar ekki við. Guð sem refsar og hendir fólki í helvíti er óvinsæll nú til dags.

Prestar virðast af einhverjum ástæðum ekki geta sagt að þeir séu ósammála þessum hugmyndum þrátt fyrir að þeir séu það augljóslega.

Geta þeir ekki hugsað sér að vera ósammála Jesú? Er það kannski bara svo mikið tabú innan ríkiskirkjunnar að segja að leiðtoginn hafi ekki verið óskeikull?

Hjalti Rúnar Ómarsson 14.10.2016
Flokkað undir: ( Messurýni , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Jón Norðfjörð - 20/10/16 21:56 #

Er það ekki bara hið eðlilegasta mál að þeir sem neita að trúa verði að ósk sinni? Það er algjör óþarfi hjá aumingja prestunum að vera í vörn.

Það er alveg ljóst að þeir sem vilja lifa í sínu guðleysi, fá að gera það á sínum forsendum, bæði í þessu lífi og hinu komandi. Það er helvíti fyrir mér. Aðskilnaður frá Guði er helvíti, þetta eru tveir andstæðir pólar.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 23/10/16 12:12 #

Sæll Jón

Ég held að þú sért líka í hálf-gerðri vörn. Þú virðist líta á að helvíti sé bara eitthvað ástand sem fólk biður um sjálft.

Sú hugmynd passar ekki við helvíti eins og það birtist í Nýja testamentinu (amk Mt-guðspjall). Þarna er þetta hræðilegur staður sem maður vill ekki enda á. Fólki er varpað þangað sem refsingu.

Sjáðu til dæmis bara þessa dæmisögu: maðurinn er bundinn og svo varpað í "ystu myrkur". Hljómar það eins og hann sé að fara þangað viljugur?


Jón Valur Jensson - 16/11/16 19:07 #

Mörgum líberalprestum er um megn að taka mark á orðum Jesú. En Jesús er sjálfur dómarinn sem mun aðskilja hana ranglátu frá þeim réttlátu, það segir hann sjálfur: Matth.25.31–46, og refsing óguðlegra er varir endalaust (þótt hún sé í raun "citra condignum", minna en það sem þeir verðskulda, því að einnig þar birtist miskunn Guðs).

Kaþólska kirkjan tekur mark á þessari eilífu refsingu, einnig sú orþódoxa og eflaust flestir hvítasunnusöfnuðir og ýmsir aðrir, en eins og alkunna er, eiga margir Þjóðkirkjuprestar í erfiðleikum með að trúa Kristi. Það er sannarlega sorglegt, ekki sízt fyrir meðlimi kirkjunnar, en lausnin er ekki sú að fara leið vantrúarmannsins Hjalta.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?