Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að skammast sín fyrir biblíuna

Mynd af biblíunni

Ríkiskirkjan skammast sín fyrir biblíuna. Þrátt fyrir að talsmenn hennar berjist fyrir því að Nýja testamentinu sé dreift til skólabarna og þrátt fyrir að biblían sé höfð upp á altörum í kirkjum landsins, þá skammast Þjóðkirkjan sín fyrir hana. Það þarf ekki annað en að skoða hvernig Þjóðkirkjan vitnar í biblíuna til að sjá það.

Undarlegar tilvitnanir

Þjóðkirkjan lætur lesa ákveðna texta í messum og auk þess birtir hún morgun- og kvöldlestra á degi hverjum í almanaki á vefritinu sínu. Einstaka sinnum eru þessar tilvitnanir svolítið götóttar og það sem hverfur er oftar en ekki frekar vandræðalegt.

Jafnréttisstefna biblíunnar

Vers sem eru ekki beint í anda jafnréttisstefnu Þjóðkirkjunnar hverfa stundum.

Sem dæmi má benda á að í þessum kvöldlestri vantaði yfirstrikuðu versin:

Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus. Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna, því vér erum limir á líkama hans. "Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður." Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum. (Ef 5:21-33)

Það yfirstrikaða var klippt út úr þessum kvöldlestri:

Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér. Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar. Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni. Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu. Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir. (Opb. 14.1-5)

Reiði og hatur guðs

Sömu sögu er að segja af textum sem minnast á refsingar, reiði og hatur guðs.

Áttunda sunnudaginn eftir þrenningarhátíð er eitt lítið vers klippt í burtu:

Svo segir Drottinn allsherjar: Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá Drottni. Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði Drottins: "Yður mun heill hlotnast!" Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: "Engin ógæfa mun yfir yður koma!" Já, hver stendur í ráði Drottins? Hver sér og heyrir orð hans? Hver gefur gaum að orðum mínum og kunngjörir þau? Sjá, stormur Drottins brýst fram reiði og hvirfilbylur hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu. Reiði Drottins léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það greinilega. Ég hefi ekki sent spámennina, og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir. (Jer 23:16-21)

Tal Páls postula um að guðinn hans hati fólk, jafnvel áður en það hefur fæðst er einnig talið óviðeigandi í kirkjum, og er því klippt út:

Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir. Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir." Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar. Því að þetta orð er fyrirheit: "Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið." Og ekki nóg með það. Því var líka svo farið með Rebekku. Hún var þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, Ísaks föður vors. Nú, til þess að það stæði stöðugt, að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkunum og öll komin undir vilja þess, er kallar, þá var henni sagt, áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: "Hinn eldri skal þjóna hinum yngri." Eins og ritað er: "Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég." Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Því hann segir við Móse: "Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna." Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar. Því er í Ritningunni sagt við Faraó: "Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina." Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill. (Róm 9:6-18)

Lokaorð Jesú

Dæmisögur Jesú fjalla oft um endalok heimsins og hvernig guð muni refsa fólki við þau tímamót. Þjóðkirkjan á það til að klippa endann á dæmisögum af, einmitt þegar hann fer að ræða um refsingar guðs.

Á Þorláksmessu er til dæmis sögð dæmisaga Jesú þar sem hann fjallar um góðan og slæman þjón, en kirkjugestir fá ekki að heyra af slæma þjóninum, þar sem að yfirstrikaði textinn er ekki lesinn:

Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi. Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,` og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 24.42-51)

Þjóðkirkjan klippir líka endinn af dæmisögum Jesú þegar hún segir þær börnum.

Góð skömm

Það er í sjálfu sér gott að kirkjufólkið skuli skammast sín fyrir texta biblíunnar. Það þýðir að kirkjufólkið er ósammála þessu bulli.

Verra er að kirkjunnar fólk virðist eiga erfitt með að þetta bull sé til staðar. Heldur er ýmist reynt að fegra biblíuna eða fela bullið fyrir fólki.

Óskandi væri að trúfólk myndi koma hreint til dyra og viðurkenna einfaldlega að biblían, þar með talið Nýja testamentið, er full af bulli.


Upphafleg mynd frá NYC Wanderer og birt með cc-leyfi

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.04.2016
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð


Jói - 27/04/16 14:21 #

Með þessar aðferð sem þjónar krikjunar afmynda orð "guðs" get ég nokkuð örugglega lesið mein kampf eftir litilmennið hitler og út kemur faðirvorið.


Sigurður R. Sigurbjörnsson - 06/05/16 21:47 #

Hér er í og með enn ein ástæðan fyrir því að ég tel það brot á friðhelgi barna, að fullorðnir líti á það sem mannréttindi sín, að mega læða trú á rit Biblíunnar sem Orð Guðs.

Það sem mér þykir þó mest undarlegt, er að félagar í Vantrú og Siðmennt vilja verja þann rétt trúaðra, að mega boða börnum, bláeygum og varnarlausum vesælingum þessa trú sem einhvern óskeikulan SANNLEIK sem ekki megi með nokkru móti skerða, því það sé óumdeilanlegur réttur hvers og eins að boða þá trú sem honum sýnist.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/05/16 10:29 #

Hvernig sérðu fyrir þér samfélag þar sem hægt er að koma í veg fyrir að foreldrar boði börnum sínum trúarhugmyndir?

Ég sé ekki fyrir mér slíkt samfélag frjálsra einstaklinga.

Það þýðir ekki að mér þyki það jákvætt að foreldrar boði börnum sínum bábiljur. Ég verð bara að láta duga að berjast gegn því að "kerfið" boði mínum börnum þessar sömu bábiljur og virði rétt minn til að ala börn mín upp án hindurvitna.

Auðvitað á skólakerfið að fræða börnin um heimsmynd sem byggir á uppsafnaðri þekkingu en ekki bábiljum. Því miður hefur það ekki alltaf verið raunin.


Sigurður R. Sigurbjörnsson - 12/05/16 00:30 #

Ég sé það samfélag fyrir mér á sama hátt og við sjáum það samfélag sem hefur tekist að koma í veg fyrir að börn þurfi að þola nikótínneyslu á samkomum og á heimilum nikótínhrjáðra.

Eftir sem áður er nikótínhrjáðum einstaklingum frjálst að neyta nikótíns utandyra,fjarri gönguleiðum almennings og barna.

Það þarf ekki að vera neitt flóknara að koma í veg fyrir trúarinnrætingu frekar en að koma í veg fyrir pólitíska innrætingu barna.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/05/16 09:58 #

samfélag sem hefur tekist að koma í veg fyrir að börn þurfi að þola nikótínneyslu ... á heimilum nikótínhrjáðra.

Það samfélag er ekki til. Engin lög banna foreldrum að reykja á heimili sínu þó börn séu á staðnum og auðvitað verða einhver börn fyrir slíku.

Viðhorf til óbeinna reykinga hefur auðvitað breyst gríðarlega síðustu áratugi og að sjálfsögðu viljum við í Vantrú (eða ég a.m.k., ég tala ekki fyrir aðra) sjá sömu þróun varðandi trúarbrögð. En við getum ekki bannað foreldrum að boða börnum sínum trú, ekki frekar en að við getum bannað foreldrum að innræta eigin börnum pólitískar skoðanir. Og þó við gætum bannað það væri samfélag sem framfylgdi slíku alltaf fasískt.

Við getum aftur á móti bannað skólum og opinberum stofnunum að gera slíkt og við getum reynt að fræða fólk um að barnatrúboð sé óæskilegt.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.